28.4.2001

Ísland í fremstu röð í menntamálum - Morgunblaðsviðtal



Þegar rætt er um næstu umbætur á íslenska skólakerfinu er einkum bent á tvo þætti, lengingu skólaársins og styttra nám til stúdentsprófs, segir Björn Bjarnason menntamálaráðherra, eftir að sköpuð hefur verið samfella á fyrstu þremur skólastigunum og nemendum fært aukið frelsi til að móta nám eftir eigin höfði samkvæmt nýlegum námskrám. Samræmd próf við lok grunnskóla eru nú í fyrsta sinn valfrjáls og tjáði ráðherra Jóhönnu Ingvarsdóttur meðal annars að í bígerð væri að taka upp samræmd próf á framhaldsskólastigi til að unnt yrði að meta árangur af skólastarfi milli einstakra skóla.

ÞRÁTT fyrir að tíundu bekkjar nemendum í grunnskóla hafi nú í fyrsta sinn verið gert frjálst að velja um það hvort þeir þreyttu samræmdu prófin eða ekki, varð reyndin sú að 92,7 til 96,3% nemendanna kusu að taka prófin sem er svipað hlutfall og gekkst undir prófin í fyrra þegar um skyldu var að ræða. Samræmdu prófin fóru fram í þessari viku og var prófað í fjórum fögum, íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði, en frá og með næsta vori verður samræmdum prófum fjölgað um tvö þegar við bætast raungreinar og samfélagsgreinar. Skyldan til að allir taki sömu samræmdu prófin var afnumin úr lögum í desember 1999 og verður það framvegis undir hverjum og einum nemanda komið hvort hann kýs að taka öll prófin sex, ekkert þeirra eða allt þar á milli. Að sögn Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra lýtur þessi breyting að því að gera skólakerfið sveigjanlegra fyrir nemendur en verið hefur með því að gefa nemendum aukið frelsi til að móta nám eftir eigin höfði. Val tíundu bekkinga á samræmdum prófum byggist á því hvers konar nám þeir stefna á að loknum grunnskóla.

„Aukið valfrelsi í námi gefur nemendum tækifæri til að móta námsferil sinn í samræmi við áhuga og framtíðaráform. Þessu frelsi fylgir vissulega aukin ábyrgð og nauðsynlegt er að nemendur taki sér nægan tíma til að velta fyrir sér þeim kostum sem í boði eru áður en ákvörðun er tekin. Allir ættu að geta fundið námsleið við sitt hæfi því ný skólstefna er sniðin með þarfir nútímanemenda og nútímasamfélags í huga," segir ráðherra.

Framhaldsskólar munu eftir sem áður taka mið af einkunnum á samræmdum prófum við inntöku nemenda og gildir nú einnig sú almenna regla að öll próf úr framhaldsskóla, sem veita rétt til inngöngu í háskóla, séu stúdentspróf, hvort sem nemandi velur sér bóknáms- eða starfsnámsbraut. Samkvæmt fræðslulögum eru lagðar sömu skyldur á herðar menntaskólum og fjölbrautaskólum, en stundum er rætt um „gæði" nemenda eftir framhaldsskólum sem aftur segir sitt um samræmingu á milli mennta- og fjölbrautaskóla. Fall á fyrsta ári í háskóla er töluvert sem telja má athyglisvert í ljósi þess hve seint íslenskir nemendur hefja háskólanámið og háskólakennarar telja margir erfiðleikum bundið að fara yfir námsefnið þar sem marga skorti grunnþekkingu sem þeir ættu með réttu að hafa úr menntaskóla. Til að bregðast við þessu er, að sögn ráðherra, unnið að framkvæmd lagaákvæða um samræmd próf á framhaldsskólastigi, enda verði þau almenn mælistika á árangur í skólastarfi og heldur menntamálaráðuneytið málþing á næstunni með þátttöku sérfræðinga um það hvernig staðið skuli að þessum prófum. „Ef það er rétt að nemendur séu misvel í stakk búnir til að takast á við háskólanám eftir því úr hvaða framhaldsskóla þeir koma, hafa nemendur ekki tryggingu fyrir því að stúdentspróf sé sambærilegt á milli skóla og því er mikils virði að prófað sé með samræmdum hætti í tilteknum greinum," segir Björn.


