21.2.2004

Áfengisauglýsingar – stjórnarráðssaga – líkfundur – varnarsamstarfið.

Miðvikudaginn 18. febrúar svaraði ég fyrirspurn Marðar Árnasonar á alþingi um auglýsingar á áfengi, hvort bann við þeim lögum samkvæmt væri í gildi og hvort ekki ætti að framfylgja því á sama hátt og banni við tóbaksauglýsingum. Ég sagði ekki leika neinn vafa um gildi laganna og minnti á, að hæstiréttur hefði tiltölulega nýlega komist að þeirri niðurstöðu, að þau brytu hvorki í bága við stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benti ég á, að ekki væri unnt að bera bannið við að auglýsa tóbak og áfengi saman, því að í lögum mættu þeir, sem framleiða áfengislaust öl auglýsa vörumerki sitt en ég vissi ekki um neinar tóbakslausar sígarettur.

Mörður sagðist hafa undir höndum tuttugu dæmi, sem hann taldi sýna, að brotið hafi verið gegn banni við auglýsingum á áfengi. Hann sagðist hafa ætlað að sýna þessi dæmi í þingskjalinu með fyrirspurninni en fallið frá því að höfðu samráði við skrifstofu alþingis. Ég benti á, að teldu sig hafa orðið vitni að lögbroti ættu þeir að láta yfirvöldin vita. Í umræðunum kom ekki fram, hvort Mörður ætlaði að gera það.

Í svari mínu kom fram, að lögregla og áfengis- og vímuvarnaráð, sem nú er orðið hluti af lýðheilsustofnun, hafa sérstökum skyldum að gegna við að framfylgja banninu við áfengisauglýsingum. Þótti mér skrýtið, þegar Mörður lagði út af orðum mínum um lagaskyldu þessara aðila á þann veg, að ég væri að draga í efa, að þeir gegndu skyldu sinni. Taldi ég túlkun hans um það efni ómaklega, því að ég hefði ekki annað gert en minna á lagaskyldur í tilefni af fyrirspurnum hans.

 

Stjórnarráðssagan.

Mörður spurði Davíð Oddsson forsætisráðherra fyrir skömmu á þingi um kostnað við ritun sögu stjórnarráðsins, en þar hef ég verið formaður ritstjórnar síðan snemma árs 1999. Davíð svaraði því öllu skilmerkilega en Mörður fjargviðraðist síðan yfir því, að Davíð hefði ekki einnig svarað spurningum, sem Mörður bætti við, þegar hann tók til máls í þingsalnum.

Fyrirspurnir til ráðherra á alþingi eru þrenns konar.

Í fyrsta lagi munnleg fyrirspurn, þar sem spurningar eru prentaðar og þeim dreift á þingskjali. Síðan er málið tekið á dagskrá. Þá flytur fyrirspyrjandi stutta ræðu og ráðherra svarar, síðan tekur fyrirspyrjandi að jafnaði aftur til máls, og ráðherra fær tíma til að svara að nýju. Aðrir þingmenn eiga þess kost að skjóta að stuttum athugasemdum (ræðutími er ein mínúta). Almennt halda þingmenn sig við þær spurningar, sem þeir leggja fram skriflega. Stundum gerist það þó, að fyrirspyrjandi fer um víðan völl í ræðu sinni og breytir eða bætir við spurningum. Ráðherrar einbeita sér jafnan að því að svara þeim spurningum, sem hefur verið dreift í þingskjali. Það þykir ekki góð umgengni við þingsköpin að krefjast svara af ráðherra undir þessum lið við spurningum, sem ekki hafa verið kynntar fyrirfram í þingskjali.

Í öðru lagi er lögð fram ósk um að fyrirspurn sé svarað skriflega. Skal ráðherra gera það innan ákveðins frests.

Í þriðja lagi eru óundirbúnar fyrirspurnir. Tími til þeirra er 30 mínútur og er venjan sú, að annað hvorn mánudag klukkan 15.00 sitji ráðherrar fyrir svörum undir þessum dagskrárlið og er alveg undir hælinn lagt hverjir eða hve margir ráðherrar eru krafðir svara. Þingmenn leggja ósk um að spyrja einhvern ráðherranna fyrir forseta þingsins, sem síðan gefur viðkomandi orðið og hann leggur spurningu sína fyrir ráðherrann, án þess að ráðherrann viti fyrirfram um hvað spurningin snýst. Geta fyrirspyrjandi og ráðherra hvor um sig farið þrisvar í ræðustól vegna hverrar spurningar en öðrum þingmönnum er ekki heimilt að blanda sér í orðaskipti þeirra. Til að spyrja og svara hafa menn takmarkaðan tíma.

Merði Árnasyni var svo mikið í mun að ala á tortryggni í garð okkar, sem höfum unnið að þessu verki, að hann gleymdi að kynna sér málið til nokkurrar hlítar, áður en hann óð af stað með fyrirspurnir til forsætisráðherra.

