5.3.2009

Kosningalög - röðun á lista - þingræða

Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að þessi aðferð við að leggja fram frumvarp til laga, um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, er með öllu ótæk. Ekki er unnt að búast við því að á síðustu vikunum fyrir kosningar fari fram umræður um mál sem þetta á þeim grunni sem þarf til þess að víðtæk sátt myndist um málið.

Þegar ég les frumvarpið, virðulegi forseti, og greinargerðina með því sé ég að engin stjórnmálaviðhorf koma fram varðandi málið. Ekki virðist hafa farið fram nein umræða um málið á vettvangi stjórnmálanna á þann veg að færð séu stjórnmálaleg rök fyrir því að þetta sé gert. Þvert á móti hafa komið að ágætir menn, fræðimenn, sem hafa um árabil fjallað um kosningalöggjöfina og verið ráðgjafar nefnda stjórnmálamanna úr öllum flokkum, nefnda sem hafa síðan farið yfir málin og lagt þau fram með rökstuðningi sínum og fært það í þann búning sem þarf til þess að það sé líka ljóst að á bak við frumvörp af þessu tagi liggi pólitískar ákvarðanir sem eru teknar með skírskotun til stefnumörkunar á vegum stjórnmálaflokka og þannig sé að málum staðið að augljóst sé að ekki einungis hafi verið lögð sérfræðileg vinna í málið heldur lagt á það pólitískt mat og pólitísk vinna farið fram við úrvinnslu málsins.

Ég var á einum þingflokksfundi sjálfstæðismanna þar sem Þorkell Helgason stærðfræðingur kom og kynnti þessi sjónarmið sem er frá sérfræðinga hálfu sjálfsagt að kynna þegar er farið út í það að velta fyrir sér breytingum á kosningalöggjöfinni í þá veru að koma hér á meira persónukjöri á kjördag. En það var ljóst á þeim fundi að allir þeir sem þar tóku þátt í umræðum voru þeirrar skoðunar að þetta væri ekki rétti tíminn til þess að vinna að þessu máli og bjóst raunar enginn við því að það kæmi fram hér með þessum hætti og þess yrði krafist að það yrði afgreitt fyrir kosningar, þegar ákveðið hefur verið í flokkum að efna til prófkjara og ganga til þess að undirbúa lista á grundvelli þeirra reglna sem gilda samkvæmt lögum.

Það sést líka einnig hér að síðan eru taldir upp kostir og hér segir, með leyfi forseta:

„Sérfræðingahópur sá sem kom að samningu frumvarps þessa og fyrr er getið íhugaði fleiri leiðir til þess að auka þátt persónukjörs í lögum um kosningar til Alþingis.“

Hér eru taldir upp nokkrir kostir og síðan segir, með leyfi forseta:

„Sérfræðingahópurinn fjallaði jafnframt um mismunandi aðferðir við merkingar kjósenda á óröðuðum listum og talningu eða uppgjör á þeim merkingum.“

Síðan eru taldir kostir sem helst koma til greina. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða hópsins að mæla með aðferð M1, einkum með þeim rökum að það væri fyrirkomulag sem kjósendur þekkja úr prófkjörum, en að vissu leyti er verið að viðhafa „prófkjör“ í kjörklefanum þegar boðnir eru fram óraðaðir listar. Um kosti og galla þessara aðferða má að öðru leyti lesa í fyrrnefndri greinargerð um persónukjör á vefsíðunni landskjor.is.“

Það kemur því hér fram, virðulegi forseti, að þetta er, ef ég má orða það svo, hrátt frumvarp frá sérfræðingum sem ekki hefur fengið neina skoðun á hinum pólitíska vettvangi og síðan hefur verið ákveðið að leggja það fram af formönnum fjögurra þingflokka og taka það hér til umræðu. Ég tel að þetta sé ekki rétt aðferð við afgreiðslu á þeim leikreglum lýðræðisins sem birtast í kosningalöggjöfinni. Ég tel að fram eigi að fara ítarleg og meiri umræða um það utan þingsins og utan hópa sérfræðinga en tími gefst til við afgreiðslu þessa frumvarps.

Þar að auki koma svo hv. þingmenn upp, sem eru meðmæltir þessu frumvarpi, og lýsa því yfir hér í þessum ræðustól að með frumvarpinu sé verið að bregðast við bankahruninu, verið sé að bregðast við ástandi í þjóðfélaginu sem myndaðist vegna bankahrunsins. Engin rök eru fyrir því í greinargerð með frumvarpinu. Hvergi hefur komið fram að það væri liður í því að grípa á þeim vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir vegna þeirra hamfara allra saman að taka tæknilegar ákvarðanir um breytingar á kosningalöggjöf. Það hefur hvergi komið fram, virðulegi forseti, og það er ekki rökstutt hér í þessu frumvarpi með neinum hætti. Það vantar alla pólitíska umgjörð um frumvarpið.

