25.1.1997

Stefna í menntamálum - framtíðarsýn

Stefna í menntamálum - framtíðarsýn.
Kjördæmisþing reykvískra sjálfstæðismanna 25. janúar 1997.

Íslenska skólakerfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Þessar breytingar falla vel að þeim stefnumiðum, sem setja svip á ályktanir Sjálfstæðisflokksins um menntamál. Miðstýring hefur minnkað, fjárhagslegt sjálfstæði skóla er að aukast og kröfur um aukinn aga og betra eftirlit með gæðum náms hafa náð fram að ganga.

Grunnskólinn er nú alfarið í höndum sveitarfélaganna, þegar litið er til rekstrar hans. Námskrá er hins vegar sett af ríkisvaldinu og menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með innra starfi í grunnskólum, á þess vegum er efnt til samræmdra prófa auk þess sem ríkisvaldinu ber að sjá skólunum fyrir námsefni.

Framhaldsskólastigið er einnig að taka miklum breytingum í kjölfar nýrra laga. Er það markmið mitt, að framhaldsskólarnir verði jafnt í orði sem á borði sjálfstæðar stofnanir, sem geri áætlanir um eigin starfsemi og fái til hennar fé á grundvelli samninga við menntamálaráðuneytið og eftir ákvörðunum Alþingis. Skólarnir skulu að sjálfsögðu starfa í samræmi við námskrár undir fjárhagslegu og faglegu eftirliti ráðuneytisins, sem meðal annars byggist á samræmdum prófum.

Um þessar mundir er endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla að komast á fullan skrið. Ég hef grun um, að fáir leiði í raun hugann að því, hve hér er um mikilvægt verkefni að ræða, því að með aðalnámskránni er innra starf skólanna mótað. Til dæmis var það í almennum hluta aðalnámskrár frá 1976, sem gefin voru fyrirmæli um, að ekki ætti að skipta nemendum í bekkjardeildir eftir námsgetu og námsárangri. Er ætlunin að virkja kennara, foreldra, aðila atvinnulífsins og alla, sem áhuga hafa á menntamálum til þátttöku í þessu mikla verkefni.

Undanfarnar vikur hefur verið lögð töluverð vinna í það á vegum menntamálaráðuneytisins að smíða nýja löggjöf fyrir háskólastigið. Er hér um svonefnda rammalöggjöf að ræða, það er hún spannar háskólastigið í heild án tillits til einstakra skóla. Nú er talið, að í raun séu hér á landi 13 skólar, sem með einum eða öðrum hætti veiti háskólamenntun.

Er mjög brýnt að skilgreina starfsramma þessara skóla í almennri löggjöf, meðal annars til að auðvelda þeim þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, sem vex hröðum skrefum milli skóla, ekki síst eftir aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu. Þá er óhjákvæmilegt að huga að innra skipulagi og stjórnsýslu í skólum á háskólastigi, einkum stærsta skólanum, Háskóla Íslands.

Af þessu stutta yfirliti sést, að það ríkir síður en svo nokkur kyrrstaða á þessum þremur meginskólastigum. Á hinu fjórða, leikskólastiginu, hefur einnig verið unnið að breytingum á grundvelli nýrra laga. Þar er að hefjast vinna við að endurskoða það, sem má kalla námskrá leikskólanna.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu hér á þessum vettvangi, að undir forystu sjálfstæðismanna hefur verið unnið að öllum þessum mikilvægu breytingum. Forveri minn Ólafur G. Einarsson setti endurskoðunina á grunnskólanum og framhaldsskólanum af stað með því að skipa nefnd um mótun menntastefnu undir formennsku Sigríðar Önnu Þórðardóttur, alþingismanns og flokkssystur okkar. Þegar ég tók við ráðherrastarfinu af Ólafi lýsti ég strax yfir því, að ég ætlaði að starfa áfram á sama grunni og hann að þessu leyti. Hefur það síðan komið í minn hlut að semja um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og ganga frá öllum framkvæmdaþáttum í samræmi við grunnskólalögin auk þess að koma framhaldsskólafrumvarpinu í gegnum þingið og nú vinna að breytingum í samræmi við þau lög.

