16.7.2007

Alþjóðavæðing gjaldmiðla - Hallgrímskirkja í Saurbæ - fjöldi ferðamanna.

Reglulega er vakið máls á því hér, að tímabært sé að huga að brotthvarfi krónunnar til að styrkja stöðu okkar vegna alþjóðavæðingarinnar – krónan þvælist bara fyrir þeim, sem hér starfa og vilja láta að sér kveða í alþjóðaviðskiptum. Þar sem því hefur verið haldið fram, að ekki sé ráð að taka upp evru nema ganga í Evrópusambandið (ESB), hafa málsvarar ESB-aðildar gerst talsmenn evru á kostnað krónu.

Í maí/júní hefti hins áhrifamikla bandaríska tímarits Foreign Affairs á þessu ári er að finna grein eftir Benn Steil, sem stjórnar alþjóðlegri efnahagsmáladeild hjá Council on Foreign Relations í Bandaríkjunum, sem ber heitið The end of National Currency – Endalok þjóðarmynta.

Í kynningu á greininni segir, að fjármálalegur óstöðugleiki hafi ýtt undir „peningalega þjóðernishyggju“ – þá hugmynd, að ríki verði að prenta og gefa út eigin gjaldmiðil. Þessi þjóðernishyggja og alþjóðavæðing séu hættuleg blanda, hún geti valdið fjármálaöngþveiti og hnattrænni stjórnmálaspennu. Útrýma verði óþörfum gjaldmiðlum og láta dollara, evrur eða enn óprentaða alþjóðlega gjaldmiðla koma í þeirra stað.

 

Hér skal ekki felldur neinn dómur um kenningar Steils en grein hans er fróðleg hugleiðing fyrir þá, sem hafa áhuga á framtíð þjóðarmynta og stöðu lítilla gjaldmiðla á tímum alþjóðavæðingar. Steil er ekki málsvari myntbandalaga á borð við það, sem stofnað hefur verið um evruna innan ESB.

 

Nokkur spenna ríkir innan evru-bandalagsins. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, telur svigrúmið, sem seðlabanki Evrópu veitir Frökkum til að takast á við opinberan fjárhagsvanda sinn, of þröngt. Hann gerði sér ferð á fund fjármálaráðherra ESB-ríkja mánudaginn 9. júlí til að vinna málstað Frakka fylgi. Hagsmunir Frakka stangast á við hagsmuni Þjóðverja í þessu efni og er sagt, að Sarkozy hafi ekki riðið feitu hrossi frá þessum fundi, sem er raunar einstæður í sögu Evrópusambandsins – þjóðhöfðingi hefur aldrei áður setið fjármálaráðherrafund innan vébanda þess.

 

Hallgrímskirkja í Saurbæ.

 

Þess var minnst með hátíðarmessu og kaffisamsæti sunnudaginn 15. júlí, að 50 ár eru liðin frá vígslu Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Kirkjan er önnur tveggja kirkna í landinu, sem er helguð minningu Hallgríms Péturssonar, en hann var þar sóknarprestur á árunum 1651-69. Sögu þess, að menn tölu við hæfi að reisa kirkju til minningar um sr. Hallgrím í Saurbæ, má rekja allt aftur til ársins 1916 og voru margir fremstu andans menn þess tíma kallaðir til í því skyni efla þjóðinni þrótt til að ráðast í kirkjusmíðina. Árið 1934 var efnt til samkeppni um teikningu að kirkjunni en engin þeirra hlaut náð fyrir augum dómnefndar.  Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins var þá falið að teikna kirkjuna.  Undirstöður voru steyptar en verkinu var frestað vegna síðari heimsstyrjaldarinnar.

Að Guðjóni látnum var Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni, arkitektum, falið að teikna nýja kirkju árið 1953.  Hún var minni og einfaldari en hin fyrri en reist á hinum tilbúna grunni.  Kirkjan er 21,35 m löng, kirkjuskipið 9,4 m breitt og kórinn 11,4 m.  Hún er úr steinsteypu og prýdd dönskum múrsteini að innan.  Þakið er koparklætt og turninn er 20 m hár.  Byggingarstíll hennar er samspil klassískra forma og nútíma efnisnotkunar.

Gerður Helgadóttir skreytti gler kirkjunnar og sótti efnið í Passíusálmana, s.s. Um dauðans óvissa tíma og Allt eins og blómstrið eina.

Finnski listamaðurinn Lennart Segerstråle gerði freskómynd í stað altaristöflu. Róðukross á altari er líklega frá því um 1500. Hann var í kirkju Hallgríms á 17. öld.

