Samstarf heimila og skóla
Frá orðum til athafna
Málþing um samstarf heimila og skóla
haldið á Grand Hóteli 17. október 1997
Fyrir nokkru hitti ég íslenska konu búsetta í Bandaríkjunum. Áður en hún flutti þangað var hún útivinnandi sem grunnskólakennari. Dvölin í Bandaríkjunum gaf henni tækifæri til að vera meira heima við og nýtti hún tímann meðal annars til að sinna foreldrastarfi í grunnskóla barna sinna. Sagði hún mér, að þetta starf í skólanum hefði opnað henni nýja sýn í skólastarfið. Hún hefði áttað sig á ómetanlegu gildi þess fyrir skólann og kennara, að foreldrar létu sig velferð hans í öllu tilliti nokkru skipta.
Í Bandaríkjunum og víðar hefur verið farið út á þá braut að afhenda foreldrum beinlínis stjórn og rekstur skóla með sérstökum samningi við stjórnvöld. Hefur þetta að sjálfsögðu mælst misjafnlega vel fyrir og margir skólamenn eða kennarar telja enn happadrýgra, að skörp skil séu á milli skólans annars vegar og foreldranna hins vegar. Foreldrar hafi ekki endilega nægilegan skilning á uppeldis- og kennslufræðilegum rökum.
Þegar unnið var að því að flytja grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga, komst ég stundum svo að orði, að það væri fyrsta skrefið til að flytja skólann í hendur foreldra. Flutningurinn er stærsta einstaka skrefið til valddreifingar sem hefur verið stigið hér á landi.
Sumir drógu réttmæti flutningsins í efa en um hann tókst víðtækt samkomulag milli ríkis, sveitarfélaga og kennara. Á það hefur verið bent núna, þegar grunnskólakennarar og sveitarfélög sitja í erfiðum og viðkvæmum kjaraviðræðum, að í þeirri deilu reyni verulega á það, hvort um of mikið návígi sé að ræða. Rétt er að minna á, að kennarar óskuðu sérstaklega eftir því, að í þrjú ár hefði launanefnd sveitarfélaga samningsumboð gagnvart þeim. Vildu kennarar greinilega, að samningsumboðið yrði ekki í einu stökki afhent einstökum sveitarstjórnum. Hlýtur það að vera einlæg von okkar allra, sem viljum veg skólastarfs sem mestan, að samkomulag takist um kaup og kjör grunnskólakennara, áður en til verkfalla kemur. Ríkið hefur samið við framhaldsskólakennara og sveitarfélögin við leikskólakennara, hlýtur með góðum vilja að verða unnt að finna viðeigandi lausn fyrir þá, sem starfa í grunnskólum.
Þetta málþing um samstarf heimila og skóla í leik- og grunnskólum er haldið undir þeim formerkjum að ræddar skulu ýmsar hliðar á þessu mikilsverða samstarfi. Kjörorð þingsins er Frá orðum til athafna sem lýsir vel þeim vilja aðstandenda málþingsins að efla markvisst samstarf heimila og skóla á fjölmörgum sviðum til að auka árangur skólastarfs og stuðla að aukinni velferð nemenda almennt.
Menntamálaráðuneytið heldur málþingið í samstarfi við Félag íslenskra leikskólakennara, Faghóp leikskólastjóra, Landssamtök foreldrafélaga í leikskólum, Kennarasamband Íslands, Skólastjórafélag Íslands, Landssamtökin Heimili og skóli og Samband íslenskra sveitarfélaga. Sérstakur undirbúningshópur með fulltrúum frá öllum fyrrgreindum aðilum hefur unnið að undirbúningi þingsins.
Undirbúningsvinnan hefur gengið mjög vel og hef ég haft spurnir af því að samstarfsandi í hópnum sé góður. Að mínu viti er slíkur samstarfsandi forsenda þess að umtalsverður árangur náist á málþinginu í dag. Vil ég þakka öllum, sem lagt hafa menntamálaráðuneytinu lið við undirbúning ráðstefnunnar, bæði fulltrúum í undirbúningshópi, samstarfsaðilum, frummælendum, hópstjórum og öllum þátttakendum sem lagt hafa á sig óeigingjarna vinnu til þess að gera málþingið sem markvissast. Það er ánægjulegt til þess að vita að allir þessir aðilar geri grein fyrir viðhorfum, stefnu og áherslum í samstarfi heimila og skóla út frá ýmsum sjónarhornum og taki jafnframt höndum saman um að gera slíkan umræðuvettvang mögulegan. Einnig er ánægjulegt að fulltrúar grunnskólanemenda fjalli um gildi samstarfs heimila og skóla út frá sjónarhóli nemenda. Ég tel að leita eigi í auknum mæli eftir viðhorfum nemenda þegar verið er að fjalla um málefni barna og ungmenna. Jafningjafræðsla framhaldsskólanemenda er eitt skýrasta dæmið um slíkt. Þróunin á að stefna í þá átt að allir aðilar skólasamfélagsins taki þátt í mótun þess, þ.e. starfsfólk skóla, foreldrar og nemendur.
