9.6.2002

Falun Gong útlægt – umræður í andaslitrunum?

Undrun vekur, hve víðtækar öryggisráðstafanir þarf að gera vegna komu Jiangs Zemins, forseta Kína, til landsins, þegar ákvörðun er tekin um að loka landamærunum fyrir hópi fólks, sem leggur stund á Falun Gong eða Falun Dafa, eins og æ fleiri kalla þær andlegu og líkamlegu æfingar, sem helst eru taldar ógna veldi kínverska kommúnistaflokksins um þessar mundir. Er harkalegt, að gera iðkendur Falun Gong útlæga frá Íslandi, á meðan kínverski valdsmaðurinn er hér á landi með miklu fylgdarliði sínu.Jiang var flokksritari í Shanghai vorið 1989, þegar kínverskir kommúnistaleiðtogar ákváðu að beita hervaldi gegn mótmælendum á Torgi hins himneska friðar. Hann þótti hlutlaus á milli hinna stríðandi fylkinga innan flokksins, þeirra, sem stóðu með Deng Xiaoping flokksleiðtoga að því að þróa sósíalisma með kínverskum sérkennum, og hinna, sem stóðu vörð um marxískar kennisetningar en þar var Li Peng forsætisráðherra fremstur í flokki, en hann kom hingað til lands fyrir nokkru sem forseti kínverska þingsins, en því embætti hefur hann gegnt síðan 1998. Li Peng lýsti herlögum í Kína í maí 1989 og í skjóli þeirra var ráðist á fólkið á Torgi hins himneska friðar. Deng gerði Jiang að aðalritara kínverska kommúnistaflokksins í júní 1989. Hann varð formaður miðnefndar hersins 1990 og forseti Kína 1993. Undir stjórn Jiangs hefur flokkurinn haldið fram stefnu Dengs um frjálsræði í efnahagsmálum, samvinnu við erlenda fjárfesta og alþjóðaviðskiptum.Jiang hefur ekki haft sambærileg áhrif á mótun kínversks samfélags og þeir Maó og Deng. Hann hefur reynst sá fulltrúi málamiðlunar, sem Deng vænti. Flokksveldið er hins vegar sífellt að fá á sig meiri spillingarsvip. Í skjóli einræðisvaldanna gera forkólfar flokksins engan greinarmun á eigin hagsmunum og hagsmunum þjóðarinnar eða ríkisins.Félagafrelsi er óþekkt hugtak í Kína, þar er annars vegar um ríkið og kommúnistaflokkinn að ræða og hins vegar um einstaklinga. Einstaklingar mega ekki stofna veiðifélög, golfklúbba eða AA-samtök án þess að hafa til þess heimild frá ríkinu hvað þá heldur gefa út blað. Fimm trúfélög njóta viðurkenningar í Kína, það er búddisma, taóisma, íslam, kaþólsku kirkjunnar og kristinna mótmælenda, en stjórn þeirra er háttað á þann veg, að kínverska ríkið hefur skipulagt „þjóðlegar” deildir innan þessara trúfélaga til að koma fram fyrir þeirra hönd.Falun Gong kom til sögunnar í Kína fyrir um það bil áratug. Þar sem hreyfingin varð til í kringum fimm líkams- og öndunaræfingar, var ekki litið á hana sem félag heldur talið, að iðkendur æfinganna væru í hópi þeirra tug eða hundruð milljóna Kínverja, sem leggja rækt við slíkar æfingar í görðum og á torgum dag hvern. Li Hongzhi er andlegur leiðtogi þeirra, sem stunda Falun Gong. Margt af því, sem hann segir, þykir furðulegt eins og að geimverur hafi tekið sér bólfestu á jörðinni eða fólk fá ólíka búsetu á himnum eftir kynþætti sínum. Kjarninn í boðskapnum, sem tengist Falun Gong felst þó því að segja satt og sýna heiðarleika og góðvild í garð meðbræðra sinna.Á skömmum tíma fjölgaði iðkendum Falun Gong í Kína og telja sumir, að þeir skipti tugum milljóna, Það var ekki fyrr en árið 1998, sem athygli ríkisvaldsins og flokksins beindist að þessum hópi fólks, þegar það svaraði gagnrýni marxískra hugmyndafræðinga með því að mótmæla við skrifstofur héraðsblaða eða sjónvarpsstöðva. Fólkið stóð eða sat við æfingar sínar á opinberum stöðum til að láta í ljós vanþóknun sína og 25. apríl 1999 settist 10.000 manna hópur, að stærstum hluta miðaldra fólk, í mótmælaskyni við múra Zhongnanhai, hverfis valdastéttar ríkis og flokks í Peking. Teningunum var kastað og fyrir lok ársins hafði Falun Gong verið lýst útlægt, afturvirkt, sem er einsdæmi. Síðan hefur markvisst verið unnið að því að uppræta hreyfinguna í Kína og eru ófagrar lýsingar á því, hvernig farið er með iðkendurna, sem er auðvelt að finna, því að þeir segja satt og rétt frá högum sínum, þegar lögreglan tekur þá fasta. Joe Studwell segir grimmdina í garð iðkenda Falun Gong sýna, að í Kína sé enn minna umburðarlyndi stjórnvalda gagnvart gagnrýnum sjónarmiðum en fram hafi komið í nokkru öðru Asíulandi eins og Japan, Suður-Kóreu eða jafnvel Indónesíu, þegar þjóðfélögin þróast frá einu stigi til annars.Stríð kínverskra valdamanna við félaga í Falun Gong er ekki háð innan landamæra Kína heldur teygir sig um alla veröldina eins og við Íslendingar fáum að reyna núna. Á milli Kína og Íslands er himinn og haf, þegar litið er til virðingar fyrir einstaklingnum og réttindum hans.

