27.8.2000

Viðskiptaháskólinn á Bifröst

Viðskiptaháskólinn
Bifröst,
27. ágúst, 2000.

Síðastliðinn vetur efndum við til háskólaþings og af því tilefni ræddi ég við nemendur úr öllum skólunum átta, sem starfa hér á háskólastigi, og spurði þá um afstöðu þeirra til námsins og skólans síns.
Meðal þeirra var Ólafur M. Einarsson, sem stundar nú nám á þriðja ári hér á Bifröst. Hann sagði mér, að ákvörðun sín um að fara aftur í nám eftir að hafa unnið í tíu ár við verslunarstörf hefði verið ein hin stærsta sem hann hefði tekið á lífsleiðinni, ekki aðeins fyrir sig heldur alla fjölskylduna, en hann á konu og tvö börn.

Sumir vina hans töldu, að hann hlyti að hafa fengið högg á höfuðið, þegar fjölskyldan seldi íbúðina og flutti í hjónagarða á Bifröst. Ólafur tók hins vegar þessa ákvörðun af því að hann vildi njóta sín betur á vinnumarkaðnum og til þess varð hann að afla sér meiri menntunar. Hann sá ekki eftir að hafa stigið þetta skref og sagði:

Vissulega kostar námið margar milljónir, en það á eftir að gefa mér og mínum miklu meira en fjármuni í aðra hönd. Námið í skólanum er gott, markvisst og verkefnabundið, það opnar mér tvímælalaust nýjar leiðir. Ég hvet fleiri til að láta slag standa, séu þeir í sömu sporum og ég. Jafnframt hvet ég til þess að fólki verði auðveldað að taka ákvarðanir af þessu tagi með meiri sveigjanleika í námslánakerfinu. &

Ég sagði frá þessu samtali okkar Ólafs í upphafi háskólaþingsins og dró meðal annars þá ályktun af því, að gott væri, að á Íslandi starfaði háskóli, sem gerði fólki í sporum Ólafs kleift að stíga það stóra skref, sem hann og fjölskylda hans gerði. Efa ég ekki, að í hinum glæsilega nemendahópi hér í dag eru mörg í þessum sporum og óska ég þeim til hamingju með að vera hér stödd og vona, að þeim gangi vel í náminu, sem nú er að hefjast.

Ég gat þess ekki á háskólaþinginu, að ég spurði Ólaf að því, hver yrði niðurstaða hans, fengi hann það verkefni að gera viðskiptaáætlun fyrir háskóla á borð við Bifröst. Í spurningu minni fólst, að líklega hefðu fáir spáð því, að unnt yrði að búa jafnvel í haginn fyrir háskólastarf og gert hefur verið hér á þessum tiltölulega einangraða og afskekkta stað. Enginn slíkur vafi var í huga Ólafs, þvert á móti sagðist hann treysta sér til þess að gera slíka áætlun fyrir öflugan alþjóðlegan háskóla, sem yrði vel sóttur, því að hann væri viss um, að víða um lönd myndi fólk taka því fagnandi að fá tækifæri til að helga sig árangursríku námi við svo góðar aðstæður.

Og enn eru stjórnendur á Bifröst að kynna ný markmið í háskólastarfinu með því að skilgreina skóla sinn sem alhliða viðskiptaháskóla og velja honum nýtt nafn í samræmi við það. Hér á að veita nemendum framúrskarandi fræðslu og þjálfun til að búa þá undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Ætlunin er að skapa nemendum skólans sjálfum samkeppnisyfirburði á vinnumarkaði að námi loknu og veita þeim hverjum og einum persónulegri þjónustu og betri aðstöðu til náms og þroska en aðrir háskólar gera.

Þetta eru ekki lítil fyrirheit og er ljóst af þeim, að nemendur hér geta gert miklar kröfur til skóla síns. Raunar gerum við öll miklar og vaxandi kröfur til skóla- og menntakerfisins, en við eigum jafnframt hiklaust að viðurkenna það, sem vel er gert.

Er til dæmis með öllu ástæðulaust að draga upp þá mynd af íslenska skólakerfinu, að það standist ekki alþjóðlega samkeppni. Íslenska þjóðfélagið væri ekki jafnfjölbreytt og spennandi, ef menntakerfið hefði brugðist þjóðinni. Hún stæði ekki í sömu sporum í samanburði við aðra, ef svo væri og auk þess segir ekkert okkur, að íslenskir nemendur eigi erfitt með að fá inngöngu í góða erlenda háskóla að loknu námi hér. Þvert á móti er þeim, svo að dæmi sé nefnt, tekið fagnandi í bestu háskólum Bandaríkjanna, þar sem samkeppni um hæfileika og fjármagn er hörðust, því að íslenskir nemendur eru taldir bæta stöðu viðkomandi háskóladeilda en veikja hana ekki.

Frá upphafi lögbundins fræðslustarfs hér á landi fyrir rúmum nítíu árum hefur ekki verið staðið jafnskipulega að endurbótum á íslenska skólakerfinu en á lokaáratugi 20. aldarinnar. Í fyrsta sinn hefur verið sköpuð samfella milli allra skólastiga með metnaðarfullum námskrám og háskólum hefur verið skapað nýtt starfsumhverfi með fyrstu heildarlöggjöfinni um það skólastig og samningum um fjármögnun ríkisrekinna háskóla og einkaskóla.

Aldrei fyrr hefur verið lagður jafngóður grunnur að skapandi sókn í menntamálum þjóðarinnar. Þetta einstæða tækifæri á að nýta sem best til að sækja inn á nýjar brautir í skólastarfinu sjálfu með því að hefja starf kennarans til nýrrar virðingar, nýta upplýsingatækni til hins ýtrasta og leggja rækt við getu nemenda í samræmi við hæfileika hvers og eins.

Viðskiptaháskólinn á Bifröst er framúrskarandi dæmi um mikilvæga og áhrifamikla nýjung í íslenska skólakerfinu. Háskólinn setur markið hátt og heitir nemendum sínum afburðaþjónustu. Ég óska skólanum til hamingju með það skref, sem stigið er í dag. Megi hann halda áfram að vaxa og dafna með metnaðarfullar kröfur að leiðarljósi.