 

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholtinu í Reykjavík er hin minningarkirkjan um sr, Hallgrím. Meðal katólskra er algengt að kenna kirkjur við dýrlinga, Maríu mey eða Krist sjálfan eins og Kristskirkju á Landakotstúni. Sjaldgæft er að lúterskar kirkjur séu kenndar við einstaklinga en auk Hallgrímskirknanna tveggja má nefna hér Þorlákskirkju í Ölfusi, Vídalínskirkju á Garðabæ og Þorgeirskirkju að Ljósavatni.

 

Hallgrímskirkja í Saurbæ er ein af svonefndum höfuðkirkjum landsins með dómkirkjunum á Hólum, í Skálholti og Reykjavík auk Hallgrímskirkju í Reykjavík.

 

Af frásögn Morgunblaðsins um vígslu Hallgrímskirkju í Saurbæ 28. júlí 1957 má ráða, að atburðurinn þótti mikill. Tæplega tvær síður birtast um hann í blaðinu þriðjudaginn 30. júlí og hefur Árni Óla verið sendur á vettvang fyrir hönd blaðsins. Lýsing hans segir ekki aðeins mikið um vígsluhátíðina, sem talið er að á fimmta hundruð manns hafi sótt, heldur einnig um stíl blaðamanna á þeim tíma. Frásögnin hefst á þessum orðum:

 

„Hlýtt veður og kyrrt, en þykkt loft. Akrafjall teygir kollinn upp undir skýjaþykknið og er purpurslitt tilsýndar. Hvalfjörður teygist bjartur og gljáfagur inn í landið og í honum speglast fjöllin að vestan, vafin grænni slikju. Skammt undan landi synda fuglar og draga á eftir sér einkennilega slóð á glærum sjávarfletinum. Ofan við staðinn eru dökkgrænar skógarhlíðar, en neðar ljósgræn, nýhirt tún. Hvítir veggir og rauð þök bæanna eru eins og smáskreytingar í litrófi náttúrunnar. Hér er yndisleg kyrrrð og friður í fjallasal Hvalfjarðar. Á slíkum unaðsstundum gekk séra Hallgrímur Pétursson forðum upp að steini þeim, sem við hann er kenndur og orkti þar sín dýrlegu trúarljóð, Passíusálmana, sem hafa verið evangelíum íslensku þjóðarinnar.“

 

Eftir nákvæma lýsingu á vígsluhátíðinni segir Árni Óla: „Að vígsluathöfn lokinn var nokkuð á annað hundrað manna boðið til samsætis í hinu vistlega félagsheimili, sem þeir kalla „Hlaðir“. Fóru þar fram rausnarlegar veitingar.“

 

Herra Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands flutti ávarp í samsætinu og sagði meðal annars: „Það er stórmerkilegt að slíkt stórskáld sem Hallgrímur Pétursson var, skyldi rísa upp af þeirri flatneskju sem hér var á hans dögum. Hann gaf þjóðinni 5. guðspjallið, Passíusálmana, sem verða lesnir og sungnir meðan íslenzk þjóð lifir.“ Forsetinn tekur fram, að Hallgrímur sé eini Íslendingurinn, sem kirkja sé kennd við og fari vel á því – en eins og að ofan greinir er svo ekki lengur.

 

Frásögn sinni lýkur Árni Óla á stuttri hugvekju frá eigin brjósti um sr. Hallgrím og kemst að þeirri niðurstöðu, að Hallgrímur hafi verið á réttri leið „þegar hann söng trúarþrek í þjóð sína.“ Til kirkju hans eigi menn „að sækja það þrek um allar aldir, því að þetta er alþjóðarkirkja á helgum stað.“

 

Séra Sigurjón Guðjónsson var sóknarprestur í Saurbæ, þegar kirkjan var vígð. Eftir að hann lét af störfum árið 1966 varð séra Jón Einarsson prestur þar til dánardags 1995 og síðan séra Kristinn Jens Sigurþórsson, sem þjónaði fyrir altari á vígsluafmælinu 15. júlí en séra Sigurður Sigurðarson vígslubiskup prédikaði.

 

Fjölmenni var við vígsluafmælið og var herra Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands meðal gesta. Veðrið var fagurt, sólbjart og kyrrt og fagurt að horfa yfir Hvalfjörðinn. Eftir messuna voru kaffiveitingar í Hótel Glym.

