28.12.2004

Kiljan – hamfarir – mannréttindi.

Ég ákvað að skrifa ekki pistil að þessu sinni, fyrr en ég hefði lokið við að lesa bókina Kiljan eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Nú er þeim ánægjulega lestri lokið og vil ég hvetja alla lesendur síðu minnar til að gefa sér tíma til að fylgja fordæmi mínu og lesa bókina í fullvissu þess, að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum.

Ég botnaði ekkert í látunum fyrir ári vegna fyrsta bindisins í þessu þriggja binda verki Hannesar um Halldór Kiljan Laxness og skil ekki enn, hvað fyrir þeim vakir, sem vilja leggja stein í götu þess, að ævisaga Kiljans sé rituð á þann veg, sem þarna er gert. Þegar ég fjallaði um umræðurnar um fyrsta bindið hér á síðunni í janúar síðastliðnum, benti ég á, að margir, sem formæltu því, hefðu ekki gefið sér tíma til að lesa það!

Þegar fréttir voru um það í einhverjum fjölmiðlum fyrir fáeinum vikum, að bókin kæmi ekki út hjá Eddu og jafnvel var fullyrt, að hún yrði alls ekki meðal jólabókanna ár, meðal annars vegna veikinda Hannesar, þótti mér það miður. Vegna þeirrar spennu, sem vakin hafði verið vegna fyrsta bindisins, hefði það verið það örugglega verið lagt út á sérkennilegan hátt, ef annað bindið sæi ekki dagsins ljós í ár, eins og að hafði verið stefnt.

Útgáfu bókarinnar nú er réttilega lýst sem góðum sigri fyrir Hannes eftir allt sem á undan er gengið. Sætir raunar tíðindum, að hann skuli hafa unnið þetta verk af þeirri elju og nákvæmni, sem það endurspeglar, í hita eftirleiksins vegna fyrsta bindisins. Margir hefðu hreinlega lagt árar í bát og beðið þess, sem verða vildi fyrir dómstólum eða annars staðar. Það hefði þó síst af öllu verið í anda söguhetju Hannesar að láta þagga niður í sér, þótt hart væri sótt vegna þess, sem áður hafði verið skrifað.

Hannes beitir hófstilltri aðferð við söguritunina og á það vel við, þegar tekist er á við efni, sem er eins dramatískt og þetta. Hann setur sig ekki í dómarastellingar heldur lætur lesandanum eftir að vega og meta orð sín með vísan til heimilda.

 

Hið sama á við um þetta bindi og hið fyrra, að komið er fram við söguhetjuna af virðingu, en ekkert er undan dregið. Þegar litið er til alls þess, sem segja mætti til túlkunar á því, sem gerist á sviðinu, felst styrkur frásagnarinnar í því, að höfundurinn lætur ekki eftir sér að fella dóma.

 

Síðasta skáldverk Kiljans í þessu bindi Hannesar er Atómstöðin og rifjar hann upp, hve Kristjáni Albertssyni þótti miður, að Kiljan hefði ritað þessa bók og þá ekki síður, að hún væri þýdd á erlendar tungur. Frásögnin af þessum tæplega sextíu ára gömlu deilum rifjar upp fyrir mér heimsókn til Kristjáns á Droplaugastaði, þar sem hann var háaldraður og blindur en fylgdist vel með öllu og meðal annars því, að verið væri að setja upp leikrit byggt á Atómstöðinni í Stokkhólmi. Kristján byrsti sig, þegar hann lýsti skömm sinni á því, að einhverjum þætti Kiljan eða Íslendingum til sæmdar að breiða út þennan ósóma.

 

Hannes segir ekki aðeins sögu Kiljans heldur bregður ljósi á þróun stjórnmála hér heima og erlendis, bókin er því að öðrum þræði stjórnmála- og menningarsaga, þar sem tekist er á með vísan til stjórnarhátta kommúnista og kapítalista og styrkleika þeirra hugsjóna, sem að baki búa. Okkur er öllum ljóst núna, hvort stjórnkerfið sigraði og hvor hugsjónin, og við vitum einnig, að skynsamlegt var fyrir Íslendinga að eiga frekar samleið með vestrænum lýðræðisríkjum undir forystu Bandaríkjanna en skipa sér undir ok Moskvuvaldsins og heimskommúnismans.

 

 

Hamfarir

 

Enn veit enginn, hve margir hafa farist vegna neðansjávar-jarðskjálftans mikla  ( um 9 á Richter) við Súmötru annan jóladag. Flóðbylgja, tsunami, varð til við skjálftann og hefur orðið tug þúsundum manna að fjörtjóni við strendur Indlandshafs. Fréttamenn segja, að fjöldi látinna geti hæglega farið yfir 100 þúsund. Íslendingar voru á þessum slóðum og nú hefur heyrst frá öllum þeirra nema 12, 7 á Tælandi og 5 manna fjölskylda á Balí.