Menntakerfi á réttri braut

Menntamálaráðherra fullyrðir að Íslendingar standi vel að vígi í menntamálum í samanburði við aðrar aðildarþjóðir OECD, en ráðherrann sótti nýlega menntamálaráðherrafund aðildarríkja OECD í París þar sem fulltrúar þessara auðugustu landa heims réðu ráðum sínum.

„Við Íslendingar setjum námsmanninn, einstaklinginn sjálfan með kostum hans og göllum í öndvegi og hefur verið unnið að framkvæmd þessarar stefnu í náinni samvinnu við kennara. Nýjar námskrár, sem skapa samfellu fyrir þrjú fyrstu skólastigin eru samdar með nemandann að leiðarljósi og hrundið hefur verið af stað ýmsum verkefnum til að koma betur til móts við hann en áður hefur verið gert. Þá hefur ytra skipulag á skólastarfi tekið á sig nýja mynd og jafnframt aðferðir við fjármögnun þess og viðleitni til að efla samvinnuskóla og einkaaðila. Með námskránum eru sett skýr markmið og auðvelt er laga þau að aldri nemenda, t.d. ef áhugi er á því að hefja tungumálanám í grunnskólum fyrr en nú er gert.

Þegar rætt er um ytra skipulag íslenska skólakerfisins er um þessar mundir einkum bent á tvo veikleika í samanburði við aðra, annars vegar lengd skólaársins og hins vegar hve mörg ár það tekur að ljúka stúdentsprófi. Um lengd skólaársins er það að segja að í nýgerðum kjarasamningi sveitarfélaga við grunnskólakennara var ákveðið að fjölga skóladögum grunnskólans um tíu og hef ég flutt frumvarp á Alþingi um breytingu á grunnskólalögunum, þar sem níu mánaða skólaárið er sett sem lágmark. Að því er varðar þriggja ára nám til stúdentsprófs tel ég skynsamlegt fyrsta skref að hvetja framhaldsskóla til að bjóða það sem kost í stað þess að ákveða með miðstýrðum hætti að allt nám til stúdentsprófs skuli vera þriggja ára nám. Með því verður í senn unnið nauðsynlegt þróunarstarf innan skólanna og nemendur og kennarar geta lagað sig að breytingunni á eigin forsendum. Þetta helst allt í hendur við metnað einstakra nemenda og í raun er ekkert sem útilokar það að duglegir nemendur geti útskrifast úr 9. bekk grunnskólans í stað 10. bekkjar, eins og venja er. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og Menntaskólinn við Hamrahlíð bjóða til dæmis nú þegar upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs og fleiri skólastjórnendur eru með slíkt þriggja ára nám í mótun auk þess sem kynntar hafa verið hugmyndir um tveggja ára hraðbraut til stúdentsprófs. Nauðsynlegt er að stjórnendur háskóla skilgreini sem best inntökuskilyrði á einstakar brautir eða deildir, svo að framhaldsskólanemum sé ótvírætt ljóst til hvers er ætlast af þeim."


Yfir 90% útskriftarhlutfall

Björn segir það ekki gefa vonda mynd af skólakerfinu, að beina athyglinni einkum að því, hve stór hluti íslenskra nemenda, sem innritast í framhaldsskóla, lýkur námi. Staðreyndin sé sú að útskriftarhlutfall íslenskra nemenda á framhaldsskólastigi hafi verið 92% árið 1998, samkvæmt ritinu Education at a Glance árið 2000 sem OECD gefur út og þess vegna með því hæsta sem gerist innan OECD þar sem meðaltalið er um 79%. Þetta háa útskriftarhlutfall nái til allra aldurshópa Íslendinga, en að sögn ráðherra ljúka íslenskir nemendur í mörgum tilvikum framhaldsskólanámi síðar en nemendur í öðrum löndum. Hann áréttar, sem hann hefur sagt, að sú tala, sem einnig er úr gögnum OECD, að hlutfall Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára, sem lokið hafi framhaldsskólaprófi sé óvenjulega lágt eða 55%, gefi ekki rétta mynd. Ráðherra segir að það vanti stóran hóp Íslendinga inn í þann samanburð þar sem alþjóðlegri staðalflokkun menntunar, svokölluðum ISCED-stöðlum sem OECD vinnur eftir, hafi verið breytt árið 1995. Sá hópur sem hafi útskrifast af framhaldsskólastigi með gagnfræðapróf fyrir miðjan áttunda áratuginn myndi hækka hlutfall útskrifaðra af framhaldsskólastigi umtalsvert yrði hann talinn með.

