25.8.2007

Erfið leit - barátta Kasparovs - frumkvæði lögreglustjóra.

Leitin á Öræfajökli að Þjóðverjunum tveimur, sem ekkert hefur heyrst frá síðan 30. júlí, staðfestir enn, hve öflugar björgunarsveitirnar í landinu eru og hve vel skipulagt samstarf er með þeim, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslu og lögreglu.

Á vefsíðunni ruv.is laugardaginn 25. ágúst segir (leturbreyting mín):

„Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi hjá RLS, sem stjórnar leitinni segir að nú fari fram leit við erfiðustu aðstæður sem hugsast getur. Um 100 björgunarmenn, leitarhundar og þyrla landhelgisgæslunnar taka þátt í leitinni.

Undir lok leitar í gærkvöldi fundust spor í um 1.700 m hæð við Hrútfjallstinda á mjög erfiðu svæði. Strax í morgun var flogið með sérþjálfaða klifurmenn þangað og munu þeir leita það svæði eins og hægt er í dag.

Um 110 björgunarmenn í 23 hópum eru við störf á svæðinu og vinna sem stendur að 22 verkefnum. Þyrla landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, er einnig við leit á svæðinu.

Fyrstu hópar lögðu af stað til leitar kl. 6 í morgun og fara þeir þekktar gönguleiðir á Hrútfjallstinda og á Hvannadalshnjúk. TF-GNÁ hefur í morgun ferjað fjölda hópa til leitar á svæðinu og telja stjórnendur leitarinnar að þyrlan hafi þegar sparað leitarmönnum 300 klst. í göngu með því að hægt var að fljúga með þá upp í fjallið.

Eins og undanfarna daga munu hóparnir verða við störf fram í myrkur.“

Björgunarsveitarmaður úr björgunarsveitinni Tindi frá Ólafsfirði slasaðist við leit að Þjóðverjunum í Svínafellsjökli rétt fyrir kvöldmat föstudaginn 24. ágúst. Talið er að hann hafi farið úr axlarlið. Þyrla landhelgisgæslunnar sótti manninn á jökulinn og flutti í Freysnes. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl úr Freysnesi til Hafnar, þar sem hann komst undir læknishendur.

Við, sem lesum frásagnir af störfum leitar- og björgunarmannanna og þekkjum ekki til aðstæðna á jöklum, getum að sjálfsögðu ekki sett okkur í þeirra spor. Á hinn bóginn er öllum ljóst, að þeim verður aldrei fullþakkaður vilji þeirra til að leggja á sig mikið erfiði og áhættu með leit á hættulegum og erfiðum slóðum. Megi þeim takast ætlunarverk sitt með leitinni og snúa heilir heim!

Leitin að Þjóðverjunum tveimur reynir ekki aðeins mikið á björgunarmennina sjálfa heldur einnig alla innviði viðbragðskerfisins. Samhæfing allra aðila, örugg fjarskipti og góður tækjakostur skiptir þar sköpum. Færanlegar stjórnstöðvar björgunarsveitanna, skráning allra aðgerða í einn gagnagrunn og miðstöðin í Skógarhlíð auk þyrla landhelgisgæslunnar skapa björgunarsveitunum umgjörð við þessar aðstæður núna.

Eðlilegt er, að rætt sé nú eins og svo oft áður, hvaða úrræði séu best til að varna því, að fólk fari sér að voða í öræfaferðum. Þar á hið sama við og endranær, að sýna varkárni og láta af sér vita. Hver sem er hefur nú aðgang að fjarskiptabúnaði, sem tryggir stöðugt samband við umheiminn og enginn ætti í raun að fara á fáfarna staði án slíks búnaðar.

Barátta Kasparovs.

„Pútín er nú að teyma Rússland aftur til KGB-áranna en eina hugmyndafræðin er peningar og völd. Annaðhvort verða breytingar í Rússlandi eða samfélagið hrynur. Kerfið virkar ekki. Þrátt fyrir olíugróðann er stöðugt kreppuástand vegna þess að utan Moskvu og Pétursborgar lagast málin ekki neitt. Þegar kafað er undir þessa yfirborðshagsæld og stöðugleika ríkir örvænting og 85% þjóðarinnar sjá engar breytingar til bóta. Hátt olíuverð gerir þeim að vísu kleift að tryggja sæmilegan frið í mestöllu landinu sem stendur. En um leið og olíugróðinn er búinn fer ríkið á hausinn nema komið verði á umbótum. Þetta er ekki björt framtíð.“

Tilvitnun hér að ofan ér úr viðtali Kristjáns Jónssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, við Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistara í skák, en viðtalið birtist í blaðinu laugardaginn 25. ágúst í tilefni af því að Kasparov er hér á ferðalagi með eiginkonu sinni.

