23.4.2005

Stjórnarsamstarf í 10 ár – óskiljanlegar skipulagsákvarðanir.

Þegar ríkisstjórnin heldur upp á 10 ára afmæli sitt 23. apríl 2005, logar Samfylkingin. stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, af innan flokks deilum vegna formannskjörs, sem er hannað og háð á þann veg, að hriktir í stoðum flokksins. Samfylkingin var ekki komin til sögunnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð. Samfylkingin var stofnuð síðar til höfuð því pólitíska samstarfi, sem nú hefur dugað í 10 ár. Með henni átti að sameina vinstri öflin gegn Sjálfstæðisflokknum og gera út af við Framsóknarflokkinn. Sameining vinstri flokkanna mistókst, alþýðubandalagsmenn og kvennalistakonur skiptust á milli gamla Alþýðuflokksins undir nafninu Samfylking og Alþýðubandalagsins undir nafninu Vinstri hreyfingin grænt framboð (vinstri/grænir). Frjálslyndi flokkurinn kom einnig síðar til sögunnar til að berjast gegn kvótakerfinu, en tapaði glæpnum, þegar alþingi samþykkti, að allir bátar skyldu falla undir kvótakerfið.

Ég ætla ekki að rekja 10 ára sögu ríkisstjórnarinnar eða það, sem mér finnst merkast í störfum hennar hér í þessum pistli, raunar hef ég skráð þá sögu reglulega hér á þessum stað síðustu 10 ár og lýst því, sem á daga mína hefur drifið sem ráðherra af meiri samviskusemi og nákvæmni en aðrir, sem setið hafa jafnlengi í stjórninni, en ég á þar lengstan starfsaldur fyrir utan formenn stjórnarflokkanna, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Hlé varð á setu minni í ríkisstjórninni, þegar ég tók slaginn fyrir Sjálfstæðisflokkinn vegna borgarstjórnar Reykjavíkur, án þess að ná því marki, sem ég setti mér á þeim vettvangi. Öll sú saga er einnig skráð frá mínum sjónarhóli hér á síðunni.

Í pistli /pistlar/1995/04/18/nr/240 18 apríl 1995 segi ég meðal annars:

 

„Ég var þeirrar skoðunar að kosningum loknum, að eins atkvæðis meirihluti útilokaði sterka stjórn með Alþýðuflokknum. Einnig taldi ég, að sjálfstæðismenn hlytu að líta til þess, að kosningabarátta Alþýðuflokksins snerist um það að ná fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Ef Alþýðuflokkurinn ætlaði að vera sjálfum sér samkvæmur að loknum kosningum, hlyti hann að halda áfram að gera Sjálfstæðisflokkinn tortryggilegan fyrir meinta stefnu hans í utanríkisviðskiptamálum. Það ríkti ekki lengur nægilegur trúnaður á milli manna. Menn bera gjarnan samstarf Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks nú saman við það, sem var á viðreisnarárunum 1959-1971. Slíkur samanburður kann að hafa fróðleiks- og skemmtigildi en hann er ekki raunhæfur. 1963 gengu flokkarnir til kosninga með það að markmiði að starfa saman að þeim loknum. 1967 gerðu þeir það ekki en ákváðu að kosningum loknum að starfa saman. Þetta samstarf varð langvinnt vegna þess, að trúnaður ríkti milli forystumanna flokkanna. Fráleitt er að ætla, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu þá talið það til marks um trúnað, ef Alþýðuflokkurinn hefði byggt kosningabaráttu sína á því að ná í fylgi frá Sjálfstæðisflokknum.

Allt bar að þeim brunni í síðustu viku, að formaður Sjálfstæðisflokksins treysti stöðu sína í ljósi kosningaúrslitanna. Það gerði hann ekki með því að halla sér að Alþýðuflokknum einum, enda með öllu ástæðulaust að vera svo þröngsýnn. Niðurstaða valdabaráttunnar að loknum kosningum liggur nú fyrir. Þeir koma sterkastir frá henni, sem fengu mest traust í kosningunum, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Það er rökrétt niðurstaða kosninganna, að þeir myndi stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.“

 

Síðan þetta var skrifað hef ég oft áréttað þá skoðun mína, að stefna Alþýðuflokksins í kosningunum 1995 um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hefði ekki síst grafið undan trúnaði á milli forystumanna Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á þeim tíma. Síðan hefur enginn stjórnmálaflokkur haft á stefnuskrá sinni, að Ísland gerist aðili að ESB og athyglisvert er, að hvorugur formannsframbjóðandinn innan Samfylkingarinnar heldur þeim málstað á loft. (Í vikunni birtist furðugrein í The Financial  Times um að Íslendingar kynnu að bjarga ESB frá glundroða með því að sækja um aðild, ef Frakkar segðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 29. maí um nýju stjórnarskrá ESB. Þetta var kaldhæðni, sem á ekkert skylt við Brussel-ferð Evrópunefndar 30. maí næstkomandi og fyrirhugaðan fund með Olli Rehn.)

