Flýtimeðferð Viðreisnarráðherra
Morgunblaðið, laugardagur, 29. mars 2025.
Traust til ríkisstjórnarinnar minnkaði fimmtudaginn 20. mars þegar gert var út um setu Ásthildar Lóu Þórsdóttur mennta- og barnamálaráðherra í stjórninni á lokuðum fundum stjórnarforystunnar.
Hraða afgreiðslu á málinu taldi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sýna karakter stjórnarinnar. Orðin gefa til kynna að stjórnin hafi sannað keppnisskap sitt með því að reka ráðherrann.
Ásthildur Lóa tók ákvörðun um afsögn sína áður en fréttin, sem síðan er sögð hafa ráðið úrslitum um örlög hennar á ráðherrastólnum, var flutt í ríkisútvarpinu. Þegar Ásthildur Lóa sagði af sér lauk ferli sem hófst með tölvubréfi uppljóstrara til forsætisráðherra 9. mars.
Meðferð forsætisráðuneytisins á bréfinu var á þann hátt að fréttastofan ákvað 20. mars að vinna frétt um að það lægi óafgreitt. Vitneskjan um þá ákvörðun knúði Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og samverkakonur hennar til að taka á málinu. Ásthildur Lóa var látin víkja en skýrði sjálf frá niðurstöðunni sem eigin ákvörðun vegna „fjölmiðlaumhverfisins“.
Eins og eðlilegt er óskuðu fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar eftir skýringum á því sem gerðist. Forsætisráðherra birti þá „tímalínu“ málsins frá 9. mars. Af henni sést að uppljóstraranum var aldrei svarað efnislega.
Fyrir viku sagði forsætisráðherra að málið væri enn opið í málaskrá forsætisráðuneytisins. Þau orð sögðu í raun ekkert annað en að ráðherrann hefði ekki enn formlega afgreitt málið og lokað því. Það hlýtur nú að vera sjálfgert því að upphaflega bréfið til forsætisráðherra laut að því að vegna persónulegs fortíðaratviks gæti Ásthildur Lóa ekki gegnt embætti barnamálaráðherra.
Fór Kristrún Frostadóttir halloka þegar spurt var um málið á alþingi mánudaginn 24. mars. Eftir að málið hafði velkst í 11 daga afgreiðslulaust í ráðuneyti Kristrúnar ákvað hún að ljúka því með brottrekstri Ásthildar Lóu, þar með skapaðist „friður“ um stjórnarsamstarfið. Stuðingsmenn forsætisráðherra reyndu árangurslaust að láta líta út eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði rekið ráðherrann!
Eftir brottreksturinn sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra ríkisstjórnina samheldnari en nokkurn tímann áður. Því til áréttingar boðaði hún með öðrum Viðreisnarráðherra, Daða Má Kristóferssyni fjármála- og efnahagsráðherra, til blaðamannafundar þriðjudaginn 25. mars um það sem þau kölluðu „leiðréttingu“ á veiðigaldi. Ekki væri um að ræða breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu „heldur þarfa leiðréttingu“.
Ráðherrarnir sögðu að í ljós hefði komið við smíði frumvarps sem þau kynntu að fiskverð í reiknistofni vegna auðlindagjalds á útgerðina hefði verið vanmetið. Stærstur hluti viðskipta með veiddan fisk færi frá útgerð til vinnslu sem væri í eigu sömu aðila og þetta væru „bein viðskipti“. Verðmyndun þessara viðskipta hefði ekki verið í samræmi við verðmyndun á mörkuðum.
Nú skyldi lögum um veiðigjöld breytt á þann veg að reiknistofn fyrir þorsk og ýsu miðaðist við verð á fiskmörkuðum innanlands. Fyrir uppsjávartegundirnar síld, kolmunna og makríl yrði miðað við markaðsverð í Noregi yfir íslensk veiðitímabil.
Að ráðherrarnir láti eins og um nýja uppgötvun lagasmiða þeirra sé að ræða er ekki trúverðug skýring á þessari tillögu í frumvarpinu. Hún kann að vera tilraun til afsökunar í stjórnarsamstarfinu því að hvergi er á það minnst í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að þessi leið skuli farin við „mótun auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld sem renni að hluta til nærsamfélags,“ eins og það er orðað í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni segir einnig að ríkisstjórnin ætli að „ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu“. Í sjávarútvegi verði „gerðar auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi og skerpt á skilgreiningu tengdra aðila“. Hvergi er minnst á innleiðingu markaðsverðs fyrir fisk frá útgerð til vinnslu til að tryggja útgerðinni hærri tekjur sem leiði til þess að innheimt auðlindagjald tvöfaldist.
Vegna hækkunarinnar ræddi Vísir 26. mars við Örvar Marteinsson, formann Samtaka smærri útgerða, sem sagði hækkunina reiðarslag fyrir landsbyggðina.
„Þetta er reiðarhögg fyrir þau þorp þar sem stundaðar eru veiðar og vinnsla. Ég hef bara mjög miklar áhyggjur af þessum þorpum. Ég skil ekki hvernig þessi ríkisstjórn hugsar,“ sagði Örvar. Hugmyndirnar væru aðför að landsbyggðinni. Stangast það á við orð stjórnarsáttmálans um hag „nærsamfélagsins“ af réttlátum auðlindagjöldum.
Gefinn er örskammur tími til athugasemda við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda. Hvað er í húfi hjá Viðreisn eða stjórninni?
Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður í Brimi, sagði í fréttum ríkisútvarpsins 26. mars að ekki væri „boðlegt í nútímasamfélagi að umbylta heilli atvinnugrein og þora ekki og vilja ekki taka faglega umræðu“ til útskýringa. Landsbyggðarfyrirtæki færu „ekkert á hausinn“ vegna þessa skatts en tennurnar yrðu dregnar úr atvinnulífinu.
Athygli vekur að þríeykið sem rak Ásthildi Lóu skyldi ekki standa að kynningu þessa stóra auðlindamáls ríkisstjórnarinnar heldur aðeins tveir fagráðherrar Viðreisnar, stjórnarflokksins með minnst fylgi á landsbyggðinni.
Störf atvinnuvegaráðherra bera vott um sinnuleysi gagnvart landsbyggðinni. Byggðafesta þar er léttvæg í verkum ráðherrans. Þá er fæðuöryggi almennt ekki hátt skrifað hjá ráðherranum eins og afstöðuleysið til innlendrar hveitiframleiðslu sýnir.