Vissulega er nauðsynlegt hér eins og annars staðar að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi opinberra, erlendra gesta. Í þeim efnum verður hins vegar að gæta þess meðalhófs, sem á við í öllum samskiptum manna.Eins og ég sagði frá í síðasta pistli var stofnað félag chi kung eða qigong iðkenda hér á landi hinn 1. júní s.l., en í fréttum af Falun Gong hreyfingunni er þess gjarnan getið, að æfingarnar, sem þar eru stundaðar, eigi rætur í qigong-æfingunum. Þetta er í raun hið eina, sem tengir Falun Gong við qigong, því að ekki er þar um nein hugmyndafræðileg tengsl að ræða. Ég sé í blaðagreinum, að rætt er um qigong, sem kínverska bardagalist, sem er misskilningur, því að qigong snýr að ræktun einstaklingsins fyrir hann sjálfan en ekki til bardaga við aðra. Hitt má til sanns vegar færa, að það tryggir góðan árangur í kínverskri bardagalist að tileinka sér þá lífsorkustjórn, sem qigong tryggir.Umræður í andaslitrunum?Eins og svo oft áður kvikna alls kyns umræður í kjölfar kosninga. Helst er það á síðum Morgunblaðsins, sem ólík sjónarmið birtast, því að í öðrum fjölmiðlum eru það svo að segja fastir liðir eins og venjulega að fylgjast með viðhorfum þeirra, sem þar láta í ljós skoðanir sínar.Tveir gamlir sósíalistar, sem báðir voru á sínum tíma við nám og störf í leppríkjum Sovétríkjanna, á meðan kommúnistar fóru þar með völd, þeir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur og Ingimar Jónsson íþróttafræðingur rituðu greinar í Morgunblaðið í vikunni, Árni til að fagna því, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi hafa gengið klofinn til borgarstjórnarkosninganna, Ingimar til að fjargviðrast yfir því, að forystumenn í íþróttahreyfingunni skyldu lýsa yfir stuðningi við mig í auglýsingu í Morgunblaðinu fyrir kosningar. Hvorug greinin kemur þeim á óvart, sem veit um áratugalanga andstöðu þessara manna við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa ávallt skrifað um Sjálfstæðisflokkinn í þeim tilgangi að koma höggi á flokkinn og þá, sem hann styðja. Komu þeir báðir við íslenska stjórnmálasögu á þeim tíma, þegar kommúnistar og sósíalistar lifðu enn í þeirri von, að sigra í hugmyndafræðilegri keppni við okkur, sem höfum alltaf aðhyllst lýðræði og viljað búa í opnu og frjálsu þjóðfélagi.Tveimur dögum eftir að þeir félagar Árni og Ingimar birtu greinar sínar í Morgunblaðinu mátti lesa þar grein eftir enn einn yfirlýstan vinstri manninn, Óskar Guðmundsson, sem kvartaði undan því, að lýðræðisleg umræða væri hér á undanhaldi og jafnvel í andaslitrunum vegna skorts á deilum um hugmyndafræði og lífsskoðanir í fjölmiðlum og rakti það meðal annars til þess að hægrimenn ættu „frjálsu” miðlana og Ríkisútvarpið lyti að ýmsu leyti forræði þeirra en þó væri þetta ekki síður því að kenna, að í umræðuþáttum væri sama fólkið í tísku, greinar væru styttri en áður, biðu lengi birtingar í Morgunblaðinu, DV setti greinarhöfundum þröngar skorður og Fréttablaðið leyfði helst ekki eitt einasta orð frá lesendum sínum. Óskar vék að Netinu og taldi, að þar færi fram „pikk í tómið” og fullorðnir tækju ekki þátt í skoðanaskiptum á þann veg.Morgunblaðið fjallar um grein Óskars í forystugrein laugardaginn 8. júní og telur þátttakendur í opinberum umræðum, til dæmis á síðum blaðsins, mun fleiri en fyrir 20 árum og segir: „Þetta er stórkostleg breyting til batnaðar og óhætt að fullyrða, að í fáum löndum er lýðræðisleg umræða jafnmikil, með þátttöku alþýðu