12.12.2022

Langur skuggi Kóreustríðsins

Umsögn um bók, Morgunblaðið, mánudagur 12. 12. 2022

Sagn­fræði Kór­eu­stríðið ★★★★· Eft­ir Max Hastings. Þýðandi Magnús Þór Haf­steins­son. Ugla, 2022. Innb. 559 bls., mynd­ir, kort og nafna­skrá.

Bók Max Hastings (f. 1945) um Kór­eu­stríðið kom upp­haf­lega út árið 1987. Magnús Þór Haf­steins­son studd­ist við út­gáfu frá 2020 við þýðingu sína en ekki seg­ir frá því hvort text­inn hafi breyst á ár­un­um 33 sem liðu frá fyrstu út­gáf­unni. Hæpið er að svo sé. Höf­und­ur­inn lagði sig fram um sam­töl við heim­ild­ar­menn í Kína, Suður-Kór­eu, Bretlandi og Banda­ríkj­un­um við gerð bók­ar­inn­ar. Árið 1987 voru 34 ár liðin frá því að sam­komu­lag náðist um vopna­hléið sem batt enda á stríðið í Kór­eu, lang­ur skuggi þess hvíl­ir þó yfir okk­ur enn þann dag í dag.

Árið 1986 varð Hastings aðal­rit­stjóri Daily Tel­egraph í London til 1995 og síðan Even­ing Stand­ard til 2002. Hann skrifaði ekki sagn­fræðiverk á meðan hann var aðal­rit­stjóri en síðan hef­ur hann verið óstöðvandi. Árið 2011 sendi hann til dæm­is frá sér bók­ina Vít­islog­ar , sögu annarr­ar heims­styrj­ald­ar­inn­ar, sem Magnús Þór þýddi og Ugla gaf út í fyrra (880 bls. sjá um­sögn um hann hér í blaðinu 28. des­em­ber 2021). Vít­islog­ar er mest selda bók Hastings. Nú í októ­ber 2022 kom út bók­in ABYSS: The Cu­ban Missile Cris­is 1962 – Ginn­ungagap: Kúbu­eld­flauga­hætt­an 1962.

Meg­in­málið í Kór­eu­stríðinu er 511 bls., því fylgja: þakk­ir, tímaröð, viðauki, skrá yfir kort og mynd­ir, til­vís­an­ir, heim­ilda- og nafna­skrár, alls er bók­in 559 bls.

Hastings dreg­ur stóra drætti heims­stjórn­mála og her­stjórn­ar­list­ar, lýs­ir skap­gerð og hæfi­leik­um stjórn­mála­manna og hers­höfðingja, fer í saum­ana á því sem gerðist í lyk­il­orr­ust­um og lýs­ir aðbúnaði og lífi her­manna jafnt á víg­vell­in­um og í fanga­búðum. Þá eru sér­stak­ir kafl­ar um leyniþjón­ustu­stríð og um loft­hernað.

Áhugi les­and­ans ræður hve djúpt hann sökkv­ir sér ofan í ein­staka kafla; bar­daga­lýs­ing­ar eru ná­kvæm­ar fyr­ir þá sem hafa áhuga á þeim, aðrir vilja kynn­ast stjórn­mála­átök­um. All­ir sem vilja fræðast um stríðið á Kór­eu­skaga fá for­vitni sinni svalað.

Vopna­hlés­samn­ing­ur­inn sem batt form­lega enda á stríðið 27. júlí 1953, fyr­ir tæp­um 70 árum, batt ekki enda á spenn­una sem leiddi af inn­rás Norður-Kór­eu­manna í júní 1950. Hún rík­ir á Kór­eu­skaga síðan. Skag­inn skipt­ist enn milli Norður-Kór­eu í skjóli Kín­verja og Rússa og Suður-Kór­eu sem reis­ir ör­yggi sitt á tví­hliða varn­ar­sam­starfi við Banda­ríkja­menn.

Þriðji ein­ræðis­herra Kim-ætt­ar­inn­ar fer með alræðis­vald í N-Kór­eu og hef­ur í heit­ing­um með kjarna­vopn­um og sí­fellt lang­dræg­ari eld­flaug­um. Kór­eu­stríðið leiddi til þess að Banda­ríkja­stjórn tók Formósu (Tæv­an) und­ir vernd­ar­væng sinn sem er síðan þyrn­ir í aug­um komm­ún­ista­stjórn­ar­inn­ar á meg­in­landi Kína. Rúss­ar styðja enn við bakið á komm­ún­ist­um í N-Kór­eu og frétt­ir hafa borist um vopna­flutn­inga þaðan til Rúss­lands vegna Úkraínu­stríðsins.

Við hrun Sov­ét­ríkj­anna varð ekki friðvæn­legra á svæðinu sem teng­ist Kór­eu­stríðinu og ekki held­ur við markaðsvæðing­una í Kína eða nán­ari sam­skipti Kín­verja og Banda­ríkja­manna. Sömu and­stæðu straum­arn­ir móta enn þenn­an heims­hluta. Mesta breyt­ing­in er að Kín­verj­ar eru ekki eins inn­hverf­ir og áður. Nú minna þeir stöðugt meira á sig með öfl­ug­um flota og sókn eft­ir ítök­um í ná­granna­lönd­un­um.

