2.5.1997

Kennarasambandsþing

Fulltrúaþing Kennarasambands Íslands, ávarp
3. maí 1997

Í upphafi máls míns vil ég þakka forystumönnum Kennarasambands Íslands fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur nokkrum orðum.

Fyrsta starfsár grunnskólans í höndum nýs rekstraraðila, sveitarfélaganna, er senn á enda. Ég tel, að engar hrakspár vegna flutningsins hafi ræst. Þvert á móti hafi að ýmsu leyti betur tekist en hinir bjartsýnu leyfðu sér að vona. Hin góða og víðtæka sátt, sem tókst með öllum aðilum málsins, er að mínu mati helsta ástæða þess, hve vel skólahaldið hefur gengið. Vil ég enn og aftur þakka Kennarasambandi Íslands sérstaklega fyrir samstarfið.

Samræmdu prófin


Að sjálfsögðu hafa úrlausnarefni að því er varðar grunnskólann ekki horfið frá menntamálaráðuneytinu. Vorum við til dæmis minnt á það með næsta óskemmtilegum hætti í vikunni, þegar fréttir bárust af óánægju með framkvæmd samræmdu prófanna. Þótt allar reglur um prófin séu skýrari en áður og menn öðlist með hverju ári aukna reynslu, hefur ekki enn tekist að koma á þeirri skipan, sem tryggir snurðulausa próftöku.

Vil ég fullvissa ykkur um eindreginn vilja minn til að búa þannig um hnúta, að nemendur, kennarar og foreldrar geti vel við prófin unað. Með því er ég ekki að segja, að þau eigi eða verða létt og stutt, heldur hitt, að fullrar sanngirni sé gætt. Tekur alla, sem unna skólastarfi, sárt, þegar nemendur kveðja grunnskólann reiðir að lokinni 10 ára dvöl vegna þess að þeim finnst þeir ósanngirni beittir.

Mér er ljóst, að samræmdu prófin eru viðkvæmari þáttur í skólastarfi en áður vegna nýrrar upplýsingastefnu um niðurstöður í þeim og samanburð á milli skóla. Einnig eru inntökukröfur framhaldsskólanna að breytast og þess vegna er kapp nemenda meira en áður og sársaukinn í samræmi við það, ef ekki gefst tóm til að sýna kunnáttuna.

Málefni Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hafa verið til athugunar á vegum menntamálaráðuneytisins og hinnar nýju mats- og eftirlitsdeildar innan þess. Er nú verið að leggja síðustu hönd á samning milli ráðuneytisins og stofnunarinnar, þar sem verkaskipting og hlutverk er skilgreint með skýrari hætti en áður. Þá vinna rektorar Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri að faglegri úttekt á stofnuninni. Fyrir nokkru sagði forstöðumaður RUM starfi sínu lausu og kemur nú að því, að nýr verði ráðinn. Þá tel ég, að lög um stofnunina beri að endurskoða í ljósi þeirra breytinga á stjórnsýslu, sem hafa orðið síðan núgildandi lög voru samþykkt.

Aðalnámskrá


Gerð aðalnámskrár er eitt þeirra verkefni, sem áfram er í höndum ráðuneytisins, eftir flutning grunnskólans. Eins og kunnugt er hefur nú í fyrsta sinn í sögunni verið hrundið af stað samfelldri endurskoðun á aðalnámskrám grunnskólans og framhaldsskólans. Gengur þetta viðamikla verk eftir áætlun, en hún miðar að því, að námskrárnar liggi fyrir um mitt næsta ár.

Samstarf við samtök og fagfélög kennara við námskrárvinnuna hefur verið með miklum ágætum. Fagna ég því sérstaklega, hve mikill áhugi hefur verið á því að efna til málþinga um einstaka þætti. Hefur ráðuneytið veitt stuðning sinn í þessu skyni. Einnig höfum við lagt áherslu á sem besta miðlun upplýsinga og vek ég í því sambandi sérstaka athygli á heimasíðu um námskrárgerðina.

Til þess að unnt sé að vinna þetta starf með víðtækri skírskotun til alls skólastarfs er nauðsynlegt að taka afstöðu til ýmissa álitamála, sem eru pólitísks eðlis. Skipaði ég sérstaka stefnumótunarnefnd undir formennsku Sigríðar Önnu Þórðardóttur alþingismanns til að veita mér ráð um þessa þætti málsins og tilnefndu allir stjórnmálaflokkar fulltrúa í nefndina. Í gær gerði nefndin mér grein fyrir niðurstöðum sínum og er mér ánægja að skýra frá því, að samstaða var um öll álitamál innan nefndarinnar. Eftir að ég hef kynnt ríkisstjórninni niðurstöður nefndarinnar og tillögur mínar, verður greint frá þeim opinberlega.

Kjaramál


Kjaraviðræður við kennara í starfi hjá ríkinu eru á viðkvæmu stigi. Hinn 19. mars síðastliðinn lagði menntamálaráðuneytið fram sjónarmið sín um breytingar á starfstíma og verkefnum í skólum vegna nýrra laga um framhaldsskóla. Þar koma fram fjögur áhersluatriði:

Ráðuneytið telur í fyrsta lagi æskilegt, að kennslutími verði jafnlangur, eða því sem næst, á haust- og vorönn, og haustönn geti lokið fyrir jólaleyfi. Heppilegt væri að gera breytingar á því ákvæði kjarasamninga sem bindur vinnutíma kennara á árlegum starfstíma skóla við 1. september og 31. maí og opna þannig fyrir sveigjanlegri starfstíma skóla. Skólastarf gæti þá til dæmis hafist upp úr 20. ágúst og því verið lokið að sama skapi fyrr á vori.