Hv. þingmenn koma svo hingað upp og segja: Með frumvarpinu er verið að bregðast við bankahruninu og umræðum víða í þjóðfélaginu um nauðsyn þess að viðhafa persónukjör. Það er verið að bregðast við því að brjóta á bak aftur flokksræðið og krafa hefur komið fram — það koma hvergi fram í greinargerð þessa frumvarps neinar röksemdir sem styðja þau sjónarmið að sérstaklega sé verið að taka á bankahruninu eða bregðast við baráttu gegn flokksræði, enda býst ég ekki við því að þessir ágætu sérfræðingar sem sömdu frumvarpið, og þeir nota hvergi í greinargerð sinni neitt sem rökstyður þá skoðun hv. þingmanna, álíti að með frumvarpinu sé verið að bregðast við bankahruninu eða flokksræði.

Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vakti máls á, virðulegi forseti, er furðulegt að heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala um þetta mál á þann veg að þeir geti verið málsvarar þess ekki ríki flokksræði og þeir séu í flokki þar sem ekki ríki flokksræði — þar sem menn koma fram og lýsa yfir á fundum, bæði fyrir þessar kosningar og líka fyrir kosningarnar 2003, svo að dæmi séu tekin, að þeir ákveða einhliða hvar menn eiga að sitja á listum án þess að það séu nokkrar kjörnefndir sem koma að því. Það er eins og forustuhópur flokksins komi saman og skipti efstu sætum listanna á milli sín eða einhverjum sætum sem þeir kjósa að velja eftir því hvernig þeir líta á stöðuna. Þeir hafa prófkjörsreglur að engu, þeir segja við kjósendur: Þið skuluð kjósa eins og við segjum og svona á þetta að vera. Þessir menn standa síðan hér í ræðustól, fulltrúar þessa flokks, og láta eins og þeir séu einhverjir málsvarar þess að brjóta á bak aftur flokksræði.

Virðulegur forseti. Ef það væri svo að okkur þingmönnum bæti að líta á frumvarpið sem mikilvægan lið í því að bregðast við bankahruninu á Íslandi hlyti það að koma fram í greinargerðinni, þá hlytu sérfræðingarnir sem sömdu frumvarpið að benda okkur á það að þessi leið sem þeir velja, leið M1, sé besta leiðin til þess að bregðast við stöðu mála í kosningalöggjöfinni vegna bankahrunsins. Að sjálfsögðu gera þeir það ekki því að frumvarpið hefur ekkert með bankahrunið að gera. Það er lagt hér fram til þess að tefja nauðsynlegar umræður á þinginu um afleiðingar bankahrunsins og útleið úr þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það er furðulegt að standa hér, vitandi að kjördagurinn verður 25. apríl, og vera að ræða enn leikreglur sem eiga að gilda varðandi skipan lista og val manna á kjördegi þegar allir flokkar hafa ákveðið prófkjör og þetta frumvarp er sagt af hálfu sérfræðinganna að eigi að koma í stað prófkjara. Þetta er ótrúleg meðferð á tíma og kröftum þingmanna að ríkisstjórninni skuli detta þetta í hug, og þessum þingflokksformönnum, að leggja þetta hér fyrir þingið.

Síðan er það efni málsins: Er það æskilegt í sjálfu sér að auka áhrif kjósenda við val og röðun manna á lista? Það er álitaefni sem sjálfsagt er að velta fyrir sér og sjálfsagt er að skoða. Æskilegt væri að þingnefndin, sem fjallar um málið, gæti kallað til sín þingmenn frá öðrum löndum sem hafa búið við þessi kosningakerfi og fengið þá til þess að lýsa því fyrir þingmönnum sjálfum. Fyrst afgreiða á þetta hér annars vegar af sérfræðingum og hins vegar af þingmönnum í nefnd án þess að tóm gefist til að leita út fyrir nefndarveggi þingsins ætti forseti þingsins að gefa þingnefndinni kost á því að bjóða hingað til lands þingmönnum sem hafa kynnst því kosningakerfi sem hér er verið að leggja til. Þeir gætu þá borið vitni um það hvernig það virkar, hvort þessi breyting á löggjöfinni er til þess fallin t.d. að koma í veg fyrir bankahrun, hvort þeir líti þannig á að þessar aðferðir í þeirra löndum hafi stuðlað að efnahagslegu jafnvægi og stöðugleika í fjármálakerfinu og hvort þeir telji að ef þetta kerfi væri ekki hjá þeim væri meiri óstöðugleiki í fjármálakerfinu svo að vísað sé til raka þeirra þingmanna sem hér hafa talað.

