29.1.2005

10 ára vefsíða – umræðuhefð – skrýtnar deilur – her og jafnrétti.

Um þessar mundir fagna ég 10 ára afmæli vefsíðu minnar. Eins og sjá má á forsíðu hennar og ef farið inn á febrúar 1995, setti ég fyrsta pistilinn á síðuna 19. febrúar 1995. Tilraunir við síðuna hóf ég með Miðheimamönnunum Arnþóri Jónssyni og Gunnari Grímssyni um miðjan janúar það ár.

Pistlarnir ná yfir allan þann tíma, sem ég hef gegnt störfum ráðherra, og í dagbók get ég um margt af því, sem á dagana hefur drifið, þótt ég haldi af ásettu ráði nokkurri fjarlægð frá því, sem ekki eru opinber störf. Á síðunni er þannig einnig unnt að kynnast mörgu af því, sem á daga mína hefur drifið undanfarin áratug. Auk þess hef ég lagt mig fram um að færa allar skrifaðar ræður mínar á þessum árum og greinar í blöðum inn á síðuna, ég birti þar ekki ræður á alþingi eða í borgarstjórn Reykjavíkur, en þær eiga að vera aðgengilegar á vefsíðum þings og borgarstjórnar, auk þess sem á vefsíðum ráðuneyta er unnt að kynna sér ræður ráðherra á alþingi.

Heimsóknir á síðuna eru svo margar á þessu árabili, að ég hef engar tölur tiltækar um þær. Ég hef raunar aldrei hampað slíkum tölum, enda eru þær aukaatriði í mínum huga, þegar ég velti gildi síðunnar fyrir mér. Fyrir mig er vefsíðan einstaklega skemmtilegt og þægilegt tæki til að halda skipulega utan um það, sem á henni er að finna, auk þess gefur hún mér tækifæri til að segja skoðun mína á mönnum og málefnum. Pistlarnir eru allir börn síns tíma og ber að skoða þá í ljósi umræðu líðandi stundar á hverjum tíma, í þeim felst viðleitni til að halda fram skoðun og viðhorfi til manna og málefna á rökstuddan hátt.

Þegar því hefur verið hreyft, hvort ástæða gæti verið til að gefa eitthvað af þessu gífurlega mikla efni út á prenti, hef ég að athuguðu máli lagst gegn því. Útdráttur gæfi ekki þá heildarmynd, sem síðan öll veitir, auk þess mundu menn væntanlega hneigjast til að höggva nærri einhverjum, sem átti það að mínu mati skilið, þegar ég gerði það, en þætti kannski of harkalega gagnrýnið í öðru samhengi. Vefsíðan er þannig í senn ein heild, sem erfitt er að brjóta, og einnig hluti af  enn stærri heildarmynd almennra stjórnmála- og fjölmiðlaumræðna á þeim árum, sem hún spannar. Nýtist hún einhverjum sem heimild til að lýsa þróun mála á þessu árabili, er það fagnaðarefni.

 

Efnið á síðunni hefur oft orðið tilefni opinberra umræðna en ekki skapað mér nein alvarleg vandræði, þótt sjálfskaparvítin séu jafnan verst. Þegar reynt er að gera efni síðunnar tortryggilegt, er það venjulega gert í því skyni að koma á mig höggi af þeim, sem vilja veg minn lítinn í stjórnmálum. Fyrir stjórnmálamann, sem stendur í skrifum eins og þessum, er engin ástæða til að kveinka sér undan árásum af þessum toga. Enginn getur hins vegar með neinum rökum borið mér á brýn, að færslur á síðuna standi ekki eins og frá þeim var upphaflega gengið – að sjálfsögðu hef ég leiðrétt augljósar villur, einstöku sinnum bætt við nokkrum setningum til að árétta það, sem áður hafði verið sagt, en ekki vísvitandi breytt neinu efnislega.

 

Lærdómsríkt hefur verið að fylgjast með þróun tækninnar á þessum áratug. Um langt skeið var ég háður samskiptum og þjónustu vefritara, sem ég sendi efni mitt og þeir settu það inn á síðuna. Ég þakka þeim öllum gott samstarf. Í nóvember 2002 tók Hugsmiðjan að sér að endurhanna síðuna og setja hana í eplica-forrit sitt. Ég er mjög ánægður með þá þjónustu og einnig hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því, hve Hugsmiðjan hefur vaxið og dafnað á samstarfsárum okkar, en föstudaginn 28. janúar buðu eigendur og starfsmenn hennar okkur viðskiptavinum sínum til móttöku í nýjum húsakynnum fyrirtækisins við Snorrabraut.

