6.11.2010

Strandríki hverfur með einu pennastriki

Evrópuvaktin 6. nóvember 2010 - leiðari


Á strandríkjaráðstefnu Heimssýnar föstudaginn 5. nóvember voru kynnt sjónarmið fjögurra strandríkja við Norður-Atlantshaf: Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs. Hið sameiginlega viðhorf var, að þessi ríki ættu öll sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þeirra yrði best gætt með samstöðu ríkjanna, aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi setja fleyg í samstarfið, því að þá yrði ESB strandríki að þjóðarétti í Norður-Atlantshafi í stað Íslands.

Þessi niðurstaða um aukinn rétt Evrópusambandsins, ef til aðildar Íslands yrði, kemur heim og saman við frétt á visir.is 6. nóvember, þar sem segir:

„Aðild Íslands að Evrópu¬sambandinu (ESB) gæti komið sér vel fyrir sambandið, sérstaklega hvað varðar aðkomu að norðurheimskautssvæðinu. Þetta verður meðal þess sem mun koma fram í árlegri áfangaskýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem kemur út í næstu viku, en kaflar úr henni hafa þegar lekið í fjölmiðla.“

Þegar litið er á mat Evrópusambandsins á gildi þess að Ísland gangi í sambandið, er alltaf hið sama uppi á tengingnum: ESB telur sig frá nýja stöðu til að hlutast til um málefni norðurskautsins. Í Brussel vita menn að Lissabon-sáttmálinn mælir fyrir um, að ESB sé persóna að alþjóðalögum. ESB tekur þess vegna við réttindum og skyldum Íslands samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það verður eins og hvert annað úrlausnarefni samkvæmt leikreglum ESB að ákveða rétt Íslendinga innan 200 mílna lögsögunnar við Ísland. ESB-dómstóllinn mun eiga síðasta orðið um efni reglnanna vakni deilur um þær. Hann er andvígur öllum sérréttindum einstakra ESB-ríkja.

Grænlendingar sögðu sig úr Evrópusambandinu árið 1985 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar þeir höfðu áttað sig á skilningsleysi Brussel-valdsins á grænlenskum þjóðarhagsmunum og menningu. Með banni á sölu selafurða innan ESB hafa þingmenn á ESB-þinginu vegið að 4000 ára menningu inúíta með einu pennastriki. Þegar þetta blasir við meðal nágrannaþjóðar okkar Íslendinga, stíga sjálfskipaðir menningarfrömuðir fram hér á landi og telja íslenskri tungu og menningu helst til framdráttar að fara undir þetta vald. Þeir ættu að minnast kenninga um að ríkidæmi vegna sölu á sel- og hvalafurðum frá Grænlandi hafi skapað nægan auð til að skrifa sögur á íslensku fyrir 800 til 900 árum.

Í Noregi hefur aðild að ESB verið hafnað tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Almenningur reis gegn vilja elítu stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna, kaupsýslumanna og háskólamanna og hafnaði aðildarsamningi. Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra, og nokkrir forystumenn norskra jafnaðarmanna láta þó enn eins og sá dagur komi, að Noregur fari í ESB. Þar er starfandi fjölmennasta fjöldahreyfing á Norðurlöndum, 30.000 manns, sem berst gegn ESB-aðild. Andstaðan hefur aldrei verið meiri í Noregi en nú, yfir 60%, og í 66 mánuði hefur meirihluti Norðmanna alltaf verið á móti aðild Noregs. Umræður um ESB-málefni eru miklu þroskaðri þar en hér á landi.

Í Færeyjum hefur samstaða allra stjórnmálaflokka gegn ESB-aðild verið svo afdráttarlaus, að aldrei hefur komið fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér væri enginn að búa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-málið nema vegna þess að Steingrímur J. Sigfússon lét undan ESB-kröfu Samfylkingarinnar í skiptum fyrir ráðherrastól. Engir þjóðarhagsmunir kalla á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Aðildarmálið er í núverandi farvegi vegna hugsjóna- og málefnafátæktar Samfylkingarinnar, sem skorti kosningamál til að marka skil á milli sín og Sjálfstæðisflokksins og daðra jafnframt við þá sjálfstæðismenn sem töldu eða telja eigin hag og fyrirtækja sinna best borgið í evru-landi.

Strandríkjaráðstefna Heimssýnar dró athygli að lífshagsmunum strandríkja við Norður-Atlantshaf. Hún minnti á að barátta þjóðanna fyrir strandríkjarétti sínum skilaði árangri á mörgum áratugum. Þessi réttur verður að engu með einu pennastriki við aðild strandríkis að Evrópusambandinu.