Í könnun, sem Hagstofa Íslands gerði að beiðni menntamálaráðuneytisins á brottfalli nemenda úr framhaldsskólum milli áranna 1998 og 1999 kom fram að 24% nemenda komu ekki fram í nemenda- eða prófaskrá haustið eftir og er þá tekið tillit til þeirra sem lokið höfðu námi. Ráðherra bendir á að einungis sé um eina könnun milli tveggja ára að ræða og að mjög líklegt sé að stór hluti þeirra 24% nemenda, sem fyrr voru nefndir, skili sér aftur í skólann.

Árið 1999 skráðu 89% grunnskólanemenda sig til náms í framhaldsskólum landsins að loknu námi í grunnskóla og er það sama hlutfall og árin 1996, 1997 og 1998. Samkvæmt upplýsingum, sem liggja fyrir frá hinum Norðurlöndunum, innrituðust árið 1997 90-98% nemenda í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi, lægst var hlutfallið í Finnlandi, en hæst í Svíþjóð. Sama ár var 41-47% framhaldsskólanema á Norðurlöndunum í bóknámi og 50-59% í starfsnámi. Til samanburðar má geta þess að 67% íslenskra framhaldsskólanema völdu bóknám á yfirstandandi skólaári á meðan 33% völdu starfsnám. Í aldurshópnum 21 árs höfðu árið 1996 68-88% lokið námi úr framhaldsskóla í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi, en aðeins 53% á Íslandi árið 1996, sem staðfestir enn, að hér lýkur fólk almennt námi síðar á ævinni en í nágrannalöndunum.


Blindgötur opnaðar

Íslenskir framhaldsskólanemar sækja ekki í starfsnám í jafnmiklum mæli og jafnaldrar erlendis og segir ráðherra ekki neina eina skýringu á þeirri staðreynd.

„Eru inntökuskilyrðin þar strangari en hér? Vilja nemendur fara í það nám, sem veitir þeim mest tækifæri til að menntast meira að loknum framhaldsskóla? Höfum við ekki skýrt starfsnám og réttindi, sem það veitir með sama hætti og aðrir? Er það kannski ranghugmynd hjá okkur, sem eldri erum, að þetta sé sérstakt áhyggjuefni? Enn má spyrja, hvort atvinnulífið meti starfsmenntun nóg, þegar á reynir hjá nemendum á vinnumarkaði. Hvað sem þessu líður stendur íslenska þjóðfélagið sig vel á alla almenna mælikvarða í samkeppni milli þjóða, þótt hér hafi lengi fleiri stundað bóknám í framhaldsskólum en í nágrannaríkjunum. Á síðasta áratug var vöxtur landsframleiðslu hér meiri en almennt í OECD-ríkjunum. Hvað segir það okkur um skólakerfið?

Margt hefur verið gert á síðustu árum til að styrkja allar forsendur starfsnáms. Val í efstu bekkjum grunnskóla er meira en áður og þar ætti að gefast tækifæri til að kynna nemendum starfsnám með markvissari hætti en áður. Það hefur verið tekið upp nýtt skipulag um nánara samstarf við atvinnulífið um inntak og skipulag námsins. Nýir skólar hafa risið, sem eru sérstaklega sniðnir fyrir starfsnám, t.d. Iðnskólinn í Hafnarfirði og Borgarholtsskóli auk viðbyggingar við Menntaskólann í Kópavogi og Verkmenntaskólann á Akureyri. Nemendum af starfsmenntabrautum er nú gert kleift að bæta við sig einingum að loknu réttindanámi sínu og taka stúdentspróf, óski þeir þess. Starfsnám er í eðli sínu dýrara en bóknám og er tekið tillit til þess í reiknireglum um fjárveitingar til framhaldsskólanna, þótt fækkun nemenda geti leitt til þess, að ekki sé unntað veita námið jafnvíða og áður. Námstími er allt frá einni önn upp í fjögur ár og getur námið leitt til lögverndaðra starfsréttinda eða veitt undirbúning og þjálfun fyrir tiltekin störf án þess að um lögvernduð starfsréttindi sé að ræða. Ég ítreka, að sá rammi, sem myndaður hefur verið utan um menntakerfi okkar, er orðinn mjög sveigjanlegur enda hefur verið unnið mikið þróunarstarf til að koma sem mest og best til móts við einstaka nemendur. Að því leyti er íslenska menntakerfið í fremstu röð."


