10.3.2005

Fjölmiðlar og sakamál.

Málþing í safnaðarheimili Neskirkju, 10. mars, 2005.

 

 

Í upphafi máls míns vil ég þakka þeim, sem að því standa að efna til þessa málþings undir heitinu: Mannlegur harmleikur í sviðsljósinu - Umfjöllun fjölmiðla um sakamál.

 

Biskup Íslands kveikti áhuga á því að fjalla um efnið á þessum vettvangi síðastliðið haust. Þá ræddi hann við formann og framkvæmdastjóra Dómstólaráðs, hvað væri til ráða, þegar fréttir bárust af því, að karlmaður, sem hafði verið dæmdur í fangelsi, hefði svipt sig lífi eftir dóminn.

 

Þetta mál er ekki síður brýnt nú en þá og snýr í senn að einstaklingum, fjölmiðlum og yfirvöldunum - okkur sem trúað er fyrir því vandasama verkefni að gæta laga og réttar með virðingu fyrir mannréttindum að leiðarljósi.

 

Nú fyrir fáeinum dögum gerðist sá sorglegi atburður, að maður í gæsluvarðhaldi svipti sig lífi og eru tildrög þess í rannsókn lögreglu.

 

DV hefur sagt ítarlegar fréttir af máli þess manns og annarra, sem því tengjast og meðal annars birt upplýsingar úr rannsóknagögnum lögreglu.

 

Í gær sendi blaðamaður DV mér fyrirspurnir vegna málsins.

 

Blaðamaðurinn spurði: Er réttlætanlegt að þínu mati að fimm sakborningum í sama máli, sem ekki hefur enn verið gefin út ákæra í, séu í sama fangelsi og umgangist hvor annan nær daglega, þrátt fyrir að sömu menn séu að vitna hver gegn öðrum og staðfestur grunur leiki á því að hótunum og ofbeldi hafi verið beitt í því skyni að hafa áhrif á ?

 

Ég svaraði: Lögregla og dómstólar taka ákvörðun um tilhögun gæsluvarðhalds með hliðsjón af hagsmunum hins kærða og rannsóknarhagsmunum. Enginn hefur sagt eins mikið opinberlega frá efni þess máls, sem snertir hinn látna, og einmitt DV og miðlað upplýsingum um alla þætti þess. Hvort þessi upplýsingamiðlun hefur haft áhrif í þeim hópi, sem er nefndur í spurningunni, veit ég ekki.

 

Blaðamaðurinn spurði: Er sálgæsla fanga nægjanleg að þínu mati eða stendur til að auka við þá þjónustu?

 

Ég svaraði: Mér hefur verið bent á, að miskunnarlausar opinberar frásagnir af rannsókn einstakra mála og lýsingar á þátttöku einstaklinga í þeim, kunni að kalla á meiri sálgæslu en áður, ekki aðeins í fangelsum heldur einnig utan þeirra.

 

Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs, lýsti tilgangi þessa málþings í samtali við Morgunblaðið í gær og sagði meðal annars:

 

„Þá kann umfjöllun fjölmiðla oft á tíðum að reynast þeim sem í hlut eiga þungbærari en dómsniðurstaðan sjálf. Svo er ekki óalgengt að birt séu nöfn aðila á fyrstu stigum rannsóknar, ákæra hefur ekki verið gefin út, hvað þá að niðurstaða dómstóla liggi fyrir. Það er mikilvægt að staldra við og gæta að þeim sem eiga um sárt að binda.“

 

Við komum hér saman í dag til að staldra við og huga að því, hvernig ræða á mannlegan harmleik á opinberum vettvangi.

 

Lögreglufréttir og frásagnir af slysförum eða vandræðum hvers konar er að sjálfsögðu viðurkennt og söluvænt fréttaefni um heim allan. Efnistökin eru mismunandi eftir fjölmiðlum. Sum blöð lifa og hrærast í mannlegum harmleik, önnur nálgast viðfangsefnið, án þess að beina athygli sinni sérstaklega að þeim, sem eiga um sárt að binda.

