15.3.2015

Þáttaskil í ESB-málinu - umsókn í andaslitrum - samþykki þjóðarinnar við nýju skrefi

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf.

Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir:

„The Government of Iceland has no intentions to resume accession talks. Furthermore, any commitments made by the previous Government in the accession talks are superseded by the present policy. In light of the above it remains the firm position of the Government that Iceland should not be regarded as a candidate country for EU membership and considers it appropriate that the EU adjust its working procedures accordingly.“


Utanríkisráðuneytið íslenskar þennan texta svona:

„Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður. Í ljósi framangreinds er það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur hún svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu.“ (Skáletur Bj. Bj.)

Á ensku fer ekkert á milli mála. Þarna er lýst yfir því á afdráttarlausan hátt að ríkisstjórnin sé óbundin af öllum skuldbindingum sem rekja má til aðildarviðræðna undir stjórn fyrri ríkisstjórnar.  Skáletraða íslenska textann má skilja á þann hátt að ríkisstjórnin „yfirtaki“ eitthvað frá vinstristjórninni. Hér er annaðhvort um klaufagang við þýðingu á enska textanum að ræða vísvitandi tilraun til að láta eins og núverandi ríkisstjórn sé bundin af pólitískum athöfnum í nafni síðustu ríkisstjórnar. Í stað „yfirtaka“ væri réttara að segja „leysir af hólmi“ eða „kemur í stað fyrir“ þegar íslenskað er enska orðið superseded.

Gunnar Bragi Sveinsson ræddi um bréfið við fréttamenn Stöðvar 2 og ríkisútvarpsins laugardaginn 14. mars, síðan voru fréttir af viðtölunum birtar á vefsíðum stöðvanna.

Heimir Már Pétursson, fyrrv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, ræddi við Gunnar Braga á Stöð 2 og dró hann greinilega taum ESB-aðildarsinna því að hann vitnaði til dæmis til orða Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, formanns þingflokks sjálfstæðismanna og talsmanns minnihluta sjálfstæðismanna í ESB-málinu um að þingsályktunartillaga um umsókn að ESB væri enn í gildi þótt prófessorar í stjórnskipunarrétti hefðu skýrt gildi þeirrar tillögu á þann veg að núverandi ríkisstjórn væri ekki bundin af henni.

Þá vitnaði Heimir Már einnig í Jón Sigurðsson, fyrrv. formann Framsóknarflokksins og talsmann ESB-minnihluta innan þess flokks, sem hefði gert alvarlega athugasemd við að utanríkisráðherra hefði ekki kynnt utanríkismálanefnd alþingis bréf sitt til ESB-manna áður en það var sent. Heimir Már lét þess ógetið að prófessor í stjórnskipunarrétti teldi að skylda til þess hvíldi ekki á ráðherranum.

Þessi litaða umgjörð samtalsins við utanríkisráðherra á Stöð 2 mótast af afstöðu Heimis Más til ESB-málsins. Í ágúst 2013 ritaði Heimir Már grein í Fréttablaðið þar sem hann greip til varnar fyrir starfsmenn ríkisútvarpsins sem hann taldi sæta ómaklegri gagnrýni. Heimir Már sagði meðal annars um gagnrýnendurna:


„Þessi hópur fólks þolir ekki lýðræðislega og opna umræðu. Er bein línis í nöp við hana. Hann vill stýra umræðunni og ráða því alfarið hvað sagt er í fjölmiðlum og hvað má alls ekki undir nokkrum kringumstæðum segja þar. Fólk sem hugsar með þessum hætti er til óþurftar í lýðræðislegu samfélagi og er því raunar einstaklega hættulegt. Um það vitnar mannkynssagan.“


Efnistökin í viðtalinu við Gunnar Braga vekja spurningu um hvort Heimir Már telji sig yfir þá gagnrýni hafinn að hann vilji „stýra umræðunni“.

