29.7.2007

Skattalækkanir - lofthelgisgæsla NATO.

Framtak Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors að kalla saman ráðstefnu um lækkun skatta hefur hlotið góðar undirtektir. Hér á landi ætti að vera hljómgrunnur fyrir þær skoðanir, að lækkun skatta jafngildir ekki endilega tekjutapi fyrir ríkissjóð. Lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hefur síður en svo minnkað skatttekjur ríkissjóðs. Fyrstu viðbrögð eru hins vegar jafnan þau, þegar stjórnmálamenn ræða lækkun skatta, að þeir séu með því að gera á hlut einhvers, sem missi spón úr aski sínum, ef útgjöld hins opinbera dragast saman. Er þá gjarnan tekið til við að ræða samdrátt í útgjöldum til heilbrigðismála og menntamála – til þeirra málaflokka, sem andstæðingar skattalækkana telja líklegast að veiti þjónustu, sem nýtur velvildar skattgreiðenda.

Fyrir utan að lækkun skatta þýði ekki endilega opinbert tekjutap er hitt einnig sjónarmið, sem vert er að minnast, að með lægri sköttum eykst svigrúm einstaklinga og fyrirtækja til að ráðstafa fé sínu sjálfir – skattarnir hafa forgang eins og við öll vitum og þeir eru teknir af okkur, áður en við fáum launin inn á reikninginn okkar.

Ég hef áður og það líklega oftar en einu sinni sagt sögu hér af umræðum okkar norrænna menntamálaráðherra um einkarekstur á háskólum. Ég var talsmaður þess sjónarmiðs, að einkarekstur fengi að njóta sín á þessu sviði og skólagjöld yrðu innheimt. Sjónarmið mitt hlaut dræmar undirtektir, einkum hjá sænskum starfsbróður mínum, sem sagði skynsamlegt að innheimta sem hæsta skatta í þágu menntamála, enda hefðu stjórnmálamenn og stjórnvöld meira vit á því, hvernig verja ætti fé til menntamála, en fólk með greiðslu skólagjalda.

Þetta er sjónarmið, sem enn ræður miklu á vettvangi stjórnmálanna – að því meira fé, sem fer um hendur stjórnmálamanna og stjórnvalda, þeim mun betur líði almenningi. Vinstrisinnar eru hallir undir þetta sjónarmið, enda hefja margir þeirra stjórnmálaþátttöku í þeirri trú, að þeir séu best færir um að bæta heiminn á kostnað skattgreiðenda.

Í tilefni af ráðstefnunni um skattalækkanir skrifaði Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Blaðsins, leiðara í blað sitt, þar sem hann hvatti til frekari skattalækkana hér á landi. Hann ræddi sérstaklega um lækkun tekjuskatts á einstaklinga og sagði meðal annars:

 

„Ef tekjuskattur lækkaði, myndu sjálfsagt einhverjir kjósa að vinna meira. En það myndi líka stuðla að því [að] einhverjir, sem ekki eru á vinnumarkaði, fengju sér vinnu. Þeim kynni að fækka, sem kjósa að lifa á örorkubótum þrátt fyrir að hafa starfsorku. Og lægri skattar myndu hvetja fólk til að leggja sig fram og sækjast eftir hærri launum. Í því sambandi skiptir höfuðmáli að refsa ekki fólki með stighækkandi sköttum, heldur að halda flatri skattprósentu.“

 

Ef rétt er munað, er þetta fyrsta ráðstefna Hannesar Hólmsteins af nokkrum um skattalækkanir auk þess sem hann er með bók í undirbúningi um málið, og þá hefur hann verið óþreytandi við að kynna málstaðinn í fjölmiðlum undanfarið. Geir H. Haarde forsætisráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni fimmtudaginn 26. júlí og sagði ríkisstjórnina hafa frekari skattalækkanir á stefnuskrá sinni.

