8.3.2003

Lögin og borgarstjóri - Borgarnesræðan

 

 

Lögin og borgarstjóri.

 

Morgunblaðið í dag, laugardag, birtir glefsur úr orðaskiptum okkar Þórólfs Árnasonar, hins nýja borgarstjóra í Reykjavík, á fundi borgarstjórnar síðastliðinn fimmtudag. Í blaðamennsku eða stjórnmálastarfi mínu hef ég ekki átt í sambærilegum orðaskiptum við neinn á opinberum vettvangi. Þar ræða menn yfirleitt saman á málefnalegum forsendum en persónugera ekki alla hluti.

 

Undarlegt var, hvernig borgarstjóri brást við, þegar ég ræddi þá staðreynd, að framlagning svonefndrar þriggja ára áætlunar um fjárhag og framkvæmdir Reykjavíkurborgar hefði ekki verið lögð fram og afgreidd innan lögboðins frests.

 

Þegar við sjálfstæðismenn hreyfðum athugasemdum við þetta með bókun á borgarráðsfundi 25. febrúar, upplýsti sá embættismaður, sem fylgdi áætluninni úr hlaði, að undanþága hefði fengist frá félagsmálaráðuneytinu. Daginn eftir, 26. febrúar, sagði Þórólfur Árnason borgarstjóri í hádegisfréttum RÚV, að undanþága hefði fengist frá félagsmálaráðuneytinu.

 

Mér þótti rétt að leita beint eftir staðfestingu frá ráðuneytinu um, að þessi undanþága hefði verið veitt og með vísan til hvaða lagaheimildar. Ritaði ég Páli Péturssyni félagsmálaráðherra bréf og spurði um þetta. Fyrir borgarstjórnarfundinn fékk ég svar frá ráðuneytinu og þar kom fram, að engin heimild væri til undanþágu. Hún hafði sem sé ekki verið veitt ? borgarstjórinn hafði farið með rangt mál í útvarpsfréttunum.

 

Rakti ég þetta í borgarstjórn á fimmtudag og gaf borgarstjóra tækifæri til að leiðrétta orð sín og segja, að honum hefði orðið á í messunni vegna vanþekkingar eða reynsluleysis. Hann lét það ógert. Taldi hann það hins vegar smáatriðaspark, eins og hann orðaði það, og tímasóun fyrir borgarfulltrúa, að ræða, hvort farið væri að lögum við störf þeirra eða hvort hann segði satt og rétt frá því, sem gerðist í samskiptum borgaryfirvalda við félagsmálaráðuneytið.

 

Þriggja ára áætlunin er stefnumarkandi og ekki ólögmæt, þótt lögbundnir frestir um hana séu ekki virtir. Hitt er alvarlegt, ef borgarstjóri telur sér sæma að segja ósatt og jagast síðan í þeim, sem vekja máls á slíkum vinnubrögðum. Án tillits til þess, hvort mál eru stór eða smá, er grundvallatriði í stjórnmálastarfi, að virðing sé borin fyrir lögunum og skýrt sé satt og rétt frá því, hvernig stjórnvöld standa að afgreiðslu mála. Þórólfur Árnason féll á þessu einfalda prófi við framlagningu og í umræðum um þriggja ára áætlunina.

 

 

Borgarnesræðan.

Á öðrum stað hér á vefsíðu minni má sjá grein mína í Morgunblaðinu í dag, þar sem ég fjalla um Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og leiði rök að því, að þar hafi hún gefið veiðileyfi á Davíð Oddsson og hafi það verið nýtt í Fréttablaðinu um síðustu helgi, þegar sagt var frá fundi þeirra Davíðs og Hreins Loftssonar úti í London fyrir rúmu ári. Davíð brást við aðför Fréttablaðsins að sér með því að lýsa frásögn þess staðleysu og upplýsa alþjóð um þá hugmynd forstjóra Baugs að greiða 300 milljónir króna inn á leynireikning í útlöndum til ráðstöfunar fyrir Davíð til að tryggja vináttu hans við Baug.

