Hælisleitendur – skattarnir og Össur – Þjóðarhreyfingin.
Þegar ég ók frá Stöð 2, eftir að hafa rætt við Össur Skarphéðinsson í Silfri Egils um hádegisbilið í dag, sunnudaginn 12. desember, heyrði ég, að þær voru ræða við Ævar Örn Jósepsson á rás 2 Siv Friðleifsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismenn um þingstörfin, afgreiðslu fjárlaga. Ævar Örn virtist leggja áherslu á það, sem stjórnandi þáttarins, að ekki yrði rætt um stærsta málið á haustþinginu fyrir utan fjárlögin, það er lækkun skatta, en sú ráðstöfun á eftir að skipta almenning og þjóðarbúið mestu af ákvörðunum þingsins að þessu sinni. Þótti honum nóg hafa verið rætt um það mál!
Ævar Örn vildi frekar ræða það, hvers ekki var ákveðið með fjárlögum að taka Mannréttindaskrifstofu Íslands upp á arma ríkisins (sjá grein mína um það mál) og þá virtist hann ofurhneykslaður á því, að aðeins einum manni hefði verið veitt hér pólitískt hæli undanfarin ár. Ég heyrði ekki lyktir umræðnanna eða hvort nokkur hefði komið því að við Ævar Örn, að síðastliðinn föstudag var Páli Péturssyni fyrrverandi félagsmálaráðherra veitt æðsta viðurkenning Rauða kross Íslands fyrir að hafa boðið hingað hópum flóttamanna frá Júgóslavíu fyrrverandi, samtals 218 manns.
Ég skil ekki á hvaða villigötum umræður um innflytjendamál eru, ef það er talið ámælisvert, að hér séu ekki fleiri hælisleitendur. Þeir, sem þannig tala, vita ekki um hvað málið snýst og hvílík vandamál steðja að mörgum þjóðum vegna þess, hve erfiðlega gengur að stemma stigu við hælisleitendum.
Það er fagnaðarefni, að Rauði kross Íslands skuli að verðleikum meta þátt Páls Péturssonar í því að taka á móti flóttamönnum frá Júgóslavíu fyrrverandi. Það var gert með samþykki ríkisstjórnar hverju sinni og í samstarfi við sveitarfélög víða um land undir forsjá Rauða krossins. Hljótum við öll að vona, að hinum nýju samlöndum okkar vegni vel í nýjum heimkynnum.
Ef ekki er vel og skipulega tekið á málefnum hælisleitenda, er verið að búa til vanda, sem getur orðið ill viðráðanlegur og kallar á sterk viðbrögð almennings eins og sjá má víða í nágrannalöndum okkar. Ég veit ekki um neitt Evrópuríki, sem heldur fram stefnu í því skyni að kalla á fleiri hælisleitendur. Þvert á móti má lesa um það, að þingmenn margra landa eru að samþykkja lög og reglur til að flýta því, að ólögmætir hælisleitendur hverfi úr löndum þeirra. Þetta hefur meðal annars gerst í Hollandi og Bretlandi og skipta þeir einstaklingar, sem í hlut eiga, tugum ef ekki hundruðum þúsunda.
Hér á landi eru nú nokkur herskip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins (NATO) og í Morgunblaðsviðtali við yfirmann flotans, Hollendinginn Leon Bruin, sunnudaginn 12. desember segir frá því, að sjóliðar undir hans stjórn hafi farið um borð í 50 skip á Miðjarðarhafi og skoðað farm þeirra. Flotaforinginn vildi ekki segja frá því, hvað fannst í skipunum, en þetta séu einskonar lögreglustörf og flotinn sé í auknum mæli að leitast við að koma í veg fyrir smygl.
Á ráðstefnunni, sem ég sat í Róm á dögunum og nefndi í síðasta pistli mínum, flutti Ferdinando Sanfelice di Montefore, aðmíráll og yfirmaður suðurflotastjórnar NATO, erindi um hið nýja en sífellt mikilvægara hlutverk flotans á Miðjarðarhafi, sem snerist einkum um að stemma stigu við smygli á fólki, það er að sporna við aðstreymi hælisleitenda til Evrópu.
Á vettvangi Evrópusambandsins hefur því verið hreyft, hvort skynsamlegt gæti verið fyrir sambandsríkin að stofna miðstöð hælisleitenda einhvers staðar á strönd Norður-Afríku og þar yrðu þeir látnir bíða, á meðan mál þeirra væru afgreidd. Tillagan hefur ekki hlotið hljómgrunn en endurspeglar áhyggjur stjórnvalda vegna þess, hvernig mál af þessum toga þróast.
Eins og áður sagði heyrðist mér Ævar Örn Jósepsson ofurhneykslaður á því, að hér væri ekki tekið á móti fleiri pólitískum flóttamönnum auk þess sem hann saknaði fleiri hælisleitenda. Ef þáttarstjórnandinn heldur að þessi málflutningur sé í samræmi við pólitíska rétthugsun einhvers staðar, væri fróðlegt að vita, hvar það væri.
Ég er þeirrar skoðunar, að vinna beri að því að stemma stigu við straumi flóttamanna með því að leggja hið besta af mörkum til að bæta ástandið í löndum þeirra, það er stuðla þar að friði, bættum lífskjörum og almennri menntun. Dugi slíkar ráðstafanir ekki verða stjórnvöld í hverju ríki fyrir sig að taka á málefnum hælisleitenda í samræmi við landslög og alþjóðasamninga. Það er gert hér á landi og á vegum Útlendingastofnunar er unnið að þessu viðkvæma verkefni af þeirri alúð, sem ber, þegar hagur og réttindi einstaklinga eiga í hlut.
