29.11.2024

Lífsflótti rímnasnillings

Umsögn, Morgunblaðið, föstudagur 29. nóvember 2024

Föstudagur, 29. nóvember 2024 Kallaður var hann kvennamaður – Sig­urður Breiðfjörð og samtíð hans ★★★★· Eft­ir Óttar Guðmunds­son. Skrudda, 2024. Innb., 298 bls. Heim­ilda- og nafna­skrár.

Und­ir lok bók­ar sinn­ar um Sig­urð Breiðfjörð og samtíð hans minn­ir Óttar Guðmunds­son á að hvarvetna þar sem Sig­urðar sé getið í ræðu eða riti birt­ist eina mynd­in sem sé til af hon­um. Helgi snikk­ari á Mel­um (d. 1888) hafi dregið hana upp eft­ir minni. „Sig­urður er góðleg­ur á mynd­inni, full­ur í vöng­um með nautna­leg­ar þykk­ar var­ir og klumbu­nef, sér­lega vel klædd­ur“ (281).

Óttar seg­ir það „skemmti­lega til­vilj­un“ að þessi sami Helgi hafi teiknað mynd af Jónasi Hall­gríms­syni á lík­bör­un­um. Sú mynd sé óaðskilj­an­leg­ur hluti af Jónasi. Helgi snikk­ari hafi ákveðið upp á sitt ein­dæmi hvernig þjóðin skyldi muna þessi tvö höfuðskáld nítj­ándu ald­ar.

„Eng­inn veit hversu lík­ar mynd­irn­ar eru fyr­ir­mynd­um sín­um og það mun aldrei upp­lýs­ast. Báðir þess­ir menn hafa runnið sam­an við mynd­ir Helga snikk­ara og orðið hluti af þeim,“ seg­ir Óttar (282).

10085d97-90c4-4a87-aad4-88400a08dfcd

Í bók­inni Kallaður var hann kvennamaður – Sig­urður Breiðfjörð og samtíð hans dreg­ur Óttar Guðmunds­son geðlækn­ir ekki upp nein­ar skjall­mynd­ir af höfuðskáld­un­um tveim­ur, nema síður sé. Skáld­in leita hug­ar­hægðar frá drykkju­skap, fá­tækt og hvers kyns basli í birtu skáld­gyðjunn­ar. Að þeim látn­um fara síðari tíma menn mýkri hönd­um um Jón­as en Sig­urð þótt rímna­skáldið góða hafi notið meiri og al­menn­ari vin­sælda í lif­anda lífi (1798-1846) en Jón­as (1807-1845).

„Báðir voru þeir undra­börn í skáld­skap en dóu úr alkó­hól­isma og ves­al­dómi á besta aldri,“ seg­ir á bók­ar­kápu.

Sig­urður kenndi sig við fæðing­ar­fjörð sinn. Hann fædd­ist í Rifg­irðing­um í Breiðafirði og seg­ir Óttar sögu hans allt frá upp­hafi til loka­dags án þess að nokkuð sé und­an dregið. Óttar dá­ist að sögu­hetju sinni með kost­um Sig­urðar og göll­um án þess að víkja sér und­an því sem nei­kvætt er. Kæmi ekki á óvart þótt ein­hverj­um þætti of fast að orði kveðið, til dæm­is í frá­sögn­um um slarkið, kvenna­mál­in og drykkju­skap­inn.

Sig­urður fór ung­ur til Kaup­manna­hafn­ar og nam þar beyk­isiðn. Þar kynnt­ist hann einnig dönsk­um skáld­skap og hreifst einkum af ljóðum skálds­ins Jens Bag­ge­sens. Í lýs­ingu Ótt­ars á náms­ár­um Sig­urðar í Kaup­manna­höfn dreg­ur hann skil á milli hans og þeirra sem stunduðu há­skóla­nám. Það tíðkaðist ekki að „fá­tæk­ir iðnsvein­ar um­gengj­ust þessa höfðingj­a­syni sem voru við nám í Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla“ (37). Íslensk stétta­skipt­ing flutt­ist til út­landa.


