17.6.2000

Viðtal í Degi (Kolbrún Berþórsdóttir)

Viðtal þetta tók Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og birtist það í Degi 17. júní 2000.


Margir töldu á sínum tíma að þú myndir leggja í slag við Geir H. Haarde um
varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hvers vegna gerðirðu það ekki?

"Hugur minn stóð einfaldlega ekki til þess að sækjast eftir þessu embætti. Greinilegt er, að einhverjum þykir það skrýtið, að stjórnmálamenn bjóði sig ekki fram í hvert sinn, sem eitthvert sæti losnar. Ég hef ekki þörf fyrir slíkt. Í nokkur ár var ég staðgengill ritstjóra Morgunblaðsins og hvarf frá því starfi án þess að hafa áhuga á svipuðu hlutverki á öðrum vettvangi. Auk þess hef ég sömu skoðun á varaformannsembætti í Sjálfstæðisflokknum og ýmsir aðrir á forsetaembættinu, að það skipti í raun ekki miklu.
Minn boðskapur á þessum tíma var reyndar sá, að menn ættu að breyta
skipulagi Sjálfstæðisflokksins og stokka upp æðstu stjórn flokksins."

Á heimasíðu þinni kom fram að þú hefðir verið á sérstöku leiðtoganámskeiði
á Harvard. Margir leggja þá merkingu í það að þú ætlir þér formannssæti
þegar kemur að leiðtogaskiptum í Sjálfstæðisflokknum.

"Námskeið eins og það sem ég var á í Harvard kennir manni nú ekki að taka
við stjórnmálaflokki, hvorki Sjálfstæðisflokknum né öðrum. Menn læra það hlutverk ekki í skóla. Fyrir mig var þetta var mjög gagnlegt námskeið auk þess þótti mér sjálfsagt að reyna það sjálfur, hvernig væri að setjast á skólabekk eftir 30 ára hlé, þar sem ég hef verið að predika endurmenntun og símenntun. Þetta var því
ákveðin áskorun og hún gaf mér mikið persónulega og vonandi skilar það sér í betri störfum. Námskeiðið bar heitið Leiðtogahlutverk á 21. öldinni en
snerist mikið um mannleg samskipti og var mun meir á þeim nótum en ég hafði
gert mér í hugarlund. Okkur voru ekki veitt nein algild svör heldur kenndar aðferðir til að takast á við ólík viðfangsefni sem forystumenn á hvaða sviði sem er, hvort sem við höfum formleg áhrif eða byggjum þau á framgöngu okkar sjálfra. Hitt var svo ekki síður skemmtilegt að fá dálitla nasasjón af því, hvernig er að vera í skóla í Harvard, en námskeiðið var á vegum Kennedy School of Government."

En er ekki einboðið að þú munir gefa kost á þér til formanns þegar Davíð
Oddsson hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins, en margir segja að ekki
verði langt í það?

"Ég er ekki sáttur við þær forsendur sem þú gefur þér í spurningu þinni, þar að auki er hún með öllu ótímabær.
Ég skil ekki vangaveltur um þetta mál við okkar góðu aðstæður og finnst stundum að þær hljóti að vera runnar undan rifjum
einhverra Samfylkingarsinna og þeim er frjálst að hafa þær en það er ekki
þar með sagt að þær séu marktækar."

Víkjum þá að öðru. Heldurðu að það hafi haft mikil áhrif á þig sem
stjórnmálamann að alast upp í návígi við einn fremsta stjórnmálamann sinnar
tíðar, eins og faðir þinn óneitanlega var?

