6.6.2000

Málþing um lesskimun - setningarræða 06. 06. 00

Málþing um lesskimun
og lestrarerfiðleika,
6. júní 2000.


Síðastliðinn föstudag kom Magnea Helgadóttir, nemandi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í heimsókn til mín í ráðuneytið. Hún hafði vakið athygli mína, þegar ég heimsótti alla framhaldsskóla landsins fyrstu mánuði ársins, því að hún spurði mig með einörðum hætti á mjög fjölmennum nemendafundi í FB, hvort það væri rétt, að hún væri of dýr nemandi fyrir skólann, af því að hún væri lesblind, hvort það kostaði of mikið, að hún stundaði þar nám og hvort skólameistarinn gæti neitað að taka við sér í skólann á þeim forsendum.

Svar mitt var á þann veg, að ég teldi lesblinda nemendur ekki of dýra fyrir skólakerfið, ég áttaði mig á því, að þeir þyrftu sjálfir oft að leggja harðar að sér við nám sitt en aðrir og þeim þyrfti að sinna á annan veg en öðrum, en við vildum svo sannarlega ekki leggja stein í götu þeirra, hitt væri síðan alltaf álitamál, hvort nóg væri að gert og hvað við hefðum mikið bolmagn á þessu sviði eins og öðrum.

Á þessum fundum í framhaldsskólunum rifjaði ég gjarnan upp aðra reynslusögu, þegar móðir nemanda í Menntaskólanum við Hamrahlíð óskaði eftir fundi með mér og kom til mín með dóttur sína. Hún sagðist vilja hafa hana með sér til að árétta orð sín, því að dóttir sín hefði gengið í gegnum töluverðar þrengingar í íslenska skólakerfinu og hún hefði jafnvel verið talin tornæm og henni bent á að huga að einhverju öðru en langskólanámi. Síðan hefði hún þá um sumarið fengið tækifæri til að fara til Englands í sumarskóla, þar hefði á fyrstu klukkustundunum verið sýnt fram á með tiltölulega einföldu prófi, að dóttirin væri lesblind. Hvers vegna væri ekki unnt að hafa svona próf í íslenskum skólum, spurði móðirin. Hefði leshömlun dóttur hennar verið greind fyrr hefði mátt spara fjölskyldunni miklar áhyggjur og jafnvel ótta vegna framtíðarinnar.

Enn eitt dæmi úr annarri átt get ég nefnt, því að nýlega kom til mín kennari í grunnskóla í Reykjavík, sem sagðist hafa áhyggjur af lesblindum nemendum sínum, þar sem þeir væru neyddir til að taka samræmd könnunarpróf án nokkurs tillits til hömlunar þeirra. Mörgum væri þessi próftaka hreinlega um megn og skapaði hjá þeim vanmáttakennd og óbeit á skóla, þótt þeir væru fluggreindir og hefðu áhuga á námi. Við þessu yrði að bregðast, ef menn meintu í raun eitthvað með því, að taka ætti tillit til þarfa hvers og eins.

Góðir áheyrendur!

Ekkert af þessu kemur ykkur líklega á óvart en dæmin sýna mér, að það er meira en tímabært að koma saman og ræða um lesskimun og lestrarerfiðleika á sérstöku málþingi með þátttöku sérfræðinga og áhugafólks. Býð ég ykkur velkomin til þessara umræðna og fagna því, hve margir hafa séð sér fært að sinna þessu kalli menntamálaráðuneytisins.

Í þekkingar-, upplýsinga- og menntasamfélagi samtímans er brýnna en nokkru sinni að gera sem flestum kleift að rækta og þróa hæfileika sína til að lesa ritað mál. Þátttaka ykkar og áhugi staðfestir, að hér er um mikilvægt mál að ræða, en þó er ekki liðinn fullur áratugur síðan lesblinda, eins og dyslexía er almennt nefnd á íslensku, var viðurkennd sem vandamál eða viðfangsefni í skólakerfi okkar. Viðurkenningin ein hefur vissulega skipt máli og margt gott hefur áunnist síðustu ár.