 

Er ég síður en svo einn um að túlka ræðu Ingibjargar Sólrúnar sem veiðileyfi fyrir Fréttablaðið í nafni Baugs. Páll Vilhjálmsson Samfylkingarmaður hefur gert það á bestan hátt í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag. Tek ég undir með þeim, sem skrifa Vef-Þjóðviljann á www.andriki.is ,  að sérstökum tíðindum sætir, hve spjallþáttamenn ljósvakanna hafa gert lítið með útleggingu Páls. 

 

Ræðumaðurinn sjálfur, Ingibjörg Sólrún, var í umræðuþáttunum Ísland í dag og Kastljósi í gærkvöldi til að skýra mál sitt. Í dag birtist Borgarnesræðan í heild sem tveggja síðna auglýsing Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu.

 

Er greinilegt, að ímyndarsmiðum Ingibjargar Sólrúnar hefur þótt halla á skjólstæðing sinn í umræðum vikunnar, úr því að þeir ákveða slíka útrás. Er óvenjulegt, að Kastljós á föstudagskvöldi sé helgað einum manni vegna máls af þessum toga og meira að segja Gunnar Smári, ritstjóri Fréttablaðsins, varð að vikja úr sínu vikulega álitsgjafasæti á Stöð 2 þetta föstudagskvöld, þótt hann hafi áreiðanlega átt ýmissa harma að hefna eftir átök vikunnar. Ingibjörg Sólrún á föstudagskvöldi hefur ímyndarsmiðunum þótt afbragð vegna vikulegra helgarkannana Fréttablaðsins á viðhorfi almennings til stjórnmálaflokkanna.

 

Í báðum þáttunum var Ingibjörg Sólrún í vörn. Tilgangur ræðu hennar er alveg skýr, að beina neikvæðu ljósi á Davíð Oddsson meðal annars með því að saka hann um óeðlileg afskipti af viðskiptalífinu og gera á hlut Baugs, Jóns Ólafssonar og Kaupþings, um leið lætur Ingibjörg Sólrún í veðri vaka, að þeir, sem njóta, að hennar mati velvildar Davíðs, eins og Íslensk erfðagreining, eigi ekki síður undir högg að sækja.

 

Hvert var helsta haldreipi Ingibjargar Sólrúnar í þessum umræðuþáttum? Jú, að hún væri ekki að lýsa eigin skoðunum heldur Agnesar Bragadóttur blaðamanns, sem birst hefðu í löngum Morgunblaðsgreinum, - úttekt Agnesar á viðskiptalífinu við nýjar aðstæður. Áður hafði Ingibjörg Sólrún sagt, að í Borgarnesi hafi hún verið að endurspegla skoðanir Björgólfs Thors Björgólfssonar, en eftir að hann hafnaði þessum skýringum Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðssamtali við Pétur Blöndal, sem birtist 16. febrúar, grípur Ingibjörg Sólrún til þess nú, að skýla sér á bakvið Agnesi. ? Þorsteinn Gylfason, prófessor og málsvari Ingibjargar Sólrúnar (?), gerir þetta einnig í illskiljanlegri Morgunblaðsgrein í dag.

 

Að grein prófessorsins skuli vera illskiljanleg er ekki einkennilegt, því að nota Agnesi sem haldreipi á svellinu, sem Ingibjörg Sólrún fór út á með ræðunni í Borgarnesi, er í besta falli langsótt. Greinar Agnesar lýstu baráttu í heimi viðskiptanna, eftir að stjórnmálamenn hættu þar virkri þátttöku í krafti opinberra eignarheimilda. Hefur Ingibjörg Sólrún verið talsmaður einkavæðingar? Er hennar ferill í stjórnmálum til marks um, að hún hafi viljað auka svigrúm einstaklingsins á kostnað hins opinbera?

 

Ég tek undir með þeim, sem telja tímabært, að Ingibjörg Sólrún sé spurð um stjórnmálaskoðanir. Borgarnesræðan er flótti frá umræðum um stjórnmál, álitamálin, sem nauðsynlegt er, að stjórnmálamenn svari ? það er ekkert svar, að segjast vilja breyta átakastjórnmálum í samráðsstjórnmál. Slíkir frasar breyta engu til eða frá. Hver skyldi til dæmis vera afstaða Ingibjargar Sólrúnar til varnarsamstarfsins við Bandaríkin? Er hún enn sami herstöðvaandstæðingurinn og áður?