3.10.1997

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, ávarp við vígslu

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, ávarp við vígslu
3. október 1997

Í upphafi máls míns vil ég óska okkur öllum til hamingju með hið nýja og glæsilega skólahúsnæði, sem nú er tekið í notkun hér í Garðabæ. Sérstaklega beini ég hamingjuóskum mínum til nemenda, kennara og stjórnenda Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Skólinn hefur starfað í bráðabirgðahúsnæði síðan 1984 og var því löngu orðið tímabært að búa honum varanlegan samastað í húsnæði, sem er sniðið að þörfum hans.

Markvisst er unnið að því að bæta stöðu framhaldsskólanna í landinu að því er varðar starfsaðstöðu, tækjakost og innra starf. Er mikils virði í því samhengi að hafa í huga, að í sumarbyrjun samdi ríkið til þriggja ára við framhaldsskólakennara. Færist nú öll umfjöllun um vinnutíma og laun kennara meira inn í skólana sjálfa og meira traust er sett á herðar skólastjórnenda.

Fjármálaleg samskipti menntamálaráðuneytisins við framhaldsskólana eru að breytast en í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir, að rekstrargjöld skólanna sem fjármögnuð eru úr ríkissjóði hækki að raungildi um 273 milljónir króna. Eru áætluð útgjöld þriggja fjórðuhluta framhaldsskóla vegna kennslu dagskólanemenda byggð á reiknilíkani, sem ráðuneytið hefur smíðað í samvinnu við skólana. Er nú unnið að því af hálfu ráðuneytisins að gera samning til þriggja ára við skólana um verkefni og fjárframlög til þeirra. Hér er um mikilvæga nýbreytni að ræða og leyfi ég mér að fullyrða, að í samstarfi við stjórnendur framhaldsskólanna sé menntamálaráðuneytið með þessu að ryðja nýjar brautir í opinberum rekstri hér á landi, þar sem markmiðið er að ná betri árangri á skýrum fjárhagslegum forsendum.

Undanfarið hefur einnig verið unnið að tillögum, sem miða að því að bæta innra starf í skólum, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Vísa ég þar til endurskoðunar á aðalnámskrám fyrir bæði skólastigin. Við settum okkur það djarfa markmið að ljúka þessu starfi á 27 mánuðum. Stenst sú verkáætlun enn í dag og að ári ættu að liggja fyrir skýrar hugmyndir um það, hvernig unnt er að ganga til móts við 21. öldina á nýjum námskrárgrunni.

Þeir, sem telja, að það ríki kyrrstaða í íslensku menntakerfi, fara villur vega. Alls staðar eru menn að leita nýrra leiða til að gera betur. Með skýrum markmiðum og sanngjörnum aga er stefnt að betri árangri.

Á um það bil einu ári er þetta í fimmta sinn, sem ég tek þátt í vígslu nýs húsnæðis framhaldsskóla. Við fögnum því hér í dag, að gróinn skóli fær nýtt heimilisfang.

Á síðasta ári jókst húsakostur framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu um tæpa 15.000 fermetra með nýbyggingu við Menntaskólann í Kópavogi og Borgarholtsskóla í Reykjavík. Með því húsnæði, sem hér er tekið í notkun bætast 3100 fermetrar við þessa tölu og 5650 fermetrar, þegar framkvæmdum við skólann lýkur, sem verður árið 2000 samkvæmt samningi. Það munar um minna húsrými en þetta og nú dregur að umtalsverðum framkvæmdum við þann skóla, þar sem húsakostur er elstur og þrengstur, Menntaskólann í Reykjavík.

Góðir áheyrendur!

Framkvæmdirnar hér og fjárfestingin eru samstarfsverkefni Bessastaðahrepps, Garðabæjar og ríkisins. Ég vil þakka stjórnendum sveitarfélaganna fyrir gott samstarf. Staðreynd er, að metnað sveitarstjórna fyrir byggðarlag sitt má ekki síst ráða af því, hvernig þær standa að rekstri skóla og fjárfestingum í þeirra þágu. Enginn fær falleinkunn fyrir að standa að byggingu þessa húss. Er ánægjulegt, að skólameistari hefur hug á því að efla samstarf skólans og bæjarfélagsins sem mest og telur húsakost vel fallin til þess.

Við siglum á vit nýrra tíma, þar sem gerðar eru nýjar kröfur og ný tækni ryður sér rúms. Hér á þessum stað hefur verið búið svo um hnúta, að tölvukostur skólans er í fremstu röð í landinu og er þá fast að orði kveðið sé litið á tölvubúnað íslenskra skóla í alþjóðlegum samanburði.

Allt miðar þetta að því að búa íslenskt æskufólk sem best undir framtíðina. Hvorki húsbúnaður né ný tækni kemur í stað dugnaðar og áræði skólaæskunnar, sem við eigum að styrkja sem mest við megum.

Ég lýsi þeirri einlægu von, að hér blómstri farsælt og árangursríkt skólastarf um langan aldur. Innilega til hamingju með daginn.