21.7.2007

Barrtjáatíð - lögregluvefurinn - sóðaskapur.

Umræður um barrtré á Þingvöllum hafa nú ratað inn á síður Lesbókar Morgunblaðsins. Gunnar Hersveinn segir laugardaginn 21. júlí:

„Ef til vill er burthvarf barrtrjáa frá Þingvöllum eins konar samkomulag milli Þingvallanefndar og menningarmálanefndar SÞ? Hver veit? Umsóknin um Þingvelli á heimsminjaskrá UNESCO var lögð fram 2003 og Þingvellir komust á skrána 2004. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sagði þá að viðurkenningin væri mikilvægur grunnur fyrir menningartengda ferðaþjónustu á landinu. Þingvellir komust ef til vill á þessa umtöluðu skrá fremur af menningarlegum ástæðum en náttúrulegum? Í framhaldi af umsókninni til UNESCO samþykkti Þingvallanefnd hinn 2. júní 2004 stefnumörkun næstu 20 ára fyrir þjóðgarðinn og einnig verkefnaáætlun þar sem m.a. er gert ráð fyrir grisjun. Sama ár tóku ný lög um þjóðgarðinn gildi.“

Gunnar Hersveinn hefði getað fengið svör við þessum spurningum með því að fara inn á gagnasafn Morgunblaðsins eða lesa það, sem eftir mér var haft í Fréttablaðinu þriðjudaginn 17. júlí en þar stóð meðal annars:

„ [Árið] 1999 gáfu Þingvallanefnd og Skógrækt ríkisins út samstarfsyfirlýsingu um eftirlit og umhirðu skógarins í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Í samræmi við hana gerðu starfsmenn þjóðgarðsins og skógræktarinnar áætlun árið 2001 um það, hvernig skógarhöggi og grisjun yrði háttað,“segir Björn Bjarnason, formaður Þingvallanefndar, í tölvubréfi til Fréttablaðsins.

„Í áætluninni er það markmið meðal annars sett, að barrtré í þinghelginni víki en hlúð skuli að gróðri, sem á sér lengri sögu á Þingvöllum. Þetta er gert í því skyni að varðveita hinn forna þingstað sem opið sögusvið fyrir komandi kynslóðir. Sama á við um nokkra aðra sögufræga staði innan þjóðgarðsins, meðal annars Ölkofradal,“segir Björn.

„Að mati þeirra, sem gerst þekkja til innan þjóðgarðsins, er með öllu ástæðulaust að telja að vegið sé að þjóðgarðinum með þeim markmiðum, sem hér er lýst eða áætlunum á grundvelli þeirra. Hitt er einnig fráleitt að kenna þessa rækt við þjóðgarðinn við lögbrot,“segir Björn.

Eins og af þessum orðum mínum sést samdi Þingvallanefnd ekki við UNESCO um, að barrtré í þinghelginni skyldu grisjuð. Samkomulag og samvinna var hins vegar við forráðamenn skógræktar í landinu um þetta mál og hafa öll skref í því verið stigin í samstarfi við sérfræðinga. Sigurður K. Oddsson þjóðgarðsvörður er sjálfur áhugamaður um skógrækt og hefur það verið persónulegt metnaðarmál hans að vinna að þessari grisjun á fagmannlegan hátt.

Vissulega var litið til náttúrufræðilegra þátta við skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO en hið sögulega menningargildi staðarins var hins vegar haft í fyrirrúmi eða eins og segir á skildi, sem er fyrir framan fræðslumiðstöðina á Hakinu efst við Almannagjá:

„Þingvellir eru á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) á grundvelli sáttmála um verndun og varðveislu sérstæðra menningar- og náttúruverðmæta heimsins. Með skráningunni er staðfest einstakt menningarlegt gildi Þingvalla sem ber að varðveita fyrir gjörvalla heimsbyggðina.

