14.3.1997

Símenntun - námsstefna

Námsstefna að loknu ári símenntunar
Hótel Sögu 14. mars 1997.

Ágætu námsstefnugestir!

Hér hafið þið komið saman í dag til að bera saman bækur ykkar að loknu ári símenntunar, en segja má að það hafi hafist hér á landi hinn 24. febrúar 1996 og ljúki með þessari námsstefnu.

Evrópusambandið átti frumkvæði að átaksárinu til að ýta undir almenna umræðu í Evrópu um mikilvægi menntunar og þjálfunar á nýrri öld. Meginmarkmiðið var að auka vitund Evrópubúa um nauðsyn símenntunar fyrir velferð einstaklingsins og samfélagsins í heild.

Ég er ekki í stakk búinn til að meta hvort markmið Evrópusambandsins hafi náðst í öllum þátttökulöndunum. Hins vegar tel ég að vitund margra hér á landi um að menntun er æviverk, en ekki eitthvað sem einungis tilheyrir fyrsta hluta ævinnar, hafi aukist.

Á þeim tæpu tveimur árum, sem ég hef starfað í embætti menntamálaráðherra, hafa orðið miklar breytingar á íslenska skólakerfinu. Grunnskólinn hefur verið fluttur til sveitarfélaganna í góðri sátt við þau og kennara. Er nú langt liðið á fyrsta skólaár grunnskólanemenda í umsjá sveitarfélaganna og verður ekki annað séð en byrjunarerfiðleikar hafi jafnvel orðið minni en margir héldu. Bendir allt til þess, að grunnskólinn muni eflast í nýjum höndum. Miðlun upplýsinga um starf skólans er meiri en áður og hvetur sú nýbreytni menn frekar til dáða en að hún dragi úr þeim kjark. Þá verður þess vart, að á grunnskólastigi hugi menn meira að því en áður, hvernig skólinn geti orðið til þess að vekja áhuga nemenda á atvinnulífi og nýsköpun í heimabyggð sinni. Nefni ég þetta hér, því að mat mitt er, að starf það, sem unnið hefur verið á ári símenntunar, sýni meðal annars, að strax á grunnskólastigi verði markvisst að leggja grunninn að símenntun eða ævimenntun. Gera unga fólkinu ljóst, að góð grunnmenntun og markviss vinnubrögð séu verðmæti, sem aldrei verða frá neinum tekin en unnt sé að ávaxta allt lífið og raunar nauðsynlegt til að standast kröfur hins síbreytilega og kröfuharða umhverfis þekkingarsamfélagsins.

Í fyrra voru samþykkt ný lög um framhaldsskóla, sem nú er verið að framkvæma. Ég beitti mér fyrir því, að með lögunum voru sérstök lög um fullorðinsfræðslu felld úr gildi og í stað þeirra sett ákvæði í nýju lögin, sem heimila framhaldsskólunum að starfa sem fullorðinsfræðslumiðstöðvar. Tel ég, að með þessu séu skólunum sköpuð ný sóknarfæri til að sinna símenntun.

Nokkrum fjármunum er ár hvert úthlutað til fullorðinsfræðslu af menntamálaráðuneytinu og vil ég, að það sé nýtt til að styðja framtak framhaldsskóla á þessu sviði. Að sjálfsögðu ber að líta þannig á, að skólinn leggi eitthvað af mörkum gegn framlagi samstarfsaðila sinna. Hitt ber þó að hafa hugfast, að ekki eru greidd kennslugjöld fyrir almennt nám í framhaldsskóla, nám í öldungadeild er hins vegar að þriðjungi greitt af nemendum og kostnaður við fullorðinsfræðslu skal borinn af þeim, sem nýtur hennar.

Nú í vetur hefur vegur verknáms á framhaldsskólastigi aukist verulega með starfi Borgarholtsskóla, þar sem Fræðslumiðstöð bílgreina hefur aðsetur og miðstöð fyrir málmiðnað er að rísa, og með nýju verknámshúsi við Menntaskólann í Kópavogi, þar sem hótel- og matvælagreinar eru kenndar við aðstæður, sem jafnast á við hið besta á heimsmælikvarða. Ég minnist á þetta hér, því að við töku ákvarðana vegna flutnings náms í þessar nýbyggingar, hef ég kynnst því, hve oft getur verið erfitt að sameina markmið almenns skólastarfs og kröfur einstakra atvinnugreina. Tel ég, að það sé eitt af lykilatriðum þess, ef menn vilja í raun leggja rækt við símenntun með samvinnu við hið öfluga og metnaðarfulla starf framhaldsskólanna, að tortryggni milli skóla og atvinnulífs sé eytt.