"Ég efast ekki um það og vissulega veitir það manni töluverðan styrk í stjórnmálastarfi að hafa átt áhrifamikinn og þjóðkunnan föður. Deilurnar voru þó miklu harðari en núna á þeim tíma, sem ég ólst upp í foreldrahúsum. Minnist ég þess frá árum mínum í barnaskóla, að afstaða skólafélaga mótaðist greinilega af því, hvaða pólitík var á heimili þeirra. Blaðaskrif voru þá mjög hörð og reyndar þótti stundum ástæða til að óttast um öryggi heimila stjórnmálamanna, eins og til dæmis 1949, þegar faðir minn ritaði undir Atlantshafssáttmálann, sem tryggði aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Ég átti þess kost að ferðast með föður mínum víða um land á sjötta og sjöunda áratugnum og sækja héraðsmót á sumrin eða stjórnmálafundi á vetrum. Ræðunum hef ég flestum gleymt en ekki andrúmsloftinu, sem ríkti og baráttukraftinum, ekki síst þegar sjálfstæðismenn voru að berjast gegn kosningalöggjöf, sem var beinlínis stefnt gegn flokki þeirra. Þá hitti maður einnig marga minnisstæða, þjóðkunna einstaklinga. Þegar faðir minn var ritstjóri Morgunblaðsins 1956 til 1959 var ég líka mikið á blaðinu, þannig að það eru núna meira en 40 ár síðan ég fór fyrst að fylgjast með starfinu þar. Ég held, að föður mínum hafi alltaf þótt mjög vænt um ritstjóratímann, raunar var það eina skeiðið á mínum uppvaxtarárum, sem hann var ekki borgarstjóri eða ráðherra. Ég hef í sjálfu sér ekki gert mikið af því að rifja þennan tíma upp og ævisaga föður míns hefur enn ekki verið rituð, en ég hitti oft fólk á förnum vegi enn þann dag í dag, sem víkur að mér fallegum orðum um foreldra mína eða eitthvað, sem faðir minn gerði og því er minnisstætt. Til dæmis sagði kona mér frá því um daginn, að hún hefði alltaf kosið föður minn, þótt ekki hefði hún verið sérstaklega hrifin af Sjálfstæðisflokknum, af því að hann heilsaði henni alltaf af virðuleik og tók ofan hatt sinn, þegar hann hitti hana unga stúlku í miðbænum. Líklega þyrfti ég stundum að muna eftir slíkri tillitssemi, þegar ég hitti fólk á förnum vegi."

Lærðirðu það kannski af stjórnmálastörfum föður þíns að taka gagnrýni ekki
svo mjög inn á þig?

"Gagnrýni tek ég misjafnlega og get svo sem verið hörundsár, ef hún kemur frá einhverjum, sem ég met mikils. Ég svara oft nokkuð harkalega fyrir mig og
sumum finnst ég stundum þar of harðskeyttur. Það er meðal annars eitt sem faðir
minn hafði sem reglu, að láta fólk ekki eiga neitt inni hjá sér. En ég held
að hann hafi ekki tekið pólitíska gagnrýni nærri sér og ég kippi mér almennt ekki mikið upp við hana. Ég
fer úr einu verkefni í annað og ef menn eru að elta mig út af einhverju sem
ég hef gert þá gleymi ég því oft fljótt, ef ég tel mig hafa svarað því, en stundum sitja ákveðnir hlutir í manni."

Nú verður ekki annað sagt en þú sért farsæll menntamálaráðherra. Ég hef til
dæmis heyrt ólíklegustu vinstri menn bera lof á störf þín.