Nýja skólastefnan, sem ég kynnti snemma árs 1998, hefur verið lögð til grundvallar við gerð nýrra námskráa, sem tekið hafa gildi fyrir öll skólastigin. Í umræðum um stefnuna lagði ég áherslu á, að við framkvæmd hennar yrði komið til móts við ólíkar þarfir nemenda með sveigjanlegu skólakerfi og fjölbreytilegum kennsluaðferðum. Markmiðið væri ekki að kenna öllum það sama heldur að nemendur fengju trausta undirstöðu á þeim námssviðum, sem þeir veldu. Með fjölbreytilegum kennsluaðferðum yrði reynt að koma til móts við einstaklinginn og námsþarfir hans.

Við skulum minnast þess, að jafnrétti til náms er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Í þessu felast ekki endilega sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri.

Áhersla var jafnframt lögð á það, að staða nemenda skyldi greind, til að unnt væri að koma betur til móts við þarfir hvers og eins. Var þá sett fram það markmið, að foreldrum allra sex ára barna yrði boðið að láta þau taka lesblindupróf. Með því skyldu líkur á námsörðugleikum nemenda metnar þegar við upphaf skólagöngu og brugðist við, áður en í óefni væri komið.

Á fundum um nýju skólastefnuna var ég oft spurður að því, hvort það yrði ekki of kostnaðarsamt að framkvæma þennan þátt stefnunnar. Svarið við þessari spurningu er einfalt: Að sjálfsögðu kostar það sitt að koma til móts við þarfir hvers og eins eftir bestu getu. Hitt er þó dýrara að útiloka einstaklinga frá því að nýta hæfileika sína fyrir sjálfa sig og aðra og einangra þá frá eðlilegri þátttöku í þjóðlífinu vegna þess að við beitum ekki tiltækum úrræðum til að gera þeim kleift að stunda nám við hæfi. Nýja upplýsinga- og tölvutæknin opnar sífellt fleirum tækifæri til að njóta sín sem best og þjálfa námsgetu sína á einstaklingsbundnum forsendum. Þessi tækifæri ber að nýta eins og frekast er kostur.

Áður en nýja skólastefnan var kynnt, hafði ég í febrúar 1997 skipað vinnuhóp til að fjalla um leshömlun í grunn- og framhaldsskólum. Hann skilaði skýrslu undir heitinu Sértæk lesröskun í október 1997. Á grundvelli skýrslunnar var síðan skipuð framkvæmdanefnd á árinu 1998 til að þróa áfram lesskimun í grunn- og framhaldsskólum. Lögð var áhersla á að tengja úrræði vegna lesskimunar öðrum verkefnum, sem væru á framkvæmdastigi, svo sem hugbúnaðargerð, námsefnisgerð, endurmenntun kennara, greiningu barna og samræmdri próftöku. Framkvæmdanefndinni var ætlað að taka afstöðu til einstakra verkefnaþátta og hvernig þeim yrði best fylgt eftir og gæta að lesskimun almennt við framkvæmd nýrrar skólastefnu.

Töluverðar vonir tengdust störfum nefndarinnar, enda sátu þar fulltrúar þeirra stofnana og félaga, sem helst hljóta að koma að framkvæmd þessa verkefnis í samræmi við nýju skólastefnuna. Því miður varð ágreiningur um leiðir að markinu og forgangsröðun verkefna til þess að nefndarstarfið skilaði ekki þeim árangri, sem að var stefnt. Annars vegar var sagt, að allt handbært fé ætti að nota til að þróa séríslenskt lesskimunarpróf með tilheyrandi rannsóknum og umtalsverðum kostnaði, hins vegar var talið skynsamlegt, að fjármagn yrði einkum nýtt á þessu ári til að koma á lesskimunarkerfi í grunnskólum með því að styðja við þróun lesskimunartækja /prófa sem eru á lokastigi.

Ég ætla ekki að rekja hin ólíku sjónarmið nánar, því að vafalaust munu þau koma fram í máli manna hér á þessu þingi. Ágreiningurinn um leiðir varð hins vegar til þess, að ég ákvað að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf og tók framkvæmdina að mestu inn í ráðuneytið.