 

Fyrir nokkrum árum bauð ég þá þjónustu, að unnt væri að skrá sig á póstlista hjá mér. Nú eru 1179 manns á þeim lista og sendi ég þeim pistlana við útgáfu þeirra. Það er jafnauðvelt að skrá sig á listann og afskrá sig, ég kem þar hvergi nærri. Ég þakka þeim fjölmörgu, sem hafa haft tölvusamband við mig fyrir tilstilli síðunnar.

 

Umræðuhefð.

 

Umræðuhefð okkar hefur breyst á þeim 10 árum, sem liðin eru frá því að ég opnaði síðuna. Þótt fleiri raddir heyrist en áður fyrir tilstilli netsins, hefur meiri samþjöppun orðið hér í fjölmiðlun en æskilegt er, og nú er svo komið, að um 70% af markaðnum er á hendi eins aðila, sem auk þess hefur undirtökin í allri smásöluverslun og sterk ítök í fjármálaheiminum, til einföldunar kalla ég þessa fjölmiðla Baugsmiðlana. Víðlesnasta blaðinu er dreift ókeypis inn á hvert heimili.

 

Þegar flokksblöð voru við lýði, gátu menn gengið að því vísu, að þau drægju dám af sjónarmiðum leiðtoga og hagsmunum viðkomandi flokks og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. Menn völdu og höfnuðu með áskrift sinni. Hvarvetna er viðurkennt, að sjónarmið eigenda setji svip á fjölmiðla, efnistök, efnisval og skoðanir. Hið sama á auðvitað við hér á landi og barnaskapur eða hræsni, að halda að málum sé öðru vísi háttað. Með þessu er ekki sagt, að eigendur séu að skipta sér af öllu, sem sagt er í miðlum þeirra, en andi þeirra svífur yfir vötnunum.

 

Svonefndir álitsgjafar láta meira að sér kveða en áður og er gjarnan leitað til þeirra í fjölmiðlum, ef mikið þykir við liggja. Þeir eru hins vegar brenndir hinu sama og við allir dauðlegir menn, að skoðanir þeirra eru hvorki betri né verri en rökin, sem þeir færa fyrir þeim. Stundum virkar það á mann á þann veg, þegar kallað er í álitsgjafa til skrafs og ráðagerða, að nú hafi verið ákveðið að skrúfa frá kalda krananum í stað þess heita, því að skoðanirnar eru svo staðlaðar eða mótaðar af pólitískri rétthugsun í umhverfi álitsgjafans, að sjaldan heyrist í raun nokkuð nýtt, vatnið er jafnkalt eða jafnheitt og áður. 

 

Frétta – eða blaðamenn, sem eru að skýra fyrir okkur málin, með eigin útlistunum, eru að sjálfsögðu ekki hlutlausir. Galdurinn hjá fjölmiðlum er hins vegar að gefa öllum sjónarmiðum tækifæri en ekki að láta eitt duga. Að þessu leyti hefur þróunin orðið sú, að skoðanir þeirra, sem tjá sig í pistlum og fréttaskýringum, verða sífellt einsleitnari. Í stað skoðana, sem byggðust á ólíkri pólitískri sýn, er leitast við að halda sig við pólitíska rétthugsun, sem verður sífellt þröngsýnni á málefni og ekki síst menn.

 

Fréttir af því, hvílíkur kraftur og vöxtur hefur hlaupið í fjármála- og bankastarfsemi hér, eftir að ríkið sleppti hendi sinni af henni, staðfesta enn hve þungt og erfitt er að njóta sín í samkeppnisrekstri undir handarjaðri ríkisvaldsins. Hið sama sjáum við gerast í háskólastarfsemi, rannsóknum og vísindum. Þar hefur orðið bylting, eftir að tekið var til við að virkja áhuga og snerpu einkaframtaksins á markvissan hátt.

 

Spyrja má: Er ríkisvaldið í raun að stuðla að bestu þjónustu í fjölmiðlun með því að halda ríkisútvarpinu úti? Hvaða hagsmuni er verið að verja með því að reka ríkisútvarpið? Ég hef ekki verið talsmaður þess, að ríkið drægi sig út úr útvarpsrekstri. Ég tel hins vegar æskilegt að ræða málið, án þess skrúfa til skiptis frá heita og kalda krananum.

