23.12.2022

Grunnstefna NATO

Hér birtist íslensk þýðing á Grunnstefnu NATO eins og hún birtist á vefsíðu Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, varberg.is á Þorláksmessu, 23. desember 2022:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ritaði undir grunnstefnu NATO á ríkisoddvitafundi bandalagsins í Madrid 29. júní 2022. Hér birtist texti skjalsins í fyrsta sinn á íslensku. Frá þýðingunni er gengið af Varðbergi og er hún frjáls öllum sem hana vilja nýta sér enda sé getið heimildar, vardberg.is.

3220629c-001Þátttakendur í ríkisoddvitafundi NATO í Madrid 29. júní 2022.

Grunnstefna NATO

samþykkt 29. júní 2022 í Madrid

Aðfararorð

Við, þjóðhöfðingjar og stjórnarleiðtogar Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO), komum nú saman í Madrid á viðsjárverðum tímum fyrir öryggi okkar, heimsfrið og stöðugleika. Í dag staðfestum við nýja grunnstefnu til að tryggja að bandalag okkar sé í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

NATO hefur tryggt frelsi og öryggi bandalagsríkjanna í meira en sjötíu ár. Árangur okkar helgast af framlagi og fórnum þeirra kvenna og karla sem gegna herþjónustu á okkar vegum. Við stöndum í þakkarskuld við þau og fjölskyldur þeirra.

Við erum staðföst í ásetningi okkar um að vernda milljarð borgara landa okkar, verja yfirráðasvæði okkar og standa vörð um frelsi okkar og lýðræði. Við munum efla einingu, samheldni og samstöðu okkar og treysta þar á áralöng tengsl þjóða okkar yfir Atlantshafið og styrk sameiginlegra lýðræðislegra gilda okkar. Við ítrekum óhagganlega skuldbindingu okkar við Norður-Atlantshafssáttmálann og til að verja hvert annað gagnvart allri ógn, sama hvaðan hún kemur.

Við munum halda áfram að vinna að sanngjörnum og varanlegum friði fyrir alla og standa vörð um lög og reglur alþjóðasamskipta. Við munum viðhalda hnattrænni sýn og vinna náið með samstarfsaðilum okkar, ríkjum og alþjóðastofnunum, svo sem Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum, til að stuðla að heimsfriði og öryggi.

Ástand heimsmála einkennist af ágreiningi og ófyrirsjáanleika. Árásarstríð Rússneska sambandsríkisins gegn Úkraínu hefur spillt friði og gjörbreytt öryggisumhverfi okkar. Grimmileg og ólögleg innrás þess, ítrekuð brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og svívirðilegar árásir og óhæfuverk hafa valdið ólýsanlegri þjáningu og eyðileggingu. Sterk og sjálfstæð Úkraína er nauðsynleg fyrir stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Framkoma stjórnvalda í Moskvu endurspeglar mynstur herskárra aðgerða Rússa gegn nágrönnum sínum og samfélagi ríkjanna beggja vegna Atlantshafs. Við stöndum einnig frammi fyrir viðvarandi ógn af hryðjuverkum í fjölmörgum birtingarmyndum þeirra. Almennur óstöðugleiki, vaxandi hernaðarleg samkeppni og sókn einræðisafla ögra hagsmunum og gildum bandalagsins.

Ný grunnstefna okkar áréttar að lykilhlutverk NATO er að tryggja sameiginlegar varnir okkar hvert sem litið er. Þar eru skilgreind þrjú meginverkefni bandalagsins: fæling og varnir; forvarnir og stjórn á hættutímum; samstarf um öryggi. Við leggjum áherslu á nauðsyn þess að efla verulega fælingarmátt okkar og varnir sem hornstein skuldbindingar okkar um gagnkvæmar varnir sem felst í 5 gr. Atlantshafssáttmálans.

Grundvallartilgangur kjarnorkumáttar NATO er að varðveita frið, útiloka þvinganir og aftra árásum. Svo lengi sem kjarnavopn fyrirfinnast verður NATO kjarnorkubandalag. Markmið NATO er öruggari veröld fyrir alla; við leitumst við að skapa öryggisumhverfi fyrir heim án kjarnavopna.

Í grunnstefnunni er lögð áhersla á að viðnámsþróttur einstakra bandalagsríkja og bandalagsins í heild er nauðsynleg forsenda við framkvæmd allra meginverkefna okkar og styður við viðleitni okkar til að verja bandalagsríkin, samfélög okkar og sameiginleg gildi. Þar er einnig lögð áhersla á þverlægt mikilvægi þess að fjárfest sé í tæknilegri nýsköpun og tekið tillit til loftslagsbreytinga, öryggis einstaklinga og áætlunarinnar um konur, frið og öryggi við framkvæmd allra meginverkefna okkar.

Sýn okkar er skýr: við viljum lifa í heimi þar sem fullveldisréttur, landamærahelgi, mannréttindi og alþjóðalög eru virt og þar sem hvert ríki getur valið sína eigin leið, frjálst undan oki árásarógnar, þvingunar eða undirróðursstarfsemi. Við vinnum með öllum sem deila þessum markmiðum. Við stöndum saman sem bandamenn i til að verja frelsi okkar og leggja okkar af mörkum til friðsælli heims.