Í öðru lagi verði viðverutími til ráðstöfunar fyrir skólann samkvæmt ákvörðun skólameistara eins, þannig að verkstjórnarhlutverk og ábyrgð skólameistara séu skýr.

Í þriðja lagi verði innan skilgreindrar vinnuskyldu gert ráð fyrir nýjum verkefnum vegna nýrra framhaldsskólalaga.

Loks sé það í fjórða lagi á verksviði og ábyrgð einstakra skóla að ákveða hvernig að fyrirkomulagi kennslu, prófahalds, námsmats og annarra starfa í þágu skóla er staðið, að svo miklu leyti sem slíkt er ekki ákvarðað með lögum, reglugerðum, aðalnámskrá og kjarasamningum. Í þessu sambandi er bent á, að ekki er gert ráð fyrir að yfirferð á námsefni aukist þrátt fyrir að kennsludögum fjölgi frá því sem verið hefur.

Þetta eru fjögur áhersluatriði, sem menntamálaráðuneytið hefur lagt fram í kjaraviðræðum við kennara í framhaldsskólum. Er það mat mitt, að nú sé lag til að huga að þessum þáttum með öðrum hætti en áður, enda fyrstu samningar, eftir að ný lög voru samþykkt. Væri það í mikilli andstöðu við almenna framvindu kjarasamninga undanfarnar vikur, ef ekki tækist í friði að komast að samkomulagi milli ríkisins og starfsmanna þess í kennarastétt. Fátt er neikvæðara fyrir þá, sem vilja vinna að eflingu menntunar í landinu, en verkfallsófriður í skólunum, fátt vekur raunar heitari tilfinningar í öllum fjölskyldum.

Lögverndun


Á fundum með kennurum sem menntamálaráðherra hef ég jafnan gefið fyrirheit um endurskoðun laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Þessari endurskoðun er nú lokið og liggur frumvarpið fyrir á Alþingi.

Við gerð frumvarpsins var aukin fagmenntun kennara höfð að leiðarljósi. Sjást þess ýmis merki í frumvarpstextanum meðal annars í því ákvæði, sem leitt hefur til ágreinings milli mín og forráðamanna kennarafélaganna.

Rökræður um málið eiga ekki heima í ávarpi sem þessu. Þó kemst ég ekki hjá því að andmæla þeim áburði, að ég hafi gengið á bak orða minna við þessa vinnu og stofnað til trúnaðarbrests í samskiptum við kennara.

Kemur þessi skoðun meðal annars fram í nýlegu bréfi til mín frá kennarafélögunum. Í svarbréfi árétta ég, að frá upphafi hins óformlega samráðs við kennarafélögin um þetta mál hafi verið ljóst, að ósamræmi væri milli markmiða minna annars vegar og fulltrúa kennarafélaga hins vegar. Hef ég jafnan sagt við forystumenn kennara, að samráð af minni hálfu jafngildi því ekki, að ég falli frá rétti mínum til að fara aðra leið en samráðsaðilar vilja. Er fráleitt að kenna þá afstöðu við trúnaðarbrest.

Raunar hef ég orðið var við, að bæði kennarar og leiðbeinendur líta á hið nýja frumvarp í heild sem mikið og gott framfaraspor.

Kennara- og uppeldisháskóli


Af öðrum frumvörpum sem nú eru til umræðu á Alþingi er sérstök ástæða til að nefna frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands. Markmið þess er að fella starfsemi Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands í eina háskólastofnun.

Færa má margvísleg rök fyrir þessari sameiningu. Þau eru þó einkum af tvennum toga; snerta annars vegar menntastefnu og hins vegar hagkvæmni og vega þau fyrrgreindu þyngra.

Undirbúningur að stofnun hins nýja skóla er nú hafinn og sett hefur verið á laggirnar sérstök þriggja manna verkefnisstjórn, sem á að vinna að framgangi málsins. Kynnti ég frumvarpið á fundi með starfsmönnum skólanna um sama leyti og það var lagt fram. Formaður verkefnisstjórnar hefur síðan átt fundi með fulltrúum skólanna. Svo virðist sem allir vilji leggjast á eitt um að hinn nýi skóli líti dagsins ljós sem fyrst. Góð menntun kennara er forsenda góðs árangurs nemenda. Því er mikilvægt að vel takist til með hinn nýja Kennara- og uppeldisháskóla. Kennarar bera mikla ábyrgð og menntun þeirra verður að vera í samræmi við hana.

Góðir áheyrendur!

Ég hef kosið að nota þetta tækifæri hér til að greina frá nokkrum þáttum, sem nú ber hátt í störfum menntamálaráðuneytisins og snerta beint störf og starfskjör kennara. Vona ég, að þau sýni í senn áhuga á að vinna að umbótum og vilja til góðs samstarfs við kennara og félög þeirra.

Þótt menn séu ekki sammála um allt geta þeir að sjálfsögðu unnið saman undir merkjum góðs málstaðar. Við erum öll sammála um að menntun og skólastarf eru mál, sem eiga að sameina en ekki sundra. Við eigum einnig að sameinast um að stuðla að jákvæðum umræðum um gildi menntunar.

Ég óska ykkur góðs gengis á áttunda fulltrúaþingi Kennarasambands Íslands.