 

Skattar hafa verið lækkaðir undanfarin misseri en engu að síður hafa þau sjónarmið átt hljómgrunn, að í raun hafi skattar hækkað hér á landi. Þær umræður sýna, að nauðsynlegt er að ræða skatta og hugmyndir um lækkun þeirra á yfirvegaðan og málefnalegan hátt til að geta gert skil á milli þess, sem er rétt, og hins, sem er rangt.

 

Lofthelgisgæsla NATO.

 

Undir lok vikunnar bárust fréttir um, að fastaráð NATO hefði ákveðið, að Ísland yrði hluti af lofthelgisgæslu NATO (Air Policing). Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, ritaði leiðara í blað sitt föstudaginn 27. júlí undir fyrirsögninni: Ný tímamót í varnarmálum: Önnur nálgun.

 

Þorsteinn veltir fyrir sér framtíð ratsjárstofnunar við nýjar aðstæður í varnarmálum, en hún hefur verið rekin á kostnað Bandaríkjamanna, frá því að þeir kölluðu varnarliðið frá landinu, en frá og með næsta mánuði hvílir kostnaðurinn á okkur. Við þetta vakni spurningar um stefnu stjórnvalda í varnarmálum og Þorsteinn spyr réttilega: „Hversu mikil umsvif eru til að mynda nauðsynleg af Íslands hálfu til þess að fullnægja varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildarsamningnum að Atlantshafsbandalaginu?“

 

Hann telur grundvallarþætti varnarstefnunnar skýra en hins vegar sé ýmislegt óljóst varðandi okkar eigin umsvif og stjórnsýslu á þessu sviði. Og enn spyr Þorsteinn: „Þarf ekki stefnumótun þar um að liggja fyrir með rökstuddu mati á nauðsynlegri starfsemi? Er ekki eðlilegt að sjálfstæð umræða fari fram um þá stefnumótun?“

Hann telur, að brottför Bandaríkjahers héðan sýni, að hann telji ekki þörf á ratsjáreftirliti í þágu hervarna héðan og þar með ekki á rekstri ratsjárkerfisins. Slíku kerfi hafi verið lokað í Færeyjum. Gildi önnur rök fyrir rekstri slíks kerfis hér þurfi að skýra frá þeim, eða hvort borgaralegir hagsmunir krefjist þess, að kerfi af þessu tagi sé haldið úti. Eigi að beita kerfinu í hernaðarlegum tilgangi þurfi að ákveða, hvernig staðið verði að ákvörðunum um það.

Þorsteinn Pálsson segir undir lok leiðarans:

 „Mikilvægt er að stjórnsýsla á þessu sviði verði vönduð og byggi á skýrum heimildum. Á hún að vera óbreytt eða kallar hún á breytingar? Er þörf á sérstökum lögum um hernaðarlega starfsemi á vegum ríkisins? Hvernig á að byggja upp íslenska sérþekkingu á þessu sviði og lýðræðislegan samráðsvettvang?

Varnir landsins eru meðal mikilvægustu viðfangsefna á hverjum tíma. Ekkert bendir til annars en haldið hafi verið á þeim málum af yfirvegun og festu eftir að þau komu með skyndilegum hætti í fangið á íslenskum stjórnvöldum.

Meðan varnarmálin voru alfarið á herðum Bandaríkjamanna lutu efnislegar umræður um þau fyrst og fremst að milliríkjasamningum þar að lútandi. Kostnaðurinn var ekki áhyggjuefni. Nú eru þessi mál í okkar höndum. Það kallar á opna opinbera umræðu um einstök viðfangsefni, stefnumótandi ákvarðanir og kostnaðarmat.“

Þorsteinn Pálsson beinir þarna athygli að mikilvægum þætti, sem óhjákvæmilegt er að ræða og snertir meðal annars þá ákvörðun fastaráðs NATO að orrustuþotur undir merkjum NATO muni sinna hér lofthelgiseftirliti.