Tilgangur og grundvallarreglur

  1. NATO er staðráðið í að verja frelsi og öryggi bandalagsríkja sinna. Grundvallartilgangur og ríkasta skylda bandalagsins er að tryggja sameiginlegar varnir okkar gegn öllum ógnum, úr öllum áttum. Við erum varnarbandalag.
  2. Tengsl ríkjanna yfir Atlantshaf eru óhjákvæmileg fyrir öryggi okkar. Sameiginleg gildi tengja okkur órjúfanlegum böndum: frelsi einstaklingsins, mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Við stöndum staðföst við markmið og grundvallarreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og Norður-Atlantshafssáttmálans.
  3. NATO er einstakur, nauðsynlegur og óhjákvæmilegur vettvangur ríkja beggja vegna Atlantshafs til samráðs, samræmingar og aðgerða í þágu öryggis okkar hvers fyrir sig og sameiginlega. Við munum efla bandalag okkar á grundvelli órjúfanlegs öryggis okkar, samstöðu og óhagganlegs ásetnings um að verja hvert annað, eins og skráð er í 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Fælingar- og varnarmáttur okkar er hornsteinn þess ásetnings.
  4. Norður-Atlantshafsbandalagið mun áfram sinna þremur meginverkefnum: fælingu og vörnum; fyrirbyggjandi aðgerðum og stjórn á hættutímum; samstarfi um öryggi. Verkefnin styðja hvert við annað til að tryggja sameiginlegar varnir og öryggi allra bandalagsríkjanna.
  5. Við munum hver fyrir sig og sameiginlega efla tæknilegt forskot okkar og viðnámsþrótt. Að öðrum kosti getur bandalagið ekki gegnt meginhlutverk sínu. Við munum stuðla að góðum stjórnarháttum og taka mið af loftslagsbreytingum, öryggi borgara og áætluninni um konur, frið og öryggi ( e. Women Peace and Sceurity Agenda) í öllu okkar starfi. Við munum halda áfram að stuðla að kynjajafnrétti í samræmi við gildi okkar.