Lítum á aðferðina. Ég er þingmaður sem hef boðið mig fram í kosningum og gengið í gegnum prófkjör. Ég hef tekið þátt í prófkjörum og ég hef haft áhuga á kosningalöggjöfinni og hef rætt hana. Á fyrstu árum mínum hér í þinginu vann ég að því og hafði m.a. hugmyndir um að það mætti fækka þingmönnum. Mér finnst það miklu skynsamlegri viðbrögð við bankahruninu, ef menn ætla að taka á málum sem varða þingmenn, að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að breyta kosningalöggjöfinni og stjórnarskrárákvæðum á þann veg að fækka þingmönnum — að spara og draga úr kostnaði og líta þá til þingsins ekki síður en til annarra og gera þá tillögur um róttækar breytingar að því leyti að dregið verði úr kostnaði við þinghaldið og það mætti gera með því að fækka þingmönnum.

Það er annað mál og það er ekki til umræðu hér enda eru þessar tillögur tæknileg útfærsla á mjög þröngum þætti en þætti sem skiptir máli. Í kosningabaráttunni árið 2007 var farið í persónukjör gagnvart mér. Þá var það einn auðmaður hér í landinu sem ákvað að nota fjármuni sína til þess að auglýsa, með mynd af sjálfum sér, í öllum dagblöðunum daginn fyrir kjördag að hann hvetti fólk til þess að strika mig út á kjörseðlinum. Hann fór í persónukjör og hann auglýsti og það bar þann árangur að ég féll niður á listanum. Þótt ég sé hér í þingsalnum og sitji á þingi bar aðför þessa manns þann árangur að ég var strikaður út af nógu mörgum til þess að ég varð ekki í 2. sæti heldur féll niður í 3. sæti á listanum.

Þetta er það sem menn eru að kalla yfir sig. Það er svona andrúmsloft sem menn vilja væntanlega hafa í kosningabaráttu þar sem auðmenn geta komið og beitt áhrifum sínum á sama hátt og þessi maður gerði, eða hópar, og kosningabaráttan verði þá þannig að menn leggi meira upp úr því að einstakir hópar beini spjótum sínum að einstökum þingmönnum og vegi þá og meti og gefi síðan fyrirmæli með auglýsingum eða í krafti fjármagns, eða hvað leið annarri sem menn hafa, til þess að velja fólk á lista, þegar það hefur boðið sig fram fari kosningabaráttan út í þetta. Við höfum dæmi frá kosningabaráttunni 2007 þar sem þessu var beitt með þessum hætti, fjármunum var eytt og varið til þess að ráðast á einn einstakling sem var talinn óvinur eins af því viðskiptaveldi sem síðan — það er miklu nær að tala um það hér og bankahrunið en breytingar í þessa átt til þess að auðvelda mönnum að nota fjármuni sína og krafta til þess að ráða hinu pólitíska andrúmslofti.

Halda menn ekki að þingmenn væru hallari undir slíka menn ef þeir mundu óttast að þeir mundu beita valdi sínu á þennan veg? Ef menn eru að tala um þetta sem lið í því að koma í veg fyrir bankahrun eða fjármálaóreiðu eða óvissu í þjóðfélaginu held ég að aðrar röksemdir þurfi en þær sem hér hafa komið fram til þess að sannfæra mig um það að þetta sé skynsamlegasta leiðin til þess að skapa festu og það öryggi í stjórnarfarinu og tryggja að þingmenn sé ekki háðir þrýstihópum, fjármagnseigendum eða þeim sem í krafti einhverrar slíkrar aðstöðu geti ráðið því hvernig valið er til þings.

Ég held að það sé nóg fyrir þingmenn að ganga í gegnum prófkjörin samkvæmt þeim leikreglum sem flokkarnir setja um val manna á framboðslista og láta fólk koma að því sem er skráð í viðkomandi flokka og láta það gegnsæi sem ríkir í flokksstarfinu ráða í staðinn fyrir að kalla þetta yfir menn í þingkosningunum sjálfum. Við höfum dæmi, og ekki er hægt að horfa fram hjá þeim dæmum, um hvernig svona valdi er beitt og hvaða ráðum er beitt til þess að reyna að koma í veg fyrir að menn sem — í mínu tilviki var ég talinn andstæðingur einhvers viðskiptaveldis og þá var fjármunum þess og áhrifamætti öllum beitt til þess að koma í veg fyrir að ég kæmist inn á Alþingi.