24.3.2017

EES-samvinna við Norðmenn áréttuð og skoskir sjálfstæðissinnar líta til EFTA

Morgunblaðsgrein 24. mars 2017

Um þessar mundir eru 10 ár liðin frá því að Evrópunefnd forsætisráðherra, eins og hún var kölluð, skilaði áliti sínu (á blaðamannafundi 13. mars 2007). Davíð Oddsson forsætisráðherra skipaði nefndina í júlí 2004 til að fjalla um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Nefndin, skipuð fulltrúum allra þingflokka, hélt 43 fundi og skilaði 136 bls. skýrslu sem staðist hefur tímans tönn svo að notað sé sama orðalag og í fyrstu efnisgrein í niðurstöðum og tillögum nefndarinnar en þar segir:

„Nefndin telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hafi staðist tímans tönn og hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggjast á og rétt er að þróa áfram.“

Réttmæti þessarar meginniðurstöðu stendur óhaggað enn þann dag í dag eins og ítarlegar tillögur nefndarinnar um nauðsyn þess á að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu í tengslum við Evrópusamstarfið með það að markmiði að auka áhrif Íslendinga á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi.

Í nefndarálitinu er að finna rökstuddar hugmyndir um leiðir og úrræði til að gæta íslenskra hagsmuna innan EES-samstarfsins og hafa áhrif á ákvarðanir innan ESB sem snerta íslenska hagsmuni. Ekki hefur ávallt verið gætt nægilega vel að sérstöðu lands og þjóðar á undirbúningsstigi ýmissa mikilla ákvarðana. Þær hafa sumar leitt til breytinga hér á landi að tilefnislausu miðað við til dæmis landfræðilega sérstöðu  innan EES-samstarfsins.

EES-ríki utan ESB geta haft áhrif og átt aðkomu að ákvörðunum sem síðar verða að ESB og EES-löggjöf. Til þess að gæta hagsmuna sinna verða fulltrúar ríkja og hagsmunahópa að fylgjast vel með því sem gerist á vettvangi ESB.

Norðmenn sváfu á verðinum

Til að rökstyðja þessa skoðun er nærtækt vísa til afgreiðslu á ályktun ESB-þingsins um norðurslóðamál frá 16. mars 2017. Norðmönnum, EES-þjóð, tókst að hindra að þingið samþykkti tvær tillögur sem þrengdu rétt þeirra. Tillaga þar sem hvatt var til „algjörs banns“ við olíu- og gasvinnslu í norðurhöfum var felld með 414 atkvæðum gegn 183. ESB-þingið samþykkti hins vegar (301:289) ákvæði sem bannar olíuboranir fyrir norðan hafísbrún. Norsk lög banna nú þegar boranir eftir olíu og gasi á hafíssvæðum.

ESB-þingnefnd undirbjó ályktunina. Á lokastigum nefndarstarfsins, 31. janúar 2017, fluttu fulltrúar Fimmstjörnuflokksins á Ítalíu og umhverfissinnar úr hópi þingmanna Dana og Finna róttækar friðunartillögur sem fengu góðan stuðning nefndarmanna. Þá voru norskir áheyrnarfulltrúar hreinlega teknir í bólinu eftir friðsamlegan gang málsins í nefndinni. Var sagt að Norðmenn hefðu ekki gætt að sér vegna þekkingarskorts á „pólitískum ferlum á ESB-þinginu“.

Eftir að Norðmenn áttuðu sig á hættunni beittu norska utanríkisráðuneytið, norska sendiráðið gagnvart ESB, norskir þingmenn, hagsmunagæsluaðilar fyrir norsk olíu- og gasfélög og Evrópuskrifstofa Norður-Noregs sér skipulega í samtölum við ESB-þingmenn. Þeir voru hvattir til að breyta ályktunartexta þingnefndarinnar. Bar það árangur.

Margir ESB-þingmenn sögðu í umræðum um málið að ESB-þingið gæti ekki gefið löndum utan ESB fyrirmæli um nýtingu auðlinda sinna. Græningjar á ESB-þinginu sögðu á hinn bóginn að baráttan gegn olíu- og gasvinnslu í norðurhöfum skipti svo miklu að fullveldisréttur einstakra ríkja til að nýta auðlindir yrði að víkja.

