19.8.2007

Flughernaður - gjaldmiðlaráðstefna,

Síðustu daga hefur athygli beinst að loftvörnum Íslands. Í fyrsta lagi vegna heræfingar, sem hér fór fram 13. til 16. ágúst undir heitinu Norðurvíkingur og hins vegar vegna flugs rússneskra sprengivéla frá flugvöllum á Kóla-skaga um Barentshaf, suður Norður-Atlantshaf og umhverfis Ísland.

Í flughersæfingunni voru orrustuþotur frá Bandaríkjunum og Noregi auk AWACS-ratsjárvéla, en þaðan var ferðum orrustuþotnanna stjórnað, og eldsneytisflugvélar. Samhliða þessari æfingu komu sérsveitarmenn frá Danmörku, Noregi og Lettlandi til landsins og æfðu með sérsveit lögreglunnar. Landhelgisgæsla Íslands lagði sérsveitunum til þyrlu við æfingar sínar auk þess sem öryggisráðstafanir voru gerðar af hálfu gæslunnar vegna flughersæfinganna. Þá tók danska her/eftirlitsskipið Triton einnig þátt í æfingunum.

 

Vegna ferða rússnesku flugvélanna á Norður-Atlantshafi sendi utanríkisráðuneytið frá sér þessa tilkynningu 18. ágúst:

Þann 14. ágúst sl. hófust rússneskar heræfingar við norður heimskaut. Íslensk stjórnvöld hafa gert ráð fyrir að hluti þeirrar æfingar gæti falist í flugi langdrægra sprengjuflugvéla suður Atlantshaf og hefur Ratsjárstofnun verið sérstaklega á varðbergi vegna þessa. Rétt fyrir klukkan 2 aðfaranótt 17. ágúst bárust upplýsingar um að slíkt flug væri væntanlegt.

Upp úr hálf þrjú um nóttina voru fyrstu merki greind norð-austur af landinu. Í allt áttu sér stað þrjár mismunandi ferðir rússneskra sprengjuflugvéla um loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins sem Ísland tilheyrir. Í tveimur tilfellum var farið beint í suður austan af landinu, en í því þriðja komu flugvélarnar inn í eftirlitssvæðið norðaustur af Íslandi. Þær flugvélar flugu norður af landinu, fyrst í vesturátt, en beygðu svo til suðurs milli Íslands og Grænlands og fóru hringferð um landið. Vélarnar hurfu heim á leið og var sérstöku eftirliti lokið síðdegis í gær.

Fylgst var með fluginu allan tímann af Ratsjárstofnun og upplýsingum miðlað til viðeigandi stofnanna innanlands, ásamt því að skipst var á upplýsingum við viðeigandi herstjórnir innan Atlantshafsbandalagsins. Viðbrögð við fluginu voru samhæfð á milli þriggja bandalagsríkja, Íslands, Noregs og Bretlands. Breskar og norskar orrustuþotur mættu sprengjuflugvélunum og fylgdu þeim hluta leiðarinnar.

Eins og fyrr segir komu vélarnar inn í íslenska flugumsjónarsvæðið en ekki inn í lofthelgi Íslands.“

Feitletrun er utanríkisráðuneytisins eins og textinn allur.  Í Morgunblaðinu 18. ágúst er frétt um hlutverk Ratsjárstofnunar í æfingunni Norðurvíkingur. Þar segir:

 

„Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins var ratsjárbúnaður Ratsjárstofnunar notaður við heræfinguna Norðurvíking 2007, sem fram fór í vikunni. Umsjónarmiðstöð æfingarinnar var í ratsjármiðstöðinni á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar.

Eiginleg aðgerðastjórnun fór hins vegar fram úr AWACS ratsjáreftirlitsflugvél NATO, en fylgst var með í ratsjármiðstöðinni á öryggissvæðinu, með þeim upplýsingum sem íslenska ratsjárkerfið aflaði.