 

Þar minntist ég þess við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals, að án atbeina Lofts Bjarnasonar, föður hans og forstjóra Hvals, hefði líklega ekki tekist að ljúka við kirkjusmíðina á jafn glæsilegan hátt og raun ber vitni, hvort hann myndi ekki eftir baráttunni fyrir því, að kirkjan var reist. Jú, hann sagðist gera það og að föður sínum hefði þótt gaman að berjast við skömmtunar- og gjaldeyriskerfið á sínum tím í þágu kirkjunnar.

 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 4. ágúst 1957 er rætt um vígslu Hallgrímskirkju í Saurbæ og sagt, að við hæfi sé að halda minningu séra Hallgríms á loft á þennan hátt, hann sé „einn af mestu afreksmönnum íslensku þjóðarinnar.“ Síðan segir:

 

„E.t.v. hefur þess nokkuð orðið vart um okkar daga, að Hallgrímur hefur sætt þeim örlögum, að hin uppvaxandi kynslóð hefur efast um hvort hann væri jafn mikið skáld og hann var áður fyrr talinn – Þetta er engan veginn óeðlilegt. Hver kynslóð á sjálf að meta, hvað er verðmætt í þeirri arfleifð, sem henni hefur borizt frá fyrirrennurunum. – Hallgrímur Pétursson stenzt all þvílíkt mat. Segja má, að margt í hugsunarhætti hans tíma og málfari sé einna fjarlægast nútíma fólki af öllu því, sem skráð hefur verið á Íslandi fyrr og síðar. En verk Hallgríms bera eins af og gull af eiri. Þau verða vonandi sífelldur aflvaki íslenzku þjóðarinnar.“

 

Hafi verið efi í huga „uppvaxandi“ kynslóðar árið 1957 um gildi séra Hallgríms sem skálds, hefur sá efi væntanlega elst af þeirri kynslóð. Kannski hefur framlag séra Hallgríms til íslenskrar menningar aldrei verið meira metið en einmitt nú á tímum?

 

Fjöldi ferðamanna.

 

Í þessu sama Reykjavíkurbréfi frá því fyrir 50 árum má lesa hugleiðingu höfundar undir millifyrirsögninni: Ferðamannaland?, þar segir:

 

„Erlendum ferðamönnum finnst að vísu fæstum fallegt hér, þótt þeir viðurkenni að landslag sé mikilfenglegt og ólíkt því, sem annars staðar gerist. Aftur á móti viðurkenna allir að hiti sé hvergi hæfilegri en einmitt hér, þegar gott veður er að sumri. Hæpið er samt að treysta því, að verulegur fjöldi erlendra ferðamanna sæki hingað. Vegalengdin er löng og ferðakostnaður því mikill. Þangað til gistihús rísa upp er a.m.k. tómt mál að tala um, að sókn útlendinga hingað verði að ráði meiri en nú er. Einn erfiðleikanna er sá, hvort mögulegt er að láta nýtízku gistihús bera sig, ef aðsókn verður ekki nema um 2-3 mánaða skeið á ári hverju. Víst er til verulegs að vinna, ef landið yrði ferðamannaland svo teljandi sé, og þarf að taka allt það mál fastari tökum en enn hefur verið gert.“

 

Í dag, 16. júlí 2007, birtist forsíðupistill í Morgunblaðinu, eftir Unu Sighvatsdóttur, sem hefst á þessum orðum:

Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem er í hvað mestum vexti á Íslandi og hefur hlutfallslega náðst meiri árangur hér í aukningu erlendra ferðamanna en í nágrannalöndunum. Árið 1949 var heildarfjöldi erlendra gesta aðeins 5.312 samkvæmt tölum Ferðamálastofu, en árið 2005 var fjöldinn 369.431. Frá árinu 1995 hefur meðaltalsfjölgun erlendra gesta verið um 7% á ári.

Ferðamálastofa hefur reiknað út mögulegan fjölda ferðamanna á næstu árum og sé miðað við 6% meðalaukningu á ári sést að árið 2015 gætu komið hingað um 637.813 gestir. “

 

Ef því hefði verið hreyft fyrir 50 árum, þegar árlegur ferðamannafjöldi var rétt innan við 10 þúsund manns, að vöxturinn yrði á þennan veg og ekkert lát yrði á smíði nýrra hótela, svo að ekki sé minnst á öll skemmtiferðaskipin, hefði það örugglega verið talið hið mesta bjartsýnisrugl.

 

Hitt hefði þó þótt einkennilegra, að útlendingar hrifust svo af fegurð íslenskrar náttúru, að þeir gætu ekki hamið sig á almannafæri og þyrfti öryggisverði og lögreglumenn til að halda aftur af þeim.