Skákmeistarinn hefur snúið sér að leikfléttum á borði stjórnmálanna og leggur sig fram um, að bjóða Rússum annan kost en Vladimír Pútín og félaga hans. Í viðtalinu við Kristján segir hann einnig:

„Ég hef sagt að ef ekki yrði beitt neinni ritskoðun í sjónvarpinu í tvær vikur myndi það duga til að ríkisstjórnin félli. Þetta fullyrði ég og hunsa þá það sem fólk segir við fréttamenn með bækistöðvar í Moskvu. Fólk hefur grun um að eitthvað mikið sé að, það veit ég því að ég hef ferðast mikið um landið og rætt við almenna borgara. Þrátt fyrir allan olíugróðann er efnahagsástandið slæmt, vegirnir eru ekki lagfærðir, innviðirnir eru að grotna niður. Fólk hefur grun um að ástæðan sé að skriffinnar í stjórnunarstöðum hafi allt of mikil völd. En þegar dælt er út endalausum áróðri í anda Goebbels er ekki alltaf auðvelt fyrir venjulegt fólk utan helstu byggðakjarna að verjast honum.“

Fróðlegt er að lesa þetta viðtal í ljósi úttektar í The Economist í þessari viku á stjórnarháttum í Rússlandi. Þar er rifjað upp, að skömmu áður en Pútín varð forseti, hafi hann sagt við fyrrverandi samstarfsmenn sína í FSB, rússnesku öryggisþjónustunni, sem tók við af KGB: „Aðgerðahópi FSB, sem sendur var með leynd til starfa í stjórnarráði Rússlands, hefur tekist ætlunarverk sitt.“

Blaðið segir, að þessu gamni hafi fylgt töluverð alvara. Í forsetatíð Pútíns hafi „aðgerðahópi FSB“ tekist að ná lykilstöðu. FSB-menn og starfsmenn systurstofnana FSB stjórni Kreml, ríkisstjórninni, fjölmiðlum og stórum hluta efnahagslífsins – fyrir utan undirtökin í hernum og öryggisstofnunum. Fjórðungur helstu opinberra stjórnenda Rússlands séu siloviki – eða valdamenn úr röðum hers og annarra öryggisstofnana. Þetta sé samhentur hópur, sem eigi rætur í Cheka, fyrstu stjórnmálalögreglu Bolsévika. Pútín hafi oft sagt: „Það finnst enginn fyrrverandi chekisti.“

Sagt er frá því, að Pútín og félagar haldi minningu Júrís Andropovs, fyrrverandi forstjóra KGB, hátt á loft og Pútín hafi afhjúpað skjöld honum til heiðurs í Lubjanka-höfuðstöðvunum með þeim orðum, að Andropov hafi verið „framúrskarandi stjórnmálamaður“. Með aðdáun á Andropov sé lýst andúð á Mikhaíl Gorbatsjov, sem KGB taldi missa alla stjórn á þróun mála í Sovétríkjunum.

Bórís Jeltsín sagði af sér sem forseti Rússlands 1999. Hann hafði þá fært Pútín völd, en Jeltsín gerði Pútín að forstjóra FSB 1998 og forsætisráðherra ári síðar. The Economist segir, að við valdatöku sína hafi Pútín talið brýnast að herða tök á stjórn landsins með því að þagga niður í andstæðum pólitískum áhrifavöldum: oligörkunum, héraðsstjórunum, fjölmiðlunum, þinginu, stjórnarandstöðunni og frjálsum félagasamtökum.

Oligarkarnir Berezovskíj og Gusinkij hafi verið hraktir í útlegð og sjónvarpsstöðvar þeirra settar undir ríkið. Khodorkovskíj, ríkasti maður Rússlands, hafi neitað að fara úr landi og 2003 hafi FSB handtekið hann og sett í fangelsi eftir sýndarréttarhöld, þar sé hann enn.

Héraðsstjórarnir hafi verið sviptir völdum og fólkið rétti til að kjósa þá.