Strategískt umhverfi

  1. Friður ríkir ekki á Evró-Atlantshafssvæðinu. Rússneska sambandsríkið hefur brotið gegn venjum og grundvallarreglum sem stuðluðu að stöðugri og fyrirsjáanlegri skipan öryggismála í Evrópu. Við getum ekki útilokað árás á fullveldi og landamærahelgi bandalagsríkjanna. Strategísk samkeppni , almennur óstöðugleiki og tíð áföll einkenna öryggisumhverfið. Ógnirnar sem steðja að okkur eru hnattrænar og samtengdar.
  2. Einræðisöfl ögra hagsmunum okkar, gildum og lýðræðislegum lífsháttum. Þau fjárfesta í háþróuðum hefðbundnum vopnabúnaði, kjarnavopnum og flugskeytatækni með litlu gagnsæi eða lítilli hliðsjón af alþjóðlegum reglum og skuldbindingum. Strategískir keppinautar okkar reyna á viðnámsþrótt okkar og leitast við að nýta sér að ríki okkar eru opin, samofin og stafræn. Þeir trufla lýðræðislega ferla okkar og stofnanir og beina spjótum sínum að öryggi borgara okkar með fjölþáttaaðgerðum, bæði beint og í gegnum aðra. Þeir standa að skaðlegum aðgerðum í netheimum og í geimnum og ýta undir dreifingu upplýsingafalsana, koma af stað fólksflutningum, ráðskast með orkubirgðir og beita efnahagslegum þvingunum. Þessir aðilar eru fara einnig fremstir í markvissum aðgerðum til að grafa undan fjölþjóðlegum meginreglum og stofnunum og stuðla að einræðislegum stjórnarháttum.
  3. Rússneska sambandsríkið er stærsta og beinasta ógnin við öryggi bandalagsríkjanna og frið og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Það leitast við að koma á fót áhrifasvæðum og beinni stjórn með þvingunum, undirróðursstarfsemi, árásarógn og innlimunum. Beitt er hefðbundnum, netlægum og fjölþátta aðferðum gegn okkur og samstarfsríkjum okkar. Þrúgandi skipan herafla ríkisins, málflutningur og sannanlegur vilji til valdbeitingar í þágu pólitískra markmiða grefur undan virðingu fyrir alþjóðareglum. Rússneska sambandsríkið nútímavæðir kjarnavopnabúr sitt og framleiðir meira af nýstárlegum og ógnandi tvískiptum skotpöllum bæði fyrir kjarnavopn og hefðbundin vopn, samhliða ógnandi yfirlýsingum um notkun kjarnavopna. Það vinnur að því að grafa undan stöðugleika í löndum austan og sunnan við okkur. Í hánorðri er geta þess til að trufla liðsflutninga bandalagsins og frelsi til siglinga yfir Norður-Atlantshaf hernaðarleg ögrun við bandalagið. Hernaðaruppbygging stjórnvalda í Moskvu, þ.m.t. á Eystrasalts-, Svartahafs- og Miðjarðarhafssvæðunum, ásamt hernaðarlegri samþættingu við Belarús, ógnar öryggi okkar og hagsmunum.
  4. NATO sækist ekki eftir átökum og Rússneska sambandsríkinu stafar engin ógn af bandalaginu. Við munum sem fyrr bregðast við hótunum frá Rússlandi og fjandsamlegum aðgerðum með samstilltum og ábyrgum hætti. Við munum efla verulega fælingarmátt og varnir í þágu allra bandalagsríkjanna, auka viðnámsþrótt okkar gegn rússneskri valdbeitingu og styðja samstarfsríki okkar til að bregðast við óvinveittri íhlutun og ágengni. Í ljósi fjandsamlegrar stefnu og aðgerða Rússneska sambandsríkisins getum við ekki litið á það sem samstarfsaðila okkar. Við erum samt sem áður áfram reiðubúin að halda samskiptaleiðum við Moskvu opnum til að stýra og draga úr áhættu, koma í veg fyrir stigmögnun og til að auka gagnsæi. Við leitumst við að viðhalda stöðugleika og fyrirsjáanleika á Evró-Atlantshafssvæðinu og á milli NATO og Rússneska sambandsríkisins. Allar breytingar á tengslum okkar við Rússneska sambandsríkið velta á því að það láti af ógnandi framgöngu sinni og fari í öllu að alþjóðalögum.
  5. Hryðjuverk í hvaða mynd sem þau birtast eru skýrasta ósamhverfa ógnin við öryggi borgara okkar, heimsfrið og alþjóðlega hagsæld. Hryðjuverkasamtök leitast við að ráðast á eða hvetja til árása gegn ríkjum bandalagsins. Þau hafa fært út net sitt, eflt getu sína og fjárfest í nýrri tækni til að geta seilst lengra og drepið fleiri. Vopnaðar sveitir vígamanna, þ.m.t. fjölþjóðleg hryðjuverkasamtök og aðilar sem njóta stuðnings ríkja, nýta áfram átök og veikburða stjórnarhætti ríkja til að safna liði, ráðast í aðgerðir og festa sig víðar í sessi.
  6. Átök, viðkvæmt ástand og óstöðugleiki í Afríku og í Mið-Austurlöndum hafa bein áhrif á öryggi okkar og samstarfsríkja okkar. Nágrannaríki NATO í suðri , einkum Mið-Austurlönd, Norður-Afríka og Sahel-svæðin, standa frammi fyrir samtengdum vanda í öryggismálum, efnahags- og stjórnmála og vegna fólksfjölda. Loftslagsbreytingar, veikburða stofnanir, hættuástand í heilbrigðismálum og fæðuóöryggi auka enn frekar á vandann. Þessar aðstæður eru frjór jarðvegur fyrir fjölgun vopnaðra sveita vígamanna, þ.m.t. hryðjuverkasamtaka. Þær gera strategískum keppinautum einnig kleift að ógna með valdbeitingu og grafa undan stöðugleika.