 

Skrýtnar deilur.

 

Þegar hlýtt er á umræður líðandi stundar, er oft ástæða til að undrast.

 

Við erum nokkrir, sem höfum þá skoðun, að 26. grein stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta Íslands sé tímaskekkja.

 

Ég hreyfði þessari skoðun, áður en ég hafði afl til að ímynda mér, að Ólafur Ragnar Grímsson yrði forseti Íslands. Skoðanir af þessum toga hafa hins vegar vakið meiri athygli en áður, eftir að Ólafi Ragnari þótti við hæfi að beita þessu valdi til að hindra framgang laga um aukið frelsi í fjölmiðlun, af öllum umdeildum málum, sem komið hafa á borð forseta Íslands í 60 ára sögu embættisins.

 

Sigurður Líndal, prófessor emiritus, vill halda í þetta synjunarvald forseta Íslands og hefur sett fram umdeildar fræðikenningar til að réttlæta þá skoðun sína. Einn morguninn heyrði ég þá ræða saman í útvarpsþætti Sigurð og Ólaf Hannibalsson, forystumann svonefndrar þjóðarhreyfingar, sem varð til í því skyni að styðja framgang synjunar Ólafs Ragnars. Í umræðum þeirra skoðanabræðra í þætti Ólafs Hannibalssonar sagði Sigurður eitthvað á þá leið, að úr því að menn vildu ekki synjunarvald forsetans, skildi hann ekki, hvers vegna þeir bæðu bara ekki um að fá danska konunginn yfir okkur aftur! Hvers vegna þeir væru með öðrum orðum þeirrar skoðunar, að Ísland ætti að vera lýðveldi! Stjórnandi þáttarins samsinnti þessari dæmalausu útlistun að sjálfsögðu, eins og hún ætti við einhver skynsamleg rök að styðjast. Sigurður hnykkti á skoðun sinni með því að minnast á okkur andstæðinga sína í þessu máli, sem afkomendur þeirra, sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands, og átti það líklega að vera okkur til hnjóðs í þessu samhengi.

 

Umræður á þessu plani um lýðveldi á Íslandi skila auðvitað engu og eru því með öllu tilgangslausar. Að sjálfsögðu er það ekki grundvöllur lýðveldisins, að forseti Íslands geti brugðið fæti fyrir þingræðið. Embættinu er enginn greiði gerður með svona tali um það.

 

Fyrir viku vakti Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, máls á því, að sér þætti of mikið í lagt, ef verja ætti allt að milljarði króna til að heyja baráttu fyrir því, að Ísland næði kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Í fjarveru Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra leituðu fjölmiðlar til Illuga Gunnarssonar, aðstoðarmanns Davíðs. Þá varð til spuni í tilefni af því, að Illugi er tengdasonur Einars Odds og þeir voru að því er virtist í fljótu bragði ekki á einu máli. Hvað væri eiginlega á seyði?

 

Ég hef verið talsmaður þess, að Ísland sæktist eftir kjöri í öryggisráðið, skrifað um það greinar og flutt um það ræður. Ég er hins vegar ekki svo lokaður í þessari afstöðu minni, að þetta skuli gert, hvað sem það kostar eða hvað sem tautar og raular. En hvert komumst við í umræðum um málið, ef punkturinn er sá, að Einar Oddur hafi lýst skoðun sinni og Illugi, tengdasonur hans, sé ekki endilega sammála honum? Eða punkturinn sé sá, að það kunni að vera ólíkar skoðanir um málið innan þingflokks sjálfstæðismanna eða meðal þingmanna ríkisstjórnarinnar?

 

Fyrir 20 árum, eða árið 1985, skýrði Geir Hallgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, frá því, að Ísland ætlaði að komast inn í röð Norðurlanda til setu í öryggisráðinu og árið 1998 steig Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, næsta skref og setti Ísland í röðina miðað við kosningar til setu 2008 til 2010. Í framboði af þessum toga er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að taka síðan mið af stöðunni hverju sinni og haga ákvörðunum í samræmi við það.

 

Her og jafnrétti.

 

Í þau 10 ár, sem ég hef haldið úti síðunni, hefur fylgt mér skoðun, sem ég setti fram á alþjóðlegri ráðstefnu um öryggismál hér í Reykjavík 7. september 1995 um hlut okkar Íslendinga í eigin vörnum, sjá /greinar/1995/09/07/nr/575 hér á síðunni.

