30.4.2003

Ársreikningur Reykjavíkurborgar og framganga borgarstjóra

Í dag, miðvikudaginn 30. apríl, var fyrri umræða í borgarstjórn um ársreikning Reykjavíkurborgar. Var hann nú í fyrsta sinn lagður fram samkvæmt nýjum reikningsskilum. Þess vegna er ekki unnt að bera tölur saman á milli ára á sambærilegum grunni. Hlaut það að setja svip á umræðurnar og þess vegna valdi ég þá leið að líta á höfuðdrætti reikningsins og meginstrauma varðandi stöðu Reykjavíkur.

 

Ræða mín er birt í heild á síðu minni www.bjorn.is og ætla ég ekki að endursegja hana hér.  Í fréttatilkynningu sem við í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna sendum frá okkur vegna ársreikningsins eru þessi höfuðatriði áréttuð:

 

 

Enn hærri skuldir !

Mikill taprekstur borgarsjóðs !

Frávik frá áætlunum !

 

Að auki er bent á:

 

Skattar hafa hækkað verulega í Reykjavík !

Dregið hefur úr íbúafjölgun !

Kostnaður við stjórnkerfi borgarinnar

hefur aukist um 54% !

 

Mig undraði mest á fundinum, hvernig Þórólfur Árnason borgarstjóri brást við ræðu minni. Hann taldi mig ekki geta fjallað um málið á hlutlægan hátt vegna þess að ég hefði reiðst yfir því, að í Morgunblaðinu birtist frétt með þeirri fyrirsögn, að rekstrarafkoma Reykjavíkurborgar hefði verið jákvæð um 2,5 milljarði króna og sérstaklega væri ég reiður vegna þessa sem hluthafi í Árvakri hf. Þá hefði ég ekki farið á fund hjá embættismönnum borgarinnar, sem hefðu viljað kynna okkur borgarfulltrúum reikninginn. Gaf hann með öðrum orðum til kynna, að ég vissi ekki um, hvað ég væri að tala. Lét síðan í það skína, að hann væri yfir það hafinn að ræða málefni Reykjavíkurborgar á forsendum stjórnmálamanna ? þeir væru svo ómálefnalegir!

 

Að borgarstjóri tali á þennan hátt og telji í því felast að sinna starfi sínu af farsæld, er til marks um ótrúlegt dómgreindarleysi í anda þess, sem hann sýndi á fyrsta fundi sínum í borgarstjórn, að hann réði því, hverjum hann byði heim til sín! Eða hann gæti ekki rætt um óvönduð vinnubrögð við ráðningu á framkvæmdastjóra miðborgarinnar, af því að ég notaði orðið „silkihúfa“ í ræðu minni um málið.

 

Ef hann hefur umgengist samstarfsfólk sitt sem forstjóri fyrirtækis á þennan veg og kemur svona fram við samstarfsmenn sína í embættismannahópi ráðhússins, er það hans stjórnunarstíll. Þessi stíll á hins vegar alls ekki við, þegar um er að ræða vettvang kjörinna fulltrúa, sem starfa í umboði kjósenda. Þórólfur Árnason hefur ekkert umboð frá kjósendum, enda kepptist Helgi Hjörvar, varaborgarfulltrúi R-listans og staðgengill Ingibjargar Sólrúnar, við að tala um Þórólf sem vanann rekstrarmann með sérstakan skilning á reikningum fyrirtækja.

 

Ég lýsti vanþóknun minni á framgöngu borgarstjóra og hvatti forseta borgarstjórnar, Árna Þór Sigurðsson, til að huga að virðingu kjörinna fulltrúa í borgarstjórn í tilefni af hinum ómaklegu orðum um að borgarfulltrúar kynntu sér ekki málefni eða hefðu ekki þekkingu á málefnum, sem þeir ræddu í borgarstjórn. Í lok fundarins tók forseti undir þá skoðun mína, að framganga á fundinum hefði ekki verið sem skyldi.

 

Í einni af ræðum sínum vegna reikningsins talaði borgarstjóri eins og það væri bæði einfalt og fljótlegt að selja eignir borgarinnar og nefndi hann Félagsíbúðir, Vélamiðstöðina, Malbikunarstöðina og eignarhlut í Landsvirkjun . Ég stóð þá upp og spurði fulltrúa R-listans, hvort borgarstjóri hefði umboð þeirra til að tala á þennan veg, hvort þeir hefðu tekið ákvarðanir, sem veittu borgarstjóra umboð til þess. Svaraði borgarstjóri þá á þann veg, að hann hefði nefnt þetta sem dæmi en ekki til marks um, að þetta ætti að selja. Ég sagðist ekki hafa áhuga á að heyra hann endurtaka þetta, því að ég vildi vita í hvers umboði hann talaði á þennan veg, ég vildi viti, hvað fulltrúar R-listans hefðu um málið að segja. Hver væri talsmaður hans um pólitísk málefni? Var þá uppi fótur og fit meðal borgarfulltrúa R-listans og virtust þeir allir vera að biðja um orðið, en málsvari þeirra Helgi Hjörvar komst í ræðustólinn og flutti ræðu án þess að segja nokkuð bitastætt.

 

Helgi hefur þá aðferð í málflutningi sínum, þegar honum þykir að R-listanum þrengt að segja hann stjórna á sama hátt og gert sé til dæmis í Kópavogi og á Akureyri, þar sem sjálfstæðismenn eru í meirihluta. Er óvenjulegt, að stjórnmálamaður hafi þau rök ein fyrir eigin gerðum, að andstæðingar hans í stjórnmálum séu á sama róli og hann annars staðar. Þetta er ekki mikill metnaður, en samanburðafræðin duga Helga Hjörvar ekki til afsökunar, því að hvergi aukast skuldir hraðar en í Reykjavík og hvergi eru biðlistar lengri.

 

Ef Þórólfur Árnason er eins glöggur fjármálamaður og af er látið, er engin undrun, að hann sé órólegur í umræðum um reikning Reykjavíkurborgar og vilji beina þeim frá aðalatriðum, því að hann hlýtur að hafa miklar áhyggjur af  hinni raunverulegu stöðu í fjármálunum, sem við blasir, en hann keppist við að leyna, væntanlega til að þóknast Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, forvera sínum, og R-listanum.  Honum færi betur að gera það, án þess að veitast að okkur borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins eins og hann hafi eitthvert forræði yfir því, hvernig við högum orðum okkar eða störfum.

 

Í stjórnmálaumræðum í áratugi hefur aldrei verið sótt að mér vegna fyrirsagnar á frétt í Morgunblaðinu með vísan til þess, að ég eigi hlut í Árvakri hf., sem gefur út blaðið. Á að skilja þetta á þann veg, að borgarstjóri telji hluthafa blaðsins ákveða fyrirsagnir þess?  Hvaða álit hefur hann á ritstjórnarlegu sjálfstæði innan Morgunblaðsins? Borgarstjóri virðist telja sig hafa stöðu til að segja okkur borgarfulltrúum fyrir verkum og til að vanda um við okkur, ef við tölum ekki eins og honum líkar. Allt er þetta mikill misskilningur og virðingarleysi við störf og umboð kjörinna fulltrúa eins og ummæli hans um Morgunblaðið eru óvirðing við ritstjórn þess.