Nú hafi silovikar hreiðrað um sig í öllum stærstu fyrirtækjum landsins, þeir séu í efnahags-, samgöngu-, auðlinda-, fjarskipta- og menningarmálaráðuneytunum. Blaðafulltrúi Pútíns sitji í stjórn helstu sjónvarpsstöðvar Rússlands.

Keppni um að komast til starfa hjá FSB sé mikil og nú sækist börn háttsettra silovika eftir að komast í FSB-akademíuna í Moskvu, aðsóknin sé svo mikil að ákveðið hafi verið að tvöfalda húsakostinn með nýrri risavaxinni byggingu. Bent er á, að málið snúist ekki aðeins um, hvað sé kennt heldur ekki síður um, hverjum maður kynnist í skólanum.

Samheldni meðal FSB-manna sé styrkt með því að draga upp skuggalega mynd af öflum utan Rússlands, sem vilji vega að styrk þess og stöðu. Í The Economist er þetta haft eftir FSB-manni: „Þeir vilja, að Rússar verði háðir tækni þeirra. Þeir hafa fyllt verslanir með varningi sínum. Guð sé lof fyrir, að við ráðum enn yfir kjarnorkuvopnum.“

Rökin séu einnig á þá leið, að á tíma Gorbatsjovs hafi Rússland notið velvildar á Vesturlöndum. Hverjum hafi það gagnast? Jú, Rússar hafi tapað allri Austur-Evrópu, Úkraínu og Georgíu. NATO hafi færst að rússnesku landamærunum. Í ljósi röksemda af þessu tagi séu allir, sem mæli með góðum samskiptum Rússlands við Vesturlönd, taldir óvinir ríkisins. Í þessum dilk séu nú frjálshuga fjölmiðlamenn, síðustu frjálsu félagasamtökin, sem njóti vestræns stuðnings, og fáeinir frjálslyndir stjórnmálamenn, sem enn mæli með vestrænum gildum.

Séu ummælin, sem Kristján Jónsson hefur eftir Garrí Kasparov í Morgunblaðinu 25. ágúst 2007 lesin í þessu ljósi, má ætla, að það þurfi mikla hæfileika og mikið þrek til að leiða rússneskt stjórnmálalíf inn á þá braut, sem Kasparov hefur valið.

The Economist tekur undir með lýsingu Kasparovs á ástandinu í Rússlandi. Stjórnvöld glími þar við gífurlegan vanda. „Til að sigrast á honum kunna nýir valdamenn landsins að tileinka sér jafnvel enn frumstæðari þjóðernisstefnu en til þessa; sú þjóðernisstefna gæti breyst í óargadýr, sem lyti ekki einu sinni stjórn skapara síns.“

Frumkvæði lögreglustjóra.

Grein Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um ástandið í miðborg Reykjavíkur, sem birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst hefur skerpt umræðurnar um þetta mál, þótt sjónarmiðin séu enn mörg og ólík. Lögreglustjóri ræddi einkum hið veigamikla verkefni að draga úr hættu á því, að fólk ynni hvert öðru tjón við skemmtanir sínar í miðborginni. Þetta hlýtur að vera höfuðverkefni lögreglu og til að glíma við það á hún jafnt að líta til forvarna með greiningu á undirrót vandans og ásamt úrræðum á staðnum, þegar skemmtanalífið er í hámarki.

Af umræðunum vegna greinar lögreglustjórans má ráða, að forvarnir, sem byggjast á greiningu á undirrót vandans, leggjast misjafnlega vel í álitsgjafana, sem allt vita vegna næmra tilfinninga sinna fyrir umhverfi sínu og þróun mannlífsins. Með því að minnast á skipulagsmál og afgreiðslutíma snertir lögreglustjóra viðkvæma strengi þeirra, sem telja mestu skipta að kalla á sem mestan fjölda fólks síðla kvölds eða um nætur og fram á morgun í miðborgina. Það eitt sé til marks um lifandi miðborg og þá eigi lögreglan einnig að fara í flokkum um borgina og vera sem mest sýnileg, við þær aðstæður líði mannfjöldanum best.

Vandinn lýtur þó ekki einungis að því að láta fólki líða vel í mannhafi á götum úti. Hvað um sóðaskapinn? Hvað um fólkið, sem býr í miðborginni og kýs að njóta heimilisfriðar? Hvers á það að gjalda? Bæta flokkar lögreglumanna líðan þess, ef marka má lýsingar, sem birst hafa í Morgunblaðinu?

Fyrir nokkru birti ég hér á síðunni bréf Margrétar Kjartansdóttur úr Morgunblaðinu, þar sem hún lýsir sóðaskapnum á Laugavegi.