Skattarnir og Össur.
Undir stjórn Egils Helgasonar ræddum við Össur einkum um skattamál og taldi hann mig vera að boða einstakt frjálshyggjuþjóðfélag á heimsvísu, þegar ég mælti því bót, að ríkið tæki sem minnst úr vasa borgaranna og þeir fengju að ráðstafa fé sínu sjálfir en þyrftu ekki að lúta því, að stjórnmálamenn veltu hverri krónu fyrir sér og ákvæðu, hvert hún ætti að renna.
Ég minnti á þau umskipti, sem orðið hefðu í háskólastarfsemi í landinu, eftir að einkaframtakið var virkjað á þeim vettvangi og lýsti vonbrigðum yfir því, að ekki hefði tekist að gera slíkt hið sama í jafnríkum mæli á öðrum skólastigum, sérstaklega grunnskólastigi, þar sem forysta kennarasamtakanna í samvinnu við vinstrimenn í Hafnarfirði hefði til dæmis eyðilagt einkarekinn Áslandsskóla.
Ég sagði erfitt að ræða þessi mál við Össur, af því að maður vissi aldrei almennilega, hvaða skoðun hann hefði. Þannig hefði Samfylkingin sagt fyrir kosningar, að hún vildi ekki lækka matarskatt á matvæli, en Össur hefði reynt snúa sig út úr því síðar með þeim orðum, að það hefði einhver „símastrákur“ eins og hann orðaði það svarað fyrir Samfylkinguna – síðan hefði komið í ljós, að sá, sem svaraði, var enginn annar en Jóhann Ársælsson alþingismaður, einn mesti spekingur í þingflokki Samfylkingar, ef marka mætti framgöngu hans á þingi.
Ég las úr grein eftir Guðmund Ólafsson hagfræðing í Morgunblaðinu 11. desember, þar sem hann gagnrýnir Össur og Ögmund Jónasson fyrir að leggja stein í götu þess að fólk afli sér tekna með stuðningi sínum við hátekjuskatt og ýta undir gróða kaupmanna með því að vilja lækka matarskatt. Krafðist Guðmundur þess að Össur og Ögmundur hyrfu af vettvangi stjórnmála vegna þessa. Össur var drjúgur með sig, þegar hann svaraði þessu á þann veg, að ég væri að ráðast á Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varði Össur af þunga það sjónarmið Geirs og okkar sjálfstæðismanna, sem ég er sammála, að lækka beri matarskattinn. Var Össur þarna orðinn mikill talsmaður skattalækkana, þótt í umræðunum um lækkun tekjuskattsins hefði hann fundið skattalækkunum allt til foráttu, af því að ríkissjóður gæti ekki staðið að nauðsynlegri tekjujöfnun í þjóðfélaginu, ef skattar yrðu lækkaðir!
Þjóðarhreyfingin.
Undir lok viðtalsins við okkur Össur vakti Egill máls á því tiltæki svonefndrar Þjóðarhreyfingar að birta auglýsingu í The New York Times í nafni Íslendinga til að skorast undan samstöðu með Bandaríkjamönnum og öðrum þjóðum, sem að því stóðu að koma Saddam Hussein frá völdum. Ég lýsti þeirri skoðun minni að auglýsingin væri tímaskekkja og sóun á fé.
Ég skil uppátækið alls ekki og er undrandi á að kynnast ýmsum rökum, sem beitt er í umræðunum. Nefni ég þar tvo punkta: Í fyrsta lagi, að einn forsprakkanna hafi fyrst séð það í CNN, að Ísland væri lista með stuðningsþjóðum Bandaríkjanna. Í öðru lagi, að ekki hefði verið rætt um Íraksstríðið í lokaumræðuþætti stjórnmálaforingja í sjónvarpssal að kvöldi 9. maí 2003, það er daginn fyrir þingkosningarnar.
Hvernig í ósköpunum er unnt að líta á þetta, sem málefnaleg rök fyrir því, að hvetja fólk til að leggja fé af mörkum til að auglýsa í The New York Times eða í nokkrum öðrum fjölmiðli?
Hitt er svo sérstakt umhugsunarefni, að hópur fólks skuli slá sjálft sig til riddara með orðinu Þjóðarhreyfing – hvaðan kemur umboðið til þess? Aldrei hefur þjóðin verið spurð og hún á það nú yfir sér, að með þetta orð að vopni, verði auglýst í nafni hennar. Hvers vegna stofna þessir einstaklingar ekki Mannkynshreyfingu og mótmæla í nafni alls mannkyns?
Margir aðstandenda Þjóðarhreyfingarinnar telja sig eiga sérstakt erindi í stjórnmálaumræður til að slá á fingur okkar stjórnmálamanna og lækka í okkur rostann, við höfum spillst um of af valdinu og okkur veiti ekki af aðhaldi og helst hvíld frá störfum. Ef við hefðum slegið eign okkar á skoðun þjóðarinnar á sama hátt og Þjóðahreyfingin hefur gert með eigin nafni og síðan auglýsingabrölti, væri með sterkum rökum unnt að segja, að eitthvað hefði stigið okkur til höfuðs.