17.11.2017

NATO ákveður að stofna nýja flotaherstjórn

Morgunblaðið 17. nóvember 2017

Brottför varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli fyrir 11 árum má rekja til þess að NATO-ríkin töldu almennt ekki þörf á sérstökum varnarviðbúnaði á Norður-Atlantshafi. Þau hættu eftirliti með ferðum herskipa og kafbáta. Litið var á sovéska flotann sem úr sér genginn og ónýtan. Rússar hefðu hvorki burði né vilja til að endurnýja flotann auk þess sem þeir væru bandamenn og samstarfsaðilar NATO-ríkjanna, ekki keppinautar og enn síður ógnvaldar.

Lokun Keflavíkurstöðvarinnar endurspeglaði litla áherslu NATO á sameiginlegar varnir á Norður-Atlantshafi og í Evrópu. Herafli Evrópuríkja var endurskipulagður og Bandaríkjamenn fluttu tugþúsundir hermanna frá álfunni. 

Eftir árásina á New York og Washington 11. september 2001 var 5. gr. Atlantshafssáttmálans virkjuð í fyrsta sinn og NATO-ríkin lögðu Bandaríkjamönnum lið við að uppræta hryðjuverkamenn í Afganistan. Þeim hernaði er ólokið enn þann dag í dag.

Íslensk stjórnvöld áttu aðild að miklum breytingum innan NATO. Áhersla var lögð á þátttöku í friðargæslu undir merkjum bandalagsins bæði í Júgóslavíu fyrrverandi og Afganistan.

Loftrýmisgæsla


Eftir brotthvarf bandaríska varnarliðsins í lok september 2006 var engin loftrýmisgæsla yfir Íslandi þar til í maí 2008. Virku loftrýmiseftirliti var hins vegar sinnt af Ratsjárstofnun sem íslensk stjórnvöld ráku. 

Nýr kafli í aðildarsögu Íslands að NATO hófst 5. maí 2008 með komu fjögurra Mirage 2000 orrustuþotna frá franska flughernum auk 110 manna liðsafla vegna útgerðar vélanna til loftrýmisgæslu á Íslandi. Tilhögun hennar var samþykkt af fastaráði NATO í júlí 2007 vegna óska  Geirs H. Haarde forsætisráðherra á leiðtogafundi NATO í Riga í nóvember 2006. 

Ólíkar þjóðir hafa sent flugvélar og liðsafla til að sinna loftrýmisgæslunni frá 2008, þeirra á meðal Finnar og Svíar sem eru utan NATO en hafa stóraukið samstarf sitt við bandalagið undanfarin ár.

Á Keflavíkurflugvelli er öryggissvæði þar sem orrustuvélar og aðrar hervélar geta athafnað sig. Landhelgisgæsla Íslands hefur umsjón með þessu svæði og annast dagleg tengsl við þá sem það nota.

Þáttaskil í samskiptum


Gjörbreyting varð á samskiptum Rússa og aðildarþjóða NATO á árinu 2014. Í mars það ár innlimuðu Rússar hluta af Úkraínu, Krímskaga, og brutu með því alþjóðalög og samninga. Síðan hafa Rússar einnig lagt aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu lið. Um 10.000 manns hafa fallið í hernaðarátökum þar á rúmum þremur árum.

Þessir atburðir urðu til þess að innan NATO var að nýju tekið til við að leggja rækt við sameiginlegar varnir. Ákveðið var að auka útgjöld til varnarmála og endurskipuleggja varnir bandalagsríkjanna og samstarfsríkja þeirra í Evrópu. 

Aðildarþjóðir NATO í austurhluta Evrópu, einkum þær sem áður voru hluti Sovétríkjanna eins og Úkraína, óttuðust og óttast enn að þær verði beittar sama ofríki og Úkraínumenn. Til að auka öryggiskennd þessara þjóða var ákveðið að koma á fót fjórum 1.000 manna NATO-herfylkjum sem send yrðu til fjögurra landa: Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands undir stjórn herforingja frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Þýskalandi. Jafnframt var ákveðið að móta og þróa sérstakt viðbragðslið sem senda mætti með skömmum fyrirvara til hættusvæða í Evrópu.