 

Birgir Loftsson sagnfræðingur ritar fróðlega grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag, laugardaginn 29. janúar, undir fyrirsögninni: Íslenskur her – hugmyndir um stofnun íslensks hers í 400 ár - http://mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?radnr=803269 - Birgir vísar undir lok greinar sinnar til sjónarmiða minna um þetta efni og segir mig hafa „hafa varpað bombu“ inn í umræðuna um íslenskan her með þessari ræðu minni. Grein sinni lýkur Birgir á þessum orðum:

 

„Andstaðan við hugmyndir Björns um stofnun íslensks hers virðast aðallega koma af vinstri væng stjórnmálanna þó að einstaka menn á þeim væng hafi léð máls á að kannski sé tími til kominn að huga alvarlega að þessum málum. En flestir hafa tekið frumkvæði Björns heldur fálega.

 

Hafa mál staðið þannig hingað til, að þrátt fyrir að skiptar skoðanir hafi verið um veru Varnarliðsins svonefnda, þá hefur enginn, fyrir utan Björn, bent á lausn á hvernig eigi að haga vörnum landsins ef og til þess kemur að það ákveður einn góðan veðurdag að yfirgefa landið.“

 

Ég hef oft og nú síðast á málþingi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands hinn 14. desember 2004 velt því fyrir mér, hvers vegna erfitt er að hefja málefnalega umræðu um þessi mál meðal okkar Íslendinga.

 

Ég er ekki einn um þessa skoðun. Í gær, föstudaginn 28. janúar, fékk ég til dæmis tölvubréf, þar sem sagði meðal annars: „Ég hef verið að reyna að fá fram umræðu um íslenskar landvarnir ... en í flestum tilfellum fengið neikvæð viðbrögð eins og: hver hefur áhuga á að ráðast á litla þjóð langt norður i hafi; við eigum enga óvini; við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi og vera friðarþjóð; þetta kostar of mikið, o.s.frv. Fólk virðist ekki skilja að við verðum að sýna lit, og verja okkur sjálf í eins miklum mæli og unnt er. Er hægt að segja, að um 90% þjóðarinnar eða svo séu með svo óhagganlegar skoðanir á íslenskum landvörnum, að ekki sé neinn möguleiki á að breyta þeim? Hvað gæti hugsanlega fengið fólk til að líta öðrum augum á þetta mikilvæga mál?“

 

Í sama tölublaði Lesbókarinnar og grein Birgis um íslenskan her birtist skrifar Gunnar Hersveinn um jafnréttisbaráttuna 2004 - http://mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?radnr=803267 .

 

Ég staldraði við greinina, þar sem mér er sýndur sá heiður að vera þar á mynd. Ástæðan fyrir því er, að hinn 7. apríl 2004 hafði Morgunblaðið eftir mér í lítilli frétt, að jafnréttislögin væru barns síns tíma. Ég taldi málum þannig háttað, ef lögin hefðu knúið kærunefnd jafnréttismála til niðurstöðu, sem fleiri lögfræðingar en ég töldu ekki standast lögin.

 

Í orrahríðinni, sem varð vegna þessara orða minna um jafnréttislögin, var gott að ráða yfir vefsíðunni til að fær rök fyrir skoðun minni og gerði ég það oft og ítarlega eins og sjá má á pistlum mínum í apríl 2004. Flestu af því var tekið fálega, enda var tilgangur margra með því að henda orð mín sundurslitin á lofti sá einn, að ná sér niðri á mér sem pólitískum andstæðingi. Tilfinninga- og baráttuhiti í jafnréttismálum var virkjaður til þess.

 

Ég steig inn á miklu eldfimara svæði, þegar ég talaði um jafnréttismál, en ég gerði með því að ræða á rökstuddan hátt um þátttöku Íslendinga í eigin vörnum. Skoðanir mínar um það efni hafa aldrei valdið jafnmiklu uppnámi og orðin um jafnréttislögin sem barn síns tíma.

 

Erum við samt ekki öll og allt sem við gerum barn síns tíma? Er eitthvað skammarlegt við það? Þegar ég lít yfir allt, sem ég hef skrifað hér á síðuna í 10 ár, sé ég, að það er vissulega allt barn síns tíma – og ekki verra fyrir það.