Í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Noregs rituðu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Frank Bakke-Jensen, EES og Evrópumálaráðherra Noregs miðvikudaginn 22. mars undir yfirlýsingu um stórauka samvinnu í EES-samstarfinu. Sagði í tilkynningu utanríkisráðuneytisins að aukið samstarf við Noreg um hagsmunagæslu innan EES styrkti enn frekar stefnu íslenskra stjórnvalda að leggja aukna áherslu á að koma sjónarmiðum og athugasemdum Íslands á framfæri á fyrri stigum stefnumótunar- og lagasetningarferlis Evrópusambandsins.

Von sem brást

Sem formaður Evrópunefndarinnar vonaði ég fyrir 10 árum að pólitíska samstaðan um meginefni nefndarálitsins dygði til að hugmyndum nefndarinnar yrði hrundið í framkvæmd. Þar var ekki um flokkspólitískar hugmyndir að ræða. Álitinu fylgdi hins vegar viðauki þar sem fulltrúar flokkanna lýstu skoðunum sínum og voru fulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks hallir undir aðild að ESB.

Við Einar K. Guðfinnsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, og Katrín Jakobsdóttir og Ragnar Arnalds, fulltrúar vinstri grænna (VG), skiluðum sameiginlegu áliti í þessum viðauka og sögðum að auðveldlega mætti draga þá ályktun af skýrslu nefndarinnar að ekki væru neinir brýnir hagsmunir í þágu þróunar eða vaxtar íslensks samfélags sem kölluðu á aðild að Evrópusambandinu.

Kosið var til alþingis vorið 2007 og eftir kosningarnar myndaði Sjálfstæðisflokkurinn stjórn með Samfylkingunni sem fékk utanríkisráðuneytið, hafði auga á ESB-aðild og vildi gera sem minnst úr gildi EES-samningsins.

Þegar Sjálfstæðismenn höfnuðu að ræða ESB-aðild eftir hrunið slitu Samfylkingarmenn stjórnarsamstarfinu í ársbyrjun 2009 og mynduðu minnihlutastjórn með VG og stuðningi Framsóknarmanna. Þar með var grunnur lagður að ESB-aðildarferlinu, svartasta kaflanum í sögu íslenskra utanríkismála.

Aðdráttarafl EFTA

Ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB hefur endurvakið kröfur um sjálfstæði Skota. Theresa May, forsætisráðherra Breta, glímir nú við tvíþætt verkefni: að slíta tengslin við ESB og halda Sameinaða konungdæminu (UK) saman. Andstaða við aðild að ESB hefur vaxið í Skotlandi og eftir að Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, kynnti áform sín um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu í þágu sjálfstæðis áréttaði spænska ríkisstjórnin, áhyggjufull vegna sjálfstæðiskrafna Katalóníumanna, að sjálfstæðir Skota ættu ekki greiða og örugga leið í ESB.

Alex Salmond, forveri Sturgeon sem fyrsti ráðherra Skotlands, sagði í útvarpsviðtali sunnudaginn 19. mars að Skotar mundu leita eftir aðild að EFTA frekar en að ESB strax eftir að þeir hefðu hlotið sjálfstæði. Það væri auðveldara og tæki skemmri tíma en að sækja um aðild að ESB þar sem aðeins fjögur ríki væru í EFTA. Síðan myndu Skotar gerast aðilar að EES-samstarfinu og þar með eiga „samfellda“ aðild að innri markaði ESB.

Eftir að skosku EFTA-hugmyndinni var fyrst hreyft var rætt við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í breskum fjölmiðlum, Hann sagði að þjóðir yrðu að vera sjálfstæðar til að fá aðild að EFTA. Þessu hafa andstæðingar sjálfstæðis Skota fagnað. Orð íslenska utanríkisráðherrans sýni að Sturgeon sé í öngstræti.

Skotar fá ekki aðild að EES nema öll ESB-ríkin samþykki það.

Aukin EES-samvinna við Norðmenn og áhugi Skota á EFTA/EES árétta enn gildi skýrslunnar góðu frá mars 2007. Ráðin í henni eru enn í fullu gildi, að fylgja þeim leiðir þjóðina ekki í sömu ógöngur og gert var illu heilli  með ESB-aðildarumsókninni.