Mikilvægi siglingaleiða


Þegar ákveðið var að fjölga að nýju hermönnum frá Norður-Ameríku, Bandaríkjunum og Kanada, á meginlandi Evrópu var augljóst að næst mundi athyglin beinast að samgönguleiðum yfir N-Atlantshaf í lofti og á sjó. Samhliða er nauðsynlegt að huga að ráðstöfunum á þeim svæðum sem eru best fallin til eftirlits með umferð herskipa og kafbáta um hafið. Þar skiptir GIUK-hliðið (svæðið frá Grænlandi um Ísland til Skotlands) sköpum eins og á tíma kalda stríðsins þegar þar var varnarlína gegn sókn sovéskra kafbáta suður Noregshaf.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, undirrituðu 29. júní 2016 sameiginlega yfirlýsingu um samstarf á sviði varnarmála. Yfirlýsingin er viðbót við samkomulag sem undirritað var við bandarísk stjórnvöld haustið 2006 og rúmast innan tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Þar er meðal annars kveðið á um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tímabundna viðveru kafbátaleitarvéla, náið samráð um öryggis- og varnarmál, viðhald og rekstur varnarmannvirkja, upplýsingaskipti og hagnýtt samstarf, meðal annars á sviði æfinga, leitar og björgunar og neyðaraðstoðar.

Bandaríski varavarnarmálaráðherrann var á ferð um Norður-Evrópu á árinu 2016 þegar hann kom hingað og lagði á ráðin um aukinn viðbúnað af hálfu Bandaríkjamanna. Bandaríska þingið samþykkti síðan að stórauka fjárveitingar vegna varna í Evrópu á fjárlagaárinu 2017. Þar er meðal annars fjárheimild vegna endurbóta á mannvirkjum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Íslenska utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að laga sig að breytingum vegna aukinna hernaðarumsvifa á Keflavíkurflugvelli með því að opna á ný varnarmálaskrifstofu innan vébanda sinna.  Þá hefur þjóðaröryggisráð tekið til starfa og heyrir starfsemi þess undir forsætisráðherra. Í þjóðaröryggisstefnunni eru aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin hornsteinar stefnunnar út á við.

Nýjar NATO-herstjórnir


Mikilvæg þáttaskil urðu í þessari sögu miðvikudaginn 8. nóvember þegar varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna samþykktu að komið yrði á fót tveimur nýjum herstjórnum annars vegar til að gæta samgönguleiða yfir Atlantshaf, frá Norður-Ameríku til Evrópu, og hins vegar til að skipuleggja flutning hermanna og hergagna innan Evrópu.

Kemur nú í hlut hermálanefndar NATO að útfæra skipulagið nánar og verða tillögur um starfsreglur herstjórnanna lagðar fyrir fund varnarmálaráðherranna í febrúar 2018. Þetta er í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins sem 29 aðildarríki NATO ákveða að setja upp nýjar herstjórnir. Á tíma spennunnar milli austurs og vesturs í kalda stríðinu hélt NATO úti 33 herstjórnum með 22.000 starfsmönnum. Nú eru starfsmennirnir 7.000 og herstjórnirnar sjö.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði þegar hann kynnti samþykkt varnarmálaráðherranna: „Við verðum að styrkja innviði eins og vegi, brýr, járnbrautir, flugbrautir og hafnir. NATO vinnur nú að því að laga borgaraleg mannvirki að hernaðarlegum kröfum.“

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvar nýju herstjórnirnar tvær verða. Þjóðverjar hafa lýst áhuga á að flutninga-herstjórnin verði í landi þeirra. Portúgal, Spánn, Frakkland og Bandaríkin hafa komið til álita fyrir Atlantshafsherstjórnina.


Stjórnarsáttmáli


Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð vorið 2013 gleymdist að minnast á NATO-aðildina og öryggi þjóðarinnar. Nú sitja formenn þessara flokka að viðræðum um myndun stjórnar með formanni vinstri-grænna sem sögðu fyrir kosningar að þeir vildu Ísland úr NATO.

Mikilvægt er að NATO gleymist ekki nú í viðræðum um stjórnarsáttmála og þar verði skýrt tekið fram að ríkisstjórn Íslands sé aðili að aðgerðum bandalagsþjóðanna til að tryggja öryggi á N-Atlantshafi og þar með Íslands.