  7. Af almennum óstöðugleika leiðir einnig ofbeldi gegn almennum borgurum, þ.m.t. kynferðislegt ofbeldi í átökum, auk árása á menningarminjar og umhverfistjóns. Óstöðugleiki ýtir undir nauðungarflutninga og þar með mansal og óvenjulega fólksflutninga. Þetta skapar alvarleg fjölþjóðleg mannúðarvandamál og grefur undan öryggi fólks og ríkja þar sem áhrifin eru hlutfallslega meiri á konur, börn og minnihlutahópa.
  8. Yfirlýst markmið Alþýðulýðveldisins Kína (ALK) og valdbeitingarstefna eru ögrun við hagsmuni okkar, öryggi og gildi. ALK beitir víðtækum pólitískum, efnahagslegum og hernaðarlegum aðferðum til að auka áhrif sín í heiminum og sýna mátt sinn samhliða því að fylgja torráðinni stefnu um áform og hernaðaruppbyggingu. Skaðlegum fjölþátta netaðgerðum ALK og ögrandi málflutningi og upplýsingafölsunum er beint að bandalagsríkjunum og skaða öryggi bandalagsins. ALK leitast við að ná stjórn yfir lykilgreinum tækni og iðnaðar og yfir mikilvægum grunnvirkjum, strategískum hráefnum og aðfangakeðjum. Það nýtir sterka efnahagsstöðu sína til að gera aðila sér strategískt háða og auka áhrif sín. Það vinnur að því að grafa undan lagastoðum alþjóðakerfisins þ.m.t. í geimnum, í netheimum og á úthafinu. Nánara strategískt samstarf Alþýðulýðveldisins Kína og Rússneska sambandsríkisins og atlaga þeirra að lögum og reglum alþjóðasamskipta gengur gegn gildum okkar og hagsmunum.
  9. Við erum sem fyrr opin fyrir uppbyggilegum samskiptum við ALK , þ.m.t. að auka gagnkvæmt gagnsæi með það fyrir augum að verja öryggishagsmuni bandalagsins. Við munum vinna saman með ábyrgum hætti, sem bandamenn, að því að takast á við kerfisbundnar ögranir ALK gegn öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu og tryggja varanlega getu NATO til að ábyrgjast varnir og öryggi bandalagsríkjanna. Við munum örva sameiginlega stöðuvitund, styrkja viðnámsþrótt og árvekni og verjast valdbeitingaraðferðum ALK og viðleitni til að sundra bandalaginu. Við munum standa vörð um sameiginleg gildi okkar og lagastoðir alþjóðakerfisins, þ.m.t. siglingafrelsi
  10. Stöðug barátta er um yfirráð í netheimum. Af illum ásetningi er reynt að veikja mikilvæg grunnvirki okkar, trufla opinbera þjónustu, safna upplýsingum, stela hugverkum og torvelda hernaðarlegar aðgerðir.
  11. Strategískir keppinautar og hugsanlegir andstæðingar fjárfesta í tækni sem gæti takmarkað aðgengi, athafnafrelsi og getu okkar í geimnum, mætti nota gegn borgaralegum og hernaðarlegum grunnvirkjum okkar, veikja varnir og skaða öryggi okkar.
  12. Ný og byltingarkennd tækni skapar bæði tækifæri og áhættu. Hún breytir eðli átaka, verður stöðugt strategískt mikilvægari og gegnir lykilhlutverki í hnattrænni samkeppni. Tæknilegir yfirburðir ráða sífellt meiru um árangur á vígvellinum.
  13. Upplausn á sviði vígbúnaðareftirlits, afvopnunarmála og banns við dreifingu hefur haft neikvæð áhrif á strategískan stöðugleika. Brot Rússneska sambandsríkisins gegn skuldbindingum vegna vígbúnaðareftirlits og afvopnunar og valkvæð framkvæmd þess á skuldbindingunum hafa skaðað strategíska umhverfið í heild. Enn ógnar öryggi okkar að hugsanlega kunni óvinveitt ríki eða óvinveittir sjálfstæðir gerendur að beita efna-, sýkla-, geisla- eða kjarnavopnum gegn NATO. Í Íran og Norður-Kóreu er haldið áfram að þróa kjarnorku- og eldflaugaverkefni landanna. Stjórnvöld Sýrlands, Norður-Kóreu og Rússneska sambandsríkisins hafa auk sjálfstæðra gerenda gripið til efnavopna. Í ALK er með hraði unnið að því að stækka kjarnavopnabúr landsins og hanna sífellt háþróaðri skotkerfi án þess að aukið sé gagnsæi eða í góðri trú boðist til að taka þátt í vígbúnaðareftirliti eða ráðstöfunum til að draga úr áhættu.
  14. Að takast á við loftslagsbreytingar er brýnt verkefni líðandi stundar sem hefur djúp áhrif á öryggi bandalsgríkjanna, Breytingarnar margfalda hættur og ógnir. Þær geta magnað átök, veikleika og geópólitíska samkeppni. Hækkandi hitastig veldur hækkun sjávarborðs, gróðureldum og tíðari og öfgakenndari veðrabrigðum, raskar samfélögum okkar, grefur undan öryggi og ógnar lífi og lífsviðurværi borgara okkar. Loftslagsbreytingar hafa einnig áhrif á starfsemi herafla okkar. Mannvirki okkar, tæki og herstöðvar eru viðkvæm fyrir áhrifum þeirra. Herir okkar þurfa að starfa við öfgakenndari veðurskilyrði og liðsinnis þeirra er oftar óskað til að bregðast við í neyðartilvikum.