Dreifmenntun og fartölvuvæðing

Björn segir að spennandi tímar séu framundan í skólamálum og áhugavert verði að fylgjast með hvernig upplýsingatæknin nýtist til kennslu og hvaða áhrif hún hafi á þróun skólanna sem stofnana. Nýlega kynnti hann stefnu ráðuneytisins um dreifmenntun eða rafrænt menntakerfi. „Það er skólastarf, sem byggist á því að nemandinn geti stundað nám í skólastofunni eða heima hjá sér og lokið áföngum á þeim tíma, sem honum hentar og með því að afla sér fræðslu í skólum eftir eigin höfði. Breytingar eru örar í þessum efnum og nýlega var til dæmis kynnt að MIT, hinn heimsfrægi tækniháskóli í Boston, hefði ákveðið að bjóða allt sitt nám ókeypis á Netinu og stjórnendur skólans telja það ekki munu draga úr áhuga á að sækja sjálfan skólann í Boston þótt skólagjöld þar séu 26 þúsund Bandaríkjadalir á ári.

Tölvur í framhaldsskólum og á heimilum eru engin nýjung lengur, en aftur á móti bendir ýmislegt til þess, að fartölvuvæðing framhaldsskólanema gangi hraðar fyrir sig en menn væntu. Þrír þróunarskólar í upplýsingatækni, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi og Menntaskólinn á Akureyri hafa í vetur unnið að tilraunum með fartölvuvæðinguna og þykja þær almennt gefa góða raun. Var reynslan af þessu verkefni meðal annars kynnt á tæplega 900 manna ráðstefnu menntamálaráðuneytisins UT2001 í Borgarholtsskóla fyrir skömmu. Var sérstaklega ánægjulegt að sjá þar hve mikinn áhuga kennarar hafa sýnt fartölvuvæðingunni en þeir kynntu á ráðstefnunni breytingar á kennsluháttum með tilkomu fartölvanna.

Skólastjórnendur og kennarar hafa einnig orðið varir við mikinn áhuga nemenda á notkun fartölva í námi, sem gjörbreytir öllum vinnubrögðum þeirra. Fleiri skólar en þessir þrír hafa einnig farið inn á braut fartölvuvæðingarinnar og verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni á þessu sviði. Ráðuneytið mótaði ákveðna stefnu í þessu efni og áhugi á að fylgja henni eftir er mikill, þótt ýmis ljón séu í veginum, eins og ávallt þegar tekin eru upp nýmæli. Leggja þarf áherslu á að þróa kennsluhugbúnað á íslensku fyrir Netið en um þessar mundir er ráðuneytið að kanna sérstaklega hvernig kennsluhugbúnaður er nýttur í grunnskólum. Þá er ráðuneytið einnig að vinna að því að móta kröfur vegna aukinnar fjarskiptaþjónustu við skóla í samræmi við aukna netnoktun og fjarkennslu."


Mat á gæðum skólastarfs eflt

Þótt Björn sé þess fullviss að Íslendingar standi framarlega meðal jafningja hvað varði umgjörð menntamála, segist hann, eins og fleiri, spyrja sig þeirrar áleitnu spurningar, hvort sjálfur tíminn í skólanum sé nægjanlega vel nýttur. Hvort gerðar séu nógu miklar kröfur til nemenda, hvort þeir fái nógu verðug verkefni og hvort sami andi ríki í íslenskum skólastofum og menn telja bestan annars staðar eða kynnast erlendis.