Mörður á þennan flumbrugang í málinu sameiginlegan með DV , sem birti á dögunum tilvísun á forsíðu til stjórnarráðssögunnar með því að segja ranglega, að kostnaður við hana hefði farið 30 milljónir króna fram úr áætlun. Hið rétta er, að verkið er allt á áætlun og innan heimilda á fjárlögum.

Sumarliði R. Ísleifsson, ritstjóri stjórnarráðssögunnar, hefur svarað Merði með grein í Fréttablaðinu hinn 18. febrúar og bent á, að Mörður hafi einfaldlega rangar viðmiðanir, þegar hann ber laun höfunda sögunnar saman við taxta Hagþenkis. Hið sama kemur fram í grein Jóns Yngva Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Hagþenkis, í Fréttablaðinu hinn 18. febrúar.

Sama dag og Sumarliði og Jón Yngvi sýna villu Marðar birtist frásögn af sama máli enn á ný í DV  - á forsíðu stendur efst í hægra horni: „Saga stjórnarráðsins Neitar að upplýsa um launagreiðslur“ og við hlið þessa texta, sem vísar á bls. 11 í blaðinu, er mynd af mér. Þegar ég sá þetta, velti ég því fyrir mér, hverjum ég hefði neitað upplýsa um launagreiðslur. Á bls. 11 í DV sá ég, að forsætisráðuneytið hafði sagt við DV, að það teldi sér óheimilt að upplýsa um greiðslur til einstakra höfunda, ritstjóra og ritnefndarmanna vegna stjórnarráðssögunnar 1964 til 2004. Þarna birtist stór mynd af mér og inn í hana var felldur þessi texti:

„Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra var skipaður formaður ritnefndar verksins Stjórnarráð Íslands 1964-2004 þegar hann gegndi embætti menntamálaráðherra. Forsætisráðuneytið neitar að upplýsa um peningagreiðslur til Björns og annarra meðlima ritnefndar.“

Þetta er skrýtinn texti, þegar til þess er litið, að forsætisráðuneytið hefur skýrt DV frá því, að fyrir störf ritstjórnar frá því á árinu 1999 til ársloka 2002 höfum við þrír í ritstjórninni samtals fengið 930 þúsund krónur í þóknun samkvæmt ákvörðun þóknananefndar. Að því er hlut minn í þessum greiðslum varðar er rétt að geta þess, að samkvæmt ákvörðun kjaradóms fæ ég ekki greidda neina þóknun fyrir setu í þessari ritstjórn frekar en Þingvallanefnd, á meðan ég er ráðherra. Ég lét af embætti menntamálaráðherra 2. mars 2002 og fékk rúmar 200 þúsund krónur greiddar fyrir formennsku í ritstjórninni á því ári. Þóknananefnd hefur ekki ákveðið greiðslur fyrir árið 2003 eða 2004 en samkvæmt reglum á ég rétt á greiðslum til þess tíma, þegar ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra í maí 2003.

Frá mínum bæjardyrum séð hefur DV rekið þetta stjórnarráðssögumál á þeirri forsendu að gera hlut okkar, sem að verkinu höfum staðið sem tortryggilegastan, án þess á hinn bóginn að hafa til þess nokkra aðra ástæðu en eigin hugarburð. Hefði ég að óreyndu ætlað, að ritstjórum blaðsins þætti sómi af meira metnaði en hér birtist.

Ég get skýrt framgöngu Marðar Árnasonar með vísan til pólitískrar óvildar í minn garð og forsætisráðherra – en þar sem allir stjórnendur Baugstíðinda segjast yfir hana hafnir á ég enga skýringu á þessum dylgjum og hálfsannleika í DV um okkur, sem höfum leitast við að gera stjórnarráðssöguna sem best úr garði.

Líkfundur.

Þrír menn hafa nú verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í framhaldi af líkfundinum í Norðfirði. Lögreglan hefur unnið markvisst að því undanfarna daga að upplýsa málið. Lík af karlmanni fannst fyrir tilviljun að morgni miðvikudagsins 11. febrúar, þegar kafari var að kanna aðstæður við netabryggjuna á Neskaupstað. Við krufningu kom í ljós, að hinn látni hafði gleypt eiturlyf að hætti svonefndra burðardýra og látist af þeim völdum. Um líkið var búið á þann veg, að því hafði verið sökkt í höfnina. Sannað þykir, að hinn látni hafi komið hingað frá Litháen,

Inger L. Jónsdóttir, sýslumaður á Eskifirði, stjórnaði rannsókn málsins, þar sem líkið fannst í lögsagnarumdæmi hennar. Hún fékk liðsauka fyrir tilstilli ríkislögreglustjóra auk þess sem tæknideild lögreglunnar í Reykjavík og aðrir sérfræðingar frá henni lögðu sýslumanni og samstarfsmönnum hennar lið. Lögreglumenn víða um land tóku þátt í rannsókn málsins.

Í ræðu, sem ég flutti á fundi sýslumanna á Selfossi í október, reifaði ég hugmyndir mínar um breytingar á skipan lögreglumála í landinu í ljósi þeirrar hættu, sem ég tel helst steðja að íslensku samfélagi. Þar nefndi ég meðal annars alþjóðlega glæpastarfsemi og sagði, að það yrði að skipuleggja lögregluna, þannig að hún gæti tekist á við ný og vandasöm verkefni með vísan til verkefna en ekki landafræði, það er lögregluumdæma.

