1.11.2008

Forgangsröð í fjármálakrísu.

Stjórnarhættirnir, sem gátu af sér fjármálakrísu samtímans, verða ekki safngripir. Hvorki lýðræði né markaðshagkerfi verður kastað fyrir róða. Á hinn bóginn lítur hvert ríki í eigin barm og hugar að innviðum sínum og framtíðarstefnu.

Hér á landi snerust umræður um þróun efnahagsmála í einföldustu mynd um, hvort við yrðum að þola „harða“ eða „mjúka“ lendingu. Í orðnotkuninni fólst, að sérfróðum mönnum bar saman um, að flughæðin væri of mikil og nauðsynlegt væri að ná landi á ný, og auðvitað helst án þess að brotlenda. Við vitum nú, að lendingin var mjög „hörð“ og enn er í raun ekki unnt að gera sér grein fyrir tjóninu.

Ríkjaskipan hefur ekki tekið neinni breytingu við hrun fjármálakerfisins. Á hinn bóginn er nú efnt til funda stjórnenda stærstu ríkja heims í því skyni að móta nýjar alþjóðlegar leikreglur í von um, að þær dugi til að endurskapa traust í fjármálasamskiptum.

Alþjóðaviðskipti og traustir gjaldmiðlar til að stunda þau skipta sköpum fyrir okkur Íslendinga og þess vegna hljótum við að leggja höfuðkapp á að endurvirkja eins fljótt og kostur er allar leiðir í því efni til að draga sem mest úr tjóninu vegna brotlendingar bankakerfisins. Til þess að það gerist þarf að treysta og efla samstarf við ríki og alþjóðastofnanir. Í því efni er viðurkenning og fyrirgreiðsla af hálfu alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) lykilatriði. Niðurstaða hjá IMF hefur verið boðuð 5. nóvember.

Vænst er, að í kjölfar ákvörðunar IMF sigli fyrirheit um aðstoð frá einstökum ríkjum. Færeyingar, nágrannar okkar, töldu sig ekki þurfa að bíða eftir grænu ljósi IMF og miðvikudaginn 29. október var sagt frá því, að færeyska landstjórnin mundi veita Íslandi 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán, um 6,1 milljarð íslenskra króna. Allir færeyskir stjórnmálaflokkar samþykktu ráðstöfunina. Jóhannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, sagði það siðferðislega skyldu Færeyinga að aðstoða Íslendinga. Þetta er vinarbragð, sem seint verður fullþakkað, en minnir okkur á, að brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda um þessar mundir er að tryggja gjaldeyrisstöðuna og að krónan verði örugglega gjaldgeng.

Krónuvinafélagið sýnist ekki fjölmennt um þessar mundir, en annað hvort leggja menn sig fram um að styrkja krónuna á þessari ögurstundu eða þeir ákveða að leggja upp laupana og bíða þess, sem verða vill. Ríkisstjórn og seðlabanki verða að ganga í takt til stuðnings krónunni næstu vikur, mánuði og jafnvel ár. Undan því geta ábyrg stjórnvöld ekki vikið sér, þótt ýmsir telji grasið grænna í túnfæti annarra mynta.

Til að sigrast á vanda verða menn að treysta sér til að horfast í augu við hann. Sameiginleg niðurstaða íslenskra stjórnvalda og IMF fól meðal annars í sér, að stýrivextir voru hækkaðir hér um 50% úr 12% í 18%. Hinn 30. október sendi Seðlabanki Íslands frá sér eftirfarandi athugasemd:

Eins og kunnugt er hefur verið litið svo á að samningsgerð (Letter of Intent) á milli ríkisstjórnar Íslands og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé enn trúnaðarmál. 19. tl. samningssgerðarinnar er þó eðli málsins samkvæmt ekki lengur trúnaðarmál.