Þingvellir eru friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður. Þingvellir hafa hlotið viðurkenningu sem heimsminjar fyrir sögulegt menningargildi, sérstæða náttúru og einstaka jarðfræði á flekaskilum Evrópu og Norður-Ameríku. Alþingi á Þingvöllum geymir aldalanga sögu um þinghald. Sagan varpar ljósi á hugmyndir manna á víkingaöld um þjóðfélagsskipan, lög og vald en á Íslandi fylgdist þá að mótun nýs þjóðfélags og blómleg ritmenning. Þingvellir móta sjálfsvitund íslensku þjóðarinnar.“

Aðdraganda skráningarinnar á heimsminjaskrána lýsti ég í ræðu á Þingvöllum 28. ágúst 2004, þegar skráningin var formlega staðfest. Á grundvelli skráningarinnar hefur síðan verið unnið að hugmyndum um að skrá fleiri forna þingstaði og skrá Atlantshafshrygginn svonefnda, sem sést vel ofanjarðar á Þingvöllum. Fyrir Þingvallanefnd vakti ekki að kalla á fleiri ferðamenn í þjóðgarðinn með skráningunni heldur skipa honum sess með þeim heimsminjum öðrum, sem þar eru skráðar – fjölgun ferðamanna er hliðarbúgrein, sem Þingvallanefnd og þjóðgarðurinn stundar einkum með fræðslu- og kynningarstarfi í þágu sögu, menningar og náttúru.

Í UNESCO-skráningarvinnunni kom fram, að hinir erlendu sérfræðingar, sem sendir voru á vettvang til að meta Þingvelli í samanburði við hundruð eða þúsundir annarra staða, voru sammála mati Þingvallanefndar og sérfræðinga hennar um fækkun barrtrjáa í þinghelginni. UNSECO setti Þingvallanefnd ekki neina úrslitakosti í þessu efni, en taldi nefndina á réttri braut, þegar lögð væri áhersla á grisjun barrtrjáa. Hjörleifur Guttormsson, sem sat í Þingvallanefnd á níunda áratug síðustu aldar, hefur skýrt frá því, að á þeim tíma eða árið 1988 hafi nefndin fyrst sent frá sér stefnu, sem miðaði að því að grisja barrtrén.

Fornleifarannsóknir hafa lítið verið stundaðar á Þingvöllum en fyrir fáeinum árum samdi Þingvallanefnd við Fornleifastofnun Íslands um, að hún mundi hefja þar slíkar rannsóknir. Fjármunir hafa verið takmarkaðir en þó hefur verið unnt að rannsaka svæði fyrir framan Þingvallakirkju og einnig í Miðmundartúni, sunnan við Þingvallabæinn. Adolf Friðriksson, forstöðumaður stofnunarinnar, ritaði mér bréf í tilefni af barrtjáaumræðunni núna og sagði meðal annars:

[T]rjárækt og fornleifar fara ekki vel saman og er rannsóknin í Miðmundartúni á Þingvöllum ákjósanlegt dæmi þar um: Í Miðmundartúni fannst áður óþekkt þyrping af fornum tóftum, sem við vitum enn lítið um. Mannvirkin eru óvenjuleg að lögun og gerð, í þeim hafa ekki fundist hefðbundnir gripir eða merki um búsetu. Tóftirnar eru frá fornöld eða miðöldum, þeim bregður hvergi fyrir í fornritum, eða lýsingum á Þingvöllum frá síðari öldum. Skyndilega og fyrir algera tilviljun finnst einn merkasti forngripur sem komið hefur úr íslenskum jarðvegi í Miðmundartúni, þ.e. þegar tábagallinn, tignarmerki biskups, eldri en biskupaembættin íslensku, fannst við lagnavinnu árið 1957. Hvað segir sá fundur um minjarnar í Miðmundartúni og fyrra hlutverk þeirra? Geyma minjarnar mikilvægan kafla úr sögu Þingvalla sem hefur glatast að öðru leyti?

Minjarnar skemmdust lítillega við skurðgröftinn fyrir jarðstrengnum 1957. Á minnisblöðum Gísla Gestssonar, sem skrapp með mjólkurbílnum til að athuga þennan fund um leið og tilkynning barst, segir að þar hjá sé nýlega búið að planta nokkrum trjáhríslum.

Þessar hríslur eru nú þau tré sem trjávinir kalla hluta af íslenskri menningararfleifð og telja að eigi að varðveita. Þessi tré eru talin hafa orðið vitni að Alþingishátíðinni og Lýðveldisstofnun og öðrum atburðum - sem reyndar áttu sér stað árum og áratugum áður en þessum trjám hafði verið plantað.

