Hætta á alþjóðlegu bakslagi
Morgunblaðið, laugardagur 18. júní 2022.
Í þjóðhátíðarvikunni komst ýmislegt á hreyfingu. Hér skal þrennt nefnt:
1. Eftir fjögur ár án landsfundar boðaði miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 15. júní til slíks fundar 4. til 6. nóvember 2022. Landsfundurinn fer með æðsta vald í málefnum flokksins, kýs forystumenn hans og mótar stefnu. Allt gerist í raun á fundinum sjálfum. Stefnan er mótuð og framganga einstaklinga ræður úrslitum um hvort þeir njóta trausts fundarmanna til forystustarfa, enginn framboðsfrestur er heldur gengið beint til kosninga.
Fundarboð miðstjórnarinnar blæs lífi í innra starf flokksins eftir dvala undanfarin COVID-ár. Á félagsfundum eru fulltrúar valdir til landsfundarsetu og umræður magnast um menn og málefni.
Bjarni Benediktsson formaður hefur haldið öruggum höndum um stjórnvöl flokksins og stýrt honum í gegnum brimskafla. Þá er hann þungavigtarmaðurinn í ríkisstjórn vegna farsællar stjórnar fjármála ríkisins og efnahagsmála þjóðarinnar.
Þegar tilkynnt var um landsfundinn sagðist Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor ekki sjá neitt sem benti til þess að nokkur í forystu flokksins ætlaði sér „að skora formanninn á hólm“. Allar „vangaveltur“ um það væru „ekkert annað en bara nauðaómerkilegur samkvæmisleikur“. Ummælin lýsa hve sterk staða Bjarna Benediktssonar er. Þau segja hins vegar ekkert um hvað gerist á landsfundinum – einmitt þess vegna er hann spennandi.
Úrslit nýlegra sveitarstjórnarkosninga sýna djúpar og sterkar rætur Sjálfstæðisflokksins um land allt. Hann er sannkallaður þjóðarflokkur. Brýnasta flokkslega verkefnið er að endurheimta sterka stöðu í Reykjavík. Höfuðborgin blómstrar ekki í hers höndum.
2. Níu ára stöðnun í virkjanamálum þjóðarinnar lauk 15. júní þegar alþingi leysti áætlunina um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlunina) úr álögum. Það var í samræmi við stjórnarsáttmálann frá 28. nóvember 2021 um að ljúka bæri þriðja áfanga rammaáætlunar auk þess sem kostum í biðflokki yrði fjölgað. Í sáttmálanum var gefið fyrirheit um að þingmenn hættu að kasta á milli sín tillögu sem fjórir umhverfisráðherrar hafa haft í fanginu. Þrisvar sinnum þar til nú var hún lögð fram án þess að komast úr þingnefnd.
Stjórnkerfið sem mótað var fyrir rúmum áratug með lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun virkar að sumu leyti eins og dragbítur á sviði þar sem nauðsynlegt er að bregðast við nýjum aðstæðum á skjótan og markvissan hátt. Í stjórnarsáttmálanum er mælt fyrir um að lögin verði endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd virkjunarkosta. Telur meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar alþingis að í ljósi reynslunnar sé mikilvægt að ráðast í lagaendurskoðunina „án tafar“. Þar skipti höfuðmáli að skapa traust á rammaáætlunarferlinu, útrýma tortryggni og auka sátt um einstaka virkjunarkosti. Enn fremur sé „mikilvægt að endurskoðað ferli stuðli að markmiðum um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni í takt við orkustefnu Íslands“.
Afgreiðsla alþingis á þriðju rammaáætluninni gefur vonir um að lög og stjórnsýsla á sviði orkumála verði löguð að nýjum og breyttum kröfum.
Frá skrúðgöngu 17. júní 2022. mbl.is/Kristinn Magnússon.
3. Fjármálastöðugleikanefnd seðlabankans sagði 15. júní að viðnámsþróttur kerfislega mikilvægra banka landsins væri mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra væri vel yfir lögbundnum mörkum. Gæta þyrfti þess að vaxandi efnahagsumsvifum fylgdi ekki yfirdrifin áhættusækni og óhóflegur vöxtur útlána sem gæti veikt viðnámsþrótt fjármálakerfisins. Yrði bakslag í alþjóðlegum efnahagsbata gæti það haft áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi.
Allar efnahagsfréttir frá nágrannalöndum austan hafs og vestan benda til að hættan á bakslagi sé veruleg.
Við þessar aðstæður samþykkti alþingi 14. júní fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027. Áður hafði ríkisstjórnin kynnt mótvægisaðgerðir vegna óvissuástandsins í heimsbúskapnum.
Í áliti meirihluta fjárlaganefndar alþingis vegna fjármálaáætlunarinnar segir að um þessar mundir taki efnahagslífið vel við sér eftir heimsfaraldur kórónuveiru. Verðbólgan sé helsta ógnin og áskorunin sem efnahagslífið þurfi að takast á við um þessar mundir.
Verðhækkanir á hrávörumarkaði eru ekki allar íslenska þjóðarbúinu í óhag.
Í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sagði meðal annars 8. júní að á fyrstu 5 mánuðum þessa árs næmi útflutningsverðmæti sjávarafurða 141 milljarði króna. Það væri 19% aukning frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Fyrstu 5 mánuði árs hefði útflutningsverðmætið aldrei verið meira eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná, sem er frá árinu 2002.
Því er spáð að árið 2022 verði að óbreyttu besta ár í sögu áliðnaðar á Íslandi. Umsvif í ferðaþjónustu vaxa hraðar og eru orðin meiri en spáð var.
Hagfræðideild Landsbankans birti 19. maí 2022 þjóðhags- og verðbólguspá: landsframleiðslan muni aukast um 5,1% á árinu 2022, útflutningur um 19,4%, einkaneysla um 3,5% og heildarfjármunamyndun um 6,2%. Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu tvö árin, 3,7% á næsta ári og 2,8% árið 2024. Gert er ráð fyrir um 1,5 milljónum erlendra ferðamanna í ár, 2 milljónum á næsta ári og um 2,4 milljónum árið 2024.
Allt ræðst þetta að lokum af heimsbúskapnum: 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt út og seld á erlendum mörkuðum, útflutningshlutfallið er hærra í álinu og hagur ferðaþjónustunnar ræðst af komu útlendinga.
Að hindra bakslagið er á hendi annarra.