Andstæðingar okkar sjálfstæðismanna hafa löngum haldið því fram, að menntun og menning væri betur komin í höndum annarra stjórnmálaflokka en okkar. Til þess að sanna þessa röngu fullyrðingu sína hafa andstæðingarnir löngum gripið til rangfærslna.

Mælikvarðarnir, sem notaðir eru til að meta framgöngu stjórnmálamanna í menntamálum, miðast yfirleitt allir við að sýna, hvernig staðið er að fjárveitingum eða framkvæmdum.

Að þessu leyti þurfum við sjálfstæðismenn síður en svo að skammast okkar, því að á undanförnum árum hefur jafnt og þétt verið varið auknu fé til skólanna. Samdráttur í útgjöldum til fræðslumála hefur komið fram í ríkisútgjöldum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna en ekki til skóla. Árið 1992 var lögum um sjóðinn breytt og tekið upp aukið aðhald í lánveitingum hans til að koma í veg fyrir gjaldþrot sjóðsins. Urðu þessar breytingar til þess að draga úr ásókn í lán og síðan hefur lánþegum fækkað á sama tíma og námsmönnum í lánshæfu námi hefur fjölgað.

Frá því að þessar breytingar voru gerðar á lánasjóðnum hefur verið ófriður um hann. Sætta námsmenn sig ekki enn við lögin frá 1992. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var við afgreiðslu fjárlaga 1997 ákveðið að auka fjárveitingu til lánasjóðsins um 100 milljónir króna.

Í byrjun þessa árs taldi ég ljóst, að nefnd sú, sem sett var á laggirnar í ágúst 1995 til að endurskoða lög og reglur um lánasjóðinn, mundi ekki ná lengra í störfum sínum. Hefur hún nú verið leyst frá störfum. Að ósk fulltrúa námsmanna í nefndinni hef ég mælst til þess, að fyrir 6. febrúar nk. hafi námsmannasamtökin sent mér skriflega hugmyndir sínar um breytingar á núgildandi lögum um LÍN. Stefni ég að því, að ýmis ákvæði úr reglugerð og úthlutunarreglum LÍN verði lögfest.

Um það hefur verið deilt, hvernig og hvort breyta beri ákvæðum núgildandi laga um út- og endurgreiðslu lánanna. Tel ég, að það mál sé komið í höfn eftir viðræður forystumanna stjórnarflokkanna, sem eðlilegt er, að taki af skarið um pólitísk ágreiningsmál af þessu tagi. Ég vil leggja áherslu á tvö atriði, áður en ég segi skilið við lánasjóðinn.

Í fyrsta lagi má aukið fjárstreymi til Lánasjóðs íslenskra námsmanna ekki verða til þess að draga úr fjárveitingum til annarra þátta fræðslumálanna. Aukið ráðstöfunarfé námsmanna má ekki verða til þess að veikja stofnanirnar, sem veita þeim fræðslu. Slíkt yrði óviðundandi.

Í öðru lagi tel ég af og frá, að umræðum um stuðning ríkisvaldsins við námsmenn ljúki, þótt nú takist samkomulag um málefni hans. Er nauðsynlegt í framhaldinu að beina umræðunni í nýjan farveg, þar sem hugað verði að gjörbreyttu styrkja- og lánakerfi - skilið verði á milli háskóla- og framhaldsskólanema og skilgreint, hvar mörkin skuli vera milli námsaðstoðar annars vegar og félagslegrar aðstoðar hins vegar.

Sé litið til framkvæmda við húsnæði framhaldsskólanna er þess skemmst að minnast, að á þessum vetri hafa þrjár nýbyggingar skóla verið teknar í notkun, hver annarri glæsilegri. Fyrst ber að nefna hinn nýja Borgarholtsskóla í Reykjavík, þá nýtt hús við Menntaskólann á Akureyri og loks verknámshúsið við Menntaskólann í Kópavogi. Er ljóst, að aldrei hefur á jafnskömmum tíma verið fjárfest jafnmikið í byggingum fyrir verknám og í Borgarholti og í Kópavogi.

