28.2.2004

Forseti, ríkisstjórn og hið netvædda lýðræði

Morgunblaðsgrein, 28. 02. 04.

 

Heimastjórnarafmælið hefur orðið tilefni líflegra umræðna um ýmsa grundvallarþætti stjórnskipunar íslenska lýðveldisins. Að gefnu tilefni beindist athyglin sérstaklega að hlutverki forseta Íslands. Þeim sjónarmiðum hefur verið hreyft, að embættið sé aðeins barn þess tíma, þegar Íslendingar þurftu tákn í stað Danakonungs, eftir að hann var kvaddur. Þessi tími sé liðinn og nú eigi að líta forsetaembættið öðrum augum, annaðhvort verði að veita því eitthvert inntak eða einfaldlega leggja það fyrir róða. Aðrir hafa leitast við að blása lífi í forsetaembættið með því að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar á nýstárlegan hátt og í því efni hefur Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði og málsvari núverandi forseta Íslands, gengið lengst.

Á lögfræðilegum vettvangi hefur verið tekist á um valdmörk forseta. Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögum, telur, að forseti Íslands hafi ekki eingöngu formlegt hlutverk í löggjafarstarfi heldur hafi hann persónulegt og efnislegt vald til að neita staðfestingu laga. Þór Vilhjálmsson, prófessor emeritus í lögum og fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur fært rök fyrir þeirri skoðun, að stjórnskipuleg staða forseta við lagasetningu sé eingöngu formlegs eðlis og hann hafi ekki persónulegt synjunarvald af neinu tagi. Kenning Þórs er rökstudd með því að synjunarvaldið liggi hjá ráðherra eins og aðrar valdheimildir, sem forseta eru í orði kveðnu gefnar í stjórnarskrá.

Þórður Bogason lögmaður hefur ritað fræðilega um þetta álitaefni út frá þingræðisreglunni, en hún átti einnig 100 ára afmæli 1. febrúar 2004 eins og heimastjórnin. Niðurstaða Þórðar er þessi:

"Alþingi er samkoma þjóðkjörinna fulltrúa sem fer með veigamesta þátt ríkisvaldsins, er valdamesta stofnun þjóðarinnar og meginstoð stjórnskipunarinnar. Þannig var réttarástandið fyrir lýðveldisstofnun og þannig er það enn. Með hliðsjón af þessu gerir íslensk stjórnskipun ráð fyrir því að þáttur forseta Íslands við setningu almennra laga sé eingöngu formlegur og honum því skylt að staðfesta lög frá Alþingi."

Þessi skoðun er studd traustum rökum og stangast alfarið á við þá nýsmíði við túlkun á stjórnarskránni, sem stunduð er af Svani Kristjánssyni, en hann hefur við hana hannað nýyrðið "forsetaþingræði" til að rökstyðja þá niðurstöðu sína, að forseti Íslands hafi persónulega heimild til að synja lögum frá Alþingi og skjóta þar með máli undir dóm þjóðarinnar, það er til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hugtakið "forsetaþingræði" er fræðileg ambaga eins og kenningarsmíðin sjálf og stenst ekki stjórnskipulegt eða lögfræðilegt mat.

Veik stoð embættis forseta Íslands eru þau fátæklegu rök, sem gjarnan eru notuð til að mæla því bót. Það er embættinu ekki styrkur, að gripið sé til þess að skýra inntak þess á allt annan veg en stenst nákvæma athugun. Í því skyni er það kallað "öryggisventill", af því að forsetinn geti upp á sitt eindæmi sett Alþingi stólinn fyrir dyrnar og skotið lögum undir atkvæði þjóðarinnar. Embætti forseta Íslands verður 60 ára 17. júní 1944 og á þessum 60 árum hefur aldrei reynt á þetta synjunarvald og allt, sem sagt er um, að kannski hafi staðið til að beita því, eru órökstuddar vangaveltur eða getsakir.

Séu menn þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að hafa þann öryggisventil vegna samþykkta Alþingis, að skjóta megi ákvörðunum þess til þjóðaratkvæðagreiðslu, ættu þeir að hefjast handa við að lögfesta ákvæði um hann á skýran og ótvíræðan hátt. Óljós öryggisventill er verri en enginn, en með stjórnarskrá og lögum er unnt að ákveða, að við vissar aðstæður sé skylt að bera löggjafarmálefni undir atkvæði þjóðarinnar. Inntak slíkra ákvæða á að ræða frekar en að velta vöngum um, hvort forseti Íslands megi ganga í berhögg við meirihluta á Alþingi.

Ef það er meginröksemd fyrir tilvist embættis forseta Íslands, að hann geti stuðlað að þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lög, er sú röksemd gerð að engu með hugmyndum um hið milliliðalausa lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Áhugamenn um netnotkun í stjórnmálastarfi minnast þess, þegar vikuritið The Economist hleypti á árinu 1997 af stað umræðum um rafræn áhrif á stjórnmálastarf og milliliðalaust lýðræði. Morgunblaðið hreifst af þessum hugmyndum vikuritsins og birti á íslensku fylgiblað The Economist um málið.

Í The Economist hinn 23. janúar árið 2003 birtist úttekt á áhrifum netsins á stjórnmálastarf. Þar er minnt á, að bjartsýnir áhugamenn um framgang netsins hafi bundið miklar vonir við áhrif þess í gamalgrónum lýðræðisríkjum. Þeir hafi talið, að með því tækist að efla áhuga almennings á því að láta að sér kveða við töku lýðræðislegra ákvarðana. Kjósendur þyrftu ekki lengur að búa við að stjórnmálamenn mötuðu þá á upplýsingum heldur gætu þeir aflað sér þeirra sjálfir. Síðan mundi fólk setjast við tölvuna heima hjá sér og greiða atkvæði. Lýðræðislegir stjórnarhættir gengju í endurnýjun lífdaganna með því að "færa valdið til fólksins."

Niðurstaða The Economist fyrir rúmu ári er, að mál hafi ekki enn þróast á þennan veg. Vikuritið gerir sér vonir um, að þó kunni draumurinn um hið milliliðalausa lýðræði að rætast og netið færi vald frá forystu stjórnmálanna til hins venjulega borgara. Þetta muni setja sterkan svip á þjóðfélagsumræður næstu þriggja áratuga.

The Economist telur að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, að ríkisstjórn sitji áfram og einnig löggjafarsamkunda, þó ekki væri til annars en að veita ráðherrum umboð og aðhald, auk þess sé hugsanlegt, að þar verði sett lög, en þó sé líklegt, að lagafrumvörp verði einungis samin með aðild þingmanna og örlög þeirra ráðist af viðbrögðum netverja í almennum atkvæðagreiðlsum.

Hér skal engu slegið föstu um framtíðina í þessum efnum frekar en öðrum. Hitt er víst, að breytingar í þessa átt ná ekki fram að ganga nema stjórnarskrám og lögum sé breytt af þjóðkjörnum fulltrúum.

Deilur um inntak í valdi forseta Íslands til að leggja lög undir þjóðaratkvæðagreiðslu verða næsta marklitlar, þegar hugað er að framtíðinni í ljósi þeirra breytinga, sem The Economist og Morgunblaðið hafa boðað. Forsetaembættið verður á engan hátt skilgreint sem óhjákvæmilegur þáttur í hinu nýja, netvædda lýðræði. Ríkisstjórn og þjóðkjörnir fulltrúar halda á hinn bóginn velli.