27.1.2024

Lögin séu skýr og kerfið skilvirkt

Morgunblaðið, laugardagur, 27. janúar 2024.

Í umræðunum um straum hæl­is­leit­enda til lands­ins er látið eins og hann megi stöðva með því að segja skilið við Schengen-sam­starfið. Það er mis­skiln­ing­ur. Vand­inn snýr að ís­lenskri landa­mæra­vörslu og ís­lenskri út­lend­inga­lög­gjöf sem er mun mild­ari en ger­ist til dæm­is ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.

Á und­an­förn­um árum hafa dóms­málaráðherr­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hver af öðrum lagt til við sam­starfs­flokka í rík­is­stjórn að út­lend­inga­lög­un­um sé breytt. Sum­ar til­lög­urn­ar hafa, að vísu út­vatnaðar, kom­ist í gegn­um rík­is­stjórn og þing­flokka stjórn­ar­flokk­anna en síðan lent í pír­öt­um á alþingi. Það er grát­bros­legt að heyra þá sem vilja óbreytt eða opn­ara kerfi slá um sig í hæl­is­leit­endaum­ræðum við sjálf­stæðis­menn og segja: Já, en þið hafið átt dóms­málaráðherra síðan 2013!

Á tæp­um sex árum sem dóms­málaráðherra kynnt­ist sá sem þetta rit­ar því hve lít­ill skiln­ing­ur var á kröf­um um hert laga­skil­yrði hér til að tak­ast á við af­brot. Á alþingi var andstaða við að færa lög­reglu heim­ild­ir eða tæki til að tak­ast á við verk­efni í sí­breyti­leg­um af­brota­heimi. Brota­menn fylgj­ast með gangi stjórn­mál­anna og verja hindr­un­ar­laust fjár­mun­um og hug­viti til að standa feti fram­ar en verðir lag­anna.

Und­ir­heima­menn hafa í opn­um lýðræðis­ríkj­um sömu tæki­færi og aðrir til að móta al­menn­ings­álit sér í vil. Þeir geta komið sjón­ar­miðum sín­um á fram­færi und­ir margs kon­ar yf­ir­skini. Oft leyna fingra­för­in sér þó ekki.

L1010696Í flugstöð Leifs Eiríkssonar (mynd: ISAVIA)

Þegar deilt er um landa­mæra­vörslu og ferðir fólks landa á milli láta aðgerðahóp­ar sem vilja opin og gæslu­laus landa­mæri að sér kveða. Við hlið þeirra eru hóp­ar eða fé­lög sem berj­ast fyr­ir því að lög séu teygð og toguð til að koma til móts við kröf­ur hæl­is­leit­enda. Op­in­ber­ir aðilar eiga einnig aðild að aðgerðum af þess­um toga eins og birt­ist meðal ann­ars í tjöld­um á Aust­ur­velli til stuðnings Palestínu­mönn­um. Þar á meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur hlut að máli.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og ut­an­rík­is­ráðherra, gekk fram fyr­ir skjöldu fyr­ir viku og mót­mælti tjald­búðunum á Aust­ur­velli. Þær hurfu síðan 24. janú­ar eft­ir að hafa staðið frá 27. des­em­ber 2023.

Bjarni benti meðal ann­ars á að árin 2022 og 2023 hefðu borist á milli 4.000 og 5.000 um­sókn­ir um alþjóðlega vernd, hæl­is­um­sókn­ir, hér hvort ár um sig. Fjöld­inn kunni að verða svipaður í ár. Töl­urn­ar jafn­ast á við heilda­r­í­búa­fjölda í Vest­manna­eyj­um eða Grinda­vík.

Ráðherr­ann seg­ir kostnað við að meðhöndla þess­ar beiðnir hafa verið um 15 millj­arðar króna á ári. Um 2.800 um­sækj­end­ur séu í þjón­ustu á veg­um Vinnu­mála­stofn­un­ar, og hafi m.a. þurft að leigja hót­el til að finna pláss fyr­ir fólk. Gert sé ráð fyr­ir að bæta þurfi við 1.000-1.500 pláss­um í bú­setu­úr­ræðum á ár­inu 2024.