Næsta haust hefst kennsla í nýju húsnæði Fjölbrautaskólans í Garðabæ og má þá segja, að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið vel búið að öllum framhaldsskólum, nema Iðnskólanum í Hafnarfirði. Er nauðsynlegt að skapa honum viðunandi frambúðaraðstöðu. Jafnframt þarf að gera sérstakt átak í húsnæðismálum framhaldsskólanna í Reykjavík. Ber þar fyrst að nefna Menntaskólann í Reykjavík, en eftir að Davíð S. Jónsson afhenti honum af einstæðum höfðingsskap hús að gjöf er lausn á brýnasta vanda hans í augsýn. Þó má betur gera ef duga skal. Huga þarf að framtíðar húsnæði annars gamals og góðs skóla í miðborginni, Kvennaskólans í Reykjavík. Þá er brýnt að reisa íþróttahús við Menntaskólann við Hamrahlíð og ljúka þar með byggingu hans og frágangi á lóð eftir 30 ára bið.

Fleiri nauðsynlegar framkvæmdir við framhaldsskóla mætti tíunda, þótt ég geri það ekki heldur ljúki þessum kafla með því að slá því föstu, að ekki eru fyrirsjáanleg milljarða útgjöld vegna nýbygginga, hins vegar er þörf á stórfé til viðhalds eins og til dæmis á Sjómannaskólahúsinu og til að ljúka við að búa skólunum viðunandi starfsaðstöðu með því að leggja síðustu hönd á framkvæmdir við þá.

Næstu stórframkvæmdir við nýjar skólabyggingar þurfa að verða á háskólastigi. Vinnur nú sérstök nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins með fulltrúum stjórnarflokkanna að því að meta húsnæðisþörfina á háskólastigi utan Háskóla Íslands og semja framkvæmdaáætlun. Sýnist mér fljótt á litið, að til annarra skóla en Háskóla Íslands, sem ræður yfir happdrættisfé samkvæmt ákvörðun Alþingis, þurfi að minnsta kosti um 1800 milljónir króna á næstu árum til að bæta úr brýnustu þörf. Er það minna fé en Borgarholtsskóli og verkmenntahúsið við Menntaskólann í Kópavogi kosta.

Þessir mælikvarðar, fjármagn og framkvæmdir, eru einkum notaðir til að meta störf okkar stjórnmálamannanna. Við eigum að útvega sem hæstar fjárhæðir til sem mestra framkvæmda, jafnframt eigum við að sjá til þess, að skattar séu sem lægstir og ríkissjóður rekinn án halla.

Að sameina þetta allt er ekki alltaf auðvelt. Hitt er ekki heldur alltaf auðvelt að ná þeim markmiðum í innra starfi skóla, sem að er stefnt og krafist er. Mælikvarðinn, sem notaður er á störf kennara, er einnig þannig að árangri verður ekki náð, nema unnt sé að sætta sjónarmið, sem kunna í fljótu bragði að sýnast ósættanleg. Kröfurnar, sem gerðar eru til skólanna, lúta ekki aðeins að því, að innan veggja þeirra sé öllum komið til nokkurs þroska, heldur einnig að þeir létti undir með heimilum og foreldrum við uppeldi barnanna. Þá er ljóst, að skilin milli sérkennslu og annarrar umönnunar eru stundum næsta óljós. Kennarar og sérfræðingar innan skólanna hafa hér á landi unnið þrekvirki við kennslu og aðra þjónustu við fatlaða nemendur eins og best kom í ljós fyrr í vetur, þegar Lundarskóli, sem er grunnskóli á Akureyri, og Menntaskólinn við Hamrahlíð hlutu sérstaka alþjóðlega viðurkenningu sem framúrskarandi stofnanir fyrir fatlaða nemendur, en þar var notuð evrópsk mælistika.