"Ég er ekki viss um, að allir telji það meðmæli með mér. Ertu ekki sammála því? Ég finn reyndar að fólk kann að meta margt sem
við höfum verið að gera hér í menntamálaráðuneytinu. Mér finnst að menntun
og menning séu að öðlast æ meiri virðingu og fá meira rými í þjóðfélaginu
og það hefur verið ánægjulegt að vera menntamálaráðherra á tíma þegar þeir
málaflokkar fá aukna viðurkenningu. Sumir vilja leggja fjárhagslega
mælistiku á þessa hluti. Sem stjórnmálamaður hef ég aldrei sérstaklega
gengið fram fyrir skjöldu í kröfum um auknar fjárveitingar. Mér finnst það
nokkuð sem hljóti að sigla í kjölfarið; að þegar menn sjá að verið er að
gera skynsamlega hluti þá vilji þeir taka þátt í að veita þeim brautargengi
með fjármunum. Að sjálfsögðu má segja að við hefðum átt að fá meira fé í
fjöldamargar framkvæmdir en þrátt fyrir að ítrustu kröfur þeirra sem tala
mest um fjárskort hafi ekki náð fram að ganga þá hefur okkur miðað fram á
veg. Við getum ekki heldur lagt peningalegt mat á alla hluti í mennta- og
menningarlífi. Það er aldrei hægt að meta góða menntun né góð listaverk til
fjár. Menn kunna kannski einnig að meta, að ég hef sett skýr markmið á mörgum sviðum og tekist hefur að ná þeim. Enginn þarf heldur að efast um, hver er afstaða mín, þegar eftir henni er leitað. Alla mína ráðherratíð hef ég haldið úti vefsíðu, sem þúsundir manna hafa heimsótt, og þar hef ég ekki farið í neinn launkofa með skoðanir mínar. Sumir töldu að vísu, að ég tæki óþarfa áhættu með því að skrifa þessa pistla mína á síðuna, ég hef líklega staðið það af mér, ef síðan hefur beinlínis styrkt mig sem stjórnmálamann."

Mig langar til að víkja að hugmyndinni um skólagjöld, ýta þau ekki undir
mismunun og verða til þess að börn efnaminni foreldra hafi ekki tök á að
sækja menntun?

"Að nálgast umræðurnar um skólagjöld með jafnrétti að leiðarljósi held ég að leiði menn fljótt á villigötur. Jafnrétti felst ekki síst í því að bjóða sem flestum góð og jafngild tækifæri. Ef unnt er að fjölga þessum tækifærum með því að innleiða skólagjöld er þá ekki verið að auka jafnrétti?. Alþingi samþykkti frumvarp mitt til nýrra háskólalaga samhljóða en þar er gert ráð fyrir einkaskólum, sem starfa meðal annars á þeirri forsendu að innheimta skólagjöld. Aðsókn að þessum skólum hefur aldrei verið meiri en einmitt á þessu vori, sem sýnir, að nemendur kunna vel að meta þessi nýju tækifæri. Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir lán fyrir skólagjöldum þannig að af opinberri hálfu er með þeim hætti stuðlað að fjárhagslegu jafnrétti. Margir sjá það einmitt sem hina bestu fjárfestingu fyrir sig að auka og bæta menntun sína, til dæmis með starfstengdu framhaldssnámi eða meistaranámi eins og MBA-náminu, sem nú er til umræðu. Hvarvetna fara menn þá leið sem viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur farið í þessu efni og háskólaráð samþykkt. Ég held, að þeir stjórnmálamenn, sem leggjast gegn því að HÍ fái að bjóða þessa nýju endurmenntun, en hún hefur alltaf verið gjaldskyld hér á háskólastigi, séu í raun á eftir tímanum, að minnsta kosti hafa þeir hvorki mikinn metnað fyrir skólakerfið eða skýra framtíðarsýn. Það er alrangt, að HÍ velji þessa leið vegna þess að ég hafi sett á hann fjárhagslegar þvinganir, fjárveitingar til skólans hafa stóraukist undanfarin ár og gott samkomulag er um þær milli mín og stjórnenda háskólans. Hitt er ljóst, að gjaldtaka fyrir MBA-nám er ekki fordæmi eins og samfylkingarliðið lýsir og túlkun þess á málinu er einungis tilraun til að slá póltískar keilur."

Mér finnst, og ég finn það á mörgum kunningjum mínum sem eru af sömu
kynslóð, að sjálfhælni hafi opinberast fullmikið undanfarið í ræðum sem
tengjast hátíðahöldum vegna landafunda norrænna manna Vestanhafs. Hvað
finnst þér?