Í frétt Morg­un­blaðsins 24. janú­ar sagði að nú væru um 2.100 manns í bú­setu­úr­ræðum á veg­um Vinnu­mála­stofn­un­ar. Skoða má þess­ar töl­ur í ljósi fjölda Grind­vík­inga sem neyðst hafa til að flytj­ast bú­ferl­um vegna jarðelda, gliðnun­ar lands og skjálfta.

Op­in­ber­ar töl­ur sýna að ís­lensk út­lend­inga­lög virka eins og seg­ull á hæl­is­leit­end­ur. Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra ætl­ar enn að gera til­raun til að loka gluf­um og færa út­lend­inga­lög­in nær því sem er ann­ars staðar.

Bret­ar ákváðu árið 1985 að standa utan við Schengen-sam­starfið. Þeir áttu hins veg­ar aðild að evr­ópska hæl­is­leit­enda­kerf­inu (CEAS) en sögðu sig frá því við úr­sögn­ina úr ESB (Brex­it). Það leiddi til þess að Bret­ar eru ekki leng­ur bundn­ir af Dyfl­inn­ar­reglu­gerðinni. Hún skyld­ar hæl­is­leit­end­ur til að sækja um hæli þar sem þeir koma fyrst inn á Schengen-svæðið. Sérstaða Bret­lands hef­ur fjölgað þeim sem reyna að kom­ast þangað ólög­lega í smá­bát­um yfir Ermar­sund.

Eitt helsta fyr­ir­heit þeirra sem börðust fyr­ir Brex­it var að stöðva ólög­leg­an straum aðkomu­manna til Bret­lands.

Ný­lega birt­ust frétt­ir um að í fyrra hefðu ná­lægt 16.000 hæl­is­leit­end­ur í Bretlandi, þar á meðal þeir sem komu á bát­um yfir Ermar­sund, fengið leyfi til að starfa í grein­um þar sem skorti starfs­menn fyr­ir um 80% af meðallaun­um í grein­inni. Séu laun­in hærri en viku­leg fé­lags­leg greiðsla frá rík­inu missa þeir hana. Þeir geta fengið að búa í hús­næði á veg­um inn­an­rík­is­ráðuneyt­isns greiði þeir eitt­hvað af kostnaði við það.

Þess­ar frétt­ir voru ekk­ert gleðiefni fyr­ir Brex­it-sinna og sagði Nig­el Fara­ge, fræg­asti for­ystu­manna þeirra, að þetta kallaði aðeins á fleiri hæl­is­leit­end­ur til Bret­lands. „Þetta er hrika­legt. Um leið og smygl­ar­arn­ir geta aug­lýst störf og frítt hús­næði vilja jafn­vel fleiri koma. Rú­anda skipt­ir alls engu í sam­an­b­urði við þetta.“

Ris­hi Sunak, for­sæt­is­ráðherra Íhalds­flokks­ins, reyn­ir nú með öll­um ráðum að fá breska þingið til að samþykkja lög­gjöf sem heim­il­ar bresk­um stjórn­völd­um að kosta ferð fyr­ir hæl­is­leit­end­ur aðra leiðina til Rú­anda í von um að með því verði dregið úr áhuga þeirra á að leita til Bret­lands á smá­bát­um.

Eng­ir hæl­is­leit­end­ur koma hingað sjó­leiðis enn þá. Íslenska út­lend­inga­lög­gjöf­in lokk­ar þá hingað í flug­vél­um sem sum­ar lenda hér án þess að flugrek­end­urn­ir verði við lög­mæt­um kröf­um um skil farþegalista. Þeir bera fyr­ir sig per­sónu­vernd­ar­lög heima­lands síns. Lög­regla get­ur kært slík brot. Að tí­unda nöfn þess­ara flug­fé­laga er aðeins í þágu smygl­ara.

Kjarni máls­ins er að lög­gjöf­in sé skýr og af­drátt­ar­laus og kerfið sem eft­ir henni starfar sé skil­virkt. Skorti lög og tæki verður fram­kvæmd­in í sam­ræmi við það.