Bind ég vonir við, að innan hinnar fjölmennu samstarfsnefndar um starfsmenntun á framhaldsskólastigi skapist vettvangur fyrir samvinnu, sem nýtist ekki aðeins innan hinna hefðbundnu skóla heldur einnig til að auka veg og virðingu símenntunar.

Mér finnst alvarlegt að lesa í skýrslu Rannsóknaþjónustu háskólans um aðgengi að faglegri símenntun og þjálfun, þar sem stendur:

“Símenntunarkerfið hérlendis er ógagnsætt og fólki á vinnumarkaði er einatt ekki ljóst hvað í boði er, hvað er fáanlegt og hvað er mögulegt. Kynning á möguleikum til símenntunar er í molum. Helst horfa starfsmenn til sinna eigin stéttarfélaga og eigin fræðsluráða eftir faglegri símenntun og leita ekki handan við þann sjóndeildarhring."

Úr þessu þarf að bæta meðal annars með auknu samstarfi skóla, stéttarfélaga og atvinnurekenda. Hér eru flest fyrirtæki mannfá og geta því ekki sjálf þróað með sér endurmenntunarstarf. Þau eiga hins vegar allt sitt undir því eins og hinn stærri fyrirtæki, að starfsfólkið sé vel menntað og geti tekist á við verkefni sín af þekkingu og yfirsýn. Skólarnir eiga að koma til móts við fyrirtækin og starfsmenn þeirra og bjóða þeim að njóta reynslunnar innan dyra hjá sér.

Þegar þetta er sagt skulum við minnast þess, að mest er þörf á að ná til þess fólks, sem hverfur til starfa á hinum almenna vinnumarkaði án þess að hafa búið sig undir ævistarf með langskólanámi. Kannanir sýna, að þetta fólk ber sig minnst eftir endurmenntun. Áhuginn er hins vegar töluvert mikill hjá háskólamenntuðu fólki, enda hefur Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands fest sig vel í sessi og veitir mikla og góða þjónustu.

Er ég þá kominn að æðsta skólastiginu, háskólastiginu. Innan menntamálaráðuneytisins hefur verið samið frumvarp til laga um háskóla, sem hefur það að markmiði að koma festu á skipan þess skólastigs, sem tekur við af framhaldsskólastigi, staðfesta almenna stefnu stjórnvalda í málefnum háskólastigsins og tryggja lágmarkssamræmi í löggjöf einstakra háskólastofnana. Í frumvarpinu eru dregin saman þau meginskilyrði, sem skólastofnun þarf að uppfylla til að geta talist háskóli og veita háskólagráðu við námslok. Gert er ráð fyrir því að löggjöf um háskóla myndi ramma um ákvæði í sérlögum hvers skóla, en kveðið verði nánar á um starfsemi hvers háskóla í sérlögum, reglugerðum, starfsreglum, samþykktum og skipulagsskrá hvers skóla. Gengið er út frá því í frumvarpinu að háskólar geti bæði verið ríkisreknir og einkareknir. Markmið háskólastarfseminnar eru skilgreind, sjálfstæði háskóla er betur tryggt, treystar forsendur fyrir virkara gæðaeftirliti með starfsemi skólanna og opnuð leið fyrir virka árangursstjórnun. Þá er stjórnsýsla skólanna sniðin að nýjum viðhorfum við stjórn ríkisfjármála, nýjum lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, nýjum stjórnsýslulögum og nýjum upplýsingalögum, en allt þetta kallar á ný vinnubrögð innan háskólastofnana.

Í stuttu máli sagt, hefur á síðustu tveimur árum verið unnið að því að endurskoða lög og reglur um þrjú helstu skólastigin, sem koma til álita, þegar hugað er að hlut hins hefðbundna skólakerfis í símenntun. Svo sem kunnugt er falla lög um starfsmenntun frá 1992 ekki undir menntamálaráðuneytið. Raunar var ég spurður sérstaklega að því á Alþingi, þegar framhaldsskólafrumvarpið var til umræðu, hvort það hróflaði að nokkru leyti við hinu lögbundna starfsmenntakerfi og taldi ég það ekki vera.