Mikilvægast af öllu er þó að gera sér grein fyrir því hve vandasamt er að varðveita það í þjóðgarðinum sem hlýtur þó að eiga hafa allan forgang, þ.e. sjálfar þingminjarnar. Þingminjar eru í eðli sínu óburðugar miðað við flest önnur mannvirki sem reist hafa verið hér á landi, enda einungis ætluð til skammrar vista og mannfunda um sumur. Náttúra Þingvalla er ekki sérstaklega minjavæn. Land hefur sigið mikið frá því Alþingi var stofnað, og minjar orðið vatnsósa eða lent undir vatni vegna sigs eða flóða, jarðskjálftar hafa skemmt minjar, og Öxará hefur sópað burtu búðatóftum og jafnvel öðrum merkum mannvirkjaleifum þinghaldsins. Ræktun barrtrjáa á fornum þingstað sæmræmist ekki verndun sögustaðarins. Ræturnar liggja ofarlega í jarðveginum, þær sprengja í sundur hlaðna grjótveggi og splundra torfi. Við gáfumst upp á að rannsaka syðri hluta Miðmundartúns árið 2002, því rótarkerfið þar var búið að læsa sig utan um minjarnar, og stórskaða varðveislu- og rannsóknargildi þeirra. Athugun á nyrðri hlutanum sýnir að þar í túninu er krökkt af minjum. Sá hluti minjasvæðisins hefði farið sömu leið ef ákveðið hefði verið að þyrma trjánum en fórna minjunum.

Tré vaxa, þau má rækta, fjölga, flytja og hvaðeina, en einstakar heimsminjar á borð við þingstaðinn á Þingvöllum á Íslandi fjölga sér ekki.   Enn er nægt landrými á Íslandi fyrir trjárækt, þótt henni yrði hætt á minjastöðum. “

 

Adolf Friðriksson hefur í annan tíma komist þannig að orði um trjágróður og fornminjar:

 

„Eyðilegging á fornleifum vegna trjágróðurs er ekki nýtt vandamál, en má vera að fornleifafræðingar og minjaverndarfólk eigi nokkurt starf eftir óunnið til að skýra hversvegna trjágróður er óæskilegur í námunda við fornar minjar.

 

Síðastliðin 10 ár hefur verið gert staðlað mat á þeirri hættu sem minjar eru í, m.a. vegna jarðvegsrofs, skriðufalla, trjágróðurs o.sv.fr.

Í ýmsum skýrslum um fornleifaskráningu á tilteknum stöðum á Íslandi kemur m.a. fram slíkt hættumat. Aðeins hluti landsins hefur verið skráður, en vitað er um rúmlega 200 minjastaði sem stafar hætta t.a.m. af trjágróðri. Þar sem unnið hefur verið að fornleifaskráningu vegna skipulagsgerðar í sveitarfélögum hefur tekist ágætt samstarf við ábúendur um að gróðursetja ekki á þeim stöðum þar sem minjar eru fyrir....

 

Fornleifar í trjáreitnum við Miðmundartún njóta friðunar samkvæmt þjóðminjalögum. Fornleifum, sbr. t.d. 10. gr. þjóðminjalaga 2001 nr 107, "má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja...". Að auki voru fornleifar á Þingvöllum friðlýstar sérstaklega 5. maí 1927, af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði, en hann hafði gert sérstaka rannsókn á staðnum nokkrum árum áður. Slíkar friðlýsingar voru heimilaðar með lögum um verndun fornleifa 1907. Í friðlýsingarskjali, sem þinglýst var 7. september 1927, kemur fram hvað sé þar friðlýst: „Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað, beggja vegna Öxarár.“ Hvað varðar trjárækt og minjavernd, þá er hægt að bæta tjón af því að fella tré, en eyðilegging minjastaðar er endanleg og óafturkræf.

 

Skemmdir á minjum af völdum trjágróðurs er velþekkt vandamál.“

 

 

Þegar farið er yfir barrtjáaumræðuna nú í sumar, vekur undrun, að engu er líkara en menn rjúki af stað með reiðilestur sinn, án þess að gefa sér tíma til að kanna forsöguna, átta sig á því, sem sagt hefur verið, en þetta mál hefur síður en svo legið í þagnargildi undafarin ár. Nú á tímum gagnagrunna og leitarvéla er engum ofraun að leita fyrir sér um staðreyndir mála, áður en lagt er út á ritvöllinn – ég tala nú ekki um, ef ætlunin er að reiða svo hátt til höggs að saka aðra um fasisma.

