29.3.2025

Flýtimeðferð Viðreisnarráðherra

Morgunblaðið, laugardagur, 29. mars 2025.

Traust til rík­is­stjórn­ar­inn­ar minnkaði fimmtu­dag­inn 20. mars þegar gert var út um setu Ásthild­ar Lóu Þórs­dótt­ur mennta- og barna­málaráðherra í stjórn­inni á lokuðum fund­um stjórn­ar­for­yst­unn­ar.

Hraða af­greiðslu á mál­inu taldi Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, sýna karakt­er stjórn­ar­inn­ar. Orðin gefa til kynna að stjórn­in hafi sannað keppn­is­skap sitt með því að reka ráðherr­ann.

Ásthild­ur Lóa tók ákvörðun um af­sögn sína áður en frétt­in, sem síðan er sögð hafa ráðið úr­slit­um um ör­lög henn­ar á ráðherra­stóln­um, var flutt í rík­is­út­varp­inu. Þegar Ásthild­ur Lóa sagði af sér lauk ferli sem hófst með tölvu­bréfi upp­ljóstr­ara til for­sæt­is­ráðherra 9. mars.

Meðferð for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins á bréf­inu var á þann hátt að frétta­stof­an ákvað 20. mars að vinna frétt um að það lægi óaf­greitt. Vitn­eskj­an um þá ákvörðun knúði Kristrúnu Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra og sam­verka­kon­ur henn­ar til að taka á mál­inu. Ásthild­ur Lóa var lát­in víkja en skýrði sjálf frá niður­stöðunni sem eig­in ákvörðun vegna „fjöl­miðlaum­hverf­is­ins“.

Eins og eðli­legt er óskuðu fjöl­miðlar og stjórn­ar­and­stæðing­ar eft­ir skýr­ing­um á því sem gerðist. For­sæt­is­ráðherra birti þá „tíma­línu“ máls­ins frá 9. mars. Af henni sést að upp­ljóstr­ar­an­um var aldrei svarað efn­is­lega.

Fyr­ir viku sagði for­sæt­is­ráðherra að málið væri enn opið í mála­skrá for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins. Þau orð sögðu í raun ekk­ert annað en að ráðherr­ann hefði ekki enn form­lega af­greitt málið og lokað því. Það hlýt­ur nú að vera sjálf­gert því að upp­haf­lega bréfið til for­sæt­is­ráðherra laut að því að vegna per­sónu­legs fortíðar­at­viks gæti Ásthild­ur Lóa ekki gegnt embætti barna­málaráðherra.

Fór Kristrún Frosta­dótt­ir halloka þegar spurt var um málið á alþingi mánu­dag­inn 24. mars. Eft­ir að málið hafði velkst í 11 daga af­greiðslu­laust í ráðuneyti Kristrún­ar ákvað hún að ljúka því með brottrekstri Ásthild­ar Lóu, þar með skapaðist „friður“ um stjórn­ar­sam­starfið. Stuðings­menn for­sæt­is­ráðherra reyndu ár­ang­urs­laust að láta líta út eins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hefði rekið ráðherr­ann!

IMG_1880-1-

Eft­ir brottrekst­ur­inn sagði Hanna Katrín Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra rík­is­stjórn­ina sam­heldn­ari en nokk­urn tím­ann áður. Því til árétt­ing­ar boðaði hún með öðrum Viðreisn­ar­ráðherra, Daða Má Kristó­fers­syni fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, til blaðamanna­fund­ar þriðju­dag­inn 25. mars um það sem þau kölluðu „leiðrétt­ingu“ á veiðigaldi. Ekki væri um að ræða breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu „held­ur þarfa leiðrétt­ingu“.

Ráðherr­arn­ir sögðu að í ljós hefði komið við smíði frum­varps sem þau kynntu að fisk­verð í reikni­stofni vegna auðlinda­gjalds á út­gerðina hefði verið van­metið. Stærst­ur hluti viðskipta með veidd­an fisk færi frá út­gerð til vinnslu sem væri í eigu sömu aðila og þetta væru „bein viðskipti“. Verðmynd­un þess­ara viðskipta hefði ekki verið í sam­ræmi við verðmynd­un á mörkuðum.