Á Stöð 2 vék Gunnar Bragi Sveinsson að kvörtunarbréfi sem forystumenn stjórnarandstöðunnar skrifuðu Martin Schulz, forseta þings Evrópusambandsins, föstudaginn 13. mars til að gera lítið úr lögmæti bréfs Gunnars Braga til formanns ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB. Fór Gunnar Bragi hörðum orðum um þetta bréf og sagði:


„Ég hef heyrt orðið „valdarán“ nefnt einhversstaðar og ef þetta er ekki valdarán að minnihluti þingsins skuli senda Evrópusambandinu bréf og við skulum orða það; rangtúlka eða gera lítið úr þeim heimildum hreinlega sem lýðræðislega kjörinn meirihluti hefur, - það er að mínu viti mjög undarlegt. Og þær fullyrðingar sem vísað er í í þessu bréfi m.a. lagalegar, þær byggja á einhverjum mjög veikum lagalegum grunni sem ég held að engir af okkar bestu lögmönnum munu skrifa upp á.“


Hér skal dregið í efa að Martin Schulz líti þannig á að stjórnarandstaðan á Íslandi hafi rænt völdum þótt formenn flokka hennar hafi sent honum þetta bréf, þeir hafi bara orðið að kvarta til „stóru mömmu“ vegna illsku ríkisstjórnarinnar.

Spennandi verður að sjá hvað Schulz gerir við bréfið. Talsmaður viðræðustjóra stækkunarmála hefur bent á að öll erindi af þessu tagi eigi að fara til ráðherraráðs ESB, enda sendi Gunnar Bragi bréf sitt þangað, sem síðan leiti umsagnar framkvæmdastjórnarinnar. Talsmaðurinn minntist ekki einu orði á ESB-þingið enda á það aðeins óbeinan hlut að þessu máli. Var Schulz ritað af því að hann er sósíalisti? Af því að ESB-þingflokkur sósíalista benti Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, á að hann gæti grátið við öxl þingforsetans og kannski fengið huggun?

Í bréfinu leitast flokksformennirnir að færa fyrir því rök að núverandi ríkisstjórn sé bundin af ályktun sem beint var til ríkisstjórnarinnar sem sat í júlí 2009 þótt þeir hljóti að vita að þessi túlkun þeirra stenst ekki að íslenskum stjórnlögum. Í lok bréfsins segir:


„Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ólíka afstöðu til aðildar að ESB. Allir flokkarnir fjórir eru þó sammála um að umrætt bréf geti ekki breytt stöðu Íslands gagnvart ESB í samræmi við gamalgróin grundvallarsjónarmið að baki evrópskri lagaskipan þar sem virtur er forgangur formlegra þingsályktana gagnvart yfirlýsingum ríkisstjórna og að aðeins Alþingi eitt geti ákveðið að breyta stöðunni.“


Taki Schulz undir þessa skoðun stjórnarandstöðunnar á Íslandi og verði um málið umræða á ESB-þinginu er ekki að efa að þar muni margir þingmenn spyrja hvers vegna ESB-þingforsetinn berjist ekki fyrir stöðu eigin þings gagnvart framkvæmdastjórninni sem ein hefur rétt til að leggja frumvörp fyrir ESB-þingið og getur farið sínu fram við framkvæmd mála og  útgáfu yfirlýsinga án afskipta ESB-þingsins þar sem menn grípa oft til sama ráðs og stjórnarandstaðan hér að taka mál í gíslingu til að knýja fram lausn í einhverju allt örðu máli.

Þetta hefur leitt til hins sama innan ESB og hér á landi. Ómálefnaleg framganga þingmanna og tilraunir til að drepa mál með vísan til tæknilegra ákvæða í þingsköpum verður til þess að framkvæmdastjórnarmenn reyna að komast hjá að leggja mál fyrir ESB-þingið sjái þeir hjáleið fram hjá því. Hið sama gerði Gunnar Bragi Sveinsson eftir reynsluna af framgöngu stjórnarandstöðunnar fyrir ári.

Þá er ekki ólíklegt að hótanir Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. umsóknarráðherra, og Róberts Marshalls, þingflokksformanns Bjartrar framtíðar, um að rigna mundi „eldi og brennsteini“ yfir alþingi færi utanríkisráðherra með málið þangað hafi haft áhrif á ráðherrann. – Eigi stjórnmálamenn um tvo lögmæta kosti að velja er aðeins mannlegt að kjósa þann sem er átakaminni en skilar sambærilegri niðurstöðu.

Í samtali við ríkisútvarpið sagði Gunnar Bragi Sveinsson:


Menn geta alveg velt því fyrir sér hvort það eigi að nota orð eins og slíta eða draga til baka eða hætta eða guð má vita hvað menn mönnum dettur í hug. En ferlinu er lokið af okkar hálfu og það er það sem við erum að leggja áherslu á. Ég held engu opnu, við erum ekkert lengur að stefna að inngöngu í Evrópusambandið, þeim kafla er bara lokið.

