19.2.1995

Upplýsingatækni til umræðu á kosningaráðstefnu

Sjálfstæðisflokkurinn hélt ráðstefnu laugardaginn 18. febrúar til undirbúnings undir kosningarnar 8. apríl. Þar hittust flokksráðsmenn og formenn sjálfstæðisfélaga um land allt. Hófst ráðstefnan með ræðu Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann gerði grein fyrir stöðu mála við upphaf kosningabaráttunnar. Þá lýstu fulltrúar úr ýmsum kjördæmum, hvernig staðið yrði að kosningabaráttunni hjá sér. Eftir hádegisverð gerðu ráðherrar flokksins grein fyrir stöðu mála, hver á sínu sviði. Einnig var sérstaklega rætt um heilbrigðismál og upplýsingamál.

Framsögu um upplýsingamálin hafði Guðbjörg Sigurðardóttir, sem er formaður upplýsinganefndar Sjálfstæðisflokksins. Þessi nefnd var stofnuð fyrir nokkrum mánuðum og hefur verið mikill áhugi á starfi hennar, enda fjallar hún um málefni, sem höfðar til sífellt fleiri. Á ráðstefnunni lagði nefndin fram áhersluatriði á málefnasviði sínu. Þar segir í upphafi:

"Að undanförnu hefur áhugi almennings á upplýsingamálum vaxið jafnt og þétt. Opnast hafa möguleikar fyrir hinn almenna borgara til að afla sér margvíslegrar þekkingar gegnum alheimstölvunet og möguleikar fyrirtækja til að hagnýta sér tæknina eru nær ótakmarkaðir. Íslendingar hafa tileinkað sér upplýsingatæknina fljótt og vandalítið. Við erum ekki einungis notendur tækninnar því framleiðsla hugbúnaðar er vaxandi atvinnugrein sem er fyllilega samkeppnisfær eins og þegar hefur verið staðfest með sölu íslensks hugbúnaðar erlendis.

Störf við upplýsingatækni eru þess eðlis að byggja fyrst og fremst á hugviti en ekki náttúrulegum hráefnum, orku, dýrum byggingum eða tækjum. Hugvitið höfum við og það gefur okkur möguleika til þess að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu án þess að stofna til mikilla fjárfestinga.
Upplýsingatæknin snertir alla þætti þjóðlífsins, bæði atvinnulíf og einkalíf allra landsmanna. Mikilvægt er að leggja grunn að því framtíðarþjóðfélagi sem við viljum byggja."

Hér verða einstök atriði í þessari tillögu upplýsinganefndarinnar ekki tíunduð. Henni lýkur á áskorun um að ríkisstjórnin skipi nú þegar nefnd til að vinna að mótun stefnu fyrir upplýsingaþjóðfélagið. Bent er á, að nágrannalönd okkar hafi nú þegar mótað skýra stefnu í þessum efnum, sem nær til allra þátta þjóðlífsins. Í máli Guðbjargar Sigurðardóttur kom fram, að skipan slíkrar nefndar væri þegar á döfinni í forsætisráðuneytinu.

Sunnudaginn 19. febrúar efndu frambjóðendur í efstu sætum á vegum Sjálfstæðisflokksins síðan til fundar í Reykjavík í því skyni að stilla saman strengi í kosningabaráttunni. Ríkti mjög góður andi á fundinum og er ekki vafi á því, að mikil samheldni er í röðum frambjóðendanna.

Á grundvelli þess, sem gerðist á þessum tveimur fundum og með vísan til ályktana síðasta landsfundar sjálfstæðismanna verður á næstu dögum lögð lokahönd á stefnumótun Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar.