24.12.2015

Leggjum rækt við anda jólanna

Þegar ég var dómsmálaráðherra fyrir einum áratug eða svo bentu þeir sem gæta öryggis okkar mér oft á að eftir 10 ár eða svo mætti vænta þess hér sem setti svip sinn á viðfangsefni lögreglu á þeim tíma erlendis. Ég hef ekki rannsakað sannleiksgildi þessara orða á vísindalegan hátt en víst er að á þeim 10 árum sem liðin eru frá 2005 hefur íslenskt samfélag breyst mikið og í mörgu tilliti tekið á sig nýjan svip. Við erum mun fljótari að tileinka okkur það sem hæst ber erlendis en áður.

Tilefni þess að minnst er á erlenda strauma á aðfangadag jóla eru fréttir frá Evrópu og Norður-Ameríku um að barist sé gegn því að tilefni jólanna, fæðing Jesú Krists, sé í hávegum haft. Jólamarkaðir blómstra en þar er raunar lítið að sjá sem minnir á Krist og fæðingu hans.

Í Wall Street Journal birtist í dag grein eftir Daniel Henninger undir fyrirsögninni: The Year Christmas Died – í ensku heiti jólanna Christmas er vísað til beint til Krists. Greinin hefst á þessum orðum:

„Þegar við þokuðumst inn í desember og nálguðumst þann tíma sem um nokkurt skeið hefur verið kallað „the holiday season“ , „frítíminn“, birti Office of Diversity and Inclusion – Skrifstofa fjölbreytileika og innlimunar – við Tennessee-háskóla leiðbeiningar um „bestu aðferðir“ í háskólahverfinu til að „ensure your holiday party is not a Christmas party in disguise.““

Leiðbeiningarnar áttu með öðrum orðum að tryggja að fólki yrði ekki boðið til að fagna fæðingu frelsarans án þess að það gerði sér grein fyrir því. Henninger segir að þingmenn ríkisins hafi beitt sér fyrir afturköllun leiðbeininganna. Aftökumenn jólanna hafi hins vegar þegar sigrað. „This is the year Christmas died as a public event in the United States,“ segir í greininni: „Í ár dóu jólin sem opinber viðburður í Bandaríkjunum.“

Henninger rökstyður þessa skoðun sína með því að leiða lesandann með sér um Fifth Avenue í New York, breiðgötuna sem hafi verið ævintýraheimur fyrir börn með dýrðlegu jólaskrauti en sé nú ef eitthvað frekar andstæða við jólin. Enginn geti til dæmis vænst þess að sjá skreytingar með barninu í jötunni á opinberum vettvangi – þær hafi verið bannaðar fyrir mörgum árum, jólasveinar og álfar sjáist ekki einu sinni lengur.

Hann sér fyrir sér að þróunin verði á þann veg í Bandaríkjunum að jóladagur, 25. desember, verði einhvers konar nýr þakkargjörðardagur en þátttaka í honum minni en í hinum upprunalega þakkargjörðardegi í lok nóvember.

Í The New York Times er í dag sagt frá kosningafundi sem Jeb Bush, þátttakandi í prófkjöri repúblíkana, hélt í New Hampshire mánudaginn 21. desember. Þar reis kona á fætur og þakkaði honum fyrir að óska fundarmönnum Merry Christmas – hann hefði ekki gert það væri hann „róttækur múslimi“. Bush er kaþólskur, hann þakkaði konunni og sagði: „Ég tel allt í lagi að segja Merry Christmas. Við höfum látið pólitíska rétthugsun hafa náð dálítið of miklum tökum á okkur hér í landi.“

Í Frakklandi ræða menn stöðugt skilin milli ríkis og kirkju og í aðdraganda jólanna verða jafnan miklar umræður um hvort sýna megi Jesú-barnið í jötunni í ráðhúsum einstakra bæjarfélaga. Ræðst afstaðan til þess ekki síst af pólitískri afstöðu bæjarstjóranna. Hægrimenn vilja gæta réttar jötunnar en vinstrimenn telja að hana eigi að banna.

Hér á landi snúast umræður um þennan þátt samfélagsins einkum um það fyrir jólin hvert sé hlutverk skóla við að kynna nemendum hinn kristna þátt sem ekki verður skilinn frá sögu og menningu þjóðarinnar. Öfgarnar gegn kristninni eru ekki síður miklar hér á landi en víða annars staðar.

Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur ritaði grein í Morgunblaðið 21. desember undir fyrirsögninni: Óþol í Langholtsskóla.

Skólastjóri Langholtsskóla tilkynnti foreldrum bréfleiðis fyrr í vetur að þjóðkirkjan yrði ekki heimsótt fyrir jólin enda gætu ekki allir nemendur tekið þátt í kirkjuferðum. Píratar sendu frá sér yfirlýsingu gegn kirkjuheimsóknum skólanema enda hefðu skólastjórnendur „ekki rétt til að setja börn og fjölskyldur þeirra í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum“.Bjarni Randver segir: „Ef fella ætti allt út úr grunnskólum sem ekki er að skapi einhverra barna eða foreldra þyrfti heldur betur að grisja margt þar.“ Hann bætir við:

Athygli vekur að í stað hlutlægrar vettvangsferðar létu stjórnendur Langholtsskóla börnin syngja í lok friðargöngu eitt þekktasta dægurlag síðari ára til höfuðs trúarbrögðum, lagið Imagine eftir John Lennon í þýðingu Þórarins Eldjárns. Í enska frumtextanum er andtrúarbragðaboðunin þessi í allri sinni einfeldningslegu svart-hvítu mynd: „Imagine there‘s no heaven, It‘s easy if you try, No hell below us, Above us only sky [] And no religion too.“ Þórarinn mildar þetta lítillega en sama andtrúarbragðaboðunin er þó enn til staðar: „Að hugsa himnaríki og helvíti ekki til, aðeins jörð og himinn, það er auðvelt ef ég vil. [...] Hugsaðu þér hvergi [...] deilt um trúarbrögð.“ Hafa ber í huga að þarna er um að ræða trúarleg tákn sem afgreidd eru út af borðinu í eitt skipti fyrir öll án þess að tekið sé tillit til víðfeðms merkingarsviðs þeirra innan fjölda trúarbragða.[…]

Ef faglega er staðið að vettvangsferðum í þjóðkirkjuna og önnur trúfélög fer því ennfremur fjarri sem segir í yfirlýsingu Pírata að fjölskyldur og börn séu sett „í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum“ af skólastjórnendum. Þess í stað ber að hafa það í huga sem segir í reglum Reykjavíkurborgar um samskipti grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarfélög: „Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.“ Þarna brást Langholtsskóli.“

 

Í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum gripu stjórnmálamenn til sinna ráða þegar gengið var of hart gegn jólunum í ríkisháskólanum. Í Reykjavík er Pírati í lykilstöðu í borgarstjórn og hann stóð með skólastjórnendum Langholtsskóla þegar þeir fóru á svig við reglur Reykjavíkurborgar. Píratinn er þó formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs sem ætti að gæta þess að farið sé að þessum reglum.

Vegir Guðs eru órannsakanlegir. Jólaandinn skiptir meira máli en hin ytri umgjörð. Kirkjunni ber að leggja rækt við hann. Heilagur andi hefur ekki sagt sitt síðasta orð!

Gleðileg jól!