Lífsflótti rímnasnillings
Umsögn, Morgunblaðið, föstudagur 29. nóvember 2024
Föstudagur, 29. nóvember 2024 Kallaður var hann kvennamaður – Sigurður Breiðfjörð og samtíð hans ★★★★· Eftir Óttar Guðmundsson. Skrudda, 2024. Innb., 298 bls. Heimilda- og nafnaskrár.Undir lok bókar sinnar um Sigurð Breiðfjörð og samtíð hans minnir Óttar Guðmundsson á að hvarvetna þar sem Sigurðar sé getið í ræðu eða riti birtist eina myndin sem sé til af honum. Helgi snikkari á Melum (d. 1888) hafi dregið hana upp eftir minni. „Sigurður er góðlegur á myndinni, fullur í vöngum með nautnalegar þykkar varir og klumbunef, sérlega vel klæddur“ (281).
Óttar segir það „skemmtilega tilviljun“ að þessi sami Helgi hafi teiknað mynd af Jónasi Hallgrímssyni á líkbörunum. Sú mynd sé óaðskiljanlegur hluti af Jónasi. Helgi snikkari hafi ákveðið upp á sitt eindæmi hvernig þjóðin skyldi muna þessi tvö höfuðskáld nítjándu aldar.
„Enginn veit hversu líkar myndirnar eru fyrirmyndum sínum og það mun aldrei upplýsast. Báðir þessir menn hafa runnið saman við myndir Helga snikkara og orðið hluti af þeim,“ segir Óttar (282).
Í bókinni Kallaður var hann kvennamaður – Sigurður Breiðfjörð og samtíð hans dregur Óttar Guðmundsson geðlæknir ekki upp neinar skjallmyndir af höfuðskáldunum tveimur, nema síður sé. Skáldin leita hugarhægðar frá drykkjuskap, fátækt og hvers kyns basli í birtu skáldgyðjunnar. Að þeim látnum fara síðari tíma menn mýkri höndum um Jónas en Sigurð þótt rímnaskáldið góða hafi notið meiri og almennari vinsælda í lifanda lífi (1798-1846) en Jónas (1807-1845).
„Báðir voru þeir undrabörn í skáldskap en dóu úr alkóhólisma og vesaldómi á besta aldri,“ segir á bókarkápu.
Sigurður kenndi sig við fæðingarfjörð sinn. Hann fæddist í Rifgirðingum í Breiðafirði og segir Óttar sögu hans allt frá upphafi til lokadags án þess að nokkuð sé undan dregið. Óttar dáist að söguhetju sinni með kostum Sigurðar og göllum án þess að víkja sér undan því sem neikvætt er. Kæmi ekki á óvart þótt einhverjum þætti of fast að orði kveðið, til dæmis í frásögnum um slarkið, kvennamálin og drykkjuskapinn.
Sigurður fór ungur til Kaupmannahafnar og nam þar beykisiðn. Þar kynntist hann einnig dönskum skáldskap og hreifst einkum af ljóðum skáldsins Jens Baggesens. Í lýsingu Óttars á námsárum Sigurðar í Kaupmannahöfn dregur hann skil á milli hans og þeirra sem stunduðu háskólanám. Það tíðkaðist ekki að „fátækir iðnsveinar umgengjust þessa höfðingjasyni sem voru við nám í Kaupmannahafnarháskóla“ (37). Íslensk stéttaskipting fluttist til útlanda.
Þarna mótast eitt af meginstefjum bókarinnar. Við það bætist síðan að menntamennirnir líta niður á kveðskap Sigurðar, rímurnar. Dregur til óvináttu milli manna vegna þeirra. Jónas er í forystu gagnrýnenda.
Óttar rekur útgáfusögu tímaritsins Fjölnis, málgagns Fjölnismanna, og lýsir þeim hverjum um sig. Þar drógu Jónas, Konráð Gíslason (1808-1891) og sr. Tómas Sæmundsson (1807-1841) vagninn. Ríkti ekki alltaf gagnkvæmur kærleikur í þeim hópi en geðþekkust er mynd höfundar af sr. Tómasi.
Sigurður var vel laghentur beykir en fékk aldrei sveinsbréf. Það kom honum í koll síðar. Líf hans einkennist af því að hann lét sig gjarnan „hverfa“ frá þeim vandræðum sem hann skapaði sér í stað þess að takast á við þau. Oftar en einu sinni komst hann í kast við lögin.
„Eftir því sem næst verður komist orti Sigurður 30 rímnaflokka sem innihalda 23.300 vísur. Auk þessa eru 830 vísur og 540 lengri erindi í Smámununum. Mikið er enn óprentað eftir Sigurð og talsvert talið vera týnt. Ljóðasmámunir Sigurðar eru hefðbundnar ljóðabækur sem eru ólíkar rímunum og komu út 1836 og 1839,“ segir á blaðsíðu 142. Þá skrifaði Sigurður 52 bls. bók um dvöl sína á Grænlandi sem kom út í Kaupmannahöfn 1836 og á 20. öld hjá Almenna bókafélaginu.
Það fellur ekki beinlínis að lýsingum á líferni hans að tekist hafi að halda utan um og birta svona mikið af því sem hann orti. Hann var eftirsóttur tækifærishöfundur. Óttar dregur taum hans og rímnanna þegar segir frá deilum hans og Jónasar Hallgrímssonar en er jafnframt einlægur aðdáandi „listaskáldsins góða“.
Bókin er margbrotin. Óttar er vel ritfær og samfelldan texta sinn um Sigurð Breiðfjörð og samtíð hans brýtur hann upp með stuttum lýsingum á ævi þeirra sem við sögu koma, suma kafla kallar hann hugleiðingar, mat eða álit geðlæknis og hann á í ímynduðum bréfaskiptum við Sigurð auk þess sem Óttar sendir Jónasi bréf.
Óttar hikar ekki við að tengja löngu liðna atburði inn í samtíma okkar enda fátt í mannlegu eðli þá ólíkt því sem nú er þótt þjóðfélagsramminn hafi verið annar og öryggisnet skort fyrir snillinga og alla sem glímdu við alkóhólisma.
Lífleg kápumynd af Sigurði er eftir Jóhönnu Þórhallsdóttur, eiginkonu Óttars. Nokkrar ritvillur og misfellur eru í texta sem er undarlegt á tímum góðra leiðréttingarforrita.
Einkunnarorð bókarinnar eru:
Sannast að sopinn þótti Sigga góður.
Kallaður var hann kvennamaður,
sem kannski hefur verið slaður.
Bókin sannar að þetta var ekki neinn slefburður um Sigurð Breiðfjörð. Hann var glaðsinna undrabarn og sjálfum sér verstur.