Hljótum við að setja áfram metnað okkar í að skólakerfið geti með frábærum hætti sinnt þeim, sem minna mega sín í einhverju tilliti. Hér í Reykjavík er unnið markvisst að því að skapa framhaldsnám við hæfi fyrir þann hóp nemenda, sem þarf sértæka aðgæslu í námi. Er ljóst, að kröfurnar til skóla hafa aukist að þessu leyti, meðal annars eftir að um þrengdist á vinnumarkaði. Við skulum hins vegar gera okkur grein fyrir því, að allt sértækt skólastarf kostar mikla peninga, hvort heldur það lýtur að einstökum nemendum eða að því að halda áfram starfsemi skólastofnana, sem falla ekki inn í hið almenna munstur, sem hæfir þörfum alls þorra nemenda.

Það er víðar en í stjórnmálum, sem tískubylgjur hrífa menn með sér. Þetta gerist einnig í skólamálum. Hér á landi voru lög um barnaskóla fyrst sett fyrir réttum 90 árum, eða árið 1907. Síðan þá er mikið vatn til sjávar runnið, en vatnaskil urðu í fræðslumálum hér undir lok sjöunda áratugsins og við upphaf þess áttunda.

Þeir, sem hafa skilgreint stefnubreytingu á þessum árum með gagnrýnum hætti, segja, að alls engin þörf hafi verið á henni. Hvorki foreldrar né kennarar hafi krafist breytinga. Til sögunnar hafi komið sérfræðingar, sem vildu sveigja íslenska barnaskólann að bandarískri skólastefnu með Svíþjóð sem millistykki. Stefnan hafi verið illa skilgreind, enda samin í flýti af félagsvísindamönnum, meðal annars til að friða taugaveiklaða bandaríska stjórnmálamenn, sem töldu sig vera að glutra niður forystu í vísindum, eftir að Sovétmenn urðu fyrstir til að senda mannað geimfar í kringum jörðina.

Þessari breytingu á skólakerfinu hefur meðal annars verið lýst á þann veg, að kennarar hafi hætt að mennta kennara í kennaraskólum og þess í stað hafi sérfræðingar í uppeldis- og sálarfræðum tekið kennara í fóstur. Ekki nóg með það, heldur hafi kennisetningar í þessum fræðum ekki reynst haldgóð vísindi. Þannig hafi kenningar um þroskastig barna eftir aldri þeirra beinlínis stuðlað að metnaðarleysi í kennslu og námsframboði.

Mig skortir forsendur til að fella dóma um réttmæti þessarar gagnrýni. Á hinn bóginn tel ég, að heilbrigð skynsemi segi öllum, að agalaus skóli sé lítils virði, að skóli, sem hafnar samkeppni og prófum, skili ekki miklum árangri. Þá er það ekki sannfærandi, þegar því er haldið fram, að starf innan veggja skóla sé svo sérhæft og sérstakt, að foreldrum komi það ekki við, af því að þeir skilji það ekki.

Hafi þetta verið ráðandi viðhorf við menntun kennara undanfarna áratugi er full ástæða til að breyta því.

Vel menntaðir kennarar, sem eru sæmilega sáttir við laun sín og starfsaðstöðu, eru lykillinn að árangursríku skólastarfi.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að leggja formlegan grunn að stofnun, sem nefnd hefur verið uppeldisháskóli og á að spanna starfssvið fjögurra skóla: Kennaraháskólans, Fósturskólans, Íþróttakennaraskólans og Þroskaþjálfaskólans. Við setningu laga um hinn nýja skóla þarf að taka af skarið um lengd náms í honum.

Nefnd, sem samdi álit um eflingu uppeldis- og kennaramenntunar, lagði til að kennaranám yrði þrjú ár að lágmarki en kennaranemar og kennarar yrðu hvattir til að bæta við sig viðbótarnámi. Með hliðsjón af auknu sjálfstæði skólastofnana á grundvelli samnings um fjárveitingar tel ég eðlilegt að huga að því, hvort stofnanirnar sjálfar séu ekki hæfastar til að ákveða lengd náms í samræmi við skipulag sitt.