Meginverkefni NATO

Fæling og varnir

  1. Þrátt fyrir að NATO sé varnarbandalag ætti enginn að draga í efa styrk okkar og ásetning til að verja hvern einasta þumlung yfirráðasvæðis bandalagsríkjanna, standa vörð um fullveldisrétt þeirra og landamærahelgi og hrinda sérhverri árás. Í þessu umhverfi strategískrar samkeppni munum við auka hnattræna árvekni okkar og áhrif til að fæla, verja og veita viðnám á öllum sviðum og til allra átta í samræmi við heildstæða sýn okkar. Fælingar- og varnarstaða NATO er reist á hæfilegri blöndu af kjarnavopnum, hefðbundnum vopnum og eldflaugavörnum ásamt viðbúnaði í geimnum og í netheimum. Hún miðast við varnir og meðalhóf og er í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Við munum beita hernaðarlegum og öðrum tækjum okkar á hæfilegan, samfelldan og samhæfðan hátt til að svara hvers kyns ógn sem steðjar að öryggi okkar með þeim hætti, á þeim tíma og á þeim vettvangi sem við veljum.
  2. Við munum efla fælingar- og varnarstyrk okkar umtalsvert til að útiloka að nokkrum hugsanlegum andstæðingi gefist tækifæri til árásar. Í þessu skyni munum við sjá til þess að verulegur og viðvarandi herafli sé á landi, sjó og í lofti þar á meðal með því að styrkja samhæfðar loft- og eldflaugavarnir. Við munum skipa fælingar- og varnarmætti framarlega með því hafa á staðnum harðgeran, fjölhæfan, herafla tilbúinn til orrustu, öflugar stjórn- og eftirlitsstöðvar, skotfæri í geymslum og tæki með meiri getu og búnaði til að veita bandalagsþjóð liðsstyrk með stuttum eða engum fyrirvara. Við munum hafa jafnvægi milli herafla á staðnum og liðsauka þannig að styrki fælingarmáttinn og hæfni bandalagsins til að verjast. Með hliðsjón af ógnum sem að okkur steðja munum við sjá til þess að fælingar- og varnarstaða okkar sé trúverðug, sveigjanleg, sniðin að þörfum og sjálfbær.
  3. Við munum áfram leggja okkur fram um að styrkja sameiginlegan viðbúnað, viðbragð, hreyfanleika, samræmingu og samvirkni herafla okkar. Við munum hvert um sig og sameiginlega standa skil á alhliða herafla, hæfni, áætlunum, fjármunum, tækjum og mannvirkjum sem þarf til þess að tryggja fælingu og varnir, þar á meðal í áköfum, fjölþættum bardögum gegn kjarnavopnuðum keppinautum í fremstu röð. Við munum tryggja að fyrir hendi sé harðgert, viðnámsmikið og samhæft kerfi herstjórna, auka samræmingu milli varnarætlana einstakra ríkja og NATO og styrkja og nútímavæða heraflaskipulag NATO. Við munum styrkja þjálfun og æfingar, aðlaga og einfalda ferli okkar við töku ákvarðana, efla áætlanagerð og bæta virkni viðbragðkerfis okkar vegna hættuástands.
  4. Öryggi í siglingum er lykillinn að friði og hagsæld okkar. Við munum styrkja stöðu okkar og árvekni til halda aftur af og verjast öllum ógnum á hafi úti, viðhalda frelsi til siglinga, tryggja öryggi á siglingaleiðum og vernda helstu fjarskiptalínur okkar
  5. Við munum hraða stafrænni umbreytingu okkar, laga herstjórnakerfi NATO að upplýsingaöldinni og efla netvarnir okkar, netkerfi og grunnvirki þeirra. Við munum stuðla að nýsköpun, auka fjárfestingar okkar í nýrri og byltingarkenndri tækni til að viðhalda samvirkni okkar og hernaðarlegu forskoti. Við munum vinna saman við að aðlaga og innleiða nýja tækni, vinna með einkaaðilum, vernda nýsköpunarumhverfi okkar, móta staðla og fara að meginreglum um ábyrgð við meðferð gagna sem endurspegla lýðræðisleg gildi okkar og mannréttindi.
  6. Að viðhalda öruggum og óheftum aðgangi að geimnum og að netheimum eru lykill að skilvirkri fælingu og vörnum. Við munum styrkja færni okkar til að ná skilvirkum árangri í geimnum og í netheimum til að hindra, finna, bregðast við og svara öllum hættum með öllum tiltækum ráðum. Einstök árás eða röð tölvuuárása; eða óvinaaðgerð að, frá eða i geimnum; kynnu að komast á það stig að jafngilti vopnaðri árás og verða til þess að Norður-Atlantshafsráðið virkjaði 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Við virðum gildissvið alþjóðalaga og munum stuðla að ábyrgri hegðun í netheimum og í geimnum. Við munum einnig auka viðnámsþrótt viðbúnaðar okkar í geimnum og á netinu sem tryggir okkur sameiginlegar varnir og öryggi.
  7. Við munum beita harðgerari, samþættari og samræmdari aðferðum til að efla viðnámsþrótt bandalagsríkjanna og bandalagsins í heild gegn hernaðarógnum og annars konar ógnum og ögrunum gegn öryggi okkar í samræmi við ábyrgð einstakra ríkja og sameiginlega skuldbindingu í 3. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans.Við munum vinna að því að greina og draga úr strategískum veikleikum og fækka sviðum þar sem við erum háð öðrum, þ.m.t. að því er varðar mikilvæg grunnvirki okkar, aðfangakeðjur og heilbrigðiskerfi. Við munum auka orkuöryggi okkar og fjárfesta í varanlegum og öruggum orkubirgðum, birgjum og orkulindum. Við munum efla almannavarnir og aðferðir til að tryggja samfellda starfsemi stjórnvalda, nauðsynlega þjónustu fyrir íbúa okkar og borgaralegan stuðning við herafla okkar. Við munum örva getu okkar til undirbúnings, viðnáms og skjótra viðbragða við óvæntum strategískum áföllum og truflunum og tryggja samfellu í starfsemi bandalagsins.
