30.5.2009

Styðjum vandaða ESB-málsmeðferð.

Morgunblaðið 30. maí, 2009.

TVÆR tillögur um Evrópumál liggja nú fyrir alþingi. Annars vegar tillaga ríkisstjórnarinnar, flutt af utanríkisráðherra í nafni þingflokka ríkisstjórnarinnar, hins vegar tillaga stjórnarandstöðunnar flutt af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Af þessum tveimur tillögum er mun meiri veigur í tillögu stjórnarandstöðunnar. Tillaga stjórnarandstöðunnar felur í sér andmæli við þeim losaralegu vinnubrögðum, sem einkenna vinnubrögð stjórnarflokkanna í málinu.

Tillögugreinin sjálf er á þennan veg:

„Alþingi ályktar að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Nefndinni er falið eftirfarandi hlutverk:

1. Að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

2. Að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings.

Nefndin ljúki framangreindum verkefnum sem allra fyrst og eigi síðar en 31. ágúst 2009.“

Hér er ekki tekið af skarið um, hvort send skuli aðildarumsókn til Evrópusambandsins (ESB), heldur skal utanríkismálanefnd alþingis fyrir 31. ágúst ljúka skýrslum um tvö meginatriði, sem hljóta að skipta sköpum, þegar að þeirri umsókn er hugað.

Í fyrsta lagi skulu mikilvægustu hagsmunir Íslands skilgreindir, ef til aðildarviðræðna yrði gengið. Í greinargerð með tillögunni segir, að utanríkismálanefnd skuli í víðtæku samráði við hagsmunaaðila

„[H]uga sérstaklega að fullveldi þjóðarinnar, sjávarútvegshagsmunum, m.a. réttindum innan fiskveiðilögsögu Íslands og hlutdeildar í flökkustofnum ásamt áhrifum á fiskveiðistjórnun. Jafnframt skal huga að fæðuöryggi þjóðarinnar og sérstöðu íslensks landbúnaðar, stöðu íslenskrar þjóðmenningar og þjóðtungu og einhliða úrsagnarrétti þjóðarinnar úr Evrópusambandinu. Þá verði fjallað um gerð stöðugleikasamnings við Evrópska seðlabankann til að tryggja stöðugt gengi krónunnar.“

Í öðru lagi skal í skýrslu nefndarinnar farið yfir öll álitamál um meðferð málsins á heimavelli. Efnisþáttum vegvísisins er lýst á þann veg í tillögu stjórnarandstöðunnar, að hann snúist um:

„1. Aðkomu þjóðarinnar að aðildarumsókn og staðfestingu aðildarsamnings.

2. Hvernig skipa skuli viðræðunefnd Íslands við Evrópusambandið.

3. Með hvaða hætti eftirliti Alþingis og upplýsingagjöf til þess skuli háttað á meðan mögulegar aðildarviðræður standa.

4. Hvernig staðið skuli að opinberum stuðningi við kynningu á niðurstöðum viðræðna við Evrópusambandið.

5. Hvaða stjórnarskrárbreytingar séu nauðsynlegar í tengslum við inngöngu í Evrópusambandið og hvenær þær skuli gerðar.

6. Áætlaðan kostnað vegna aðildarumsóknar.“

Þegar tillagan og greinargerðin með henni eru lesin er fráleitt að túlka textann á þann hátt, að með henni sé fallist á meginsjónarmiðið, sem fram kemur í tillögu ríkisstjórnarinnar, enda er tillaga stjórnarandstöðunnar flutt, þar sem flutningsmenn hennar telja mikið skorta á „að lagður hafi verið fullnægjandi grundvöllur að aðildarumsókn á þessu stigi“.

Verði tillaga stjórnarandstöðunnar samþykkt verður það verkefni utanríkismálanefndar að gera grein fyrir mikilvægustu hagsmunum Íslands og helstu áhrifum aðildar fyrir íslenskt samfélag í víðu samhengi. Jafnframt að taka afstöðu til þess hvort það umboð sem alþingi mögulega veitir til aðildarviðræðna skuli skilyrt með einhverjum hætti. Á grundvelli niðurstöðu skýrslu utanríkismálanefndarer er gert ráð fyrir að alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru flutningsmenn tillögunnar, sem hér hefur verið reifuð. Þeir hafa með því skuldbundið sig afdráttarlaust til að standa að henni. Til þessa hafa sumir talið, að framganga tillögu ríkisstjórnarinnar mundi ráðast af stuðningi þingmanna úr röðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við hana.

Að því Evrópumálin varðar ræðst framvinda þeirra formlega á alþingi. Efnisleg barátta um afstöðu þjóðarinnar til aðildar er hins vegar tekin að færast út fyrir þingsali, enda er ljóst, að til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur, allir flokkar eru sammála um það.

Tillaga stjórnarandstöðunnar útilokar alls ekki, að sú atkvæðagreiðsla verði um, hvort senda eigi umsókn frá Íslandi til Brussel eða ekki. Áhugamenn um Evrópumál hljóta að fagna því, að sérhver stórákvörðun um samskipti Íslands og Evrópusambandsins verði að njóta stuðnings þjóðarinnar.