20.10.2017

Þingkosningarnar snúast líka um utanríkismál

Morgunblaðsgrein föstudaginn 20. október 2017

Í umræðum um hagsmunamál þjóðarinnar út á við eins og útlendingamál verða menn að ganga fram af festu og alvöru. Gera verður mun á lögmætum flóttamönnum og ólögmætum hælisleitendum sem koma hingað til að njóta félagslegrar aðstoðar á meðan tilhæfulausar umsóknir þeirra eru afgreiddar. 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði sl. vor að gert hefði verið „áhlaup“ á landið með straumi hælisleitenda frá Albaníu og Makedóníu, öruggum Evrópulöndum. Hún sagði að við þessu yrði að bregðast. Síðan bættust Georgíumenn í þennan hóp. Megi marka nýjustu tölur um tilhæfulausar hælisumsóknir hefur þeim fækkað. Skýr pólitísk afstaða skiptir máli á þessu sviði eins og öðrum.

Með vinstri stjórn breytast þessi pólitísku skilaboð til umheimsins megi marka orð frambjóðenda vinstri grænna (VG), Samfylkingarinnar og Pírata. Útlendingamálin eru með öðrum orðum málaflokkur sem kjósendur ættu að hafa í huga við kjörborðið.

Smyglarar á fólki hvort heldur í lögmætum eða ólögmætum tilgangi líta yfir sviðið og velja þann stað þar sem þröskuldurinn er lægstur. Hann hefur hvarvetna verið hækkaður í Evrópu. Hér vilja vinstri frambjóðendur lækka þröskuldinn enn frekar. Verði íslenski þröskuldurinn ekki hækkaður eykur það vanda og kostnað skattgreiðenda.

Þjóðir hafa lögmætra hagsmuna að gæta. Beri þjóð ekki gæfu til að kjósa þá til forystu sem vilja taka gæslu þeirra að sér lendir hún í ógöngum. Íslensk stjórnvöld verða að átta sig á hvert stefnir í alþjóðamálum og gæta þjóðarhagsmuna í samræmi við það.

Feilspor í Icesave-málinu


Galdurinn sem tryggir velgengni í utanríkismálum er að greina rétt hvernig hagsmunum þjóðarinnar er best borgið við ríkjandi aðstæður án þess að missa sjónar á gildi þess að eiga samstöðu með friðsömum, lýðræðislegum nágrannaríkjum.

Feilspor í utanríkismálum eru dýrkeypt. Slíkt spor var stigið með gerð Icesave-samninganna vorið 2009 undir forystu Svavars Gestssonar, Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, ráðamanna VG og Samfylkingar. Niðurstaðan í höndum þessa fólks var gegn hagsmunum þjóðarinnar. Stjórnvöld höfðu ekki þrek til að standa gegn kröfum Breta og Hollendinga.

Saga þessa sorglega máls sýnir hvaða víti ber að varast. Vinstri flokkarnir sömdu, þjóðin hafnaði samningum þeirra og EFTA-dómstóllinn í Luxemborg tryggði fullan sigur Íslendinga. Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, var hér á landi fyrir rúmri viku og ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við hann. Í samtalinu sagði:

„Spurður hvað hann vilji segja um Icesave-deiluna, nú þegar hægt er að líta um öxl og gera upp málið, segir Baudenbacher Icesave-málið sönnun þess að jafnvel þótt ESB sé ósátt við dóma EFTA-dómstólsins muni sambandið varla grípa til aðgerða gagnvart EFTA. „Sá ótti var alltaf fyrir hendi að ef ESB myndi ekki una niðurstöðunni myndi það grípa til aðgerða gegn EFTA.““

Í þessum orðum felst að aðildin að EFTA og dómstóllinn, sem er hluti af henni, eru Íslandi mikilvægt skjól gagnvart ESB. Innan ESB hefðu örlög okkar líklega orðið sömu og Grikkja sem settir voru í efnahagslega spennutreyju til að bjarga erlendum bönkum.

EES-samningurinn og Brexit


Í Icesave-málinu fékkst staðfesting á því að ESB sætti sig við niðurstöðu EFTA-dómstólsins þótt tvö ESB-ríki teldu mikið í húfi fyrir sig. Þetta kann að skipta miklu fyrir íslenska hagsmuni á komandi óvissuárum vegna úrsagnar Breta úr ESB – Brexit. Varðstaða um EES-samninginn er lykilatriði við gæslu íslenskra hagsmuna.