 

Undir lok greinar sinnar í lesbókinni veltir Gunnar Hersveinn því fyrir sér, hvers vegna ekki sé unnt að finna lausn og sátt í þessu barrtjáarmáli. Auðvitað er það unnt og Þingvallanefnd telur sig hafa fundið lausn í sátt við þá skógræktarmenn, sem vita um hvað málið snýst. Ef menn gefa sér ekki tíma til að kynna sér málavöxtu, áður en þeir hefja ádeilur, er vonlaust að ræða um sátt.

 

Barrtré munu standa áfram á Þingvöllum í góðri sátt, þótt unnið sé að grisjun, verndun þinghelginnar og fornminja. Fyrirsögnin á grein sáttamannsins Gunnars Hersveins er: Barrskógur eða Þingvellir? Meira að segja hún gefur ranga mynd, því að málið snýst alls ekki um annaðhvort eða.

 

Lögregluvefurinn.

 

Lögreglan hefur aukið netþjónustu sína jafnt og þétt undanfarna mánuði og með því að fara inn á síðuna http://www.logreglan.is geta menn séð það, sem efst er á baugi á vettvangi hennar. Auk þess er unnt að skrá sig sem ákrifanda að fréttum á þessum vef og fá sendar tilkynningar um einstök atvik eða útdrátt úr dagbókum einstakra lögregluembætta, sem gefa mynd af því, sem helst er að gerast á vettvangi þeirra.

 

Nýlega birti ríkislögreglustjóri nýja skýrslu á lögregluvefnum um afbrotatölfræði, www.rls.is/tolfraedi fyrir júnímánuð en þar er einnig að finna tölur um afbrot fyrstu sex mánuði þessa árs.

 

Gögn af þessu tagi er hluti af sýnilegri löggæslu. Þau má nýta á ýmsan hátt. Í Kaupmannahöfn hefur framtaksmaður, ungur maður tekið sig til og sett upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þar inn á kort, sem unnt að ná í ókeypis á vefnum Google. Færslurnar inn á kortið sýna, hvar afbrot hafa verið framin í Kaupmannahöfn síðustu tvær vikur – sjá www.dognrapporten.dk

 

Jens Lund Møller, höfundur síðunnar, segist hafa fengið hugmyndina að henni frá bandarískri síðu, þar sem svipuð þjónusta hafi verið veitt. Afbrotin eru skýrð með mismunandi litum á nálum, sem stungið er í borgarkortið: Rán, innbrot, ofbeldi og annað.

 

Afbrotatölfræði í Bretlandi hefur sýnt, að sú röksemd, að draga mundi úr drykkjulátum, afbrotum og ofbeldi með því að leyfa sölu á áfengi á veitingastöðum allan sólarhringinn, stenst ekki. Alvarlegustu ofbeldisbrotum hefur fjölgað um 25% undanfarna 12 mánuði milli kl. 03.00 og 06.00 á morgnana. Rökin fyrir að afnema bann við sölu áfengis eftir klukkan 23.00 voru þau helst, að ofbeldisverkum mundi fækka, vegna þess að tíminn setti mönnum ekki afarkosti auk þess sem áfengisneysla tæki á sig nýja og mildari mynd að fordæmi Miðjarðarhafsþjóða. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.

 

Sóðaskapur.

 

Þriðjudaginn 17. júlí birtist lesendabréf í Morgunblaðinu eftir Margréti Kjartansdóttur, kaupkonu við Laugaveg, þar sem sagði meðal annars:

 

„Á baksíðu Morgunblaðsins fyrir nokkru er skýrt frá því að nú eigi að hefja sýningar á ný á vinsælum sjónvarpsþætti sem ber heitið „Allt í drasli“. Það sýnir ljóslega á hvaða menningarstigi við erum, eftir að hafa gengið um götur Reykjavíkur og hent öllum úrgangi sem okkur tilheyrir á götur borgarinnar að þá sé það góður kostur að setjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á drasl nágrannans, sama drasl og við erum búin að hafa fyrir augunum allan daginn. Ég rek verslun við Laugaveginn, þegar ég kem til starfa á morgnana má finna smokka, sprautunálar, flöskur og glös í bakgarði hússins sem ég starfa í auk þess sem þessi garðhola er iðulega notuð sem salerni fyrir borgarbúa. Þá er ótalið þúsundir sígarettustubba og tyggjóklessur sem klístrast á skóna okkar og berast um allan bæ innan sem utandyra...