Þá voru æfingarstjórar í ratsjármiðstöðinni, sem fylgdust þar með á íslenskum ratsjám, sáu allt sem gerðist í loftinu og höfðu nægilegar upplýsingar til að geta gefið fyrirmæli þaðan. Það gerðu þeir hins vegar ekki, en öll fyrirmæli sem flugáhafnir fengu á meðan á æfingunni stóð komu frá hermönnum um borð í ratsjáreftirlitsvélinni. Það var gert því einn hluti af æfingunni gekk út á að stjórna aðgerðum á lofti úr slíkri vél.

Eiginlegur ratsjárbúnaður Ratsjárstofnunar var því ekki notaður til þess að afla upplýsinga sem skipanir voru gefnar eftir á æfingunni, heldur einungis til þess að fylgjast með því sem fram fór í háloftunum á meðan aðgerðastjórar í flugvél NATO gáfu flugmönnum orrustuþotna fyrirskipanir.“

 

Hér er til þessara texta um hlutverk Ratsjárstofnunar vitnað til að minna á þá staðreynd, að hlutverk Íslendinga í starfsemi hennar er að sjá til þess að tækin virki auk þess þeir geta séð það, sem inn á ratsjárskermana kemur. Þeir hafa hins vegar ekkert með stjórn viðbragða að gera. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins sáu æfingarstjórar í miðstöðinni á Keflavíkurflugvelli til véla í háloftunum en orrustuþotunum var stjórnað af hermönnum úr AWACS-ratsjárvélinni.  Á sama hátt var orrustuþotunum, sem sendar voru frá Noregi og Bretlandi vegna rússnesku vélanna stjórnað frá stöðvum þar í landi.

 

Raunar er sögulegt, að efnt sé til flugheræfingar hér á landi og fylgst með ferðum rússneskra sprengivéla á sveimi yfir Norður-Atlantshafi og milli Íslands og Grænlands um sömu mundir og rekstur Ratsjárstofnunar kemst í íslenskar hendur. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að þarna sé einhver tenging á milli. Hins vegar verður til ný þekking í íslenskum höndum vegna þessa og hana þarf að nýta, þegar hugað er að framtíðarrekstri Ratsjárstofnunar, en eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur sagt, er talið að kostnaður við hann nemi um 800 milljónum króna á ári, sem er há fjárhæð, þegar litið er til kostnaðar við almenna öryggisgæslu hér á landi.

 

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 14. ágúst sl. í tilefni af því, að Ratsjárstofnun fluttist hinn 15. ágúst til íslenskra stjórnvalda sagði meðal annars:

„Meðan unnið er að endurskipulagningu starfseminnar er nauðsynlegt að Ratsjárstofnun starfi áfram á grundvelli gildandi skipulags frá 15. þessa mánaðar, bæði til að vernda þá fjárfestingu sem liggur í íslenska loftvarnakerfinu og til tryggingar þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Auk þess er áframhaldandi rekstur loftvarnarkerfisins forsenda samstarfs við grannríki á sviði öryggismála og gegnir veigamiklu hlutverki í lofthelgiseftirliti NATO. Jafnframt er upplýsingum miðlað til Flugstoða vegna borgarlegra flugöryggisþátta á íslenska flugumsjónarsvæðinu og til viðkomandi aðila vegna toll- og löggæslu. Án loftvarnarkerfisins geta flugvélar komist óséðar inn í íslenska lofthelgi hvort heldur sem það eru herflugvélar eða loftför í ólögmætum tilgangi.“

Þegar rætt er um tilkynningu Vladimírs Pútíns, Rússlandsforseta, í vikunni um að Rússar ætli að hefja reglulegt flug sprengjuvéla á Norður-Atlantshafi, Kyrrahafi og yfir Norðurpólinn, er ástæða til að velta því fyrir sér, hvað fyrir Rússum vakir með þessu flugi.

Líklegt er, að tilgangurinn sé í ætt við þá ákvörðun þeirra að senda leiðangur til Norðurpólsins til að festa rússneska fánann þar á títaníumstöng, sem stungið er í hafsbotninn. Með því hafa Rússar ekki slegið eign sinni á neitt en hins vegar sýnt flaggið, mátt sinn og megin á þann hátt, að eftir er tekið um alla heimsbyggðina. Í aðgerðinni felst ákveðin ögrun. Aðrir geta ekki setið hjá eins og ekkert sé að gerast, því að aðgerðin er til marks um viðleitni til að færa sig upp á skaftið og ganga eins langt og frekast er unnt og nýta sér síðan aðgerðarleysi annarra til að helga sér eitthvað án ótvíræðs réttar til þess.

