18.4.1995

Stefnan sett á sterka stjórn


Strax eftir kosningar féllu orð þeirra, sem telja sig vita mest um frumskóg stjórnmálanna, á þann veg, að semdi Davíð Oddsson ekki um framhald á samstarfi við Alþýðuflokkinn stæði hann frammi fyrir vinstri stjórn. Með öðrum orðum hefði Alþýðuflokkurinn það í hendi sér, hvort hann starfaði áfram með Sjálfstæðisflokknum eða gengi til stjórnarsamstarfs undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar.

Nú eftir að ljóst er, að Halldór mælir með Davíð sem forsætisráðherra, upplýsir Jón Baldvin, að hann hafi sagt Halldóri á fundi þeirra 10. apríl, að næðist ekki samkomulag Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks myndu alþýðuflokksmenn ganga til samstarfs um vinstri stjórn. Líkur á slíkri stjórn voru því raunverulegar í huga þeirra, sem litu á málin frá sjónarhóli Alþýþýðuflokksins og höfðu sömu vitneskju og Jón Baldvin. Davíð hefur skýrt frá því í dag, að hann hafi ekki vitað um þessa afstöðu Jóns Baldvins.

Davíð skýrði meðráðherrum sínum frá því á fundi ríkisstjórnarinnar 11. apríl, að hann kynni að ræða við þá Halldór Ásgrímsson og Ólaf Ragnar Grímsson, en 10. apríl gengu fulltrúar Kvennalistans að eigin frumkvæði á fund Davíðs. Þá sagði Davíð Oddsson Sighvati Björgvinssyni frá því, að hann væri að fara að hitta Halldór Ásgrímsson, áður en til fundar þeirra kom páskadag 16. apríl. Nú segir Jón Baldvin, að þessar yfirlýsingar Davíðs hafi verið lítils virði, af því að hann hafi ekki sagst vera að fara í stjórnarmyndunarviðræður við Halldór. Hver gat á þeim tíma vitað, hvaða niðurstaða fengist í viðræðum flokksforingjanna?

Það er skiljanlegt, að alþýðuflokksmenn séu sárir yfir því að vera ekki lengur þátttakendur í ríkisstjórn eða umræðum um myndun stjórnar. Talið um hver talaði við hvern á meðan menn voru að þreifa fyrir sér um kostina að kosningum loknum, skiptir engu miðað við þá staðreynd, að fyrir liggur, hverjir ætla að ræða saman um myndun ríkisstjórnar, það eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Hvernig gátu alþýðuflokksmenn vænst þess, að formaður Sjálfstæðisflokksins kynnti sér ekki, hvaða aðstöðu hann hefði til samstarfs við aðra flokka að loknum kosningum? Auðvitað hlaut Davíð að þreifa fyrir sér eins og aðrir. Hann vildi ekki síður en alþýðuflokksmenn hafa sitt öryggisnet, ef ekki næðist saman um framhald á samstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann þurfti að bregðast við, til að lokast ekki inni í þeirri spásögn, að semdi hann ekki við Alþýðuflokkinn, kæmi margflokka vinstri stjórn til sögunnar.

Forsíðufyrirsögn DV í dag um að Halldór hafi unnið kapphlaupið um stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum er rétt. Hún tekur mið af því, sem sagt var í kosningabaráttunni. Allt þar til fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkaði í skoðanakönnunum var ljóst, að aðrir flokkar, fyrir utan Þjóðvaka, voru að biðla til hans. Stjórnaraðild Framsóknarflokksins er einnig í samræmi við niðurstöður kosninganna. Davíð sagðist ætla að fara í tveggja flokka samstarf. Halldór sagði sinn fyrsta kost vera vinstri stjórn, missti ríkisstjórnin meirihluta. Það gerði hún ekki. Halldór kannaði, hvort mynda mætti vinstri stjórn og taldi þann kost ekki fýsilegan. Davíð hefði ekki myndað tveggja flokk með aðild Kvennalistans að stjórninni með Alþýðuflokknum. Þjóðvaki vildi alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Alþýðubandalagið gaf sterklega í skyn áhuga á stjórn með Sjálfstæðisflokknum, eins og fram kom í kvöldfréttum útvarps 12. apríl. Alþýðubandalagið sýndi hins vegar lítinn styrk í kosningabaráttunni, þótt "óháðir" gengju til liðs við það, jókst fylgið ekkert. Framsóknarflokkurinn vann á í kosningunum og almennt er auðveldara fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ganga til samstarfs við hann en gera í fyrsta sinn tilraun til tveggja flokka samstarfs við Alþýðubandalagið. Ólafur Ragnar Grímsson hefur vissulega breytt þeim flokki, en hans formannstími er senn á enda.

Ég var þeirrar skoðunar að kosningum loknum, að eins atkvæðis meirihluti útilokaði sterka stjórn með Alþýðuflokknum. Einnig taldi ég, að sjálfstæðismenn hlytu að líta til þess, að kosningabarátta Alþýðuflokksins snerist um það að ná fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Ef Alþýðuflokkurinn ætlaði að vera sjálfum sér samkvæmur að loknum kosningum, hlyti hann að halda áfram að gera Sjálfstæðisflokkinn tortryggilegan fyrir meinta stefnu hans í utanríkisviðskiptamálum. Það ríkti ekki lengur nægilegur trúnaður á milli manna. Menn bera gjarnan saman samstarf Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks nú saman við það, sem var á viðreisnarárunum 1959-1971. Slíkur samanburður kann að hafa fróðleiks- og skemmtigildi en hann er ekki raunhæfur. 1963 gengu flokkarnir til kosninga með það að markmiði að starfa saman að þeim loknum. 1967 gerðu þeir það ekki en ákváðu að kosningum loknum að starfa saman. Þetta samstarf varð langvinnt vegna þess, að trúnaður ríkti milli forystumanna flokkanna. Fráleitt er að ætla, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu þá talið það til marks um trúnað, ef Alþýðuflokkurinn hefði byggt kosningabaráttu sína á því að ná í fylgi frá Sjálfstæðisflokknum.

Allt bar að þeim brunni í síðustu viku, að formaður Sjálfstæðisflokksins treysti stöðu sína í ljósi kosningaúrslitanna. Það gerði hann ekki með því að halla sér að Alþýðuflokknum einum, enda með öllu ástæðulaust að vera svo þröngsýnn. Niðurstaða valdabaráttunnar að loknum kosningum liggur nú fyrir. Þeir koma sterkastir frá henni, sem fengu mest traust í kosningunum, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Það er rökrétt niðurstaða kosninganna, að þeir myndi stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.