 

Í fréttum er sagt frá því, að vél frá Loftleiðum, leiguflugfélagi Flugleiða, sé að halda til Tælands, þaðan sem hún eigi að flytja sænska ferðamenn til síns heima, en  1500 Svía er enn saknað og í kvöld, 28. desember, er sænski utanríkisráðherrann, Laila Freivalds, að halda á vettvang til að taka þátt í björgunarstörfum.

 

Ég horfði á fréttir í sænska sjónvarpinu og hvarvetna í Svíþjóð er verið að búa fólk undir meira áfall en þjóðin varð fyrir um árið, þegar ferjan Estonia fórst og með henni 500 Svíar.  Reynslan af því slysi sýndi, að um alla Svíþjóð áttu menn um sárt að binda, hvað þá heldur nú, bæði vegna látinna og einnig vegna hinna, sem bjargast hafa og koma í áfalli til síns heima og segja sorgartíðindi, eins og mátti í heyra í sjónvarpsfréttunum.

 

Fréttirnar frá Svíþjóð sýna, að það er ekki aðeins á hamfarasvæðinu, sem grípa þarf til áfallahjálpar, hún er nauðsynleg fjarri slysstaðnum ekki síður en á honum sjálfum. Þar er auðvitað enn svo margt úr skorðum gengið, að enginn gerir sér fulla grein fyrir því, sem í raun hefur gerst, þannig er sagt, að milljón  menn séu heimilislausir á Sri Lanka, þar sem voru flestir erlendir björgunarliðar, þegar flóðið varð.

 

Andspænis hamförum eins og þessum er ekkert unnt að segja, þær eru af slíkri stærðargráðu, að mannshugurinn á erfitt með að setja þær í nokkurt samhengi. Að sjálfsögðu velta menn fyrir sér, hvort unnt sé að setja upp kerfi til viðvörunar, en fram að síðustu helgi voru 300 ár liðin síðan tsunami-bylgja skall á strendur Tælands. Hvað skyldi líða langur tími, þar til ferðamenn leggja að nýju leið sína á þessar strendur?

 

Við Íslendingar þekkjum af eigin raun, að unnt er að grípa til margþættra aðgerða til að búa sig undir hættu af náttúruhamförum. Viðvörunarkerfi við Indlandshaf eða annars staðar við strendur, þar sem hætta er á tsunami, yrði ekki síður tröllaukið en afleiðingar jarðskjálftans og hlyti að byggjast á tækni, sem er ekki er endilega tiltæk í frumstæðum strandbyggðum, þótt annað kunni að gilda um ferðamannastaði. Viðvörun er eitt og viðbragð annað – hvernig á að standa að því að ryðja strendur við Indlandshaf með skömmum fyrirvara? Fréttir frá Tælandi herma, að ótti við eftirskjálfta og viðbrögð við honum hafi leitt til slíks öngþveitis á vegum, að lífum margra hafi verið stefnt í hættu.

 

Mannréttindi

 

Í desember ritaði ég tvær greinar í Morgunblaðið hinn 11. desember og 20. desember vegna þeirrar gagnrýni, sem það sætti, að alþingi ákvað með fjárlögum fyrir árið 2005 að hætta að eyrnamerkja Mannréttindaskrifstofu Íslands samtals 8 milljónir króna.

 

Fyrir mér vakti ekki annað en skýra hinar efnislegu ástæður þess, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið breytti orðalagi í fjárlagafrumvarpinu.  Þá þótti mér ótækt, að Halldór Ásgrímsson lægi undir ásökunum um, að hafa ekki staðið við eitthvert samkomulag, sem hann var sagður hafa gert sem utanríkisráðherra og kynnt í ríkisstjórn. Þetta svokallaða minnisblað með fangamarkinu H. Á. [Helgi Ágústsson] var aldrei lagt fram í ríkisstjórn.

 

Ég ætla ekki að elta frekar ólar við þau Margréti Heinreksdóttur, sem sat í stjórn Mannréttindaskrifstofunnar, og Lúðvík Bergvinsson, þingmann Samfylkingarinnar, sem svöruðu greinum mínum í Morgunblaðinu. Þau hafa að sjálfsögðu fullan rétt til að vera ósammála mér og hafna mínum rökum.

 

Ég er undrandi á því, að hvorug fréttastofa RÚV hefur að því mér virðist, gert minnstu tilraun til að leiðrétta þær röngu fréttir, sem þær fluttu um minnisblaðið og Halldór Ásgrímsson hinn 4. desember.

 

Rangar fréttir eða annað hagga ekki, að einhliða ákvörðun stjórnar Mannréttindaskrifstofunnar breytti forsendum fyrir að eyrnamerkja skrifstofunni fé á fjárlögum. Hinu er ósvarað, hvert hafi verið markmið þeirra öflugu aðila, sem stóðu að því að stofna skrifstofuna fyrir 10 árum. Varla var það tilgangur þeirra að stofna skrifstofu í nafni mannréttinda, sem ætti síðan allt sitt undir fé úr ríkissjóði?