3.4.2020

Áhrif veirunnar verða mikil og langvinn

Morgunblaðið, föstudagur, 3. apríl 2020

Viðbrögð vegna kór­ónu­veirunn­ar reyna veru­lega á stjórn­kerfi ein­stakra ríkja og alþjóðakerfið. Sam­fé­lög hafa á undra­skömm­um tíma tekið á sig nýja mynd. Hvaða breyt­ing­ar verða var­an­leg­ar kem­ur í ljós. Sag­an mót­ast mjög af áhrif­um ein­stakra stórviðburða. Við lif­um nú viðburð sem er stærri en flest­ir aðrir.

Ein­stök at­vik skilja eft­ir sig var­an­leg spor. Til dæm­is var ákveðið árið 2006 að banna meiri vökva en 100 ml í hand­far­angri í flug­vél­um eft­ir að Bret­ar komu upp um hryðju­verka­hóp sem ætlaði að granda níu flug­vél­um frá Heathrow á leið yfir Atlants­haf með því að smygla fljót­andi sprengi­vökva um borð í þær.

Þá get­ur tekið lang­an tíma að vinda ofan af ákvörðunum sem tekn­ar eru í neyð og eiga aðeins að gilda í nokkra mánuði. Gjald­eyr­is­höft voru sett hér til nokk­urra mánaða haustið 2008 en giltu í allt að 10 ár.

Ekki er að ástæðulausu varað við að vald­frek­ir stjórn­mála­menn, eins og Vikt­or Or­bán í Ung­verjalandi, verði treg­ir til að af­sala sér veiru­völd­um.

Með nýrri tækni er unnt að þrengja að friðhelgi einka­lífs­ins. Fylgj­ast má með ferðum okk­ar og hverja við hitt­um en einnig lík­am­legri og and­legri líðan. Upp­lýs­ing­arn­ar má skrá í gagna­grunn í varúðarskyni en einnig til að hafa áhrif á hegðun okk­ar til fram­búðar.

Skiln­ing­ur eða stuðning­ur við fjar­kennslu hef­ur verið mis­mik­ill. Hvað ger­ist nú þegar úr­tölu­menn ráða ekki leng­ur? Breyt­ist miðlun þekk­ing­ar og skólastarf til fram­búðar?

Koma hnit­miðaðir fjar­fund­ir í stað spjall­funda yfir kaffi­bolla? Skila menn vinnu sinni að heim­an und­ir eft­ir­liti al­gríma?

23311-lores-1585854776

 

Náin nor­ræn sam­vinna

Á Norður­lönd­un­um hafa rík­is­stjórn­ir valið mis­mun­andi leiðir til að hemja út­breiðslu veirunn­ar inn­an eig­in landa­mæra. Inn­byrðis hafa stjórn­irn­ar hins veg­ar náið sam­band. Varn­ar­málaráðherr­ar ríkj­anna virkjuðu til dæm­is „ör­ugg­an“ fjar­funda­búnað sinn nú í mars. Hon­um var komið á fót und­ir lok árs 2019 til að styrkja nor­ræna varn­ar­sam­starfið, NOR­D­EFCO.

Þá efna nor­ræn­ir ut­an­rík­is­ráðherr­ar til reglu­legra sam­ráðsfunda. Ut­an­rík­is­ráðuneyt­in tóku upp náið sam­starf um borg­araþjón­ustu til að auðvelda nor­ræn­um rík­is­borg­ur­um að snúa til heima­lands síns. Í fjar­læg­um lönd­um þjón­ar sendi­ráð eins nor­ræns rík­is öll­um nor­ræn­um borg­ur­um.

Sam­eig­in­leg reynsla af átök­um við veiruna hef­ur til þessa orðið til að treysta sam­starfs­bönd Norður­land­anna. Þetta er ekki af því að sam­starfið sé reist á há­timbruðu stjórn­kerfi held­ur vegna þess að það er sveigj­an­legt og hvíl­ir á sam­eig­in­leg­um gild­um rétt­ar og lýðræðis. Inn­an þess rík­ir gagn­kvæm virðing og traust án til­lits til þess hvort stjórn­ir land­anna séu til hægri eða vinstri.

 

ESB í vanda

Það hrikt­ir í stoðum Evr­ópu­sam­bands­ins. ESB er ósveigj­an­legt, regluf­ast og að hluta yfirþjóðlegt þótt sá þátt­ur í skipu­lagi þess verði mátt­laus­ari eft­ir því sem rík­is­stjórn­ir nýta full­veld­is­rétt­inn, hann er að sjálf­sögðu ekki úr sög­unni.

Opin landa­mæri og frjáls för fólks hafa sett svip á Evr­ópu­sam­starfið und­an­farna ára­tugi. Til að sporna við veirunni voru evr­ópsk­ar rík­is­stjórn­ir hins veg­ar fljót­ar að loka landa­mær­um og skella í lás. Þetta er í sam­ræmi við dag­skip­un­ina um að vera heima og ekki fara út fyr­ir húss­ins dyr nema í brýn­um er­inda­gjörðum.

