Málþing um einelti
Málþing um einelti
9. nóvember 2001
Ég býð ykkur velkomin til þessa málþings og þakka þann áhuga, sem þið sýnið þessu málefni með því að koma hingað í dag. Reynslan sýnir, að umræður um einelti eru meðal bestu úrræðanna, sem við höfum til að stemma stigu við því og uppræta. Minnist ég vel ráðstefnunnar, sem umboðsmaður barna efndi til haustið 1998 undir heitinu: „Börn vilja ræða um einelti við fullorðna”. Þar hittust 80 börn og 50 fullorðnir til að ræða þetta alvarlega vandamál og eftir ráðstefnuna birtust meðal annars greinar í blöðum, þar sem einstaklingar lýstu eigin reynslu í því skyni að vekja aðra til umhugsunar um þennan vágest í mannlegum samskiptum.
Áhrifamestu lýsinguna á einelti í skóla heyrði ég þó á fundi menntamálaráðherra OECD-ríkjanna, sem var haldinn í París í apríl síðastliðnum, en þar var þetta vandamál sérstakt umræðuefni á óformlegum hádegisverðarfundi og Ingegard Wärnerson, skólamálaráðherra Svía, lýsti því fyrir okkur hinum, hvernig hún þoldi einelti í skóla vegna útlits síns og var jafnan kölluð svínið af skólafélögum sínum. Er ég viss um, að þessi frásögn líður okkur aldrei úr minni, sem hlýddum á hana.
Já, góðir áheyrendur þeir eru víða, sem hafa liðið vegna eineltis og það leynist á fleiri stöðu en okkur grunar. Er ákaflega brýnt að fá ábendingar og tillögur um hvaða leiðir eru færar til að snúast gegn því. Ein mikilvægasta niðurstaða ráðstefnu umboðs manns barna var að einelti kemur öllum við en auk þess lágu fyrir í lokin margar gagnlegar og góðar tillögur sem fólust í þessum fjórum lykilorðum: Skilgreining, ábyrgð, fræðsla og aðgerðir.
Hvað er einelti? Hugtakið einelti er frekar ungt í okkar orðaforða. Einelti er orð yfir ákveðið vandamál sem við viðurkennum að megi finna ekki síst meðal barna og unglinga og við viljum snúast gegn. Það eru ekki nema rúmlega 10 ár síðan farið var að ræða opinskátt og af alvöru um einelti hér á landi. Segja má að þangað til hafi einelti verið falið vandamál. Orðið einelti er lýsandi í sjálfu sér - að vera tekinn einn fyrir af einum eða fleirum. Sameiginlegur skilningur á hugtakinu er forsenda þess að geta tekist á við vandann.Ýmsar skilgreiningar hafa verið settar fram og þó að orðalag geti verið mismunandi hverju sinni er megininntakið hið sama. Flestir eru sammála um að einelti sé endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi - einn eða fleiri níðast á eða ráðast aftur og aftur á einhvern einstakling. Einelti þekkist hvarvetna, á vinnustöðum, heimilum og sérstaklega oft virðist það sýnilegt meðal barna og unglinga innan vébanda skólans.
Foreldrar og forráðamenn skipta ævinlega sköpum sem fyrirmynd í uppeldi barna en ábyrgð skóla er einnig skýr og er tekið mið af því í nýrri aðalnámskrá grunnskóla, sem tók gildi árið 1999. Þar er lögð áhersla á samábyrgð og samstarf heimilis og skóla. Ítrekað er mikilvægi umsjónarkennarans en hann er öðrum fremur tengiliður skólans við heimilin og fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska. Í reglugerð um skólareglur, sem menntamálaráðuneytið gaf út á árinu 2000 er gildi foreldrasamstarfs og samábyrgðar áréttað. Bent er á, að æskilegt sé, að allir skólar hafi forvarnaráætlun, þar sem meðal annars sé lagt á ráðin um það, hvernig skuli bregðast við einelti og hver skuli vinna úr slíkum vanda, komi hann upp innan skólans.
Með gildistöku námskrárinnar varð lífsleikni skyldunámsgrein í 4.-10. bekk grunnskólans. Áherslur í lífsleikni staðfesta, að skólinn er vinnustaður nemenda, þar sem verðmætt uppeldi fer fram. Markmið lífsleikni er ekki síst að efla félagsþroska nemenda, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Umburðarlyndi auðveldar okkur að takast á við lífið og tilveruna í góðum samskiptum við aðra. Undir merkjum lífsleikni fá skólar tækifæri til að fjalla um mál, sem snerta líðan og velferð nemenda, þar á meðal einelti.