  8. Við munum fjárfesta í hæfni til að búa okkur undir, hindra og verjast pólitískum, efnahagslegum, orkutengdum, upplýsingatengdum þvingunum og annarskonar fjölþátta aðgerðum ríkja og sjálfstæðra aðila. Fjölþátta aðgerðir gegn bandalagsríkjum gætu jafngilt vopnaðri árás og því leitt til þess að Norður-Atlantshafsráðið virkjaði 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Við munum áfram styðja samstarfsríki okkar til að bregðast við fjölþátta áskorunum og leitast við að hámarka samlegðaráhrif með öðrum viðeigandi aðilum, eins og Evrópusambandinu.
  9. Frumtilgangur kjarnavopna NATO er að varðveita frið, koma í veg fyrir þvinganir og hindra árás. Kjarnavopn eru einstök. Mjög hverfandi líkur eru á þeim aðstæðum að NATO gæti þurft að beita kjarnavopnum. Beiting kjarnavopna gegn NATO mundi gjörbreyta eðli átaka. Bandalagið hefur getu og staðfastan vilja til að láta andstæðing bera óbærilegan kostnað sem væri langt umfram þann ávinning sem nokkur andstæðingur gæti vænst að ná.
  10. Kjarnorkuherafli bandalagsins, einkum Bandaríkjanna, er lokatryggingin fyrir öryggi bandalagsins. Sjálfstæður kjarnorkuherafli Bretlands annars vegar og Frakklands hins vegar gegnir eigin fælingarhlutverki og er mikilvægt framlag til heildaröryggis bandalagsins. Að þessi bandalagsríki taki hvort um sig ákvarðanir í þessu efni eykur fælingarmáttinn með því að flækja stöðuna í augum hugsanlegra andstæðinga. Fælingarmáttur kjarnavopna NATO sækir einnig styrk til kjarnavopna Bandaríkjanna í Evrópu og framlags viðkomandi bandalagsríkja. Fyrir kjarnorku-fælingarmátt NATO skiptir miklu að einstök bandalagsríki leggja til flugvélar sem geta flutt tvær gerðir vopna.
  11. NATO mun taka öll nauðsynleg skref til að tryggja trúverðugleika, skilvirkni og öryggi verkefna sem snúa að fælingarmætti kjarnavopna. Bandalagið hefur einsett sér að tryggja meiri samþættingu og samræmi í getu og aðgerðum á öllum sviðum og tegundum átaka og áréttar einnig einstakt og sérstætt hlutverk fælingarmáttar kjarnavopna. NATO mun áfram viðhalda trúverðugri fælingu, styrkja strategísk fjarskipti, auka skilvirkni æfinga sinna og draga úr strategískri áhættu.
  12. Við munum halda áfram að fjárfesta í vörnum gegn ógnum frá efna-, sýkla, geisla- og kjarnavopnum. Við munum styrkja stefnu okkar, áætlanir, þjálfun og æfingar og leggja mat á getu okkar til að tryggja að kröfur í þessu efni séu órjúfanlegur liður í fælingar- og varnarstöðu okkar.
  13. Strategískur stöðugleiki, sem næst með skilvirkum fælingarmætti og vörnum, vígbúnaðareftirliti og afvopnun, og efnislegar og gagnkvæmar pólitískar viðræður eru óhjákvæmileg fyrir öryggi okkar. Vígbúnaðareftirlit, afvopnun og bann við dreifingu styðja verulega markmið bandalagsins. Aðgerðir bandalagsríkja á sviði vígbúnaðareftirlits, afvopnunar og banns við dreifingu miða að því að draga úr áhættu og auka öryggi, gagnsæi, sannprófun og fylgni. Við munum beita öllum úrræðum til að draga úr strategískri áhættu, þ.m.t. að efla traust og fyrirsjáanleika með því að eiga samráð, auka skilning og koma á fót skilvirkri hættustjórnun og forvarnaleiðum. Í þessari viðleitni verður tekið tillit til stöðu öryggismála og öryggis allra bandalagsríkjanna og stutt við fælingar- og varnarstöðu bandalagsins. Við munum nýta NATO sem vettvang fyrir umræður og náið samráð um aðgerðir á sviði afvopnunarmála.
  14. Samningurinn um bann við dreifingu kjarnavopna er óhjákvæmileg fyrirstaða gegn útbreiðslu kjarnavopna og við erum staðráðin í að framkvæma hann að fullu, þ.m.t. VI. grein hans. Markmið NATO er að skapa aðstæður í öryggismálum fyrir heim án kjarnavopna, í samræmi við markmið Samningsins um bann við dreifingu kjarnavopna.
  15. Varðstaða gegn hryðjuverkum er óhjákvæmilegur liður í sameiginlegum vörnum okkar. Hlutverk NATO í baráttunni gegn hryðjuverkum styður við öll þrjú meginverkefni þess og er óaðskiljanlegur liður í heildstæðri stefnu bandalagsins um fælingu og varnir. Hryðjuverkasamtök ógna öryggi borgara okkar, liðsafla og yfirráðasvæðis. Við munum áfram snúast gegn, hindra, verjast og svara ógnum og ögrunum frá hryðjuverkahópum með aðgerðum sem reistar eru á forvörnum, vernd og gagnaðgerðum. Við munum efla samvinnu við alþjóðasamfélagið, þ.m.t. Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, til að takast á við aðstæður sem skapa jarðveg fyrir útbreiðslu hryðjuverkastarfsemi.