Ég setti eftir þennan fund af stað vinnu við þessa endurskipulagningu lögreglunnar. Við slit lögregluskólans 11. desember vék ég enn að nauðsyn þess að styrkja lögregluna og nefndi þá sérsveit hennar sérstaklega til sögunnar. Innan dómsmálaráðuneytisins og á vegum lögreglunnar hefur síðan verið unnið að málinu samhliða því, sem ég hef unnið að framgangi þess á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Vegna líkfundarins í Norðfirði hafa orðið töluverðar umræður um samskipti fjölmiðla og lögreglunnar. Þessar umræður koma engum á óvart, sem þekkir til metnaðar fjölmiðla annars vegar og þarfar lögreglunnar hins vegar fyrir að gæta rannsóknarhagsmuna.

Laugardaginn 14. febrúar birti Morgunblaðið þá frétt, að innvortis fíkniefni hefðu líklega orðið hinum látna að bana. Var greinilega mikil samkeppni milli fjölmiðla um fréttir af málinu. Þótti ýmsum fréttamönnum sýslumaðurinn á Eskifirði ekki veita nægilega greið svör, en hún ákvað að senda reglulega frá sér fréttatilkynningar, þar til hún efndi til blaðamannafundar miðvikudaginn 18. febrúar með Arnari Jenssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra, og Herði Jóhannessyni, yfirlögregluþjóni rannsóknardeildar hjá lögreglunni í Reykjavík. Eftir að þrír menn höfðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald laugardaginn 21. febrúar, kom fram í fréttum, að embætti ríkislögreglustjóra myndi annast samskipti við fjölmiðla, enda væri meginþungi rannsóknarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ég lét þau orð falla í viðtali á Bylgjunni síðdegis föstudaginn 20. febrúar, að mér þætti menn hafa gert úlfalda úr mýflugu, þegar sýslumaður á Eskifirði eða aðrir forsvarsmenn lögreglunnar væru gagnrýndir í þessu máli fyrir samskipti sín við fjölmiðla. Hver aðili hefði sinna hagsmuna að gæta og auðvitað héldi lögregla þannig á málum, að almannahagsmunir væru í fyrirrúmi og miðlaði upplýsingum í samræmi við það.  Fjölmiðlamenn starfa á öðrum forsendum og hafa aðrar leiðir en lögregla til að afla sér upplýsinga. Á fjölmiðlamenn eru ekki lögð nein bönd við öflun upplýsinga en lögregla starfar eftir opinberum reglum og henni ber að gæta þeirra við hvert skref, sem hún stígur,

Varnarsamstarf.

Síðdegis laugardaginn 21. febrúar voru þeir Jón Kristinn Snæhólm, Eiríkur Bergmann Einarsson og Atli Gíslason að ræða saman í Silfri Egils. Þeir ræddu meðal annars varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna og hlakkaði í Eiríki Bergmann, en hann er eins og kunnugt helsti talsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu, yfir því, að við Davíð Oddsson sætum eftir með sárt enni vegna framgöngu Bandaríkjastjórnar við samdrátt í Keflavíkurstöðinni. Létu þeir Eiríkur Bergmann og Atli, varaþingmaður vinstri/grænna og gamalgróinn herstöðvaandstæðingur, eins og varnarsamstarfinu væri lokið og fluttu báðir óvildarorð í garð Bandaríkjanna, sérstaklega lá Eiríki Bergmann illt orð til George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þau minntu á það, hvernig vinstrisinnar töluðu um Ronald Reagan á tímum kalda stríðsins, þegar þeir töldu hann hina mestu ógn við heimsfrið, af því að hann vildi ekki sætta sig við kjarnorkuyfirburði Sovétmanna og knúði þá til undanhalds með stjörnustríðsáætluninni.

Allt tal um, að minni umsvif PC-3 Orion kafbátaleitarvéla Bandaríkjamanna hér á landi séu til marks um, að endahnútur hafi verið bundinn á varnarsamstarfið er út í bláinn. Inntak samstarfsins hefur allt frá upphafi þess tekið mið af aðstæðum á hverjum tíma.

Við talsmenn varnarsamstarfsins leggjum áherslu á það eins og jafnan áður, að inntak þess sé skýrt og ótvírætt – hinir sem eru á móti því, að Ísland sé varið eða vilja alls ekki eiga neitt samstarf við Bandaríkjamenn eru nú sem fyrr með öllu ótrúverðugir í þessum umræðum. Það vakir ekki fyrir þeim að tryggja öryggi lands og þjóðar heldur að slá pólitískar keilur.

Um leið og þeir Eiríkur Bergmann og Atli Gíslason gera sem minnst úr varnarsamstarfi okkar við Bandaríkjamenn, skortir þá þrek til að lýsa yfir nauðsyn þess, að við Íslendingar látum sjálfir meira að okkur kveða í þágu eigin öryggis. Enginn þarf að fara í grafgötur um skoðanir mínar í því efni.