 

Stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur skilað glæsilegum árangri á undanförnum 10 árum. Sama er hvaða kvarði er notaður, útkoman er alltaf á einn veg, Ísland hefur verið í sókn. Andstaða við stjórnarsamstarfið byggist ekki á málefnalegum rökum, hún snýst um breytingu breytingarinnar vegna. Hvers vegna ætti slíkur málflutningur að skila árangri, ef allt gengur þjóðinni í hag?

 

Það væri að æra óstöðugan að ætla að rifja upp öll árásarefnin á okkur, sem höfum setið í stjórn undanfarin ár. Í síðasta pistli taldi ég órættmætt að gagnrýna okkur á þann veg, sem Agnes Bragadóttir gerði til að réttlæta nauðsyn þess, að almenningur léti að sér kveða við sölu Símans.  Í tilefni af þeim orðum mínum fékk ég þessa kveðju frá tryggum lesanda pistlanna minna:

 

„Margir sem gagnrýna einkavæðingu undanfarinna ára gera mikið úr því hvað ríkið hafi selt eignarhluti sína á allt of lágu verði. Þessir sömu aðilir benda hins vegar ekki á stórauknar skatttekjur frá þessum fyrirtækjum eftir einkavæðingu þeitta.

 

Þessir gagnrýnendur, og þá er ég ekki bara að tala um Vinstri Græna,  virðist hafa gleymt því að rekstur þessara fyrirtækja í ríkiseigu var almennt ekki til að hrópa húrra yfir. Ég man t.d. að ríkið þurfti snarlega að leggja til 1 milljarð í víkjandi lán til Landsbankans fyrir ca. 12 árum til að tryggja viðunandi lánshæfismat bankans. Fram að þeim tíma sem Davíð Oddsson [sem borgarstjóri] einkavæddi Bæjarútgerðina þurfti borgin árlega að leggja fram stórfé til fyrirtækisins en ekki krónu síðan.  Vandinn á þessum tíma var sá að reksturinn var í rugli. Eftir einkavæðingu bregður hins vegar svo við að þessi fyrrum opinberu fyrirtæki skila afar góðum hagnaði. Í augum sumra virðist það vera sérstakt áhyggjuefni. Þótt margir tali um að bankarnir hafi verið seldir á gjafverði til einkavina þá virðast fáir horfa til þess að þessar breytingar hafa leitt til þess að reiknaður tekjuskattur Landsbanka, KB banka og Íslandsbanka (sem sameinaðist FB banka (Iðnlánasjóður/ Fiskveiðasjóður)) vegna ársins 2004 nemur tæpum 6 milljörðum króna. Hefði ríkið notið slíkra skatttekna af þessum fyrirtækjum að óbreyttu? Örugglega ekki. Væntanlega er það líka vandamál. Síðan hlýtur það að vera sérstakt vandamál að meðalmánaðarlaun starfsmanna hjá KB banka eru um 700 þús. krónur. 

 

Samkeppni á bankamarkaði hefur líka leitt til lægri vaxta fyrir húsnæðiskaupendur.“

 

Faðir minn sagði oft,  að allt orkaði tvímælis, þá gert væri. Í þeim orðum felst, að sagan ein dæmir, hvort rétt hafi verið gert eða ekki. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það hafi verið rétt ákvörðun Davíðs Oddssonar um páskana árið 1995 að leita samstarfs við Framsóknarflokkinn um stjórn lands og þjóðar.

 

Óskiljanlegar skipulagsákvarðanir.

