25.5.2024

Eilíf tilvistargæsla

Morgunblaðið, laugardagur 25. maí 2024.

Í Georgíu eru nú háð til­vistar­átök milli þeirra sem aðhyll­ast frjáls­lynda, lýðræðis­lega stjórn­ar­hætti og and-vest­rænna stjórn­valda sem vilja þrengja lýðræðis­legt svig­rúm al­mennra borg­ara stig af stigi. Þegar þing lands­ins samþykkti ný­lega lög að rúss­neskri fyr­ir­mynd gegn „er­lend­um út­send­ur­um“ fóru hundruð þúsunda manna út á göt­ur og torg til að mót­mæla. And­stæðing­ar lag­anna segja kröf­una um að öll sam­tök sem fá 20% eða meira af fjár­mögn­un sinni frá út­lönd­um verði skráð sem „er­lend­ir út­send­ar­ar“ gefa stjórn­völd­um færi á að loka sjálf­stæðum fjöl­miðlum og frjáls­um fé­laga­sam­tök­um. Það gerðist í Rússlandi eft­ir að sam­bæri­leg lög voru samþykkt þar árið 2012.

Kann­an­ir sýna að 68% Georgíu­manna telja lög­in ónauðsyn­leg og 73% álíta að lög­in skaði ESB-aðild­ar­viðræður Georgíu en 90% þjóðar­inn­ar vilja inn í ESB.

Rúss­ar réðust inn í Georgíu árið 2008 og komust nær hindr­un­ar­laust að höfuðborg­inni Tíbl­isi. Þá var Mik­heil Sa­akashvili for­seti. Hann sagði nú í vik­unni að miklu meiri hætta steðjaði að sjálf­stæði Georgíu núna held­ur en þegar Rúss­ar voru grá­ir fyr­ir járn­um við hlið höfuðborg­ar­inn­ar. Nú stæði ríkið nær því en nokkru sinni að glata sjálf­stæði sínu að fullu og öllu. Hann sagðist hafa verið mun ró­legri yfir stöðunni þá held­ur en núna vegna þess að þá hafi öll þjóðin staðið sam­an og all­ur heim­ur­inn hefði stutt hana. Nú hefði verið höggvið á stuðning við þjóðina að utan og „þeir“ reynt að sundra henni. Hann minnti á þau orð Ronalds Reag­ans Banda­ríkja­for­seta að Banda­rík­in stæðu alltaf í þeim spor­um að vera eina kyn­slóð frá því að tapa sjálf­stæði sínu.

Sa­akashvili sagði að kyn­slóð Georgíu­manna hefði staðið vörð um sjálf­stæðið und­an­far­in 30 ár og nú væru þeir að glata því. Til varn­ar frelsi þjóðar­inn­ar dygði aðeins að unga fólkið stæði vörð um það. Von­in fæl­ist í því að unga fólkið spyrði beint hvort Georgía yrði til áfram og hvar hún yrði. Unga fólkið vissi að tæk­ist að tryggja frelsi fengju all­ir tæki­færi til að njóta sín en án frels­is yrði allt til­gangs­laust.

Screenshot-2024-05-25-at-20.11.55Frá mótmælum í Tíblisi, höfuðborg Georgíu.

Þess verður hátíðlega minnst eft­ir fá­ein­ar vik­ur að 80 ár eru liðin frá því að Ísland hlaut sjálf­stæði og 75 ár frá því að frelsi og ör­yggi þjóðar­inn­ar var tryggt með stofnaðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Ræt­ur varðstöðunn­ar eru djúp­ar hér.

Frá stofn­un lýðveld­is­ins fram til 1991 reyndu „þeir“ að sundra þjóðinni í af­stöðu til sam­starfs við lýðfrjáls ríki um varn­ar- og ör­ygg­is­mál. Árið 2016 samþykkti alþingi þjóðarör­ygg­is­stefnu sem er reist á aðild­inni að NATO og tví­hliða varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in. Her­nám Rússa á Krímskaga árið 2014 stuðlaði að sam­stöðu hér um þjóðarör­ygg­is­stefn­una.