manna og einmitt hér á landi.” Forystugreininni lýkur á þessum orðum: „Þegar á heildina er litið fer því fjarri að þjóðfélagsumræður á Íslandi séu í andaslitrunum. Þvert á móti má fullyrða, að þær hafi aldrei verið blómlegri en nú ekki síst vegna þess hve hlutur almennra borgara er í þeim umræðum.”Taka má undir með blaðinu, að margir láta hér að sér kveða í opinberum umræðum. Á hinn bóginn er það rétt, sem Óskar segir, að stjórnmálaumræður eru með allt öðrum blæ núna en þær voru, þegar skipst var á andstæðum sjónarmiðum í blöðunum og þau tókust á sín á milli í forystugreinum.Nú er sjaldgæft, að fjölmiðlar deili innbyrðis um annað en upplagstölur, lestur og áhorf. Þá er grunnt á þeirri skoðun hjá ýmsum, að til dæmis stjórnmálamenn megi ekki svara fyrir sig eða setja fram skoðanir sínar nema innan einhverra marka pólitískrar rétthugsunar, sem eru óskilgreind. Krafa um þessa hugsun, til dæmis innan skólakerfisins, getur auðveldlega leitt menn í ógöngur, eins og nýlega hefur komið fram í fréttum.Rabb eftir Baldur Þórhallsson, lektor við Háskóla Íslands, birtist í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 8. júní undir fyrirsögninni: Pólitísk siðferði í kjölfar kosninga. Þar ræðir hann þrjá þætti, eftirlit stjórnmálaflokka með kjósendum á kjörstöðum; leynd yfir fjárframlögum til stjórnmálaflokka og árásir einstakra stjórnmálamanna og fylgisveina þeirra á fjölmiðlafólk og fræðimenn.Hér skal farið nokkrum orðum um þriðja þáttinn. Baldur segir skammirnar í garð nafngreindra fjölmiðlamanna og fræðimanna „hreint með eindæmum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hér um ekkert annað að ræða en árásir á fólk sem er að reyna að sinna störfum sínum eftir bestu getu.” Baldur nefnir engin dæmi máli sínu til stuðnings, en með vísan til umræðna að kosningum loknum má álykta, að hann noti orðin „skammir” og „árásir”, þar sem orðið „gagnrýni” er nær lagi, ef fjallað er um málið af sanngirni.Þegar litið er til greinar Óskars Guðmundssonar, má spyrja, hvort ekki sé frekar ástæða að líta þess, hvernig umræðuhefð hefur þróast, en hins, hvar unnt er að segja skoðun sína. Hvers vegna mega stjórnmálamenn og svonefndir fylgisveinar þeirra ekki gagnrýna störf fjölmiðlamanna og fræðimanna, án þess að þeir séu að „sverta nafn þessa fólks og reyna að koma í veg fyrir að það sé trúverðugt í störfum sínum”? Um hverja mega stjórnmálamenn ræða og hvernig? Gildir öðru máli um það, sem þeir segja að kosningum loknum en endranær? Hvað um gagnrýni stjórnmálamanna á Félagsvísindastofnun vegna könnunar á viðhorfum almennings til Evrópusambandsins? Eða gagnrýni stjórnmálamanna á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vegna skýrslu um kostnað við aðild Íslands að Evrópusambandinu? Er þar um „skammir” eða „árásir” að ræða í þeim tilgangi að „sverta nafn þessa fólks og reyna að koma í veg fyrir að það sé trúverðugt í störfum sínum”?Í lok Rabbsins segir Baldur: „Pólitísku siðferði er klárlega ábótavant í íslenskum stjórnmálum. Við eigum því miður langt í land að ná þeim pólitíska þroska sem nágrannalönd okkar hafa náð.” Hver er mælikvarðinn á „pólitískan þroska”, sem hér er notaður? Að í nágrannalöndunum gagnrýni stjórnmálamenn aldrei fjölmiðlamenn og fræðimenn? Að allar tölur um fjármál stjórnmálaflokka í öðrum löndum séu aðgengilegar öllum? Að stjórnmálaflokkar í öðrum löndum neyti ekki löglegra leiða til að hvetja stuðningsmenn sína til að fara á kjörstað og kjósa sig?