Hættuástand: forvarnir og stjórn

  1. Það eru sameiginlegir hagsmunir NATO-ríkjanna að vinna saman að stöðugleika og hafa stjórn á átökum að tilstuðlan NATO. Við munum áfram vinna að því að koma í veg fyrir hættuástand og bregðast við því þegar það getur haft áhrif á öryggi bandalagsríkjanna. Við munum treysta á einstaka hæfni og sérfræðiþekkingu sem við höfum öðlast á sviði hættustjórnunar. Í því skyni munum við leggja fram fé til að efla viðbrögð, viðbúnað og stjórn hættuástands með reglulegum æfingum og nýta getu okkar til að samræma, framkvæma, viðhalda og styðja við fjölþjóðlegar viðbragðsaðgerðir á hættutímum.
  2. Við munum tryggja að fyrir hendi sé þjálfaður mannafli og búnaður ásamt stjórnendum til að senda á vettvang og styðja við hernaðarlega og borgaralega hættustjórn og til að koma á stöðugleika og gagn-hryðjuverkaaðgerðir, m.a. úr strategískri fjarlægð. Við munum, með hliðsjón af reynslu okkar síðustu þrjá áratugi, þ.m.t. af aðgerðum okkar í Afganistan, efla áfram viðbúnað okkar, hernaðarlega og borgaralega færni og samræmda áætlanagerð milli borgaralegra og hernaðarlegra yfirvalda. Við munum áfram þróa færni bandalagsins til að styðja við borgaralega hættustjórn og neyðaraðstoð og búa okkur undir áhrif loftslagsbreytinga, fæðuóöryggis og neyðarástands í heilbrigðismálum á öryggi bandalagsríkjanna. Þetta gerir okkur kleift að bregðast við hvaða óvissuástandi sem er með skömmum fyrirvara.
  3. Framlag samstarfsríkja til hættustjórnar undir forystu NATO er mikilvægt. Við munum áfram tryggja fasta pólitíska þátttöku og hernaðarlega samvirkni með samstarfsríkjum sem lýsa áhuga á að taka þátt í verkefnum okkar og aðgerðum.
  4. Við munum leggja meiri áherslu á að sjá fyrir og hindra hættuástand og átök. Forvarnir eru sjálfbær leið til að stuðla að stöðugleika og öryggi í bandalagsríkjunum. Við munum auka stuðning við samstarfsríki okkar, þ.m.t. til að efla getu þeirra til hryðjuverkavarna og til að takast á við sameiginleg öryggisverkefni. Við munum auka umfang og útvíkka aðstoð við varnarlítil samstarfsríki okkar, í nágrenni okkar og víðar, til að styrkja öryggi þeirra og varnir í því skyni að efla viðbúnað þeirra og viðnámsþrótt og magna getu þeirra til að bregðast við skaðvænlegri íhlutun, hindra aðför að stöðugleika og snúast gegn árásum.
  5. Öryggi einstaklinga, þar með vernd óbreyttra borgara og aðgerðir til að milda áhrif hamfara, er þungamiðjan í aðgerðum okkar til að hindra hættuástand og takast á við slíkar aðstæður. Við munum starfa með öðrum alþjóðlegum aðilum til að bregðast við stærri atvikum sem geta kynt undir hættuástand og óstöðugleika, og beita okkur fyrir stöðugleika og endurreisn. Við munum styrkja samræmingu og samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið og við aðrar svæðisbundnar stofnanir, svo sem Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Afríkusambandið.