Undirbúningshópurinn lagði til að um lokað málþing yrði að ræða og að hver samstarfsaðili tilnefndi 10 fulltrúa á þingið. Slíkt fyrirkomulag var talið tryggja að umræðan yrði sem markvissust þannig að hægt væri að halda áfram að þróa samstarf heimila frá orðum til athafna í samstarfi allra þessara aðila að þingi loknu. Dagskrá málþingsins ber með sér að mikil vinna hefur verið lögð í skipulag þingsins og meginviðfangsefni umræðuhópanna eftir hádegið eru hin athyglisverðustu. Þingfulltrúar skipta sér í 9 mismunandi vinnuhópa og ræða um brýn viðfangsefni samstarfs heimilis og skóla, t.d. kennaramenntun, foreldraráð, nemendaráð, hlutverk skólanefnda og sveitarstjórna í að efla samstarf heimila og skóla í leik- og grunnskólum og eðli samstarfsins í leik- og grunnskólum. Einnig er ætlunin að fjalla um sameiginleg baráttumál foreldra og kennara í leik- og grunnskólum og verður fróðlegt að heyra niðurstöður þeirrar umræðu. Loks er rætt um stjórnsýslu skóla og meðferð ágreiningsmála en brýnt er að boðleiðir og reglur í þeim málum séu skýrar til að hægt sé að leysa ágreining milli samstarfsaðila í skólasamfélaginu með farsælum hætti.
Þetta málþing á sér allnokkurn aðdraganda sem mér þykir rétt að greina frá í stuttu máli. Haustið 1995 sendu Landssamtök foreldrafélaga leikskóla ráðuneytinu erindi þar sem þess var farið á leit að ráðuneytið stæði fyrir ráðstefnu um samstarf foreldra og skóla. Ráðuneytið tók jákvætt í þessa málaleitan og óskaði eftir tilnefningum frá samtökum kennara og foreldra í undirbúningshóp. Allir aðilar tóku jákvætt í að halda málþing um samstarf heimila og skóla en samtök kennara óskuðu eftir því að málþinginu yrði frestað fram yfir flutning grunnskólans til sveitarfélaga en vinna við flutninginn stóð þá sem hæst. Í upphafi þessa árs var vinna við undirbúninginn sett af stað að nýju og var Sambandi íslenskra sveitarfélaga boðið að taka þátt í málþinginu í ljósi þess að sveitarfélögin bæru nú ábyrgð á rekstri leik- og grunnskóla. Í dag getur að líta afrakstur undirbúningsvinnu allra þessara samstarfsaðila. Málþingið er þátttakendum að kostnaðarlausu, þ.e. ráðuneytið greiðir kostnað vegna þinghaldsins og býður þátttakendum upp á veitingar.
Ég fagna því, að þið viljið koma hingað að ræða þetta mikilvæga málefni. Ég tel mikilvægt að fulltrúar frá öllum fyrrgreindum samstarfsaðilum komi saman til að ræða um gildi samstarfs heimila og skóla og raunhæfar aðgerðir til að efla samstarfið. Skólamálaumræða hefur hér á landi einkum verið í höndum starfsfólks skóla, án virkrar þátttöku foreldra. Sjálfsagt þykir í nútímaþjóðfélagi að þeim sem hagsmuna eiga að gæta verði gert bæði kleift og skylt að taka afstöðu til afgreiðslu mála sem þá varða. Foreldrar hljóta, næst á eftir börnum, að teljast stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar. Ýmis teikn eru á lofti að breytingar séu að verða á viðhorfum til þátttöku foreldra í skólamálaumræðu. Niðurstöður rannsókna benda og til þess að foreldraþátttaka sé mikilvæg í árangursríku skólastarfi. Í ljós hefur komið í rannsóknum að nálægð foreldra við menntun eigin barna hefur áhrif á þroska þeirra og námsárangur.