„Við heyrum oft heimkomna Íslendinga hafa á orði, að börn þeirra hafi kynnst betri skólum erlendis en hér á landi, þótt hitt heyrist einnig, að skólarnir hér séu betri en í útlöndum. Mat af þessu tagi er almennt einstaklingsbundið og við verðum að hafa í huga, að margir Íslendingar, sem dveljast erlendis, eru í háskóla- eða rannsóknaumhverfi, þar sem allir eru mjög með hugann við menntun og gildi hennar. Setur það að sjálfsögðu svip sinn á allt skólastarfið, ekki síður leikskóla og grunnskóla en framhaldsskóla. Í slíku umhverfi gerir fólk almennt miklar kröfur til menntunar og er sjálft mjög virkt í foreldrastarfi. Víða erlendis er foreldrastarf í skólum miklu meira en hér og beinlínis sett sem skilyrði við innritun barns í skóla, að foreldrar þess séu til þess búnir að leggja mikið af mörkum til skólastarfsins. Þegar kemur svo að því að þessir sömu Íslendingar flytjast heim á ný, eru aðstæðurnar allt aðrar og foreldrarnir sundurleitari hópur en tíðkast til dæmis í erlendum háskólabæjum, þar sem allir eru að fást við menntun í einni eða annarri mynd. Ég segi þetta ekki til að gera lítið úr gildi samanburðar á milli skóla eftir löndum, heldur til að minna á, að taka verður tillit til margra atriða við slíkt mat og forðast alhæfingar.

Hvarvetna er hugað að mælistikum til að fylgjast með árangri í skólastarfi. Ákvörðunin um að birta niðurstöður á samræmdum prófum með þeim hætti, að unnt er að bera saman skóla er viðleitni í þá átt að gefa fólki kost á að meta skólana eftir samræmdri mælistiku, þótt hún segi vissulega ekki allt um innra starf skóla. Mjög erfitt er að meta kennslustörf á einfaldan hátt, þó svo að þjóðir hafi verið að fikra sig inn á þá braut. Fréttir frá Bretlandi um þessi mál sýna, að kröfur um árangursmat á störfum kennara geta leitt til harðra deilna við þá. Rök hníga að því, að árangursmat á störf kennara verði, þegar fram líða stundir, talið meðal óhjákvæmilegra þátta í skólastarfinu til að tryggja góða kennslu. Skref hafa verið stigin hjá okkur til að efla mat á gæðum skólastarfs, t.d. með því að stofna sérstaka mats- og eftirlitsdeild innan menntamálaráðuneytisins og hefur hún á fáum árum skilað góðu starfi. Spurning er hvort koma eigi á fót sjálfstæðri stofnun til að sinna þessu mikilvæga hlutverki, eins og gert hefur verið víða um lönd.

Ég tel ekki rétt að huga eingöngu að því sem kennarinn er að gera, þegar litið er til árangurs af skólastarfi heldur verði einkum að líta til þriggja aðila: nemenda, kennara og foreldra. Starfi þeir ekki saman er ekki við því að búast, að skólastarfið skili besta árangri sem að er stefnt. Foreldrar þurfa að tengjast skólastarfinu meira en þeir hafa gert og nauðsynlegt er að skilgreina verkaskiptingu milli heimila og skóla með nýjum hætti í ljósi þess, hve þjóðfélagið breytist ört. Þetta er hinn lifandi þáttur skólastarfsins en ekki það sem gerist hjá okkur, sem setjum því ytri umgjörð með lögum, reglum og námskrám. Við sem sitjum í stjórnunarstöðum verðum hins vegar að fylgjast náið með þróuninni og sjá til þess, að ytri umgjörðin lagi sig að henni. Nú hafa sveitarfélögin tekið að sér rekstur grunnskólans og við sjáum væntanlega vaxandi fjölbreytni í þjónustu hans eftir þeirri stefnu, sem mótuð er innan einstakra sveitarfélaga, og foreldrar velja sér frekar en áður búsetu eftir því áliti, sem þeir hafa á skólum. Það er því til dæmis ekki spurning í mínum huga hvort í boði verður raunverulegur heilsdagsskóli með heitum hádegismat heldur hvenær."