Þá vor­um við eins og aðrar þjóðir minnt á að varðstaðan um ytra ör­yggi er var­an­leg og hana verður að laga að aðstæðum hverju sinni. Enn er of snemmt að segja hvaða lær­dóm við drög­um af stríðinu í Úkraínu. Raðirn­ar um NATO-aðild­ina og varn­ar­sam­starfið eru þétt­ari en áður. Þá hef­ur nor­rænt sam­starf um ör­ygg­is- og varn­ar­mál eflst og er nú orðið að þriðja hlekkn­um í ör­yggis­keðju okk­ar.

Ný­lega var sagt frá af­reki hafn­sögu­manns og skip­stjóra hafn­sögu­báts­ins Magna þegar þeir fyr­ir einu ári hindruðu að risa­vaxið skemmti­ferðaskip með 4.600 manns strandaði á grynn­ing­um und­an Viðey. Vegna frétt­ar­inn­ar var minnt á að þannig hefði verið búið um hnúta að ís­lensku varðskip­in hefðu drátt­ar­afl til að halda slík­um risa­skip­um frá bráðri hættu þar til alþjóðleg hjálp bær­ist. Við þurf­um að eign­ast sam­bæri­legt inn­lent afl á landi til að veita fyrsta viðnám þar til hjálp berst ef á landið yrði ráðist og sjálf­stæðinu ógnað.

For­seta­kosn­inga­bar­átt­an snýst eðli­lega um hvernig við ætl­um að standa að til­vist og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Eft­ir að for­setafram­bjóðend­ur höfðu rætt sam­an á Stöð 2 fimmtu­dag­inn 16. maí taldi Bjarni Már Magnús­son laga­pró­fess­or nokkuð ískyggi­legt að nokkr­ir þeirra tryðu þeim mis­skiln­ingi að Ísland fylgdi hlut­leys­is­stefnu í alþjóðamál­um og að sér­stök stefnu­breyt­ing hefði fal­ist í stuðningi ís­lenskra stjórn­valda við vopna­kaup í þágu varn­ar­bar­áttu Úkraínu í til­vist­ar­stríði þjóðar­inn­ar gegn til­efn­is­lausri og ólög­legri inn­rás Rússa.

Fá­kunn­átta af þess­um toga end­ur­spegl­ar áhuga­leysið sem ein­kenn­ir um of umræður um ut­an­rík­is- og varn­ar­mál á op­in­ber­um vett­vangi. Ekki má þó gleyma að Bald­ur Þór­halls­son pró­fess­or hef­ur lagt mik­il­væg­an skerf af mörk­um til umræðna um varn­ar­mál­in. Þá hef­ur Katrín Jak­obs­dótt­ir und­an­far­in ár setið marga rík­is­odd­vita­fundi NATO og átt aðild að mót­un grunn­stefnu banda­lags­ins og sam­eig­in­legr­ar varn­ar­stefnu nor­rænu for­sæt­is­ráðherr­anna með vís­an til stríðsins í Úkraínu.

Katrín sagði á for­seta­fundi Morg­un­blaðsins á Ak­ur­eyri mánu­dag­inn 20. maí að yrði mynduð rík­is­stjórn með stuðningi meiri­hluta á alþingi sem ætlaði að segja Ísland úr NATO myndi hún sem for­seti spyrja: „Er þetta ekki ákvörðun sem á heima hjá þjóðinni?“ Hún mundi með öðrum orðum vilja vísa mál­inu til þjóðar­inn­ar með því að hafna slíkri breyt­ingu á þjóðarör­ygg­is­stefn­unni.

Það sama á við hér og Ronald Reag­an sagði á sín­um tíma og vitnað var til af fyrr­ver­andi for­seta Georgíu, að hver kyn­slóð verður að ákveða fyr­ir sig hver staða þjóðar henn­ar og lands er í heim­in­um.

Við ákv­arðanir í því efni er ekki hjá því kom­ist að horf­ast í augu við staðreynd­ir og taka mið af þeim. Nú gefa þær ekki til­efni til lausung­ar við gæslu ör­ygg­is þjóðar­inn­ar. Þvert á móti þarf að huga að leiðum til að auka gæsl­una enn frek­ar.