"Ég heyri þessa gagnrýni. Hún á vafalaust við einhver rök að styðjast en erfitt er að taka á henni nema nefnd séu einstök dæmi, því að ekki er unnt að draga alla í sama dilkinn. Í ræðu sagði ég nýlega að við mættum ekki verða
of sjálfumglöð, við getum sýnt það besta sem við eigum og verið stolt af
því en við megum ekki gleyma okkur í fullvissu um eigið ágæti. Það er nú
einu sinni þannig í lífinu að til að ná betri árangri verða menn líta
sjálfa sig gagnrýnum augum."

Af því þetta viðtal birtist 17. júní, langar mig til að spyrja þig að því
hvort þú teljir að ættjarðarást og sterk tilfinning fyrir landi sínu og
uppruna sé nokkuð sem yngri kynslóð landsins þekki varla lengur?

"Ég held að þessar kenndir deyi aldrei heldur lifi með öllum, en með
mismunandi hætti. Hátíðahöldin ár ættu vonandi að opna augu margra fyrir merkum atburðum í sögu okkar en nauðsynlegt er að efla söguvitund þjóðarinnar og ekki síst unga fólksins. Við þurfum að þekkja okkar eigin sögu til að standa á eigin fótum og fáar þjóðir eiga í raun auðveldara með það en við Íslendingar að skilgreina menningarlegar forsendur sínar og rætur.
Í minni ráðherrattíð höfum við stofnað Dag íslenskrar tungu á afmælisdegi Jónasar
Hallgrímssonar. Í sambandi við þann dag hafa menn verið að þróa
upplestrarkeppni og skólabörn lesa ljóð á mannamótum og við hátíðarhöld
ýmis konar og gera það frábærlega. Það er hægt að mæla ættjarðarást á svo
margan hátt og ef við mælum hana eftir því hvort fólk les ljóð, hvort sem
það eru ljóð Jónasar Hallgrímssonar eða annara skálda þá finnst mér að þar
sé greinileg endurvakning að eiga sér stað. Þar sé ég ekki að
ættjarðarástin sé að hverfa. Þegar ég var ungur fékk Halldór Laxness
Nóbelsverðlaunin og það fyllti þjóðina stolti. Nú fer íslenskur listamaður,
Björk, til Cannes og vinnur til stórverðlauna. Það hlýtur að segja fólki að við
Íslendingar getum náð árangri á okkar eigin forsendum. Það er ekkert sem
segir að hnattvæðingin hljóti að kæfa ættjarðarástina heldur gefur hún
smærri þjóðfélögum og menningarheimum tækifæri til að láta að sér kveða með
miklu skarpara hætti en áður og slá í gegn, þar sem keppnin er hörðust."

Einhvern tímann reifaðir þú þá hugmynd að stofna íslenskan her og allt varð
vitlaust.

"Það varð ekki allt vitlaust en sumir urðu vitlausir. Ég segi þér alveg eins
og er, að ég hef ekki kvikað frá því að við Íslendingar þurfum að velta því
fyrir okkur hvernig við eigum að gæta öryggis okkar miðað við aðstæður á hverjum tíma og þá einnig því, hvort þörf sé á íslenskum her. Þetta er ekki eitthvað sem við
getum leyft okkur að hugsa ekki um. Það er eins og að halda að heimurinn breytist með því að stinga höfðinu í sandinn, að setja umræður um þessi mál á einhver bannlista. Ég sá í skýrslu sem utanríkisráðuneytið
vann á síðasta hausti og fjallaði um varnarmál og öryggismál að þar er
komið nær mínum sjónarmiðum en nokkru sinni fyrr hvað þetta varðar. Við
Íslendingar eigum að setjast niður og skilgreina stöðu okkar og við verðum einnig að ræða hana við aðra og kynna hagsmuni okkar með góðum rökum. Umræður um þessi mál eru ekki miklar nú um stundir og sumir virðast líta á það sem náttúrulögmál, að öryggi Íslands sé tryggt, án þess að við leggum þar eitthvað af mörkum. Við verðum að vera reiðubúin að svara
þeim spurningum sem fyrir okkur eru lagðar af alþjóðasamfélaginu. Til þess að gera það með skynsamlegum hætti þarf að velta fyrir sér öllum kostum og ekki láta þagga niður í rökræðum með marklausum upphrópunum.."