Aðalatriðið er að sjálfsögðu inntak námsins. Er ljóst, að kennarar þurfa í senn að hafa tíma til að tileinka sér einstök fög og einnig hljóta leiðsögn um vinnubrögð og tækni. Ég hef látið þá skoðun í ljós, að of mikil áhersla á uppeldis- og kennslufræði megi ekki fæla menn með góða sérþekkingu í einstökum greinum frá skólunum. Á þetta ekki síst við framhaldsskólana. Þá er mikilvægt að uppeldis- og kennslufræðinámið sé skilgreint með hliðsjón af faggreinum.

Sem vinnuveitendur hafa sveitarfélög og ríkið ríkum og vaxandi skyldum að gegna við endurmenntun kennara. Án góðrar endurmenntunar tekst kennurum ekki frekar en öðrum að tileinka sér hið nýjasta í fagi sínu. Þá er endurmenntun ekki síst mikilvæg nú á tímum, þegar byltingakenndar breytingar eru að verða á miðlun upplýsinga fyrir tilstilli tölva. Hefur menntamálaráðuneytið raunar mótað ítarlega stefnu um nýtingu hinnar nýju tækni fyrir menntun og menningu. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur menntun verið sett í forgangsröð, þegar rætt er um að innleiða þessa nýju tækni.

Kjarasamningar við kennara þurfa að taka mið af því, að breytingar eru að verða og meiri í vændum. Tregðulögmálið vegur þungt í skólastarfi og mótast meðal annars af kjarasamningum kennara. Aukið svigrúm til breytinga verður hins vegar seint metið til fjár.

Góðir áheyrendur!

Ég hef hér stiklað á stóru um þau atriði menntamálanna, sem nauðsynlegt er að hafa í huga, þegar núverandi staða þeirra er metin.

Við stöndum síður en svo illa að vígi en getum að sjálfsögðu gert betur og eigum að gera það.

Í fyrsta lagi verðum við að átta okkur á þeirri gjörbreytingu, sem fjarkennsla á eftir að hafa í för með sér. Fjarlægðir milli staða og landa hverfa. Nú geta Íslendingar um allan heim til dæmis stundað fjarkennslunám á framhaldsskólastigi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, sem styðst við starfskrafta kennara um land allt. Íslenskir námsmenn geta þannig einnig stundað fjarnám við skóla erlendis. Fjárfesting í vel menntuðum kennurum, góðri tækni og tækjum kemur í stað þess að festa fé í steinsteypu.

Í öðru lagi ber okkur að taka mið af því að menntun er æviverk. Til að menn geti nýtt krafta sína sem best alla starfsævi þurfa þeir sífellt að tileinka sér nýja vitneskju og starfshætti. Símenntun skiptir meiru en nokkru sinni fyrr. Skynsamleg leið til að auðvelda fyrirtækjum að treysta þekkingu starfsmanna sinna kann að felast í því, að um hana gildi einskonar afskriftarreglur eins og aðra fjárfestingu.

Í þriðja lagi skulum við átta okkur á því, að menntun verður í æ ríkara mæli skynsamlegasta skref einstaklinga til að treysta stöðu sína í samfélaginu. Velgengni fyrirtækja og afkoma mun fremur ráðast af því, hve menntað starfsfólkið er en hvaða hráefni þau vinna. Samkeppnishæfni þjóða ræðst síðan af menntunarstigi þeirra.

Við sjálfstæðismenn getum af stolti sagst hafa fylgt stjórnmálastefnu, sem stenst tímans tönn og hefur sigrað í samkeppni hugmyndanna. Við getum einnig með óvéfengjanlegum rökum sagt, að undir forystu flokks okkar hafi þjóðin stigið lokaskrefið til sjálfstæðis og síðan tryggt stöðu sína í samfélagi þjóðanna með skynsamlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Nú skulum við strengja þess heit, að leggja varanlegan grunn að framfarasókn íslensku þjóðarinnar á 21. öldinni með því að efla menntun í öllum skilningi. Á þeim forsendum einum mun Íslendingum farnast vel í nýjum heimi á nýrri öld.