Á nýlegum ráðherrafundi OECD voru sérfræðingar fengnir til að fræða menntamálaráðherra aðildarríkjanna um námsgetu og þar kom fram, að mannsheilinn geti tekið við ótæmandi magni upplýsinga frá ungum aldri og hann sjái sjálfur um að vinsa það úr þeim, sem hann telur gagnlegt og nýtilegt. Segir Björn, að í þessum boðskap felist meðal annars, að ekki eigi að hika við að gera kröfur til ungra skólabarna og leyfa þeim að takast á við krefjandi verkefni. Þetta falli vel að þeirri skoðun sinni, að nýta eigi tímann í grunnskólanum sem best með markvissu námi og huga þurfi að því, hvort útfæra eigi aðalnámskrá leikskóla með ákveðnum kröfum.

„Ég heyri stundum, að nemendum í yngstu bekkjum grunnskóla finnist þeir hafa of lítið að gera í skólanum, en þetta getur vissulega markað viðhorf þeirra til skólans alla tíð. Börn mega ekki halda, að í skólum eða endranær þurfi ekki að leggja að sér til að ná árangri, með því er þeim gefin röng hugmynd um það, sem þau eiga eftir að kynnast síðar á skóla- eða lífsgöngu sinni. Um leið og hugað er vel að þeim, sem standa höllum fæti, á að hvetja þá, sem vilja til leggja meira á sig. Til dæmis er nú unnt að útskrifast úr 9. bekk grunnskóla, ef nemendur hafa til þess getu. Það felst í því að setja nemandann í öndvegi, að allir fái að njóta sín og skólar hafa mörg úrræði til þess. Það er mikil gróska í þróunar- og tilraunastarfi innan íslenska skólakerfisins eins og sést til dæmis af styrkjum úr þróunarsjóðum menntamálaráðuneytisins og vaxandi áhuga á rannsóknanámi meðal þeirra, sem leggja stund á kennaranám."


Grunnskólinn undir stjórn foreldra?

Björn er inntur álits á því hvort hann telji rétt að létta beri rekstrarkvöð af ríkinu svo auka megi sveigjanleika skólana. Minnir hann á, að ríkið hafi afsalað sér miklu valdi á skólastarfi með því að færa grunnskólann til sveitarfélaganna. Hann telji það ekki endanlega tryggingu fyrir góðu skólastarfi, að það sé alfarið í höndum ríkisins og sama eigi í raun við um sveitarfélögin, enda hafi hann sagt, að með flutningi grunnskólans væri tekið fyrsta stóra skrefið til að flytja hann undir stjórn foreldra sjálfra.

„Ef tryggt er að sú þjónusta, sem nemandinn á að fá, sé góð, skiptir ekki máli, hver veitir hana. Ég hef til dæmis ekki séð neitt sem mælir gegn tilboði Íslensku menntasamtakanna í kennsluþátt Áslandsskóla í Hafnarfirði. Mér finnst í raun mjög spennandi að fylgjast með gangi mála í Hafnarfirði. Foreldrar hafa brugðist vel við og hugmyndafræðin að baki skólastefnunni virðist vera sú að virkja nemendur og foreldra með nýjum hætti. Ríkið hefur ekki boðið út kennsluþátt skóla en á hinn bóginn samið við einkaaðila um að þeir taki að sér skólarekstur, þótt í litlum mæli sé. Kannski koma þeir tímar, að menn telja eðlilegt að ríkið bjóði út rekstur skóla eins og aðra starfsemi og hafi einungis það hlutverk að fylgjast með skólastarfinu og réttarstöðu nemenda. Í framtíðarstefnu sinni um dreifmenntun gerir menntamálaráðuneytið ráð fyrir miklum breytingum á innra starfi skóla og sambandi nemenda við kennara sína á framhaldsskólastigi. Hugmyndir um fjármögnun og rekstur skóla eiga ekki síður eftir að breytast en aðferðir við kennslu og miðlun þekkingar. Við leggjum nú áherslu á að fjármunir fylgi nemandanum á námsleið hans og með auknu frelsi nemenda til að velja sér nám í dreifmenntun er óhjákvæmilegt að skilgreina fjárstreymið innan skólakerfisins í samræmi við það," segir menntamálaráðherra að lokum.


© Morgunblaðið.