Þú sagðir í sjónvarpsviðtali hjá Agli Helgasyni að þú vildir ekki fara í
kirkju til að hlusta á presta tala um þjóðmál. Af hverju ekki?

"Ég er nú ekki að tala á þessum nótum í fyrsta sinn. Ég var einu sinni
blaðamaður á Morgunblaðinu og skrifaði þá um þá ákvörðun prestastefnu
að stofna þjóðmálanefnd kirkjunnar. Ég spurði í blaðinu hvort kirkjan hefði
ekki eitthvað annað að iðja en stofna slíka nefnd. Ég fór svo í kirkju
sunnudaginn á eftir og þá flutti presturinn heila predikun um það hvers
konar boðskapur þetta væri í Morgunblaðinu, að menn skyldu leyfa sér að
gagnrýna presta fyrir að ætla að stofna þjóðmálanefnd.

Sumir fara örugglega í messu til að heyra presta leggja út af
samfélagsmálum, ég hef ekkert við það að athuga, slíkar ræður höfða ekki til mín. Þegar ég fer í messu vil ég
hlusta á ræðu sem eflir mig í trúnni Ég þarf ekki fara í kirkju til að hlusta á samskonar ræður og ég
heyri á Alþingi."

Trúirðu á Guð?

"Já, það geri ég, efast ekki um tilvist hans. Að sjálfsögðu er málfrelsi í
landinu og ekki ætla ég mér að stjórna því hvað sagt er í
predikunarstólnum. Ég hef hins vegar fullt leyfi til að hafa skoðun á því."

Ég veit að þér leiðast "ef" spurningar en sf svo færi að
Sjálfstæðisflokkurinn lenti í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil hvernig
heldurðu að það ætti við þig að vera í stjórnarandstöðu?

"Ég er sannfærður um að ég myndi njóta mín þar. Þá væri ég líka sannfærður
um að stjórnin væri svo léleg að það væri þjóðþrifamál að koma henni frá og
teldi sannarlega ekki eftir mér að fara í harðan slag til að svo mætti
verða."

Nú hefurðu haft orð á þér fyrir að vera harðan stjórnmálamaður en ertu ekki
að mýkjast með árunum?

"Menn þroskast með árunum og vaxa yfirleitt með störfum sínum. Ég hef verið
menntamálaráðherra í fimm ár og veit nú betur en í byrjun að hverju ég
geng. Það er ekki sami kvíðasvipurinn á manni og var kannski fyrstu fjögur
árin. Þú sérð á mörgum sem axla ráðherraábyrgð að hún leggst í byrjun þungt
á þá. Þetta er nýr heimur og það er ekki auðvelt að ganga inn í hann.
Ráðherraembætti er í sjálfu sér ekkert áhlaupaverk, þar þarf að vinna vel
og ná þeim tökum á því að maður geti verið sæmilega öruggur með sig. Ætli
ég sé ekki að ná þessum áfanga."

Finnst þér gaman að vinna?

"Ég er ekki vinnukvíðinn. Auðvitað gengur manni misjafnlega og ekki alltaf
eins vel. En ég er maður sem dembi mér út í þau verk sem ég á að vinna og
lýk þeim. Ef það er skjalabunki fyrir framan mig þá fer ég í gegnum hann, lýk við að afgreiða málin
ýti honum svo frá mér og fer að gera eitthvað annað. Ég hef sjaldan mikla bakþanka, eftir afgreiðslu máls, þótt ég viti, að allt orki tvímælis, þegat gert er."