Málþingið hefur verið kynnt fyrir verkefnisstjórn endurskoðunar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og faglegum umsjónarmönnum við námskrárgerðina er boðið að sitja málþingið og fylgjast með umræðunni. Þess er vænst að nýta megi niðurstöður málþingsins til að móta áherslur í samstarfi heimila og skóla í aðalnámskrá grunnskóla og Uppeldisáætlun fyrir leikskóla. Veigamikill þáttur í endurskoðun aðalnámskrár er að gera grein fyrir eðli samstarfs heimilis og skóla og móta stefnu í þeim efnum. Mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar komi að stefnumótun í skólamálum, þ.m.t. námskrárgerð.
Í nýlegri skýrslu stefnumótunarnefndar um endurskoðun aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla segir m.a, en í nefndinni voru fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi.: “Skólinn er allt í senn vettvangur menntunar, vinnustaður og samfélag þriggja aðila: nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Góður starfsandi í skólum er grunnur að góðu skólastarfi þar sem hver einstaklingur fær notið sín. Mikilvægt er að samstarfið í skólanum sé byggt á trausti og gagnkvæmri virðingu. Í því sambandi gegna foreldrafélögin mikilvægu hlutverki. Samkvæmt grunnskólalögum skal starfa foreldraráð við hvern grunnskóla. ... Brýnt er að foreldrar fái góðar upplýsingar um skólastarfið og áætlanir sem liggja fyrir um starfsemi skóla t.d. skólanámskrá sem hverjum skóla ber að gera. Einnig er mikilvægt að upplýsingar um námsárangur og mat á skólastarfinu séu aðgengilegar. Gagnkvæm og virk upplýsingagjöf þarf að vera á milli foreldra og starfsfólks skóla. Fjölskylda, skóli og nánasta umhverfi eru sterkustu áhrifavaldar í mótun einstaklingsins, þar vegur ábyrgð foreldra þyngst. Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með skólagöngu barna sinna og stuðli þannig að jákvæðri afstöðu til menntunar. Kynna þarf foreldrum hver réttur þeirra og skyldur eru gagnvart skólagöngu barna sinna. Möguleikar foreldra nemenda í framhaldsskólum til að fylgjast með náminu eru takmarkaðri en foreldra barna í grunnskólum. Nauðsynlegt er að skólar tryggi að foreldrum berist upplýsingar um námsframvindu barna sinna og það starf sem fer fram í framhaldsskólum. Ef vandamál koma upp er áríðandi að boðleiðir séu greiðar og foreldrum sé gerð grein fyrir stöðu nemandans í skólanum. Mikilvægt er að í hverjum skóla séu settar skýrar reglur um meðferð ágreiningsmála sem kunna að koma upp innan skólans. Þær verði unnar í samstarfi foreldra, starfsfólks skóla og nemenda. Nauðsynlegt er að aðilar skólasamfélagsins þekki og virði þessar reglur þannig að enginn vafi leiki á málsmeðferð. Þess skal ávallt gætt að við úrlausn mála séu réttindi allra aðila í heiðri höfð.Velferð nemenda hlýtur ávallt að vera í fyrirrúmi og þess skal ætíð gætt að hagsmunir þeirra hafi forgang.³
Kom fram á fundi mínum með stefnumótunarnefndinni síðastliðið vor, að hún leggur ríka áherslu á þennan þátt í áliti sínu og telur hann skipta höfuðmáli, þegar hugað er að árangri í skólastarfi. Að mínu mati er mjög brýnt, að allir átti sig á því, að menntamálaráðuneytið stefnir markvisst að því, að endurskoðun námskránna verði lokið á næsta ári. Kynning á endurskoðuninni hefur verið nokkur en ég hvet alla, sem vilja gott skólastarf til að láta sig málið varða.
Í þessu samhengi vil ég einnig minna á, að menntamálaráðuneytið hefur sett á laggirnar nefnd til að fjalla um námsráðgjöf á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi Í erindisbréfi nefndarinnar er verkefni hennar lýst með þessum hætti: Hún á að semja yfirlit yfir stöðu náms- og starfsráðgjafar á fyrrgreindum skólastigum; gera tillögur um hvernig efla megi þátt náms- og starfsráðgjafar í skólastarfi og hverra útbóta sé helst þörf og auk þess skal nefndin einnig fjalla um sérstök úrlausnarverkefni, s.s. brottfall nemenda frá námi og annað sem stuðlar að markvissum framgangi nemenda.