Í fjárlögum ársins 2000 er menntamálaráðuneytinu ákveðið fjármagn vegna lesskimunarverkefna í grunn- og framhaldsskólum. Tel ég mjög brýnt að nýta þetta fé til að hefja sem fyrst lesskimun í grunnskólum. Er heilladrýgst að ganga til samninga við þá aðila sem eru langt komnir við að þróa nothæf mælitæki með það að markmiði að unnt sé að nýta skimunartækin strax í haust. Fé til lesskimunar á þessum fjárlagalið á ekki að nýta til rannsókna og þróunar á séríslensku lesskimunarmælitæki fyrir 6 ára börn. Við höfum rannsókna- og nýsköpunarsjóði til að styrkja rannsókna- og þróunarstörf og felst því engin vantrú á getu íslenskra vísindamanna á þessu sviði í því að beina athygli þeirra frekar að slíkum sjóðum en að þessum fjárlagalið menntamálaráðuneytisins.

Undanfarin ár hefur þjónusta við lesblinda aukist stig af stigi. Námsgagnastofnun hefur unnið markvisst að útgáfu námsefnis, sem tekur mið af þörfum þessara nemenda í grunnskólum og Blindrabókasafnið hefur stóraukið framboð sitt fyrir framhaldsskólanema, en tölvutæknin og talgervlar eiga enn eftir að minnka bilið milli ritaðs og talaðs máls. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur í vaxandi mæli komið til móts við lesblinda með fráviksaðferð á samræmdum prófum. Er mikilvægt að haldið sé áfram að þróa þær aðferðir, því að með þeim er spornað gegn því að nemendur glati sjálfstrausti sínu andspænis ósanngjörnum kröfum. Jafnframt er ástæða til að minna á, að þróunarsjóðir grunnskóla og framhaldsskóla veita fé til verkefna á þessu sviði og sömu sögu er að segja um endurmenntunarsjóði kennara.

Framkvæmdanefndin um lesskimun í grunn- og framhaldsskólum lagði til að menntamálaráðuneytið héldi málþing um lestur og lestrarerfiðleika, þar sem innlendir fyrirlesarar skoðuðu málin frá sem flestum hliðum og tækifæri gæfist til að meta stöðuna hér á landi bæði hvað varðar kennslu, stoðþjónustu, próf og stefnumótun.

Þessa tillögu nefndarinnar erum við að framkvæma með málþinginu hér í dag. Hér verður unnt að hlusta á erindi um mikilvæga þætti lesskimunar og lestrarörðugleika. Kennarar í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla greina frá athyglisverðum verkefnum og nemendur og foreldrar lýsa reynslu sinni af dyslexíu. Jafnframt er svigrúm til umræðna og fyrirspurna.

Færi ég öllum, sem leggja okkur lið við að halda málþingið einlægar þakkir, og ekki síður þeim, sem hafa lagt á sig mikið undirbúningsstarf vegna þess.

Þegar ég spurði Magneu Helgadóttur á föstudaginn, hvers vegna hún sækti það af svo miklu kappi að fá tækifæri til að ljúka prófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, sagðist hún hafa ákveðið það sem lítil stelpa að ætla að læra auglýsingateiknun og arkitektúr í Bandaríkjunum. Hún myndi ekki að hvika frá því markmiði og það væri vegna þrjósku sinnar en ekki vinsamlegs viðmóts í skólakerfinu, sem hún hefði ekki lagt árar í bát. Ég óskaði Magneu til hamingju með að hafa náð svona langt og hvatti hana til að halda ótrauð áfram. Ég fagnaði því einnig, að skólakerfinu hefði ekki tekist að bregða fæti fyrir hana, henni ætti að gefast tækifæri til að rækta með sér sína eigin rödd og njóta sín í lífinu á þeim forsendum, sem hún helst kysi.

Góðir áheyrendur!

Þegar við ræðum hin mikilvægu mál, sem hér eru á dagskrá, skulum við strengja þess heit að finna sem best úrræði til að sinna lesblindum nemendum í íslenska skólakerfinu. Við skulum árétta hið skýra markmið okkar, að allir nemendur fái tækifæri til að blómstra á eigin forsendum.