 

Blöð, sem helga sig harmsögum einstaklinga, ganga ekki aðeins of nærri sumum. Blöðin geta einnig auðveldlega orðið bráð þeirra, sem telja fjölmiðlaleiðina besta fyrir sig út úr einhvers konar ógöngum og þá gjarnan með því að misnota miðlana til að vega að óvinum sínum eða að yfirvöldum.

 

Við þær aðstæður er gjarnan aðeins sögð hálf sagan eða mál afflutt á þann veg, að gera hlut sögu- eða heimildarmanns miðilsins sem bestan. Einstaklingar eru oft berskjaldaðir og bjargarvana við slíkar aðstæður. Og hjá yfirvöldum vakna spurningar, hve langt þau eiga að ganga til að segja söguna alla.

 

Ég ætla eðlilega að tala um þetta frá sjónarholi mínum sem ráðherra.

 

Ef tilgangur frásagnar í fjölmiðli er augljóslega sá, að fegra málstað einhvers á kostnað þeirra yfirvalda, sem eiga að gæta laga og réttar, þykir mér einsýnt, að yfirvöldin eiga ekki að sitja þegjandi undir slíku. Þau eiga að beita þeim úrræðum, sem þau hafa til að koma hinu sanna og rétta á framfæri.

 

Ég hef talað fyrir þessu sjónarmiði á fundum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með forstöðumönnum stofnana á starfsvettvangi þess. Ég hef einnig hreyft þessu sjónarmiði á fundi með forstöðumönnum ríkisstofnana.

 

Ég hef ekki orðið var við annað en á þessum vettvangi hallist menn að því, að sjónarmið mitt um þetta efni eigi við rök að styðjast. Enginn vill sitja að ósekju undir ámæli, án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér.

 

Hér kann hins vegar að vera hægara um að tala en í að komast, því að stjórnvöld eru bundin þagnarskyldu, jafnvel þótt um sé að ræða mál, sem einstaklingur hefur sjálfur kosið að ræða opinberlega í fjölmiðlum.

 

Ég ætla að nefna málaflokk, sem rétt eins og sakamálin getur verið viðkvæmur og kallað fram heitar skoðanir og tilfinningar. Um alla Vestur-Evrópu hafa svokölluð útlendingamál orðið fyrirferðarmeiri á síðustu árum.

 

Mér segir svo hugur, að þeir séu næsta fáir sem átta sig í raun á þeim gríðarlega fjölda sem knýr dyra á Vesturlöndum, stundum fyrir sjálfan sig, stundum fyrir aðra, og hvaða aðferðum er beitt í þeirri viðleitni að koma fólki þar inn fyrir gátt.

 

Á Íslandi gilda skýr lög um þessi málefni, og eru þau á margan hátt sniðin að reynslu okkar næstu nágranna, eins og er um fjölmarga lagabálka okkar. Í stjórnsýslunni er lögð áhersla á að vandað sé til úrlausnar útlendingamála. Engu að síður er það svo, að reglulega má skilja fjölmiðlaumfjöllun á þann veg, að margt slæmt sé að segja um meðhöndlun stjórnkerfisins á útlendingamálum.

 

Ég leyfi mér að halda því fram, að sú umfjöllun hafi oft og iðulega verið einhliða, ósanngjörn og jafnvel í veigamiklum atriðum röng.

 

Eins og ég nefndi þá er það umhugsunarefni hversu langt yfirvöld eiga að ganga í því að leiðrétta stórfelldan og rangan málflutning þeirra sem bera sig upp undan þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Flóknari verður svo spurningin þegar baráttunni hefur verið hagað þannig að það er í raun ekki málsaðilinn sjálfur sem kemur fram, heldur einhver honum tengdur eða sem segir að mál hans renni sér til rifja. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur mér þótt ríkari ástæða fyrir stjórnvöld til að svara fyrir sig. Ekki skal ég þó taka af skarið um það hér og nú, hvar mörkin ber að draga í því sambandi.