Hinn 29. mars sl. flutti ég ræðu á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs um öryggismál, þar sem ég fjallaði einmitt um ábyrgð okkar Íslendinga við nýjar aðstæður og skýrði frá því, hvernig staðið hefði verið að stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar og framkvæmd hennar á starfssviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Vísaði ég þar í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem gefin var við brottför varnarliðsins í september 2006 og sagði meðal annars:

„Áttundi liður í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar snertir breytingar innan stjórnarráðsins, þegar verkefni færast frá utanríkisráðuneyti til annarra.

Okkur er tamt að hugsa um öryggis- og varnarmál þjóðarinnar sem utanríkismál af þeirri einföldu ástæðu að íslenska utanríkisþjónustan annaðist öll samskipti við herlið Bandaríkjamanna og úrlausn mála tengdum framkvæmd varnarsamningsins.  Við höfum áratuga langa reynslu af því að ræða við aðra um það, hvað þeir kunni að vilja gera til að tryggja öryggi Íslands og hafsvæðanna umhverfis landið.

 

Nú þegar varnarliðið er farið og engin landsvæði geta lengur kallast varnarsvæði í skilningi varnarsamningsins, eftir að Bandaríkjaher skilaði þeim aftur til íslenskra stjórnvalda, breytist hlutverk einstakra ráðuneyta í samræmi við það. Samgönguráðuneytið mun að sjálfsögðu fara með yfirstjórn Keflavíkurflugvallar eins og annarra flugvalla og eins og hér hefur verið rakið axla stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins aukna ábyrgð í öryggismálum.“

Ég sagði einnig í þessari ræðu:

„Íslensk stjórnvöld hafa ekkert umboð til þess að sinna hernaðarlegum málum. Tillögur um aukinn hlut okkar Íslendinga á því sviði hafa fallið í grýtta jörð.  Þá eru landvarnir að víkja fyrir annars konar öryggisráðstöfunum, þar sem fremur er treyst á lögreglumenn en hermenn.

Við Íslendingar erum einfaldlega þiggjendur, þegar um hernaðarlegt samstarf við aðra er að ræða. Við getum tekið á móti hervélum og herskipum hér á landi og lagt ríkjum borgaralegan stuðning við æfingar. Við erum hins vegar ekki virkir þátttakendur í gagnkvæmu samstarfi við önnur ríki á sviði öryggismála nema með aðild borgaralegra stofnana.“

Þorsteinn Pálsson víkur að þessum vanda í forystugrein sinni, þegar hann spyr, hvort þörf sé á sérstökum lögum hér á landi um hernaðarlega starfsemi. Ef engin lög heimila íslenskum stjórnvöldum að taka þátt í hernaðarlegu samstarfi á annan veg en sem  þiggjendur og gistiríki á grundvelli varnarsamningsins og tvíhliða samninga annarra, geta íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu ekki falið starfsmönnum sínum að sinna verkefnum, sem talin eru hernaðarleg.

Af leiðara Þorsteins Pálssonar má draga þá ályktun, að hann efist um, að ratsjárstofnun geti sinnt hernaðarlegum verkefnum, sé hún einungis mönnuð Íslendingum.  Hann hvetur réttilega til þess, að öllum vafa sé eytt um þetta atriði, enda hlýtur það að ráða miklu um framtíð stofnunarinnar í íslenskum höndum.

Sama dag og Þorsteinn Pálsson birti þessar hugleiðingar sínar um hlut okkar Íslendinga í eigin vörnum og nauðsyn sérstakra raka um framtíð ratsjárstofnunar, bárust fréttirnar um ákvörðun fastaráðs NATO en af þeim mátti ráða, að ætlunin væri að endurvirkja ratsjárkerfið hér á landi í þágu lofthelgisgæslunnar. Verði það gert er enn brýnna en ella að átta sig á verksviði íslenskra starfsmanna við ratsjárkerfið og beitingu þess.