Reglu­verk fjár­laga­stjórn­ar ESB hef­ur vikið fyr­ir ákvörðunum stjórna aðild­ar­land­anna. Þær verða ekki beitt­ar refs­ing­um fyr­ir að fjár­laga­halli fari yfir 3% af vergri lands­fram­leiðslu. Þá hef­ur Seðlabanki evr­unn­ar ákveðið að dæla allt að 1.000 millj­örðum evra inn í hag­kerfi evruland­anna.

Þjóðverj­ar, Finn­ar, Hol­lend­ing­ar og Aust­ur­rík­is­menn standa gegn kröfu Ítala, Frakka, Spán­verja og sex annarra evru­ríkja um „kór­ónu­skulda­bréf“, það er evru-skulda­bréf, í reynd ábyrgð Norður-Evr­ópu­ríkja á skuld­um Suður-Evr­ópu­ríkja. Svipaðar kröf­ur voru uppi fyr­ir um ára­tug vegna skuldakrepp­unn­ar og stóðu Þjóðverj­ar þá fast og ein­arðlega gegn þeim og gera enn. Þykir þeim nóg um að róið sé á þessi mið aft­ur núna. Nær sé að huga að öðrum lausn­um.

Þung­inn að baki kröfu Ítala er mik­ill. Ítalsk­ir stjórn­mála­menn birtu í vik­unni heilsíðu aug­lýs­ingu í þýska blaðinu Frankfur­t­er All­gemeine Zeit­ung þar sem sagði að sannaði ESB nú ekki til­veru sína, hyrfi sam­bandið úr sög­unni. Voru Þjóðverj­ar hvatt­ir til að taka „rétta ákvörðun“ um „út­gáfu evru­skulda­bréfa“.

Kröf­un­um svara Þjóðverj­ar og stuðningsþjóðir þeirra með því að benda á Evr­ópska stöðug­leika­sjóðinn (ESM). Þar geta aðþrengd evru­ríki fengið fé að láni en yf­ir­leitt með ströng­um skil­yrðum um um­bæt­ur í efna­hags­stjórn sinni.

 

Kín­verj­ar sækja fram

Les­end­ur Morg­un­blaðsins voru þriðju­dag­inn 31. mars minnt­ir á að fram­koma kín­verskra stjórn­valda er nú önn­ur en áður. Þau lögðu löng­um áherslu á hóg­værð í stað of­læt­is. Nú stunda þau fjölþátta árás­ir.

Kín­verska sendi­ráðið sendi rit­stjórn Morg­un­blaðsins at­huga­semd vegna skoðana í leiðara blaðsins um ábyrgð kín­verskra yf­ir­valda á út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. Löng at­huga­semd sendi­ráðsins hefst á orðunum: „Kína er ósátt við þessi um­mæli og andæf­ir þeim kröft­ug­lega.“

Þetta þótta­fulla kín­verska viðhorf birt­ist víðar en hér á landi. Í 2019 árs­skýrslu sænsku ör­ygg­is­lög­regl­unn­ar Säpo sem birt var fyr­ir viku seg­ir til dæm­is að á ár­inu hafi orðið skýr­ara en áður að Kín­verj­ar hlut­ist til um stjórn­ar­skrár­bund­in grund­vall­ar­rétt­indi í Svíþjóð. Dæmi séu um aðgerðir er­lendra ríkja til að grafa und­an stöðug­leika í Svíþjóð. Þar standi fremst­ir Rúss­ar og Kín­verj­ar. Sví­ar glími við nýja og djúp­stæða ör­ygg­is­ógn.

Að sendi­ráði sé beitt til að hafa áhrif á efni leiðara dag­blaðs í landi þar sem prent- og skoðana­frelsi er stjórn­ar­skrár­varið sýn­ir að ekki þarf að leita til Svíþjóðar að dæm­um um vax­andi kín­versk­an þrýst­ing.

Rann­sókn á veg­um Sout­hampt­on-há­skóla í Bretlandi leiðir í ljós að hefðu Kín­verj­ar gripið til aðgerða gegn Covid-19 þrem­ur vik­um fyrr en þeir gerðu hefði mátt fækka veiru­til­vik­um um 95%. Þótt kín­versk yf­ir­völd beri ekki ábyrgð á til­komu veirunn­ar bera þau höfuðábyrgð á út­breiðslu henn­ar og þar með heims­far­aldr­in­um.

 

Óvissa um Banda­rík­in

Á alþjóðavett­vangi sækja Kín­verj­ar fram sem risa­veldi án þess að hafa átt aðild að mót­un og þróun alþjóðastofn­ana sem urðu til að frum­kvæði Banda­ríkja­manna í lok síðari heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Samþykkt­ir þess­ara stofn­ana vilja Kín­verj­ar laga að eig­in hags­mun­um.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti legg­ur ekki rækt við þess­ar stofn­an­ir. Hann tal­ar þær frek­ar niður ef svo ber und­ir. Skil­grein­ing hans á hags­mun­um Banda­ríkj­anna er per­sónu­legri en for­vera hans.

Þetta er óvenju­leg staða í heimi þar sem jafn­an hef­ur verið litið til for­ystu Banda­ríkja­stjórn­ar þegar hættu ber að hönd­um. Hafa má ólík­ar skoðanir á hvort þetta sé rétt­mætt viðhorf en það hef­ur engu að síður verið viðmiðun. Sé hún úr sög­unni er um gíf­ur­lega breyt­ingu að ræða með óljós­um af­leiðing­um til lang­frama.