Tel ég, að öflugt starf námsráðgjafa eigi að vera til þess fallið að efla samstarf heimilis og skóla. Þá er ljóst, að námsráðgjafar gegna einnig mikilvægu hlutverki, þegar réttarstaða nemenda er skýrð fyrir þeim og hvaða úrræði þeim eru fær innan ramma laga um skólastarf. Áherslurnar í því efni hljóta að sjálfsögðu að vera mismunandi eftir skólastigum.
Skyldur stjórnvalda eru skilgreindar í lögum um hin einstöku skólastig.
Í gildandi lögum um leikskóla nr.78/1994 segir: “Leikskólastjóra er skylt að stuðla að samstarfi milli foreldra barnanna og starfsfólks leikskólans með velferð barnanna að markmiði³. Samkvæmt gildandi Uppeldisáætlun fyrir leikskóla frá 1993 er eitt meginmarkmið í uppeldisstarfi leikskóla að kappkosta “í samvinnu við heimilin" að efla alhliða þroska barnanna í samræmi við þarfir þeirra og þroska og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega. Til þess að leikskóli geti unnið að þessu markmiði er nauðsynlegt að hafa náið samstarf við foreldra eða forráðamenn barnanna. Jákvætt og traust samband milli foreldra og leikskólakennara stuðlar að öryggiskennd barnanna. Í gildandi reglugerð um starfsemi leikskóla (nr.225/1995) eru ákvæði um að samstarf leikskóla við foreldra skuli byggja á þeirri forsendu að foreldrar beri aðalábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna. Samstarfið skuli fara fram í daglegum samskiptum og sérstökum viðtölum starfsmanna og foreldra og samstarfi á vettvangi félags foreldra. Gera skal ráð fyrir að samstarfið nái jafnt til samvinnu um ytri starfsskilyrði og umhverfi leikskóla og atriða sem varða uppeldishlutverk leikskólans, innan ramma uppeldisáætlunar.
Í markmiðsgrein gildandi grunnskólalaga (nr. 66/1995) segir: “Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.³ Í lögunum er nýtt ákvæði í 16. gr. um þriggja manna foreldraráð við hvern grunnskóla. Foreldraráði er ætlað að fjalla um og gefa umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, fylgjast með að áætlanir séu kynntar foreldrum, svo og með framkvæmd þeirra. Menntamálaráðuneytið lagði á síðasta ári könnun fyrir skólastjóra grunnskóla um stofnun foreldraráða og óskaði jafnframt eftir viðhorfum skólastjóra til þeirra. Þá höfðu verið stofnuð foreldraráð við 71% grunnskóla og almennt voru skólastjórar sáttir við ákvæði um foreldraráð og starfsemi þeirra. Foreldraráð hafa nú þegar fest sig í sessi í grunnskólum einungis einu til tveimur árum eftir gildistöku grunnskólalaga og því verður að álykta að full þörf hafi verið á þessu lagaákvæði.
Til þess að starfsmenn skóla, nemendur og foreldrar geti áttað sig á hlutverki sínu og stöðu er nauðsynlegt að miðla sambærilegum upplýsingum, sem gefur mynd af stöðu einstakra skóla. Í upphafi þessa árs var í fyrsta sinn skýrt opinberlega frá niðurstöðum samræmdra prófa með þeim hætti, að unnt er að bera saman skóla. Var birtingin í samræmi við nýja reglugerð um samræmd próf en byggðist einnig á nýsettum upplýsingalögum, sem skylda opinberar stofnanir til að miðla upplýsingum til almennings.
Ég geri mér grein fyrir því, að samræmd próf segja ekki allt um gæði skólastarfs. Þau eru hins vegar tiltölulega einföld mælistika, þótt framkvæmd prófanna sé flókin og sæti oft gagnrýni. Hefur ráðuneytið unnið markvisst að því undanfarna mánuði að setja nákvæmari reglur um alla þætti samræmdu prófanna meðal annars með nýgerðum samningi við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, sem annast framkvæmd prófanna í umboði ráðuneytisins. Jafnframt vinnur ráðuneytið að athugun á því, hvort breyta beri eðli samræmdra prófa úr grunnskóla á þann veg, að þau byggist á rétti nemenda til að taka prófin, enda veiti þau ákveðin réttindi, en ekki á skyldu til að taka þau eins og nú er.
