9.11.2010

Ríkis­stjórn og utanríkis­ráðuneyti hlusta ekki á þjóðfund

Evrópuvaktin 9. nóvember 2010 - leiðari
Augljóst er að Ísland verður ekki aðili að Evrópusambandinu nema stjórnarkránni verði breytt og sett í hana ákvæði um heimild alþingis til að framselja vald til yfirþjóðlegra stofnana.

Laugardaginn 6. nóvember komu 1.000 manns saman til þjóðfundar um meginstefnu í stjórnarskrármálum. Hér skal ekki dregið í efa að þjóðfundarmenn hafi kynnt sér þau álitaefni sem helst eru á döfinni í samtímanum, þegar rætt er um nauðsyn breytinga á stjórnarskránni. Þeim hafi því vel verið ljóst að ESB-aðildarsinnar telja óhjákvæmilegt að breyta stjórnarskránni til að ná markmiðum sínum.

Í niðurstöðum þjóðfundarins eins og þær eru kynntar af stjórnlaganefnd er ekkert minnst á nauðsyn ákvæða um heimild til framsals á valdi til yfirþjóðlegra stofnana. Á hinn bóginn er í köflum um land og þjóð annars vegar og frið og alþjóðasamvinnu hins vegar lögð áhersla á að Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki og stjórnarskráin sé sáttmáli sem tryggi fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Þá er mælt fyrir um, að lögð skuli áhersla á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum.

Á þjóðfundinum vildu menn að stjórnarskráin tæki af skarið um sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar en ekki um heimild til að framselja fullveldið.

Áhersla þjóðfundarins á samvinnu við aðrar þjóðir, sérstaklega á norðurslóðum, segir einnig mikla sögu. Hefði það viðhorf komið fram á þjóðfundinum að sérstaklega bæri að efla samstarfið við Evrópusambandið væri ekki þagað um það í niðurstöðum fundarins.

Engin þjóð á norðurslóðum er í Evrópusambandinu. Af hálfu sambandsins er því hins vegar haldið fram, að með aðild Íslands fái ESB langþráðan rétt til að hlutast til um málefni norðurslóða.

Allt ber þetta að sama brunni og áður. ESB-aðildarbrölt ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er á skjön við þjóðarviljann. Bröltið er til þess fallið að auka sundrungu meðal þjóðarinnar þegar þörf er á samstöðu. Bröltið rekur fleyg í samstöðu Íslands með þjóðum á norðurslóðum.

Ríkisstjórnin og sérstaklega utanríkisráðuneytið hlustar ekki á þjóðfundinn frekar en allt annað andstætt ESB-aðild Íslands. Eftir næstu helgi hefst margra mánaða rýnivinna hópa íslenskra embættismanna með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB til að finna „ágalla“ á íslenskri löggjöf gagnvart ESB-löggjöfinni. Ástæða er til að spyrja: Til hvers í ósköpunum? Hvers vegna að eyða fé og kröftum í þetta ?

Svari hver sem vill. Svar þjóðfundarins er skýrt: Í stjórnarskrá ber að árétta sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Svar þjóðfundarins er í hróplegri andstöðu við kröfur Evrópusambandsins. Rýnivinna í utanríkisráðuneytinu ætti að hefjast á því að bera ESB-sjónarmið þess saman við niðurstöðu þjóðfundarins. Við svo búið gætu embættismennirnir sparað sér alla rýnifundina með ESB-embættismönnunum.