Pútín er fyrst og síðast að hugsa um heimamarkað. Í fréttum sjónvarpsins að kvöldi 18. ágúst var rætt við Victor Tatarintsev, rússneska sendiherrann á Íslandi, um Rússaflugið Í fréttinni sagði:

„Sendiherra Rússlands á Íslandi segir enga hættu á því að nýtt kalt stríð sé í aðsigi. Hann segir heræfingar Rússa vera nauðsynlegar.

Victor Tatarintsev: Rússar hafa rétt á því að vera voldugir svo þeir geti gætt hagsmuna sinna og þjóðaröryggis. Við verðum að tryggja Rússum öryggi og það gerum við.

Sendiherrann leggur áherslu á að vélarnar hafi ekki farið inn í lofthelgi Íslands og segir Rússa hafa farið eftir alþjóðlegum lögum og reglum. Hann segir Íslendingum ekki stafa nein hætta af heræfingunum.

Victor Tatarintsev: Ég skil ekki af hverju það hefur verið sagt að það felist áhætta í þessu hefðbundna eftirlitsflugi. Flugvélarnar sem notaðar hafa verið í verkefnið hafa ekki allar flogið í sömu hæð eða sömu leið og íslensku vélarnar.

Í fyrrinótt sendu Norðmenn átta orrustuþotur til móts við rússneskar herflugvélar sem voru við æfingar nærri norsku landhelginni á Barentshafi. Þetta hefur ekki gerst frá falli Sovétríkjanna 1991. Aðstoðarutanríkisráðherra Noregs sagði við norska fjölmiðla í dag að þó umsvif Rússa í lofti væru óneitanlega meiri nú en verið hefur þá væri engin ástæða til að telja að nýtt kalt stríð væri yfirvofandi.“

Sendiherrann segir hreint út, að Rússar hafi rétt til að vera voldugir svo þeir geti gætt hagsmuna sinna og þjóðaröryggis. Það sé skylda stjórnvalda að tryggja Rússum öryggi. Enginn dregur þennan rétt rússneskra stjórnvalda í efa – en hvers vegna þarf að gera það með flugi sprengivéla umhverfis Ísland?

Öryggi Rússa er ekki nein hætta búin héðan. Á tímum Sovétríkjanna bjó sovéska áróðursvélin til þá blekkingu, að hér á landi væru kjarnorkuvopn og þess vegna var Íslendingum hótað með kjarnorkuárás undir þeim formerkjum, að með hótuninni væri verið að tryggja öryggi Sovétríkjanna. Á þessum árum skýrðu herstöðvaandstæðingar hættu, sem steðjaði að Íslandi á þann veg, að hún stafaði af veru bandaríska varnarliðsins. Hyrfi það á brott myndu Sovétmenn hætta að senda sprengjuflugvélar í átt til Íslands eða umhverfis landið.

Ekkert af þessu tagi á við nú á tímum. Rússum stafar hvorki hætta frá Íslandi né nokkru öðru ríki við Norður-Atlantshaf. Í sama mund og Pútin kynnti flug sprengjuvélanna til að sýna rússneska gunnfánann að nýju í háloftunum var sameiginlegri heræfingu Rússa og Kínverja að ljúka. Hættan, sem steðjar að Rússlandi, er ekki utan landamæra ríkisins. Hún er miklu frekar innan þeirra.

Andstaða Rússa við samningsbundna lausn mála í Kósóvó með því að veita héraðinu frelsi er meðal annars talin stafa af því, að ráðamenn í Moskvu líti á sjálfstæði Kósóvó sem hættulegt fordæmi fyrir sjálfstæðissinna innan Rússlands. Skömmu fyrir G8 leiðtogafundinn í Þýskalandi fyrr í sumar staðfesti Pútín, að sjálfstæði Kósóvó gæti haft neikvæðar afleiðingar innan Rússlands. Hann bar sjálfstæðiskröfur í Kósóvó saman við sjónarmið sjálfstæðissinna í Norður-Kákasus lýðveldunum í Rússlandi.