Í fyrrgreindri skýrslu Rannsóknaþjónustu Háskólan segir á einum stað: “Viðhorf samfélagsins ber þess því enn nokkur merki að litið er á faglega símenntun og þjálfun sem félagslegt úrræði frekar en arðbæra fjárfestingu í mannauði."

Í lok síðasta árs fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að taka saman greinargerð um tengsl menntunar og hagvaxtar. Um miðjan febrúar lá þessi greinargerð fyrir. Í henni er ótvírætt rökstutt að aukin menntun leiði til meiri hagvaxtar. Er augljóst, að þetta á jafnt við hefðbundið skólanám og símenntun. Það er með öllu úrelt viðhorf að líta á menntun, hvaða nafni sem hún nefnist, sem félagslegt úrræði. Allir, sem unna framgangi menntunar, verða að taka höndum saman og berjast gegn þeirri hugmyndafræði.

Hagfræðistofnun bendir á að hækki meðalskólaganga vinnuafls um 1% þá leiði það að öllum líkindum til 0,3% hagvaxtar á tilteknu ári að öðru óbreyttu. Samkvæmt könnun OECD frá 1993 á hlutfallslegri skiptingu vinnuafls á aldrinum 25-65 ára eftir menntunarstigi höfðu um 24% íslenskra starfsmanna eingöngu notið grunnmenntunar, 42% höfðu lokið framhaldsskólanámi, þ.e. starfsmenntun eða almennu bóknámi, 18% starfsmanna hafa lokið sérskólanámi og 16% prófgráðu úr háskóla. Miðað við OECD-meðaltalið stóð Ísland ekkert mjög illa í þessari könnun frá 1993. Í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands frá því í nóvember á síðasta ári kemur hins vegar fram að 31% vinnuafls á aldrinum 25-65 ára eða alls 46.700 manns, hafa aðeins lokið grunnmenntun, 40% starfs- og framhaldsskólamenntun, 16% sérskólamenntun og 13% háskólamenntun. Hér er eingöngu minnst á þá sem eru í starfi. Á meðal þeirra sem standa utan við vinnumarkaðinn vegna atvinnuleysis eða annars eru margir einungis með grunnmenntun. Við eigum því talsvert verk að vinna til að hækka menntunarstigið.

Í greinargerð Hagfræðistofununar skoða höfundar einnig meðalskólagöngu þ.e. þann tíma sem starfsmenn hafa eytt í skóla og virðist Ísland standa illa þó að Íslendingar komi bærilega út þegar fjöldi prófgráða er skoðaður eins og gert var í OECD-könnuninni.

Höfundar greinargerðarinnar telja að leggja þurfi meiri áherslu á að efla menntun og draga úr vægi náttúruauðlinda í auðlegð Íslendinga ef reikna á með að hagvöxtur geti verið jafn og stöðugur hér á landi á komandi árum.

Greinargerð Hagfræðistofnunar rennir styrkari stoðum undir þá skoðun að menntun er fjárfesting sem skilar sér í betri afkomu. Símenntun skipar hér stóran sess. Til að menn geti nýtt krafta sína sem best alla starfsævi þurfa þeir sífellt að tileinka sér nýja vitneskju og starfshætti. Velgengni fyrirtækja og afkoma mun fremur ráðast af því hve menntað starfsfólkið er en hvaða hráefni þau vinna. Samkeppnishæfni þjóða ræðst síðan af menntunarstigi þeirra. Ég tel að það geti verið skynsamleg leið til að auðvelda fyrirtækjum að treysta þekkingu starfsmanna sinna að um fjárfestingu í henni gildi einskonar afskriftarreglur eins og aðra fjárfestingu.

Við verðum að setja okkur skýr markmið, átta okkur á því, hvers það krefst af okkur að ná þeim og hvaða aga við þurfum að lúta til að standast þær kröfur. Markmið skólastarfs eru sett með námskrám. Á vegum menntamálaráðuneytisins er nú hafin víðtæk endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla.

