30.11.2018

Margslungin sigurganga Krists

Kristur - saga hugmyndar - umsögn í Morgunblaðinu 30. nóvember 2018

Í bókinni Kristur fjallar Sverrir Jakobsson um það hvernig rótgrónar hugmyndir um Krist urðu til og hvernig þær mótuðust.

Útbreiðsla kristinnar trúar á fyrstu áratugunum og öldunum eftir krossfestinguna er undrunarefni. Talið er að um 300 hafi kristnir menn verið um sex milljónir, fjölgað úr um 200.000 um aldamótin 200.

Árið 312 taldi Constantínus mikli keisari að kristni guðinn hefði veitt honum brautargengi í valdabaráttu í Rómaveldi. Hann lét skírast og tilkynnti árið 313 að engar hömlur ættu lengur að vera á trúariðkun kristinna manna. Undir lok aldarinnar er talið að um helmingur 60 milljón íbúa keisaradæmisins hafi aðhyllst kristna trú.

Við dauða Krists árið 30 mynduðu lærisveinar hans og fáeinar konur, um 20 manns, Jesúhreyfinguna. Hafi félagafjöldi í henni verið um 30 milljónir árið 400 má kenna það við sigurgöngu.

Kristur-saga-hugmyndar

Í bókinni Kristur lýsir dr. Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, því sem gerðist. Hann segist í inngangi fjalla um það »hvernig þetta hófst allt saman, hvernig rótgrónar hugmyndir um Krist urðu til, hvernig þær mótuðust og af hverju þær eru svo eðlisólíkar«. Sverrir veitir sögulegt yfirlit en verður að sjálfsögðu einnig að bregða ljósi á guðfræðileg álitaefni.

Sagan hefst á lýsingu á stjórnkerfi Rómaveldis og stöðu Pontíusar Pílatusar innan þess. Henni lýkur árið 800 þegar Karlamagnús er krýndur af páfa og Hið heilaga rómverska keisaradæmi kemur til sögunnar en það rann ekki á enda fyrr en árið 1806.

Þetta er saga um grundvöll menningar okkar Íslendinga og annarra þjóða sem búa við stjórnkerfi mótað af kristnum viðhorfum. Sverrir er ekki knúinn áfram af sannfæringarþörf gagnvart lesandanum um gildi boðskaparins um Krist. Þvert á móti er texti hans hófstilltur og aldrei er gengið lengra en finna má stað í heimildum. Er þeirra oft getið innan sviga í textanum sjálfum.

Lesandinn sannfærist um að Sverrir hefur velt hverjum steini. Fyrir honum vakir að skýra menningarlegt samhengi okkar og upplýsa lesandann um »hvernig hugmyndin um Krist varð til og hvernig hún þróaðist þar til hún tók á sig mynd sem er kunnugleg okkur sem búum í kristnum samfélögum,« eins og segir í aðfaraorðum.

Lögð er áhersla á að draga fram samfellu í hugmynda- og trúarheimi en algjör sérstaða Jesús verður strax ljós. Þótt hann sé úr röðum Gyðinga hikar hann ekki við að rísa gegn lögmáli þeirra. Helstu andstæðingar hans eru farísearnir, úr þeirra röðum kom þó sá sem réð mestu um útbreiðslu kristninnar, Páll postuli. Upprisinn Kristur birtist honum og snerist Páll þá til trúar á hann og hóf boðun hennar meðal annarra en Gyðinga í löndunum við Miðjarðarhaf.

»Hjá Páli postula hefst saga Krists þar sem henni lýkur í Markúsarguðspjalli, með dauða og upprisu. Páll er þess fullviss að Jesús hafi fórnað lífi sínu og friðþægt þannig fyrir syndir mannanna. Upprisa hans er til marks um sigur á dauðanum, ekki einungis sigur Krists heldur alls mannkyns. Endanleg staðfesting á þeim sigri væri væntaleg von bráðar,« segir á bls. 70 og á næstu bls.: »Þannig eru andi og hold hliðstæður lífs og dauða. Hér er ekki vísað í nein orð Jesú eða boðskap heldur er þetta útlegging Páls á merkingu fórnardauða hans og upprisu. Það siðferði sem Páll predikar hvílir á þessari forsendu.«

Sverrir fer í saumana á guðspjöllunum og bréfum Páls, Postulasögunni og öðrum textum sem mynda Nýja testamentið eins og það blasir við okkur nú á tímum. Höfundarnir höfðu ekki hugmynd um að þeir væru að semja aðra meginstoð Biblíunnar.

Irenaios (uppi um 130-202), biskup í Lugdunum (Lyon) tók saman texta og lagði grunn að Nýja testamentinu. Það olli ágreiningi meðal kristinna manna eins og síðan flest við túlkun textanna.

Þessar deilur eru raktar í knöppum stíl. Þær snerta ekki aðeins guðfræðilegan ágreining heldur einnig valdabaráttu veraldlegra höfðingja. Fyrir afskipti þeirra og viðleitni til að halda einingu innan ríkis síns knúðu höfðingjarnir á um sættir.

Hvernig átti að skilgreina þríeiningu föður, sonar og heilags anda? Voru faðir og sonur einn? Hver var staða Maríu guðsmóður? Mátti gera helgimyndir eða átti að lúta kröfum myndbrjóta?

Sverrir lýsir leiðunum að sátt um þessi málefni og önnur auk þess að segja stjórnmálasögu í stórum dráttum. Þegar litið er til þess að bókin er 305 bls. og þar af 28 undir heimildaskrá, myndaskrá, atriðisorðaskrá, mannanafnaskrá og staðanafnaskrá er ljóst að miklum fróðleik er safnað á tiltölulega fáar síður sem að auki eru margar skreyttar litmyndum af listaverkum tengdum efni bókarinnar.

Höfundurinn hlýtur oft að hafa staðið frammi fyrir erfiðum vanda við að velja og hafna af þeim mikla fróðleik sem hann aflaði sér við gerð bókarinnar. Seinni hluti verksins er verulega þyngri aflestrar en fyrri hlutinn. Með tímalínu þar yfir merkustu áfangana hefði lesturinn orðið auðveldari. Hinu má ekki gleyma að frásagnir af efni guðspjallanna og boðskap Páls eru lesandanum almennt kunnuglegri en lýsingar á guðfræðilegum og pólitískum átökum þar til menn ná loks saman um trúarjátninguna.

Um 100 listaverkamyndir eru í bókinni. Þær setja sterkan svip á hana og árétta áhrif Krists á list- og menningarsköpun af öllu tagi. Bókina tileinkar Sverrir »forvitnu stelpunni« sinni Jakobínu Lóu sem er áminning um hve fráleitt er að minnka áherslu á sögu kristninnar í námskrá og almennri menntun. Sá sem fer á mis við allt sem rekja má til Krists í daglegu lífi okkar kynnist ekki grunnstoð samfélagsins. Bók Sverris Jakobssonar er verðug umgjörð um hana.