Í Morgunblaðinu 25. ágúst er birt viðtal við Ernu Valdísi Valdimarsdóttur, íbúa í Þingholtunum. Hún segir umgengni um miðborgina hafa hríðversnað í ár. Í sumar tali margir um að sóðaskapur, hávaði og skrílslæti í miðbænum hafi keyrt um þverbak. Erna stóð nýlega fyrir undirskriftasöfnun og lagði fram formlegt erindi fyrir borgarráð vegna hávaða og ónæði sem hlýst af bar í nágrenninu. „Breytingin var mjög afgerandi hérna í ársbyrjun þegar bar í götunni breytti rekstrarforminu hjá sér og fór að hafa opið til klukkan sex á morgnana og tók upp á því að spila gríðarlega háværa tónlist með alla glugga opna. Það breyttist allt. Þetta var bara rólegur bar áður, maður vissi ekki af honum.“ “

Hvaða ályktun er unnt að draga af þessu? Jú, að breyting á rekstri veitingastaðar hafi gjörbreytt aðstæðum Ernu Valdísar.

Í Morgunblaðinu 23. ágúst mátti lesa þetta:

„Bjarni Einarsson, nágranni Ernu [Valdísar Valdimarsdóttur við Ingólfsstræti], hefur búið alla sína ævi í miðbænum. Hann tekur undir það með henni að undanfarið hafi skemmtanalífið breyst mjög til hins verra. Hann nefnir að úthverfi höfuðborgarinnar hafi vaxið mjög síðustu ár og að margir þeirra sem koma í bæinn að skemmta sér um helgar hafi engin önnur tengsl við miðborgina. „Það ríkir algjört virðingarleysi gagnvart samfélagslegu hliðinni, að það sé fólk sem býr hérna. Fólk lítur bara á þetta sem stað til þess að detta í það. Ég var kýldur fyrir stuttu síðan þegar ég spurði mann sem var að pissa á húsið hjá mér hvað hann væri að gera,“ segir Bjarni.“

Vill nokkur, að aðstæður af þessu tagi skapist reglulega við heimili sitt? Er ráðið við þessu að hafa lögregluvörð við heimili Bjarna?

Í Morgunblaðinu 23. ágúst birtist frásögn af fundi, sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, boðaði í grein í Morgunblaðinu. Fundurinn var fjölsóttur og voru þar fulltrúar Reykjavíkurborgar og veitingamanna. Í frásögn blaðsins segir meðal annars:

„Hugmyndir lögreglustjóra um aðgerðir gegn ofneyslu áfengis voru sennilega helsta nýmæli fundarins. „Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til þess að koma fyrir aðstöðu í miðborginni þar sem lögregla, skemmtistaðaeigendur og aðrir geti farið með einstaklinga sem eru áfengisdauðir. Þar geti þeir sofið úr sér, notið aðstoðar hjúkrunarfræðings ef svo ber undir og einhver frá félagsþjónustunni getur náð í aðstandanda sem er með ráði og rænu,“ sagði Stefán. Ótrúlega mikill tími lögreglu færi í það að sækja ofurölvi fólk fyrir utan skemmtistaðina í miðbænum, aka því upp á lögreglustöðina á Hverfisgötu og færa það fyrir varðstjóra sem síðan reynir að hafa samband við aðstandendur eða leysa málið á annan hátt.

Stefán viðraði að lokum hugmynd sína að samvinnuverkefni skemmtistaða, lögregluyfirvalda og borgaryfirvalda. „Við getum skuldbundið okkur sameiginlega með því að segja: Lögreglan, borgaryfirvöld og eigendur tiltekinna veitingastaða eru sammála um að þeir eru á móti ofbeldi, eiturlyfjum og ofneyslu áfengis.“ Síðan verði skilgreint hvað felist í skuldbindingunni af hálfu hvers og eins.“

Hér hefur lögreglustjóri enn frumkvæði að nýmælum til að breyta skemmtanabragnum í Reykjavík og auðvelda lögreglu að sinna öðru en því að flytja áfengisdautt fólk á milli staða. Lögreglumenn gætu í staðinn hugað að því, að þeir, sem standa á fótunum, væru ekki eða lemja eða bíta hver annan. Kæmi tillaga lögreglustjóra að einskonar þríhliða árangursstjórnunarsamningi gegn ofbeldi, eiturlyfjum og áfengisneyslu til framkvæmda, yrði það skref í rétta átt. Hafa borgaryfirvöld og veitingamenn vilja til að gera síkt samkomulag?