Tveggja ára úrsagnarfrestur Bretar gagnvart ESB rennur, samkvæmt sáttmála ESB, út í mars 2019. Breska stjórnin hefur að auki farið fram á tveggja ára umþóttunartíma, það er fram á vor 2021. Sama ár lýkur fjögurra ára kjörtímabili sem hefst hér með kosningunum 28. október. 

Í komandi kosningum velja kjósendur þingmenn til setu á kjörtímabili þegar reynir mjög á forystu og framkvæmd í samskiptum við ráðamenn í London. Sagan kennir að telji Bretar brýna eigin hagsmuni í húfi hika þeir ekki við að beita sér gegn okkur í einni mynd eða annarri – aðeins í eigin þágu.

Ný ESB-umsókn


Í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum 2009 til 2013 var ekki aðeins samið af sér Icesave-deilunni heldur var aðildarumsókn að ESB klúðrað. Umsóknin reyndist feigðarflan, til þess eins fallin að skapa óróa og upplausn í íslenskum stjórnmálum. Samfylkingin stjórnaði ferðinni og vinstri grænir voru viljalaust verkfæri þeirra. 

Kannanir sýna miklar líkur á að þriggja flokka vinstri stjórn VG, Samfylkingar og Pírata ýti nýrri ESB-aðildarumsókn úr vör. Kannanir sýna einnig að 87% kjósenda Samfylkingarinnar vilja taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið; 83% kjósenda Pírata eru hlynnt slíkum viðræðum og 45% kjósenda VG vilja aðildarviðræður við sambandið en 34% eru á móti því. 

Setjist fulltrúar þessara flokka í ríkisstjórn verður aðild að ESB meðal stefnumála hennar hvort sem þeir viðurkenna það fyrir kosningar eða ekki. Þjóðinni verður kastað út í átök um tilgangslaust mál hvort sem litið er á hagsmuni þjóðarinnar eða stöðuna innan ESB. Bretar verða í úrsagnarferli allt næst kjörtímabil. Að vinna að aðild Íslands að ESB samhliða varðstöðu um tvíhliða samskipti við Breta er uppskrift að vandræðum.

NATO-aðildin


Ráðstefnan Hringborð norðursins hefur verið haldin fimm sinnum í Hörpu. Í ár var í fyrsta sinn efnt til sérstakrar hliðarráðstefnu um öryggismál í tengslum við hringborðið. Öryggismálastofnun í München (MSC) efndi til þessarar hliðarráðstefnu vegna breyttra aðstæðna á norðurslóðum. München-stofnunin nýtur mikillar virðingar og er vettvangur áhrifamanna frá öllum heimshlutum.

NATO-ríkin stefna að því að auka eftirlit með kafbátaferðum á hafsvæðunum umhverfis Ísland, GIUK-hliðið dregur að nýju að sér hernaðarlega athygli. Tengslin milli gæslu öryggishagsmuna á Norður-Atlantshafi og fyrir botni Eystrasalts skipta meira máli en áður vegna aðildar Eystrasaltsríkjanna að NATO og öryggishagsmuna Finna og Svía.

Á næsta kjörtímabili reynir á íslensk stjórnvöld í þessu tilliti, að þau taki ákvarðanir sem þjóna hagsmunum þjóðarinnar og friðsamra nágranna hennar. Innan Samfylkingarinnar mega þeir sín minna en áður sem eru heilsteyptir í stuðningi sínum við NATO. Innan VG er andstaða við NATO-aðild og Píratar eru óþekkt stærð í öryggismálum með Edward Snowden sem bandamann í Moskvu.

Utanríkismál skipta höfuðmáli í kosningum. Sé litið til stefnunnar í útlendingamálum, afstöðunnar til ESB og stefnunnar í öryggismálum hafa kjósendur þann kost að kjósa yfir sig óvissu og upplausn. Þeir geta kosið vinstri flokkana sem fórnuðu hagsmunum Íslendinga í Icesave-málinu og ætla að hefja ESB-feigðarflanið að nýju.