 

Ég leyfi mér að vísa til tveggja mála, sem komið hafa upp á síðustu misserum, og nefni þau hér til umhugsunar.

 

Hingað kom fjölskylda frá Austur-Evrópu. Máli hennar hér lyktaði þannig, að hún var send úr landi, eftir að beiðni hennar um hæli hér á landi hafði verið hafnað.

 

Fólkið hafði sett saman sögu um alvarlega ógn, sem það stæði frammi fyrir í heimalandi sínu. Sagan var greinilega þaulæfð og það vantaði ekki að hún náði eyrum íslenskra fjölmiðlamanna. Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneyti rannsökuðu málið og niðurstaðan var sú að ekki væri grundvöllur til að veita viðkomandi fjölskyldu hæli hér á landi.

 

Hvað kom síðan í ljós? Þessi fjölskylda átti bæði hús, bíl og að eigin sögn „fimm hreinræktaða gæðahunda“ í heimalandi sínu, og hafði mann í því að gæta þessara eigna sinna á meðan húsbændurnir sinntu erindrekstri sínum á Vesturlöndum. Af vegabréfum fólksins mátti ráða að það gerði víðreist um heiminn og færi reglulega til síns heima, þar af í tugi skipta á síðustu örfáum árum.

 

Ekkert af þessu hefur nokkru sinni ratað í íslenska fjölmiðla og enginn þeirra hefur nokkru sinni spurt, hvað hafi orðið um fólkið eða hvort eitthvað hafi komið í ljós um hagi þess. En þegar var verið að flytja það úr landi, þá þótti harðneskja og óbilgirni íslenskra yfirvalda fréttnæm, ef ég man rétt. Gott ef ég og embættismenn í mínu umboði voru ekki sakaðir um stjórnarskrárbrot.

 

Mér verður hugsað til annars dæmis: Hingað kom fjölskylda og fékk hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum, vegna sérstakrar mildi sem sýnd var við afgreiðslu á beiðni þeirra um hæli, sem hins vegar var synjað.

 

Ástæðan fyrir dvalarleyfinu af mannúðarástæðum var sú, að þau voru með þrjú börn, þar af eitt nýfætt. Í kjölfarið nutu þau hér bóta, en þegar dvalarleyfi af mannúðarástæðum var ekki framlengt urðu þau ósátt. Í ljós kom við meðferð málsins, að þetta fólk, sem sagðist eiga von á miklum ofsóknum í heimalandi sínu, fór þangað stóran hluta úr ári, en var allan tímann á bótum hjá félagslega kerfinu á Íslandi.

 

Góðir áheyrendur.

 

Við höfum lög og reglur til að skapa frið og jafnvægi í þjóðfélaginu og alþjóðasamninga til að bæta samskipti þjóða og ríkja. Dæmin, sem ég nefni eru til marks um, að fólk hikar ekki við að misnota gróflega flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna svo og dvalarleyfi, sem það fær af mannúðarástæðum.

 

Þessi misnotkun byggist að öðrum þræði á því að afla sér samúðar í fjölmiðlum í trausti þess, að enginn segi alla söguna. Draga upp mynd af sjálfum sér sem lítilmagna gagnvart ofurefli.

 

Þetta eru augljós dæmi um, að leitast er við að misnota reglur, sem settar eru til að milda mannlegan harmleik.

 

Með slíku atferli er alið á tortryggni í garð þeirra, sem eiga réttmætra hagsmuna að gæta. Hið sama á við, þegar fjölmiðlar fjalla um sakamál, af ónærgætni og á þann veg, sem lýst hefur verið ágætlega með orðinu „skepnuskapur“ - þá er í senn grafið undan trausti og virðingu fjölmiðla og vegið að sálarstyrk þeirra, sem eiga um sárt að binda.

 

Ég ítreka þakkir mína til þeirra, sem standa að þessu tímabæra málþingi og lýsi þeirri von, að það þjóni þeim tilgangi, sem að er stefnt - að skapa aukinn skilning á nauðsyn virðingar í mannlegum samskiptum.