Hér verður látið staðar numið að sinni við að draga ályktanir af hinni nýju stórveldisstefnu Rússa. Inntak hennar á að ræða með hliðsjón af stöðunni innan Rússlands og á vettvangi alþjóðamála á líðandi stundu en ekki með vísan til tíma Sovétríkjanna og aðstæðna í kalda stríðinu – það kemur ekki aftur frekar en önnur stríð.

Við Íslendingar þurfum að meta stöðu okkar á nýjum grunni eftir brottför varnarliðsins og aukna ábyrgð okkar sjálfra á eigin vörnum. Ég hef fjallað um þau verkefni, sem ég tel brýnust í öryggismálum okkar, í ræðu 29. mars sl. auk skrifa um þau hér á síðunni.

Hluti vandans hér er sá, hve umræður um öryggismál eru oft einfeldningslegar og byggjast á ríkum fordómum, sem hindra mönnum sýn á hina raunverulegu þróun.

Gjaldmiðlaráðstefna.

Á liðnu ári lenti íslenska fjármálakerfið í miklum hremmingum vegna neikvæðs umtals erlendis. Mátti segja, að stjórnendur fjármálastofnana hafi verið teknir í bólinu, af því að þeir höfðu ekki hugað nægilega að því að kynna stöðu sína og styrkleika út á við. Þeir tóku sig á í þessu efni og héldu kynningarfundi og kölluðu á menn til að sýna þeim, sem þeir voru að gera, fyrir utan að styrkja eigin innviði. Nú segja þeir, að viðbrögðin á síðasta ári hafi styrkt þá til átaka í óróa á markaðnum undanfarna daga.

Á fjármálavettvangi hefur borið meira á því en áður, að erlendir sérfræðingar eru kallaðir til þátttöku í fundum og ráðstefnum hér á landi. Fimmtudaginn 23. ágúst verður til dæmis efnt til ráðstefnu um málefni, sem töluvert hefur verið rætt undanfarna mánuði og snertir stöðu íslensku krónunnar sem sjálfstæðs gjaldmiðils.

Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, stendur fyrir ráðstefnu, sem öllum er opin, um áhrif aukins efnahagslegs frelsis á stöðu gjaldmiðla í heiminum. Framsögumenn verða Benn Steil, forstöðumaður alþjóðahagfræðisviðs hjá Council on Foreign Relations, Gabriel Stein, aðalhagfræðingur alþjóðahagfræðisviðs hjá Lombard Street Research, Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Ráðstefnan verður á Hótel Nordica og stendur milli kl. 16:10 og 18:30. Fundarstjóri er Illugi Gunnarsson, alþingismaður en íslenskir fræðimenn og athafnamenn taka þátt i pallborðsumræðum.

Á ráðstefnunni verður samkvæmt tilkynningu RSE leitast við að svara spurningunni um stöðu þjóðargjaldmiðla s.s. krónunnar á tímum aukinnar alþjóðavæðingar og efnahagslegs frelsis. Ennfremur verður velt upp spurningunni um hvort nauðsynlegt sé fyrir smáríki að gerast aðili að myntbandalagi til að taka upp aðra mynt. Þá verður litið til ríkja sem hafa tekið upp aðra mynt en sína eigin, hvernig það var gert og hvernig það hefur reynst.

 

Ég hef áður vakið máls á Benn Steil og skoðunum hans hér á síðunni. Að sjálfsögðu eru ekki allir á einu máli um stefnu og ráðstafanir í fjármálum eða gjaldeyrismálum en fullyrða má, að rætt er um þau mál á fordómalausari hátt en varnar- og öryggismál. Þá hafa fjölmiðlar einnig meira val á viðmælendum, þegar fjármál og efnahagsmál eru til umræðu en þegar rætt er um öryggis- og varnarmál.

 

Hér hefur um langt árabil verið unnt að afla sér háskólamenntunar í viðskiptafræði og hagfræði auk þess sem íslenskir fræðimenn hafa látið að sér kveða á þessu sviði á erlendum vettvangi. Engin sambærileg þekking eða fræðsla er fyrir hendi í öryggis- og varnarmálum.