Ráðherrar úr ríkisstjórn hafa undrast vaxtahækkun í 18% og hafa jafnframt sagt að ekkert ákvæði um slíka gjörð sé í samningsgerðinni. Í samningsgerðinni segir í 19. tl: „To raise the policy interest rate to 18 percent.“ “

Í Viðskiptablaðinu er hinn 31. október birt viðtal Andrésar Magnússonar við dr. Jón Daníelsson, dósent í fjármálum við London School of Economics, sem segir „feikilega hættu“ á því, að „hér fari í gang víðtæk keðjuverkun gjaldþrota, sem getur skilið landið eftir í rúst áður en nokkur fær neitt við ráðið. Í slíku ástandi skiptir hraði meira máli en flest annað þegar hugað er að viðbrögðum.“

Ég orðaði svipaða skoðun á þann veg í Kastljósi mánudaginn 27. október, þegar ég sagði það flótta frá veruleikanum að ætla nú að hefja deilur um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Var ég gagnrýndur fyrir orð mín í Staksteinum Morgunblaðsins og af Þorsteini Pálssyni í leiðara Fréttablaðsins. Ég svaraði Staksteinum í Morgunblaðinu 29. október.

Andrés spyr dr. Jón í Viðskiptablaðinu: „En hvað um framhaldið, ef okkur tekst að komast fyrir vind, er þá evran og Evrópusambandið svarið, eins og æ fleiri telja?“

Dr. Jón Daníelsson svarar:

„Það er langtíma pólitísk spurning, sem íslenska þjóðin getur tekið afstöðu til þegar stundir líða fram. Það er fullkomlega ótímabært. Þar fyrir utan hefur Evrópusambandið nóg að gera og hefur engan tíma til að taka afstöðu til Íslands um þessar mundir. Ef landið verður svo rjúkandi rúst eftir einhverja mánuði er vafamál að sambandið hafi áhuga á að fá Íslendinga í hópinn.“

Sé markmið með aðild að Evrópusambandinu að fá myntskjól, kann sú alþjóðaþróun að vera hafin nú þegar, sem skapar slíkt skjól á annan veg. Í því sambandi má minna á, að frjálsræði í viðskiptum með matvæli ræðst mest af því, sem gerist á vettvangi alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Eðlilegt er, að spurt sé grundvallarspurninga um innviði íslenska fjármálakerfisins eftir það, sem gerst hefur. Forgangsröðin þarf að vera skýr og byggjast á málefnalegum grunni.

Á ruv.is mátti lesa 1. nóvember [athygli vekur, hve mikið ósamræmi er í notkun stórra og lítilla stafa]:

„Bjarni Benediktsson þingmaður sjálfstæðisflokks segir það nánast fordæmalaust hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar beitir sér gegn Davíð Oddssyni Seðlabankastjóra.

Ingibjörg Sólrún segir í viðtali í morgunblaðinu í dag að það hvernig Davíð Oddsson hafi haldið á umræðunni hafi skaðað orðspor Íslendinga alþjóðlega. Hún segir einnig að það sé ábyrgðarhluti að láta málin halda áfram í þeim farvegi, þ.e væntanlega að Davíð haldi áfram sem Seðlabankastjóri.

Ingibjörg sagði í viðtali við fréttastofu fyrir nokkru að skynsamlegast væri að Seðlabankastjórarnir þrír vikju, til að skapa svigrúm fyrir Geir Haarde forsætisráðherra til að stjórna. Bjarni Benediktsson þingmaður sjálfstæðismanna gagnrýnir Ingibjörgu fyrir að tala með þessum hætti. Hann segir það hljóti að vera fordæmalaust hversu bein gagnrýni hafa beinst að stjórn Seðlabankans frá formanni Samfylkingarinnar og annarra stjórnmálamanna. Nú þurfi að endurvinna traust og orðhnippingar af þessu tagi hljóti að vera óheppilegar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður sjálfstæðisflokksins segir í viðtali í Fréttablaðinu í dag að fyrst nauðsynlegt sé að endurskoða peningamálastefnuna, þá sé eðlilegast að leita inn í Evrópusambandið.  Þessu er Bjarni sammála. Ástæða sé til að fara aftur yfir þetta hagsmunamat og ákveða hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi notkun krónunnar. Bjarni segir að stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum hafi verið skýrt frá upphafi. Nú þurfi Sjálfstæðisflokkurinn að skoða þessar nýju aðstæður og leggja mat á Evrópumálin. Ekki sé hægt að tala um Evrópusambandið eins og það snúist eingöngu um gjaldmiðilinn. Einnig þurfi að huga að öryggis-, efnahags- og utanríkismálum.“