Ég nefni þetta atriði hér, því að ég tel, að samstarf heimila og skóla þróist ekki á farsælan hátt nema unnt sé að meta árangur á öllum sviðum skólastarfs.
Góðir áheyrendur!
Foreldrar vilja, að skólastarf skili árangri, nemendum miðar ekki fram á við nema þeir beiti sjálfa sig aga og honum sé haldið uppi í skólunum, og kennarar vilja að í námskrá felist skýr markmið, sem unnt sé að ná með markvissum vinnubrögðum. Þessi þrjú orð: árangur, agi og markmið lýsa að mínum dómi inntaki góðs skólastarfs.
Allar rannsóknir hníga að því, að samstarf heimila og skóla og aukin þátttaka foreldra í skólastarfi hafi afgerandi áhrif á námsárangur nemenda og almenna velferð
Foreldrar bera mikið traust til skóla og kennara. Í augum foreldra er skólastarf almennt ekki framandi, því að öll höfum við í lengri eða skemmri tíma setið á skólabekk og getum því vísað til sameiginlegrar reynslu, þegar um skólann er rætt. Við vitum hins vegar einnig, að námsárangur snýst ekki síst um kennarann og áhrif hans á okkur. Samstarf heimila og skóla ber ekki þann árangur, sem að er stefnt, ef kennarinn er ekki virkur þátttakandi í því. Samstarf foreldra við skólastofnun er lítils virði, ef það nær ekki til kennaranna. Mikilvægt er, að kennaramenntunin ýti undir samstarfsanda í garð foreldra.
Ég vil ítreka þakkir mínar til undirbúningshópsins og annarra sem unnið hafa ötullega við að gera þetta málþing sem best úr garði þannig að það skili raunhæfum árangri til að efla samstarf heimila og skóla hér á landi og stuðla þannig að betri námsárangri í skólum og betri líðan nemenda.
Hér fylgja nokkrar almennar ályktanir sem við tókum saman að lokinni ráðstefnu í fyrra Education is partnership (Menntun er samstarfsverkefni). Þegar þú fékkst skýrsluna óskaðir þú eftir að unnið yrði áfram hér í ráðuneytinu í þessum anda. Kannski viltu nota eitthvað af þessum punktum í ávarp á málþinginu.
1.Samstarf heimila og skóla og aukin þátttaka foreldra í skólastarfi hefur afgerandi áhrif á námsárangur nemenda og almenna velferð.
2.Mikilvægast er að tryggja þátttöku foreldra og samstarf í menntun eigin barna, en einnig er mikilvægt að auka samstarf á öllum sviðum, einnig hvað varðar skipulag og stjórnun skóla.
3.Skilgreina þarf hlutverk kennara að nýju með áherslu á samstarfshlutverk þeirra við foreldra og leiðsagnarhlutverk.
4.Endurskoða þarf kennaramenntun með tilliti til samstarfshlutverksins, en almennt tekur kennaramenntun lítið á þeim málum. Einnig þarf að byggja upp trausta endurmenntun kennara á þessu sviði.
5.Samtök foreldra og kennara þurfa að ræða um samstarfsvettvang og hlutverkaskiptingu, samstarfsverkefni og áherslur.
6.Stefnumótun skólayfirvalda gerir víða ráð fyrir samstarfi heimila og skóla og formlegum áhrifum í orði en á borði eru áhrif foreldra almennt lítil. Í auknum mæli þarf að tryggja þátttöku foreldra í skólastarfi, bæði formleg ítök og samstarf.
7.Tregða skólamanna til aukins samstarfs við foreldra er alþjóðleg og ýmis gullin tækifæri til samstarfs eru vannýtt.
8.Foreldrar bera almennt mikið traust til skóla og kennara.
9.Brýnt er að auka rannsóknir á skólasamfélögum og samstarfi heimila og skóla og nýta niðurstöður til stefnumótunar.
10.Utanaðkomandi aðstoð, t.d. rannsóknamanna, er afar gagnleg til að bæta samstarf heimila og skóla á öllum sviðum.
11.Foreldrar eiga að raða kröfum sínum í raunhæfa forgangsröð og fylgja þeim eftir á viðeigandi vettvangi. Mikilvægt er að fylgja kröfunum fast eftir.