21.9.2018

Bandaríkjamenn ræsa Atlantshafsflota sinn

Morgunblaðið 21. september 2018

Nú þegar líður að 70 ára afmæli Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO) dregur Atlantshafið enn á ný að sér athygli þeirra sem huga að varnar- og öryggismálum. Í kringum aldamótin lögðu þeir sem mótuðu og skipulögðu varnarstefnu NATO litla eða enga áherslu á varnaráætlanir fyrir Norður-Atlantshaf. Nú er unnið að gerð slíkra áætlana meðal annars með heræfingu hér á landi og í Noregi í október.

Grænland er einnig inni í myndinni að nýju. Mánudaginn 17. september 2018 birti bandaríska varnarmálaráðuneytið viljayfirlýsingu um þátttöku í flugvallargerð á Grænlandi. Um svipað leyti og Bandaríkjamenn lögðu Keflavíkurflugvöll eftir komu sína hingað 1941 lögðu þeir tvo flugvelli á Grænlandi. Þeir snúa sér aftur að grænlenskum flugvallarframkvæmdum með vísan til varnarsamnings um Grænland frá 1951. Sama ár gerðu Íslendingar tvíhliða varnarsamning við Bandaríkjamenn.

Gögn tengd lokun Keflavíkurstöðvarinnar í september 2006 sýna að bandarískir sérfræðingar og embættismenn litu þá á Rússa sem samstarfsaðila í hermálum. Fyrir hendi var sameiginlegur vettvangur NATO og Rússlands þar sem fundað var reglulega. Rússar bjuggu um sig í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Auk þess mátti rússneski herflotinn sín lítils og umsvif hans á úhöfunum mótuðust af því.

Atlantshafsflotanum ýtt úr vör


Bandaríkjastjórn sýndi að ekki væri ástæða til sérstakra aðgerða á Norður-Atlantshafi með því einfaldlega að leggja 2. flota sínum, Atlantshafsflotanum, og loka stjórnstöð hans í Norfolk í Virginíuríki árið 2011. Áður, árið 2002, ákvað NATO að leggja niður Atlantshafsherstjórn sína í Norfolk og halda þar þess í stað úti herstjórn til að þróa og útfæra hertæknilegar breytingar.

58d305be00c35.imageFrá flotstöðinni í Norfolk í Virginíu-ríki í Bandarikjunum.

Nú er markvisst unnið að því að vinda ofan af þessum ákvörðunum bæði hjá Bandaríkjastjórn og á vettvangi NATO. Á leiðtogafundi bandalagsins í Brussel í júlí 2018 var ákveðið að opna í Norfolk Atlantshafsherstjórn að nýju.

Hátíðleg athöfn var í Norfolk 24. ágúst 2018 þegar 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotanum, var formlega ýtt úr vör að nýju. Herstjórn 2. flotans og Atlantshafsherstjórn NATO vinna náið saman og rofni friðurinn verður aðgerðum stjórnað af yfirmanni 2. flotans undir merkjum NATO.

Ákvarðanir um þetta í Bandaríkjunum og á vettvangi NATO ráðast af þróun öryggismála frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga á ólöglegan hátt í mars 2014 og hófu beinar og óbeinar hernaðaraðgerðir gegn Úkraínu.

Breytingar í Norður-Evrópu


NATO-þjóðir næst Rússlandi auk Finna og Svía hafa undanfarin fjögur ár gripið til margvíslegra ráðstafana til að auka öryggi sitt.

NATO hefur flutt herafla til Eystrasaltsríkjanna og Póllands. Finnar og Svíar hafa gert þríhliða varnarsamkomulag við Bandaríkjamenn. Norðmenn leyfa allt að sjö hundruð bandarískum landgönguliðum að hafa tímabundna dvöl í tveimur herstöðvum í landi sínu. Í næsta mánuði verður efnt til land-, flug- og sjóhersæfingar með 40.000 mönnum frá 31 landi í Noregi. Undanfari æfinganna verður hér í Höfnum, á Keflavíkurflugvelli og í Þjórsárdal með þátttöku 400 bandarískra landgönguliða og fjölda herskipa.

Margt hefur breyst frá því í kalda stríðinu: Eystrasaltsríkin og Pólland eru í NATO, Finnar og Svíar hafna hlutleysi en standa utan hernaðarbandalaga og Norðmenn leyfa dvöl erlendra hermanna í landi sínu á friðartímum, ekki er litið á hana sem viðvarandi. Þá hefur enginn herafli fasta viðveru á Íslandi.