Þeir, sem hafa kynnt sér sögu íslenskra utanríkismála, vita, að utanríkisþjónustan vann hörðum höndum að því að opna Íslendingum leiðir til að selja framleiðslu sína og afla sér gjaldeyris til innflutnings. Þá hefur það að sjálfsögðu verið markmið utanríkisstefnunnar að búa þannig um hnúta, að öryggi lands og þjóðar yrði tryggt.

Nú á tímum er óhjákvæmilegt að líta til þessara frumskyldna og endurmeta utanríkisstefnuna í ljósi breyttra aðstæðna. Tilrauninni um aðild að öryggisráðinu er lokið, Íslendingar munu ekki leysa neinar deilur fyrir botni Miðjaðarhafs eða valda þáttaskilum í Afríku.  Sendiráð, sem hafa verið „gíruð“ inn á að þjóna útrásinni, geta snúið sér að öðru. Í öryggismálum ber að leggja áherslu á borgaralegt samstarf, hernaðarþátturinn er í höndum annarra.

Evrópuumræðum verður enn á ný að skipa á þann veg, að þær þvælist ekki fyrir hinum brýnu úrlausnarefnum líðandi stundar.

Við blasir, hve Evróputalið hefur farið illa með Framsóknarflokkinn. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur framsóknarmönnum ekki tekist að setja Evrópumálin á þann stað í flokksstarfinu, að þau smiti ekki út frá sér og valdi vandræðum. Innan flokksins er hins vegar erfitt að greina á milli þess, sem er raunverulegur Evrópuáhugi, og hins, að Evrópumálin séu notuð til að grafa undan trausti í garð Guðna Ágústssonar, formanns flokksins.

Út á við birtist Evrópuumræðan innan Framsóknarflokksins sem átök milli Guðna formanns og Valgerðar Sverrisdóttur varaformanns. Að ætla Valgerði að sigra Guðna með Evrópumálstaðinn að vopni er ótrúverðugt, hitt er miklu líklegra, að yngri menn ýti undir hinn mikla áhuga á Evrópumálum innan Framsóknarflokksins í von um að auka þar eigin frama. Björn Ingi Hrafnsson hefur til dæmis snúið sér að þjóðmálaumræðum að nýju sem markaðsritstjóri Fréttablaðsins.

Ráð Björns Inga um samspil stjórnmála og viðskipta skýrðust best í REI/OR málinu, en því hef ég gert rækileg skil í Þjóðmálum til að sýna svart á hvítu, hve nauðsynlegt er fyrir stjórnmálamenn að stíga varlega til jarðar, þegar fjármálamenn og hagsmunir þeirra eiga í hlut. Það voru sex sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur, sem stöðvuðu framgang þess máls, en Björn Ingi sleit þá meirihlutasamstarfi við þá í von um, að geta haldið áfram á sömu braut í samvinnu við Samfylkinguna.

Eftir að ríkið tók að sér innlendan hluta bankastarfseminnar, hefur verið unnið að því að skilgreina og móta afstöðu til þeirra, sem eiga innistæður í bönkunum og nú hafa verið birtar tilkynningar um einhliða ákvörðun bankanna í því efni.  Stjórnendur bankanna verða nú að móta skýra stefnu um það, hvernig þeir ætla að haga fyrirgreiðslu til fyrirtækja og þar þarf að hafa snör handtök.