Í þeirri stefnu, sem menntamálaráðuneytið hefur mótað vegna námskrárvinnunnar, en til hennar eru tugir manna kallaðir, eru kröfur símenntunar hafðar að leiðarljósi. Þar er byggt á þeirri staðreynd, að símenntun feli ekki aðeins í sér námsframboð fyrir fullorðið fólk heldur þurfi einnig að leggja grunn að símenntun í grunnmenntuninni sjálfri. Þess vegna beri að leggja meiri áherslu á námshvatningu, sjálfstæði í vinnubrögðum, gagnrýna hugsun, frumkvæði og annað sem gerir einstaklingnum kleift að laga að sig að síbreytilegum viðfangsefnum alla ævi. Vill ráðuneytið því, að námsmarkmið allra námsgreina taki mið af þessari breyttu afstöðu til menntunar og þjálfunar.

Góðir áheyrendur!

Ég tel að skipan hins almenna skólakerfisins sé að komast í viðunandi horf og með nýjum námskrám á næsta ári verði innra starf grunn- og framhaldsskólanna skipulagt í samræmi við kröfur tímans. Við þurfum hins vegar að gera skipulagt átak í þágu símenntunar, ekki endilega til þess að hvetja fólk til að endurmennta sig eða halda menntun sinni við, heldur til þess að auðvelda því það og ná öllum þráðum saman með þeim hætti, að átakið beri sem mestan árangur.

Skýrsla Rannsóknaþjónustu Háskólans um aðgengi að faglegri símenntun leiðir í ljós, að það skortir heildstæða stefnu, stjórnun og gæðaeftirlit á sviði símenntunar Allir virðast sammála um mikilvægi hennar fyrir samfélagið, fyrirtækin og einstaklingana, en það skortir betri samhæfingu kraftanna til að fjármagnið nýtist sem best. Stærstu fyrirtækin og þeir starfsmenn sem mesta menntun hafa fyrir njóta í flestum tilvikum bróðurpartsins af þeirri símenntun sem er í boði. Þetta kemur m.a. fram í könnun sem Sammennt og Vinnuveitendasamband Íslands gerðu á síðasta ári, með styrk frá Evrópsku ári símenntunar, á umfangi starfstengdrar símenntunar á vegum fyrirtækja innan VSÍ.

Samtök launafólks og atvinnurekenda eiga iðulega frumkvæði að skipulagningu og framkvæmd símenntunar, oft á grundvelli kjarasamninga. Þar sem umtalsverðu fé er varið til þessa af hálfu hins opinbera, er nauðsynlegt að efla samhæfingu og heildarstjórn og er það hlutverk stjórnvalda að eiga frumkvæði að því. Þá skortir á heildarsýn á símenntunarkerfið. Það er ógagnsætt og kynningu er áfátt. Bæði þeir sem eru að leita sér menntunar og þeir sem eru að leita menntunar fyrir starfsfólk fyrirtækja sinna eiga erfitt með að átta sig á hvað er í boði og að geta borið saman gæði. Það er því brýnt að safna saman upplýsingum á einn stað og meta skilvirkni, kosti og galla þess kerfis sem sinnir símenntun.

Hinn 11. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að skipa nefnd með fulltrúum frá ríki, sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins til að fá yfirlit yfir stöðuna í símenntun hérlendis. Nefndin á að leggja drög að heildarstefnu í málefnum símenntunar. Í þessu felst ekki að ríkið taki málaflokkinn á sínar herðar, heldur eigi frumkvæði að því að þessir aðilar dragi upp heildarmynd af sviðinu og leggi megin línur um hlutverk hvers og eins.

Óskað hefur verið eftir tilnefningum í nefndina og reikna ég með að hún geti tekið til starfa á næstunni. Stefnt er að því að nefndin ljúki störfum fyrir 1. desember.

Góðir námsstefnugestir! Hið evrópska ár símenntunar 1996 hefur án efa eflt umræðu um símenntun og aukið skilning fólks á gildi hennar. Ég vil þakka öllum sem lögðu málefninu lið, sérstaklega vil ég þakka starfsfólki Rannsóknaþjónustu Háskólans sem bar hitann og þungann af framkvæmdinni á Ári símenntunar.

Til að leggja varanlegan grunn að framfarasókn íslensku þjóðarinnar á 21. öldinni þarf að efla menntun í öllum skilningi. Á þeim forsendum einum mun Íslendingum farnast vel í nýjum heimi á nýrri öld.

Með þessum orðum þakka ég ykkur öllum þátttökuna í þessari námsstefnu og segi henni slitið.