19.7.1997

Knattspyrnusamband Íslands 50 ára

Ávarp -Knattspyrnusamband Íslands 50 ára
Hótel Sögu, 19. júlí 1997

Við erum þrír ráðherrar hér í kvöld til að samfagna með Knattspyrnusambandi Íslands á þessum merku tímamótum. Fyrir hönd okkar og ríkisstjórnarinnar í heild er mér ánægja að flytja Knattspyrnusambandinu bestu heillaóskir.

Raunar má færa fyrir því góð rök, að ef til vill hefði það staðið fjármálaráðherranum okkar nær en mér að flytja hér ávarp. Hann leggur enn reglulega stund á knattspyrnu og verður aldrei órólegri á fundum en þegar hann telur, að þeir kunni að dragast inn á æfingatímann. Er betra að vera ekki með óþarfa málalengingar á þeim viðkvæmu stundum. Einnig er það svo, að íþróttahreyfingin hefur oftar meiri áhuga á því, sem er að finna í ríkissjóði, en hinu, sem er í forsjá menntamálaráðherra.

Knattspyrnusambandið er fáeinum árum yngra en íslenska lýðveldið. Stofnun þess og landsleikirnir, sem það hefur skipulagt frá sínum fyrsta degi hafa orðið til þess að styrkja þjóðarvitund okkar Íslendinga. Fátt utan sorgaratburða og náttúruhamfara sameinar þjóðina með sambærilegum hætti og örlagaríkur landsleikur eða önnur spennandi íþróttakeppni.

Agnar Klemens Jónsson, sendiherra og ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, var fyrsti formaður Knattspyrnusambands Íslands. Í mínum huga er og verður Agnar Klemens hinn sanni diplómat, sem gætti hagsmuna þjóðar sinnar af alúð og virðingu.

Þannig viljum við einnig að íþróttamenn okkar komi fram bæði heima fyrir og á erlendum vettvangi. Að þeir séu öðrum fyrirmynd og þjóð sinni til sóma. Sömu kröfu gerum við einnig til áhorfenda og sem betur fer hvílir ekki yfir íslenskri knattspyrnu skuggi óhæfuverka þeirra, sem hafa verið kallaðir knattspyrnubullur fyrir alþjóðlegan skrílshátt á kappleikjum.

Knattspyrna þrífst hvorki né dafnar hafi enginn áhuga á að horfa á hana. Þess vegna hafa kröfur um öryggi og aðbúnað á íþróttavöllum aukist. Verða vellir að uppfylla þær meðal annars til að vera gjaldgengir fyrir alþjóðlega keppni. Er það síðasta stórvirki Knattspyrnusambandsins að taka sér fyrir hendur að búa Laugardalsvöll þannig að hann fullnægi öllum skilyrðum. Hefur það tekist með miklum ágætum og sýnir best hið mikla framkvæmdaafl, sem í sambandinu býr á fimmtugs afmæli þess. Þá hefur forysta þess einnig sýnt, að henni er annt um að markið sé sett hátt við val og þjálfun leikmanna í landsliði okkar. Krefst það oft erfiðra og sársaukafullra ákvarðana, sem forystumennirnir verða að taka.

Hlutur ríkisins í íþróttamálum er frekar óbeinn en beinn. Af opinberri hálfu hvílir meiri þungi á sveitarfélögum en ríkinu að því er íþróttamál varðar. Ég vænti þess, að á grundvelli frumvarps til nýrra íþróttalaga verði hlutverk ríkisins fært að nútíma kröfum.

Alþingi samþykkti nú í vor ályktun um eflingu íþróttastarfs. Hef ég nú skipað nefnd í samræmi við ályktunina og er ástæða til að binda góðar vonir við störf hennar, þótt ekki sé við því að búast að hún opni ríkiskassann. Á nefndin meðal annars að gera tillögur um þátt hins opinbera við að laða æskufólk til iðkunar íþrótta, við að efla árangur íslensks afreksfólks á alþjóðavettvangi og um það hvernig auka megi skilning þjóðarinnar á gildi líkamsræktar, heilbrigðis og hollra lífshátta.

Allt fellur þetta einnig að háleitum markmiðum Knattspyrnusambands Íslands. Og vil ég ljúka máli mínu með því í senn að þakka fyrir glæsilegar veitingar og góða veilsu og gefa fyrirheit um að af hálfu landstjórnarinnar skuli Knattspyrnusambandinu lagt lið til allra góðra verka. Ég ítreka heillaóskir til sambandsins og árna íslenskum knattspyrnumönnum góðs gengis við æfingar og keppni.