Til dæmis um ólík viðhorf álitsgjafa birtast hér tilvitnanir í þrjá leiðara í Fréttblaðinu eftir þrjá ólíka höfunda (leturbreytingar eru mínar).

Jón Kaldal segir í Fréttablaðinu 19. ágúst:

„Vissulega geta skrílslætin verið ægileg þegar líður að morgni um helgar í bænum, en er ekki rétt að að sjá til hvað gerist ef einhver hefur sýnilegt eftirlit með samkomunni áður en við flautum hana af? Það eru sjálfsagt fleiri kennarar úti á skólalóð í frímínútum meðalgrunnskóla en lögreglumenn í miðbænum um helgar. Úr þessu þarf að bæta strax eins og margsinnis hefur verið nefnt á þessum stað.


Sem betur fer virðist Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, vera allur af vilja gerður til að gera lögregluna sýnilega í bænum. Meðal hugmynda í þeim efnum er færanleg lögreglustöð í húsbíl, sem er bráðsnjöll. Veitingamenn mega líka líta í sinn barm og axla meiri ábyrgð. Það er til dæmis engin ofrausn að skylda þá til að halda gangstéttinni hreinni í ákveðinn radíus kringum staði þeirra.


Þegar öllu er á botninn hvolft er þó rétt að ítreka að vandi miðbæjarins er góðkynja. Ef enginn vildi þangað koma eða gera þar neitt nýtt, þá fyrst væri miðborg Reykjavíkur í verulega vondum málum.“

Hafliði Helgason segir í Fréttablaðinu 20. ágúst:

„Í umræðu um slíkt kristallast oft togstreita milli öryggissjónarmiða borgaranna og athafnafrelsis einstaklinga. Spurningin er einfaldlega sú í hve miklum mæli frelsið ógni örygginu. Þarna fara menn stundum offari og boða helsi vegna stakra viðburða án þess að raunverulega séu metnir heildarhagsmunir og gagn af því að skerða frelsi borgaranna. Þannig er spurning hvort sú yfirþyrmandi öryggisgæsla sem orðin er víða í kjölfar 11. september sé ekki langt umfram þá ógn sem er fyrir hendi.

Almenna reglan á að vera sú að það þurfi rík rök um mikla ógn til að ganga á rétt borgaranna til að geta um frjálst höfuð strokið. Það er betra að einn og einn ódámurinn sleppi, en að allur fjöldinn sé hnepptur í fjötra ofstjórnar og leiðinda. Stjórnmálamenn eiga ekki að tala upp óttann til að slá sig til riddara með harðari lagasetningu og öfgakenndu eftirliti. Verkefni yfirvalda er að taka á þeim sem af sér brjóta, en ekki að refsa öllum hinum. Það er ýmislegt hægt að bæta og skipulag menningarnætur í ár er ágætt dæmi um hvernig gleði fjöldans fékk að sigra ofbeldi og eyðileggingu hinna fáu.“

Steinunn Stefánsdóttir segir Fréttablaðinu 25. ágúst 2007:

Skálmöldinni sem stendur í miðbæ Reykjavíkur um nætur verður hins vegar að ljúka. Þann brag á ekki með nokkru móti að líða. Ölvun á almannafæri er bönnuð, sömuleiðis óspektir alls konar, svo sem að brjóta flöskur og hafa uppi hávaðasöm ólæti.

Það er líka bannað að aka umfram hámarkshraða og leggja bílum sínum á gangstéttum. Við slíkum brotum er sektað. Óspektir í miðbænum eru hins vegar uppspretta umræðu og hneykslunar en að öðru leyti engra viðbragða. Látið er sem þetta sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að í miðbænum séu veitingastaðir sem veita vín. Stungið er upp á breyttum opnunartíma skemmtistaða, að flytja reykingar að nýju inn í hús, að fjarlægja kæliskáp úr áfengisútsölu sem aðeins er opin að deginum (þessu þáttur komst reyndar á framkvæmdastig eins og þekkt er) í stað þess að ganga hreint til verks og beina sjónum að þeim einstaklingum sem hafa uppi óspektir.

Beita má viðurlögum við óspektum, rétt eins og við hraðakstri og stöðu bifreiða á gangstéttum. Þetta hefur verið gert í borgum erlendis og þykir hafa gefist vel.“