Netþingi, unglingaþingi umboðsmanns barna, lauk á mánudaginn og í ályktunum þess er meðal annars hvatt til þess, að nemendur í framhaldsskólum geti leitað til sérstaks ráðgjafa innan framhaldsskóla, t.d. þegar upp kemur ósætti milli kennara og nemenda. Í rökstuðningi ályktunarinnar segir að leggi kennari nemanda í einelti vísvitandi eða ómeðvitað eða mismuni honum á einhvern hátt, þá geti nemandi leitað aðstoðar hjá þessum ráðgjafa. Geti ráðgjafinn unnið að lausn í málinu í samráði við nemanda og kennara. Er þessi ályktun í samræmi við það, sem áður segir um nauðsyn þess, að innan skóla sé ljóst, hver taki á vanda vegna eineltis.
Viðbrögð gegn einelti ráðast af þeim skólabrag sem ríkir á hverjum stað. Góður bekkjarandi er lykilatriði fyrir skólastarf, þar sem nemendum líður vel og þeir geta tjáð sig óhikað og óttalaust. Enginn starfsmaður skóla getur í raun skorast undan ábyrgð, ef nemandi fær ekki um frjálst höfuð strokið vegna agabrota annarra eða stríðni. Innan skóla á að vera öruggt umhverfi, þar sem hver og einn fær tækifæri til að þroskast.
Menntamálaráðuneytið hefur fylgt umræðunni um einelti markvisst eftir og er málþingið í dag liður í þeirri viðleitni en hér eru fræðsla og aðgerðir meginviðfangsefnið.
Árið 1998 fól ráðuneytið Rannsóknarstofnun uppeldis- og
menntamála (RUM) að rannsaka umfang og eðli eineltis í íslenskum
grunnskólum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í september 1999. Hún leiddi m.a. í ljós, að 13% barna í 5. bekk töldu sig hafa orðið stundum eða oft fyrir einelti á tilteknum vetri og um 4.6% höfðu lagt aðra í einelti stundum eða oft. Einnig kom fram að tíðni eykst með aldri. Síðan gerði RUM að ósk menntamálaráðuneytisins framhaldsrannsókn á úrræðum skóla til að leysa eineltisvanda og lágu niðurstöður fyrir í september 2000. Þá var kannað hvernig tekið er á eineltismálum í skólum og hvernig foreldrar, nemendur og sérfræðingar tengjast því ferli. Einnig voru helstu boðleiðir rannsakaðar og hvar hnökra er að finna í úrlausnarferlinu. Rannsóknin sýndi, að víða er verið að skipuleggja aðferðir gegn einelti í skólum. Hún varpar einnig ljósi á afstöðu skólastjórnenda og kennara til vandans. Á málþinginu verður gerð betri grein fyrir þessum athyglisverðu rannsóknum.
Um leið og þessar rannsóknir eru nefndar er ánægjulegt að geta þess, að víða annars staðar hefur verið unnið að því að kanna einelti hér á landi. Er mikils virði að safna sem mestum upplýsingum til að geta greint vandann sem best, því að það auðveldar aðgerðir gegn honum.
Í desember 2000 ákvað samráðsnefnd grunnskóla, en fulltrúar menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtaka kennara og skólastjóra eiga sæti í henni, að stofna sérstakan starfshóp um einelti í grunnskólum. Var hópnum falið að gera tillögur að samræmdri aðgerðaáætlun fyrir grunnskóla um viðbrögð við einelti. Taldi hópurinn mikilvægt að efna til málþings um einelti til að heyra sjónarmið sem flestra. Þess vegna erum við hér í dag til að kynna og ræða hugmyndir um markvissar aðgerðir gegn einelti.
Menntamálaráðuneytið bauð Dan Olweus prófessor frá Noregi til að vera aðalfyrirlesari málþingsins. Hann hefur gert viðamiklar rannsóknir á einelti í Noregi og skrifað fjölda fræðibóka. Einnig hefur hann á grundvelli rannsókna sinna kynnt markvissa áætlun um fræðslu og aðgerðir. Prófessor Olweus er ekki einungis viðurkenndur fræðimaður á Norðulöndum heldur hafa kenningar hans hlotið verðskuldaða athygli víða um heim m.a. í Bandaríkjunum. Er mér sérstök ánægja, að bjóða prófessorinn til málþingsins og jafnframt þakka ég öllum, sem leggja ráðuneytinu og vinnuhópnum lið með því að miðla þekkingu og reynslu hér í dag.
Góðir áheyrendur.
Niðurstöður barnanna á ráðstefnu umboðsmanns barna árið 1998 sem fólust í lykilorðunum fjórum skilgreiningu, ábyrgð, fræðslu og aðgerðum eru ekki gleymdar. Það er von menntamálaráðuneytisins að málþingið verði til þess að efla og styrkja íslenskt skólasamfélag og skólayfirvöld til enn frekari átaka gegn einelti.
Mikið er í húfi og árangur næst ekki nema við séum fús til að ræða málið af einlægni og fyrir opnum tjöldum. Með þeirri hvatningu segi ég málþingið sett.