11.1.2019

Náið samstarf Bandaríkjanna og Íslands staðfest

Morgunblaðsgrein, föstudag 11. janúar 2019.

Umrót í alþjóðastjórnmálum er mikið nú um áramótin. Öryggismál eru í deiglunni og óvissa einkennir stjórnmál og viðskiptamál. Heimsbúskapurinn er viðkvæmur og horfur taldar á samdrætti.

Bretar standa enn í sömu óvissusporum og þegar þeir höfnuðu aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016. Theresa May forsætisráðherra gerði samkomulag við ESB en hefur enga tryggingu fyrir að breska þingið samþykki það. Gerist það ekki segir hún þjóð sína verða á „ókunnum slóðum“.

Forseti Bandaríkjanna er jafn óráðin stærð og þegar hann settist í Hvíta húsið fyrir tveimur árum. Fyrrverandi hershöfðingjar sem lögðu sig fram um að aðstoða og leiðbeina Donald Trump hafa horfið úr starfsliði hans. Spáð er að uppátækin minnki ekki við það.

31713697837_1f77a80e15_hUtanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna í Washington DC mánudaginn 7. janúar 2019.

Í umrótinu öllu er að minnsta kosti einn fastur punktur, óbreytt samstarf stjórnvalda Íslands og Bandaríkjanna megi marka yfirlýsingu sem birt var í Washington mánudaginn 7. janúar eftir að utanríkisráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo funduðu þar. Í yfirlýsingunni segir:

„Áratugum saman hefur verið mjög náið samband milli Bandaríkjanna og Íslands þar á meðal í öryggis- og varnarmálum, norðurslóðamálum, viðskiptum, fjárfestingum, menningu, menntun og almennum samskiptum fólks. Þetta hefur stuðlað að stöðugleika og velsæld á Norður-Atlantshafssvæðinu.

Breytingar á strategísku umhverfi á Norður-Atlantshafi og á Norðurskautssvæðinu staðfesta enn mikilvægi langvarandi samstarfs  Bandaríkjanna og Íslands í öryggismálum. Með vísan til þessa munum við efla samráð okkar og samvinnu innan NATO og við framkvæmd tvíhliða varnarsamningsins.

Bandaríkin eru orðin stærsta tvíhliða viðskiptaríki Íslands og bandarískir ferðamenn eru stærsti einstaki hópur gesta á Íslandi. Engu að síður eru enn fyrir hendi færi til frekari umsvifa í verslunarsamskiptum okkar og Bandaríkin og Ísland munu kanna tækifæri til að bæta aðstæður fyrir tvíhliða viðskipti og fjárfestingu.

Ísland tekur innan skamms við formennsku í Norðurskautsráðinu og mun vinna náið með Bandaríkjunum og öðrum aðildarríkjum að því að efla samstarf á svæðinu.“

Mikilvægt varnarsamstarf

Það heyrir til undantekninga að forystumenn okkar árétti í ræðum sínum mikilvægi þess að viðhalda góðum, opnum tengslum við nágrannaþjóðirnar. Í ofangreindri yfirlýsingu er það þó gert á skýran og réttmætan hátt.

Athygli vekur hve öryggis- og varnarmálin ber þarna hátt. Hafa þau ekki sett slíkan svip á sameiginlegar yfirlýsingar ríkisstjórna landanna frá því að hópur ráðherra með Geir H. Haarde forsætisráðherra í fararbroddi fór til Washington í október 2006 til að hnýta pólitíska enda eftir brottför bandaríska varnarliðsins 30. september 2006.

Þá rituðu Geir og utanríkisráðherrar landanna, Valgerður Sverrisdóttir og Condoleezza Rice, undir samkomulag sem gert var „með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á öryggismálum í heiminum“ eins og það var orðað svo stuttaralega. Markmið þess var meðal annars að „styrkja tvíhliða varnarsamstarfið og leggja traustan grundvöll að framtíðarsamstarfi ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála.“

Í nýju yfirlýsingunni er allt annar pólitískur tónn er var árið 2006. Breytingarnar á öryggismálum í heiminum hafa gengið í allt aðra átt en ætlað var árið 2006. Þáttaskilin urðu árið 2014 þegar hernaðarlegt áreiti Rússa hófst í garð Úkraínu og þeir innlimuðu Krímskaga.

Þá er það nýmæli í yfirlýsingum af þessu tagi að vikið sé að Norðurskautssvæðinu á þennan hátt samhliða því sem rætt er um öryggi á Norður-Atlantshafi. Til þessa hefur athyglin vegna öryggisgæslu mest beinst að siglingaleiðunum yfir N-Atlantshaf fyrir sunnan Ísland.