Kór­eu­stríðið spann­ar þrjú ár. Í raun var þó ekki bar­ist af full­um þunga nema frá júní 1950 til júní 1951. Þá tók við þreyt­i­stríð og tveggja ára þref um skil­mála vopna­hlés sem sner­ist að veru­legu leyti um skipti á stríðsföng­um.

Vet­ur­inn 1950/​51 lenti herafla Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) sem Banda­ríkja­menn leiddu og kín­verska hern­um sam­an. SÞ-her­inn sótti norður und­ir landa­mæri Kína og hrakt­ist svo þaðan und­an Kín­verj­um suður fyr­ir Seoul. Kín­verja skorti mátt til að halda stöðu sinni svo sunn­ar­lega á skag­an­um og með nýj­um banda­rísk­um hers­höfðingja, Matt­hew Ridgway, sneri SÞ-her­inn vörn í sókn.

E2fb6a5d-dcee-4041-a646-46a0887683ddBanda­ríski „hæ­stráðand­inn“ Douglas MacArth­ur (1880-1964) kem­ur mjög við sögu og deil­ur hans við Harry S. Trum­an Banda­ríkja­for­seta sem neydd­ist til að reka hers­höfðingj­ann og stríðshetj­una 11. apríl 1951 með yf­ir­lýs­ingu sem hófst á þess­um orðum:

„Það er með þung­um huga að ég hef kom­ist að þeirri niður­stöðu að Douglas MacArth­ur hers­höfðingi er ófær um að styðja stefnu Banda­ríkja­stjórn­ar og Sam­einuðu þjóðanna á þeim sviðum er varða op­in­ber­ar skyld­ur hans.“ (296)

Þessi stórat­b­urður gerðist um fjór­um vik­um áður en ritað var und­ir tví­hliða varn­ar­samn­ing Íslands og Banda­ríkj­anna. Hastings seg­ir að „mik­ill létt­ir“ hafi farið um önn­ur vest­ræn lýðræðislönd þegar MacArth­ur var rek­inn (308) enda hraus mörg­um hug­ur við stór­karla­leg­um hug­mynd­um hans um beit­ingu kjarna­vopna í átök­um við Kín­verja.

Magnús Þór Haf­steins­son þýðir bók­ina á þrótt­mikið mál sem verður stund­um stofn­ana­kennt eins og þegar talað er um „von­lausa skort­stöðu liðsein­inga“ MacArthurs, það er skort herafla hans á skot­fær­um o.fl. (65) eða að herafli hans hafi verið í „verk­efna­legu tómarými“, það er verið verk­efna­laus (280). Þegar nefnd eru til sög­unn­ar „hernaðarleg stuðpúðasvæði“ (505) sem Sov­ét­menn vildu eign­ast við landa­mæri sín er það lif­andi lýs­ing á því sem Pút­in vill núna ná fram í Úkraínu og víðar.

Magnús Þór set­ur á nokkr­um stöðum skýr­ing­ar inn­an hornklofa les­end­um til leiðbein­ing­ar. John J. Muccio (1900-1989), sendi­herra Banda­ríkj­anna í Seoul, sendi 25. júní 1950 fjar­rita­boð til Washingt­on um alls­herj­ar­sókn N-Kór­eu­manna gegn S-Kór­eu. (69) Þarna hefði mátt geta þess inn­an hornklofa að í ág­úst 1954 þegar til­kynnt var að Muccio yrði sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi birti Þjóðvilj­inn frétt með fyr­ir­sögn­inni: Einn kunn­asti sam­sær­ismaður Kór­eustyrj­ald­ar­inn­ar skipaður sendi­herra á Íslandi. Í frétt­inni sagði meðal ann­ars: „Hermdu frétta­menn að sendi­herra þessi væri engu ástríðum­inni fas­isti en sjálf­ur Syngman Rhee [for­seti S-Kór­eu].“ Kalda­stríðstónn mál­svara Sov­ét-komm­ún­ist­anna á Íslandi leyn­ir sér ekki.

Paul Nitze (1907-2004) er einnig getið. (64) Hann bar ábyrgð á þjóðarör­ygg­is­stefnu­skjali sem markaði tíma­mót í Banda­ríkj­un­um 1950. Nitze lagðist gegn því að Banda­ríkja­stjórn lýsti Kór­eu­stríðinu sem árás Sov­ét­ríkj­anna, það gæti leitt til þriðju heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Nitze var í ráðgjafaliði Ronalds Reag­ans for­seta á fund­in­um í Höfða í októ­ber 1986.

Hvað sem líður Kúbu­deil­unni hef­ur heim­ur­inn lík­lega aldrei staðið nær beit­ingu kjarna­vopna á víg­vell­in­um en í Kór­eustyrj­öld­inni og nú í Úkraínu.

Þessi marg­brotna bók á brýnt er­indi til sam­tím­ans, lík­ind­in milli Kór­eu­stríðsins og Úkraínu­stríðsins eru mik­il. Ekk­ert nema valdafíkn og drottn­un­ar­girni ein­ræðis­herra var til­efni stríðanna, und­ir­rót­in hverf­ur ekki nema með nýj­um stjórn­ar­herr­um og hátt­um í árás­ar­ríkj­un­um.