 

Eins og ég sagði hér að ofan varð hlé á setu minni í ríkisstjórninni vegna þess að ég sóttist eftir því að verða borgarstjóri í Reykjavík vorið 2002, án þess að ná þeim árangri. Sú kosningabarátta fyrir þremur árum var skemmtileg reynsla og ég hef einnig haft af því ánægju að starfa í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili. Mér hefur tekist bærilega að sameina það ráðherrastarfinu og borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna er einstaklega samhentur hópur. Við höfum náð töluverðum árangri í minnihlutanum á þessu kjörtímabili. Þá sögu verður hins vegar að segja eins og hún er, að fjölmiðlar endurspegla hvorki það, sem er að gerast á alþingi né í borgarstjórn. Enginn á fjölmiðlunum hefur neina sýn yfir völlinn allan og getur þess vegna ekki lagt mat á strauma og stefnur, allir eru of uppteknir við það, sem er að gerast í augnablikinu, til að geta séð heildarmyndina.

 

R-listasamstarfið er dautt en enginn fulltrúi þess í borgarstjórn treystir sér til að rita undir dánarvottorðið – ef ungliðar stjórnarflokkanna töluðu um ríkisstjórnarsamstarfið á sama hátt og ungliðar R-listaflokkanna tala um R-listann er ég viss um, að allir fjölmiðlar mundu telja ríkisstjórnina dauða – en enginn fjölmiðill kveður upp úr um dauða R-listans. Í mínum huga dregur þetta aðeins úr trúverðugleika á getu fjölmiðlanna til að greina stjórnmálastrauma.

 

Eftir að hafa fylgt uppboðs- og skömmtunarstefnu í lóðamálum um árabil og eftir að hafa samið þannig við Rauðhól vegna Norðlingaholts, að félagið fengi örugglega hæsta verð fyrir sölu á íbúðum þar, ákvað R-listinn að efna til tombólu um sérbýlislóðir í Lambaseli. Af því tilefni fékk ég bréf frá einum lesenda síðu minnar og í því sagði:

 

„Ég  hef  átt lögheimili í Reykjavík í  rúmlega 65  ár, ekki átt húseign  borginni   sl.  2 ár, en lögheimili engu að síður. Hef aldrei sótt um lóð til borgaryfirvalda. Sótti um Lambaselslóð, en fékk ekki.

 

Þegar ég les  hvernig  staðið var að úthlutuninni þá dámar mér. Af hverju    gera  fjölmiðlar ekki  athugasemdir?  Gæslumenn hagsmuna almennings.


Borgaryfirvöld verða  að svara eftirfarandi spurningum:


1. Var ekki  örugglega gengið úr skugga um að  hjón eða  sambýlisfólk sendu ekki inn tvær umsóknir ? Hafi verið  dæmi um slíkt, þá  sátu umsækjendur, sem  fóru eftir  reglunum, ekki við sama  borð og
hinir. Trúi því ekki að þetta hafi  ekki verið athugað


2. Þegar ég  las að  dregnir hefðu verið  bréfmiðar „úr kökuboxi“ trúði ég ekki mínum  eigin augum.  Hvers vegna  voru umsækjendur ekki  tölvuskráðir og tölva  síðan látin velja af handahófi? Þetta er nánast sama  fyrirkomulag og barnatombólu.  Kannski var þetta bara „Barnatombóla borgarstjóra“. Þetta er algjörlega óskiljanlegt.“

 

Hér er aðeins eitt dæmi um stjórnarhætti R-listans, þar sem borgarbúar, sama hvar í flokki þeir standa, skilja hvorki upp né niður í því, sem er að gerast. Hinn 19. apríl var fjallað um vinnubrögð R-listans í þessu máli í psitli á vefsíðunni www. andriki.is .

 

Ég hef staðið að því frá fyrsta degi, að Háskólinn í Reykjavík (HR)styrktist og efldist og lagt mitt af mörkum í því skyni á margvíslegan hátt. Mér er óskiljanlegt, að skólinn telji sér til framdráttar að dragast inn í þær deilur, sem eru óhjákvæmilegar vegna allra framkvæmda í og við Nauthólsvíkina. Ef umhverfissinnar, sem berjast gegn framkvæmdum við Kárahnjúka eða lagningu vegar yfir Stórasand, samþykkja, að þetta friðland Reykvíkinga í Vatnmýrinni, milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, sé eyðilagt á þennan hátt, gef ég minna en áður fyrir umhyggju þeirra fyrir náttúrunni. Mörg þúsund manna skóli á þessum stað kallar ekki aðeins á hús og bílastæði heldur einnig á veg yfir Öskjuhlíðina og um Fossvoginn fyrir neðan kirkjugarðinn.

Sá ég einhvers staðar, að vinstri/grænir teldu þetta nýjasta umhverfisslys R-listans í lagi vegna þess, að HR ætti að verða umhverfisvænn háskóli? Kannksi fyrsti háskóli í heimi án einkabíls?