Aukin hernaðarumsvif

Í hættumatsskýrslu leyniþjónustu danska hersins árið 2018 sem birtist skömmu fyrir jól segir að ríkin fimm sem eiga land að Norður-Íshafi og mynda Norðurskautsráðið auk Finnlands, Íslands og Svíþjóðar fylgi öll samstarfsstefnu á svæðinu. Á hinn bóginn verði vart við aukinn hernaðarlegan áhuga og umsvif þar. Meiri líkur séu því á spennu milli Norðurskautsríkjanna. Vaxandi áhugi Kínverja, sem eiga áheyrnaraðild að ráðinu, kalli á viðbrögð en skapi Norður-Íshafsríkjunum einnig tækifæri.

NATO-varnaræfingin mikla með þátttöku Finna og Svía, Trident Juncture, sem hófst hér um miðjan október 2018 og færðist síðan norður á bóginn sýndi andsvar ríkjanna við Norður-Atlantshaf við hervæðingu Rússa við Norður-Íshaf. Líklegt er að NATO-ríkin reyni að draga línu sína eins norðarlega og frekast er kostur. Þetta hefur áhrif á hernaðarlegt gildi Íslands.

Danska leyniþjónustan telur að samstarfsstefnan innan Norðurskautsráðsins sé nægilega sveigjanleg til að þola hervæðingu og spennu að einhverju marki. Verði þrýstingurinn of mikill kunni að reyna verulega á samstarfsrammann. Það verði þess vegna æ brýnna fyrir ríkin við Norður-Íshaf að skapa hæfilegt jafnvægi milli eigin hernaðarumsvifa og viljans til að takast sameiginlega á við svæðisbundin verkefni.

Í formennsku Norðurskautsráðsins frá maí 2019 til 2021 verða Íslendingar að hafa auga á þessari þróun. Skynsamlegast er að þróa samstarf innan ráðsins á þann veg að þar verði lögð áhersla á traustvekjandi aðgerðir í öryggis- og varnarmálum. Ólíklegt er að það takist því að að Rússar eru sérstaklega varir um sig á þessum slóðum. Þar er aðsetur langdrægu kjarnorku-kafbátanna, lykilþáttarins í ógnarherstyrk þeirra.

Sókn Kínverja

Kínverska stjórnin tilkynnti formlega í júní 2017 að siglingaleiðir í Norður-Íshafi væru hluti samgöngu- og viðskiptaáætlunarinnar miklu sem kennd er við belti og braut. Markmið hennar er tryggja kínverska aðstöðu sem víðast í heiminum með fjárfestingu í innviðum og hvers kyns viðskiptum. Þá hefur kínverska stjórnin mótað eigin norðurslóðastefnu sem kynnt var fyrir ári. Henni verður fylgt hvað sem tautar og raular.

Langtímamarkmið Kínverja á norðurslóðum er að auka áhrif sín á svæðinu og aðgang að siglingaleiðum á Norður-Íshafi og nágrenni þess.  Þá vilja þeir hafa hag af nýtingu auðlinda þar.

Um þessar mundir hafa Kínverjar mestan áhuga á siglingaleiðunum að mati dönsku leyniþjónustunnar. Þær sameini stefnuna um belti og braut og norðurslóðastefnuna. Áhrifanna gæti nú þegar í meiri fjárfestingum kínverskra ríkisstofnana og opinberra sjóða.

Sé litið til Íslands í þessu ljósi hefur norðausturhornið sérstakt aðdráttarafl.  Kínversk rannsóknastöð hefur verið opnuð að Kárhóli í Reykjadal í N-Þingeyjarsýslu. Hún er liður í sókn Kínverja á norðurslóðir. Upphaflegur tilgangur stöðvarinnar árið 2014 var að skapa aðstöðu til norðurljósarannsókna. Árið 2017 var ákveðið að uppfæra stöðina þannig að hægt væri að stunda fleiri rannsóknir til dæmis í haffræði, jarðeðlisfræði og líffræði.

Á sínum tíma völdu Bandaríkjamenn Miðnesheiði á suðvesturhorni landsins þegar þeir lögðu flugvöll vegna ferða yfir Norður-Atlantshaf. Sé litið á landsvæði vegna umsvifa í og úr norðri er norðausturhornið staðurinn. Landafræði og stjórnmál tvinnast jafnan saman í herfræðilegu tilliti, það er geopólitíkin.