Samstarf um öryggi

  1. Stækkun NATO er sögulega vel heppnuð. Hún hefur styrkt bandalag okkar, tryggt öryggi milljóna evrópskra borgara og stuðlað að friði og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Við áréttum stefnu bandalagsins um opnar dyr þess, í samræmi við 10. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans, þar birtast grundvallargildi okkar og strategískir hagsmunir af því að friður og stöðugleiki ríki á Evró-Atlantshafssvæðinu. Dyr okkar standa opnar öllum evrópskum lýðræðisríkjum sem deila gildum bandalags okkar, vilja og eru í stakk búin til að taka á sig ábyrgð og skyldur aðildar enda stuðli hún að sameiginlegu öryggi okkar. Ákvarðanir um aðild eru teknar af bandalagsríkjunum og enginn þriðji aðili á hlut að því ferli.
  2. Öryggi þeirra ríkja sem vilja gerast aðilar að bandalaginu er samofið okkar eigin. Við styðjum eindregið sjálfstæði þeirra, fullveldi og landamærahelgi. Við munum styrkja pólitískt samráð og samvinnu við þau ríki sem stefna að inngöngu í bandalagið, aðstoða þau við að efla viðnámsþrótt sinn gegn óvinveittri íhlutun efla getu þeirra og auka hagnýtan stuðning okkar við áform þeirra og vonir um aukin tengsl við Evró- Atlantshafssvæðið. Við munum áfram þróa samstarf okkar við Bosníu og Hersegóvínu, Georgíu og Úkraínu í þágu sameiginlegra hagsmuna um frið, stöðugleika og öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu. Við áréttum ákvörðunina sem tekin var á leiðtogafundinum í Búkarest árið 2008 og allar síðari ákvarðanir varðandi Georgíu og Úkraínu.
  3. Pólitískt samtal og hagnýt samvinna við samstarfsaðila á grunni gagnkvæmrar virðingar og hagsmuna stuðlar að stöðugleika utan landamæra okkar, treystir í sessi öryggi okkar heima fyrir og styður við meginverkefni NATO. Samstarf er mikilvægt til að verja sameiginleg hnattræn verðmæti, efla viðnámsþrótt okkar og standa vörð um alþjóðlega skipn sem reist er á lögum og reglum.
  4. Evrópusambandið er einstakur og óhjákvæmilegur samstarfsaðili NATO. Bandalagsríki NATO og aðildarríki ESB deila sömu gildum. NATO og ESB styðja og styrkja hvort annað í verkefnum sem stuðla að heimsfriði og öryggi. Á grundvelli langvarandi samvinnu okkar munum við efla strategískt samstarf NATO og ESB, treysta pólitískt samráð og auka samvinnu um sameiginlega hagsmunamál, svo sem hreyfanleika herafla, viðnámsþrótt, áhrif loftslagsbreytinga á öryggi, nýja og byltingarkennda tækni, öryggi einstaklinga, áætlunina um konur, frið og öryggi, ásamt því að bregðast við net- og fjölþáttaógnum og taka á kerfisbundnum ögrunum ALK gagnvart öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu. Fyrir þróun strategíska samstarfsins milli NATO og ESB er sem mest þátttaka bandalagsríkja utan ESB í varnaráformum ESB óhjákvæmileg. NATO viðurkennir gildi öflugri og hæfnismeiri varna Evrópu sem hafa jákvæð áhrif á öryggi Atlantshafssvæðisins og heimsins alls, eru NATO til fyllingar og og samvirkni, Frumkvæði að auknum útgjöldum til varnarmála og að því að þróa samræmdan, sameflandi styrk án ónauðsynlegs tvíverknaðar er lykillinn að sameiginlegum áformum okkar um að auka öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins.
  5. Við munum styrkja tengslin við samstarfsríki sem deila gildum og hagsmunum með bandalaginu í því skyni að viðhalda alþjóðlegri skipan sem reist er á lögum og reglum. Við munum ýta undir viðræður og samvinnu til að verja þá skipan, viðhalda gildum okkar og verja kerfin, staðlana og tæknina sem standa þeim að baki. Við munum nálgast stærri hóp ríkja í nágrenni okkar og um heim allan og lýsa vilja til að eiga samskipti við sérhvert ríki eða stofnun verði það til að styrkja gagnkvæmt öryggi okkar. Við nálgumst þetta áfram á grundvelli hagsmuna, sveigjanleika, í því skyni að takast á við sameiginlegar ógnir og verkefni og í anda aðlögunar að breytilegum geópólitískum staðreyndum.
  6. Vesturhluti Balkanskaga og svæðið í kringum Svartahaf eru strategískt mikilvæg fyrir bandalagið. Við munum áfram styðja við metnað þjóða á þessum svæðum sem hafa áhuga á að tengjast Evró-Atlantshafssvæðinu. Við munum leggja meira af mörkum til að efla getu þeirra til að takast á við sértækar ógnir og verkefni sem þau standa frammi fyrir og örva viðnámsþrótti þeirra gegn skaðvænlegri íhlutun þriðja aðila og þvingunum. Við munum vinna með samstarfsríkjum gegn sameiginlegum öryggisógnum og -áskorunum á svæðum sem eru strategískt mikilvæg fyrir bandalagið, þ.m.t. í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og á Sahel-svæðunum. Indó- Kyrrahafssvæðið er mikilvægt fyrir NATO, þróun mála þar getur haft bein áhrif á öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu. Við munum auka samráð og samvinnu við ný og núverandi samstarfsríki á Indó-Kyrrahafssvæðinu til að takast á við verkefni sem ná til beggja svæða og snerta sameiginlega öryggishagsmuni.
  7. NATO ætti að verða leiðandi alþjóðastofnun þegar litið er til þess að skilja og laga sig að áhrifum loftslagsbreytinga á öryggi. Bandalagið mun leiða starf til að meta áhrif loftslagsbreytinga á varnir og öryggi og bregðast við þeim verkefnum. Við munum leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæta orkunýtingu, fjárfesta í orkuskiptum og nýta græna tækni samhliða því að tryggja hernaðarlega skilvirkni og trúverðuga fælingu og varnir.

Velgengni bandalagsins til framtíðar

  1. Að treysta á NATO er besta leiðin til að tryggja varanleg tengsl milli bandamannanna í Evrópu og Norður-Ameríku samhliða því að stuðla að heimsfriði og stöðugleika. Við munum áfram styrkja pólitíska einingu okkar og samstöðu og víkka og dýpka samráð okkar til að takast á við allt sem hefur áhrif á öryggi okkar. Við skuldbindum okkur til að auka samráð sé öryggi og stöðugleika bandalagsríkis ógnað eða þegar grundvallargildi okkar og meginreglur eru í hættu.
  2. Við munum deila ábyrgð og áhættu vegna varna okkar og öryggis á sanngjarnan hátt. Við munum tryggja nauðsynlegt fjármagn, grunnvirki, getu og liðsafla til að standa að fullu skil á meginverkefni okkar og framkvæma ákvarðanir okkar. Við munum tryggja að bandalagsríkin standi við skuldbindingar sínar um varnarútgjöld (e. Defence Investment Pledge) að fullu, til að unnt sé að gera allt sem þarf. Í krafti þess sem áunnist hefur munum við sjá til þess að með auknum útgjöldum aðildarþjóða til varnarmála og sameiginlegri fjármögnun NATO sé unnt að ráða við verkefnin sem við blasa þegar sótt er meira að öryggiskerfinu.
  3. NATO er ómissandi fyrir öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu. Það tryggir frið, frelsi okkar og hagsæld. Sem bandamenn munum við áfram standa saman til að verja öryggi okkar, gildi og lýðræðislega lifnaðarhætti.