Nú skyldi lög­um um veiðigjöld breytt á þann veg að reikni­stofn fyr­ir þorsk og ýsu miðaðist við verð á fisk­mörkuðum inn­an­lands. Fyr­ir upp­sjáv­ar­teg­und­irn­ar síld, kol­munna og mak­ríl yrði miðað við markaðsverð í Nor­egi yfir ís­lensk veiðitíma­bil.

Að ráðherr­arn­ir láti eins og um nýja upp­götv­un laga­smiða þeirra sé að ræða er ekki trú­verðug skýr­ing á þess­ari til­lögu í frum­varp­inu. Hún kann að vera til­raun til af­sök­un­ar í stjórn­ar­sam­starf­inu því að hvergi er á það minnst í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar að þessi leið skuli far­in við „mót­un auðlinda­stefnu um sjálf­bæra nýt­ingu og rétt­lát auðlinda­gjöld sem renni að hluta til nærsam­fé­lags,“ eins og það er orðað í yf­ir­lýs­ing­unni.

Í yf­ir­lýs­ing­unni seg­ir einnig að rík­is­stjórn­in ætli að „ýta und­ir vöxt og verðmæta­sköp­un í mat­væla­fram­leiðslu“. Í sjáv­ar­út­vegi verði „gerðar aukn­ar kröf­ur um gagn­sæi í eign­ar­haldi og skerpt á skil­grein­ingu tengdra aðila“. Hvergi er minnst á inn­leiðingu markaðsverðs fyr­ir fisk frá út­gerð til vinnslu til að tryggja út­gerðinni hærri tekj­ur sem leiði til þess að inn­heimt auðlinda­gjald tvö­fald­ist.

Vegna hækk­un­ar­inn­ar ræddi Vís­ir 26. mars við Örvar Marteins­son, formann Sam­taka smærri út­gerða, sem sagði hækk­un­ina reiðarslag fyr­ir lands­byggðina.

„Þetta er reiðar­högg fyr­ir þau þorp þar sem stundaðar eru veiðar og vinnsla. Ég hef bara mjög mikl­ar áhyggj­ur af þess­um þorp­um. Ég skil ekki hvernig þessi rík­is­stjórn hugs­ar,“ sagði Örvar. Hug­mynd­irn­ar væru aðför að lands­byggðinni. Stang­ast það á við orð stjórn­arsátt­mál­ans um hag „nærsam­fé­lags­ins“ af rétt­lát­um auðlinda­gjöld­um.

Gef­inn er ör­skamm­ur tími til at­huga­semda við frum­varpið í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Hvað er í húfi hjá Viðreisn eða stjórn­inni?

Guðmund­ur Kristjáns­son, út­gerðarmaður í Brimi, sagði í frétt­um rík­is­út­varps­ins 26. mars að ekki væri „boðlegt í nú­tíma­sam­fé­lagi að um­bylta heilli at­vinnu­grein og þora ekki og vilja ekki taka fag­lega umræðu“ til út­skýr­inga. Lands­byggðarfyr­ir­tæki færu „ekk­ert á haus­inn“ vegna þessa skatts en tenn­urn­ar yrðu dregn­ar úr at­vinnu­líf­inu.

At­hygli vek­ur að þríeykið sem rak Ásthildi Lóu skyldi ekki standa að kynn­ingu þessa stóra auðlinda­máls rík­is­stjórn­ar­inn­ar held­ur aðeins tveir fagráðherr­ar Viðreisn­ar, stjórn­ar­flokks­ins með minnst fylgi á lands­byggðinni.

Störf at­vinnu­vegaráðherra bera vott um sinnu­leysi gagn­vart lands­byggðinni. Byggðafesta þar er létt­væg í verk­um ráðherr­ans. Þá er fæðuör­yggi al­mennt ekki hátt skrifað hjá ráðherr­an­um eins og af­stöðuleysið til inn­lendr­ar hveitifram­leiðslu sýn­ir.