Rússneskir kafbátar sækja nú að fjarskiptaköplum neðansjávar til truflana og nethernaðar.

Fyrir norðan GIUK-hliðið


Á útþenslutíma sovéska flotans í kalda stríðinu dró NATO fyrst varnarlínu sína gegn kafbátum frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Var litið á þessa línu, GIUK-hliðið, sem lykilþátt í varnarstefnu NATO.

Á níunda áratugnum breyttist þetta. Samhliða því sem ráðist var í mikla endurnýjun í Keflavíkurstöðinni mótaði stjórn Ronalds Reagans nýja flotastefnu. Hún var kennd við John F. Lehman flotamálaráðherra sem sagði það lýsa skilningsleysi á frumþáttum sjóhernaðar að halda að unnt væri að verja siglingaleiðir yfir N-Atlantshaf eða komast hjá átökum við sovéska flotann með því að draga varnarlínuna í GIUK-hliðinu. Það yrði ekki gert nema með því  senda flota Bandaríkjamanna norður fyrir Ísland.

Norskir ráðamenn fögnuðu þessari áherslu Lehmans. Anders C. Sjaastad varnarmálaráðherra sagði á blaðamannafundi árið 1984 að það ætti ekki að loka flota NATO-ríkjanna fyrir sunnan GIUK-hliðið, ekki ætti að líða að Sovétmenn gætu lagt Noregshaf undir sig, skip frá NATO-ríkjum ættu að fara norður fyrir Ísland. Hann fagnaði því að Bandaríkjamenn ætluðu að fjölga flugmóðurskipum sínum, án þeirra gætu NATO-ríkin ekki komið í veg fyrir að Noregshaf yrði Mare Sovieticum, sovéskt haf.

Flotastefnan árið 2018


Orð Sjaastads vísa beint til þess sem sagt var í Norfolk 24. ágúst 2018 þegar rætt var um hlutverk 2. flota Bandaríkjanna. Í grein í tímariti Bandarísku flotastofnunarinnar, US Naval Institute, USNI News, eftir Sam LaGrone er rætt um endurnýjað hlutverk 2. flotans við John Richardson, yfirmann aðgerðasviðs flota Bandaríkjanna. Hann segir aðgerðasvæði 2. flotans ná langt norður fyrir GIUK-hliðið, allt norður fyrir Skandinavíu-skaga og heimsskautsbaug í áttina að kafbátahöfnum Norðurflota Rússa á Kólaskaga við Barentshaf.

Richardson og Andrew Lewis, flotaforingi, nýr yfirmaður 2. flotans, sögðu að endurreisn flotans mætti rekja til varnarstefnu James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Nú sé keppt við Rússa.

Í greininni er vísað í samtal við Bob Work, fyrrverandi vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir einnig að ákvörðunin um að færa ytri mörk aðgerðasviðs 2. flotans að heimahöfnum Rússa sé í samræmi við stefnuna sem kennd sé við Mattis. Þetta sýni að Bandaríkjamenn standi vaktina. Keppnin við Rússa sé einkum háð neðansjávar. Besta leiðin til að fylgjast með þeim sé að hleypa þeim ekki út á úthöfin.

Magnus Nordenman, sérfræðingur í flotamálum á N-Atlantshafi, sagði við USNI News:

„Í ákvörðuninni um að fela 2. flotanum hlutverk í Barentshafi felst viðurkenning á einum mikilvægasta þætti nýrrar flotasamkeppni á Norður-Atlantshafi. Þetta gerist mjög norðarlega, ekki við eða fyrir sunnan GIUK-hliðið og snýst ekki um að verja skipalestir bandamanna á leið yfir Atlantshaf.“

Sem varavarnarmálaráðherra kynnti Bob Work sér aðstæður á Keflavíkurflugvelli í september 2015. Eftir heimsóknina tók Bandaríkjastjórn ákvörðun um að veita fé í endurgerð flugskýlis og annarrar aðstöðu á vellinum fyrir nýja gerð kafbátaleitarvéla. Magnus Nordenmann var ræðumaður á ráðstefnu Varðbergs í nóvember 2016 um endurmat á hernaðarlegu mikilvægi Íslands og nágrennis.

Íslenskir hagsmunir tengjast mjög þessu umróti í öryggismálum á Norður-Atlantshafi. Íslendingar eru ekki stikkfrí áhorfendur heldur verða að leggja sitt af mörkum. Heræfingin hér er liður í því. Er tímabært að til hennar sé efnt.