Þarna mót­ast eitt af meg­in­stefj­um bók­ar­inn­ar. Við það bæt­ist síðan að mennta­menn­irn­ir líta niður á kveðskap Sig­urðar, rím­urn­ar. Dreg­ur til óvináttu milli manna vegna þeirra. Jón­as er í for­ystu gagn­rýn­enda.

Óttar rek­ur út­gáfu­sögu tíma­rits­ins Fjöln­is, mál­gagns Fjöln­ismanna, og lýs­ir þeim hverj­um um sig. Þar drógu Jón­as, Kon­ráð Gísla­son (1808-1891) og sr. Tóm­as Sæ­munds­son (1807-1841) vagn­inn. Ríkti ekki alltaf gagn­kvæm­ur kær­leik­ur í þeim hópi en geðþekk­ust er mynd höf­und­ar af sr. Tóm­asi.

Sig­urður var vel lag­hent­ur beyk­ir en fékk aldrei sveins­bréf. Það kom hon­um í koll síðar. Líf hans ein­kenn­ist af því að hann lét sig gjarn­an „hverfa“ frá þeim vand­ræðum sem hann skapaði sér í stað þess að tak­ast á við þau. Oft­ar en einu sinni komst hann í kast við lög­in.

„Eft­ir því sem næst verður kom­ist orti Sig­urður 30 rímna­flokka sem inni­halda 23.300 vís­ur. Auk þessa eru 830 vís­ur og 540 lengri er­indi í Smá­mun­un­um. Mikið er enn óprentað eft­ir Sig­urð og tals­vert talið vera týnt. Ljóðasmá­mun­ir Sig­urðar eru hefðbundn­ar ljóðabæk­ur sem eru ólík­ar rím­un­um og komu út 1836 og 1839,“ seg­ir á blaðsíðu 142. Þá skrifaði Sig­urður 52 bls. bók um dvöl sína á Græn­landi sem kom út í Kaup­manna­höfn 1836 og á 20. öld hjá Al­menna bóka­fé­lag­inu.

Það fell­ur ekki bein­lín­is að lýs­ing­um á líferni hans að tek­ist hafi að halda utan um og birta svona mikið af því sem hann orti. Hann var eft­ir­sótt­ur tæki­færis­höf­und­ur. Óttar dreg­ur taum hans og rímn­anna þegar seg­ir frá deil­um hans og Jónas­ar Hall­gríms­son­ar en er jafn­framt ein­læg­ur aðdá­andi „lista­skálds­ins góða“.

Bók­in er marg­brot­in. Óttar er vel rit­fær og sam­felld­an texta sinn um Sig­urð Breiðfjörð og samtíð hans brýt­ur hann upp með stutt­um lýs­ing­um á ævi þeirra sem við sögu koma, suma kafla kall­ar hann hug­leiðing­ar, mat eða álit geðlækn­is og hann á í ímynduðum bréfa­skipt­um við Sig­urð auk þess sem Óttar send­ir Jónasi bréf.

Óttar hik­ar ekki við að tengja löngu liðna at­b­urði inn í sam­tíma okk­ar enda fátt í mann­legu eðli þá ólíkt því sem nú er þótt þjóðfé­lagsramm­inn hafi verið ann­ar og ör­ygg­is­net skort fyr­ir snill­inga og alla sem glímdu við alkó­hól­isma.

Líf­leg kápu­mynd af Sig­urði er eft­ir Jó­hönnu Þór­halls­dótt­ur, eig­in­konu Ótt­ars. Nokkr­ar rit­vill­ur og mis­fell­ur eru í texta sem er und­ar­legt á tím­um góðra leiðrétt­ing­ar­for­rita.

Ein­kunn­ar­orð bók­ar­inn­ar eru:

Sann­ast að sop­inn þótti Sigga góður.

Kallaður var hann kvennamaður,

sem kannski hef­ur verið slaður.

Bók­in sann­ar að þetta var ekki neinn slef­burður um Sig­urð Breiðfjörð. Hann var glaðsinna undra­barn og sjálf­um sér verst­ur.