25.12.2010

Hraðar hendur við sendiherraskipti

Evrópuvaktin 25. desember 2010


Það er rétt ákvörðun hjá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, að taka af skarið og kalla Stefán Hauk Jóhannesson, sendiherra, heim frá Brussel og fela öðrum sendiherra, Þóri Ibsen að taka við fyrirsvari Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Það fór ekki saman að Stefán Haukur ætti í senn að gæta hagsmuna Íslands gagnvart ESB og leiða viðræðunefnd um aðild Íslands að ESB.

Að tilkynnt sé 23. desember 2010 að nýr sendiherra Íslands taki til starfa í Brussel 15. janúar 2011 sýnir að utanríkisráðherra hefur talið miklu skipta að hafa hraðar hendur við sendiherraskiptin.

Allt frá því að Stefáni Hauki var falin formennska í viðræðunefndinni við ESB í nóvember hefur legið fyrir að hann hlyti að hverfa frá sendiherrastörfum í Brussel. Frásagnir af nýlegum viðræðum Stefáns Hauks við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, um hótanir ESB um refsiaðgerðir gegn Íslendingum vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda um makrílkvóta sýna hve erfitt getur verið að sameina í einum manni formennsku í umsóknarnefnd Íslands og gæslu einhliða hagsmuna Íslands gagnvart ESB.

Hér hefur áður verið vakið máls á því að annað hvort tali Maria Damanaki tungum tveim um makrílmál Íslendinga eða Stefán Haukur skilji afstöðu hennar á allt annan veg en ESB-þingmaður frá Skotlandi gerir. Þingmaðurinn sem er varaformaður sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins segir Damanaki boða aukna hörku af hálfu ESB til að brjóta makrílákvörðun sjávarútvegsráðherra Íslands á bak aftur. Stefán Haukur segir Damanaki ætla að beita sér fyrir samningum um málið, enda hafi hún skilning á málstað Íslendinga.

Of snemmt er að álykta á þann veg að skipan Þóris Ibsens í embætti sendiherra Íslands gagnvart ESB jafngildi því að hagsmuna Íslands verði gætt á annan hátt en áður. Þórir verður að vísu ekki annan daginn að ræða hótanir ESB í garð Íslendinga og hinn að velta fyrir sér leiðum til að bæta ímynd ESB á Íslandi í því skyni greiða fyrir aðild að sambandinu. Þórir verður hins vegar áfram eins og öll utanríkisþjónustan að sinna málafylgju í umboði utanríkisráðherra sem vill umfram allt annað að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Til að tryggja örugga varðstöðu um hagsmuni Íslendinga hvort heldur í Icesave-máli eða makrílmáli, svo að tvö dæmi séu nefnd, þarf að hafa jafnhraðar hendur við að skipta um utanríkisráðherra og hann hefur við þessa uppstokkun í utanríkisráðuneytinu.