Það eru fáar borgir í Evrópu sem státa af eins fallegu borgarstæði eins og Reykjavík en því miður er borgin okkar að verða sóðalegasta borg hinna svokölluðu siðmenntuðu þjóða, minnir helst á Delhi á Indlandi þar sem endurvinnsla fer fram á götum borgarinnar, öllu hent á göturnar og flækingarnir hirða svo það sem nýtanlegt er, hitt eyðist með tíð og tíma, munurinn er helst sá að á Indlandi er ekki til eins mikið af áli og plasti.

Mig langar að benda þáttastjórnendum „Allt í drasli“ á að það væri góð hugmynd að fara með myndavélina um miðborgina og sýna umgengnina þar. Heimili manna eru þeirra hreiður og menn mega skíta í hvert horn þar ef þeir vilja, en borgina eigum við saman og okkur ber siðferðileg skylda til að sýna hvert öðru þá sjálfsögðu kurteisi að ganga um eins og viti bornar manneskjur.“

Ekki yrði nóg að fara um miðborgina og sýna umgengni þar heldur ætti einnig að fara um helstu umferðargötur borgarinnar og taka myndir af draslinu, sem greinilega er hent úr bílum.

Í Gangverki sem er fréttabréf VST, verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., er í tölublaði 01.08.07 sagt frá því, að Hrafnhildur Brynjólfsdóttir, landfræðingur hjá VST, hafi verið að vinna að því að draga úr rusli á götum Reykjavíkur. Hafi hreinsun og dreifing ruslastampa í  miðborginni verið rannsökuð og séu meira en 100 nýir ruslastampar við Laugaveg, Skólavörðustíg og í Kvosinni afrakstur þeirrar vinnu. Í stað grænna plaststampa, sem hafa hangið utan á ljósastaurum, eru nú komnir stærri, frístandandi, svartir stampar, boltaðir niður á steypta undirstöðu. Þeir eru sagðir gríðarsterkir og ekki á að vera auðvelt að skemma þá.

Í Gangverki segir, að reynslan af nýju stömpunum sé „mjög góð“ og: „Þeir sem sjá um götusópun segjast finna mikinn mun á því hvað rusl á götunum er minna.“ Nú hafi VST verið falið að vinna að tillögum um staði fyrir ruslastampa í öllum hverfum borgarinnar. Er stefnt að því að velja þessa staði í öllum hverfum fyrir áramót.

Sighvatur Arnarsson, skrifstofustjóri hjá gatna- og eignaumsýslu framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Gangverk: „Við vorum að vonast til þess að þegar við færum úr 35 lítra stömpum í 80 lítra, þá þyrfti að tæma þá sjaldnar og þar með gætum við sparað í tæmingu. Það er þó ekki, því nýju stamparnir safna í sig margfalt meira rusli.““ Sparnaðurinn komi þó fram á „öðrum stöðum enda hljóti nú að vera minna rusl á gangstéttum.“

Öllum, sem annt er um hreinlæti Reykjavíkurborgar, er fagnaðarefni, ef með nýjum ruslastömpum tekst að ná betri árangri við að draga úr drasli í borginni. Þung skylda hvílir að sjálfsögðu á borgaryfirvöldum í þessu efni og að sjálfsögðu verður að tæma opinbera ruslastampa fljótt og vel, því að annar verða þeir aðeins tákn fyrir hirðuleysi. Hitt skiptir þó einnig miklu máli, að umsýslumenn staða, þar sem hætta er á, að draslaralegt verði án daglegrar umhirðu, átti sig á nauðsyn hennar. Það þarf að setja gæðastaðla á þessu sviði eins og öðrum og sjá til þess, að þeim sé fylgt.