Ég get ekki séð að það sé nokkur vilji hjá þinginu að greiða atkvæði um slíka tillögu eða yfirleitt nokkuð hvað varðar Evrópusambandið. Þetta er klárlega leið sem að stjórnvöld geta farið og bara eðlileg í framhaldi af þessari miklu umræðu sem hefur verið um þessa tillögu, þetta ástand varðandi Evrópusambandi og Ísland. […]

Ef menn ætli sér út í þessa vegferð aftur, sem að ég svo sem vona að verði ekki eða alla vegana mjög seint, að þá þurfi menn að byrja upp á nýtt. Það er okkar mat.“


Ríkisútvarpið sneri sér til Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann taldi bréf ríkisstjórnarinnar til ESB „dálítið óljóst“ en lagði þannig út af orðum utanríkisráðherra að hann teldi „formlegu“ ESB-umsóknina hafa verið afturkallaða og þess vegna „má búast við að það fari í gang mikið pólitískt stríð út af því,“ sagði prófessorinn.

Túlkunin á bréfinu skipti, að mati Ólafs Þ. Harðarsonar, afar miklu máli ef ný ríkisstjórn vildi hefja viðræður við ESB. Af henni réðist hvort hefja þyrfti viðræðurnar með nýrri umsókn eða halda áfram hinni gömlu.

Við þessi orð er rétt að staldra á annan veg en gert er af fjölmiðlamönnunum. Túlkunin á þessu bréfi utanríkisráðherra frá 12. mars 2015 ræður að sjálfsögðu engu um hvort sótt verði oftar um aðild að ESB. Þar mun túlkun á hagsmunum Íslands væntanlega ráða og sú umgjörð sem menn setja framhaldi umsóknarviðræðna við ESB – allir flokkar hafa sagt að ekki verið rætt áfram við sambandið nema ákvörðun um það verði fyrst samþykkt af þjóðinni. Það er einkennilegt að þessari mikilvægu staðreynd sé jafnan sleppt í fréttum af ESB-málinu.

Þegar rætt er um það sem gerst hefur í ESB-málum í íslenskum stjórnmálum á þeim sex árum sem liðin eru frá því að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. gerði ESB-umsóknina að heilögu baráttumáli sínu má ekki gleyma þeim straumhvörfum sem felast í viðurkenningu allra flokka á að það hafi verið mistök að standa ekki að umsókninni á annan hátt. Það hefði átt að bera hana undir þjóðina áður en af stað var farið. Sjálfstæðisflokkurinn mótaði þessa stefnu á landsfundi undir lok mars 2009 þegar Bjarni Benediktsson var kjörinn flokksformaður og hefur henni verið fylgt af flokknum síðan og er nú viðurkennd sem nauðsynleg forsenda í nýju umsóknarferli gagnvart ESB.

Evrópusambandið hætti viðræðunum um aðild Íslands efnislega fyrir sitt leyti á árinu 2011 með því að neita að leggja fram rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Á spýtunni hangir að breytt verði umboði viðræðunefndar af hálfu Íslands og henni heimilað að afsala fullum ráðum yfir 200 mílunum auk þess sem ákvarðanir um veiði úr flökkstofnum (makríl, loðnu og síld) verði í höndum framkvæmdastjórnar ESB að höfðu samráði við ráðherraráð ESB.

Loks ber að hafa í huga að eftir að íslenska ríkisstjórnin kynnti afstöðu sína með bréfinu frá 12. mars 2015 hefur hver álitsgjafinn eftir annan lýst þeirri skoðun í evrópskum fjölmiðlum að þessi niðurstaða sé skiljanleg með vísan til krísunnar innan ESB, hins óleysta skuldavanda Grikkja og óvissu um framtíð evrunnar.

Eitt helsta einkenni umræðna um ESB-málið í Stöð 2 og ríkisútvarpinu undanfarin sex ár hefur verið tregðan til að ræða efnisþætti málsins, hvað það er sem Íslendingar yrðu að afsala sér með aðild að ESB. Nú þegar umsóknin frá 2015 er í andaslitrunum er enn forðast að ræða þessa efnisþætti og látið eins og líklegt sé að einhver stjórnmálaflokkur muni taka um ESB-þráðinn þar sem Össur Skarphéðinsson skildi við hann í janúar 2013 af því að hann treysti sér ekki til að opinbera raunveruleg ágreiningsmál milli ESB og Íslands fyrir kosningar í apríl 2013.

Því ber að fagna að þetta mál sé tekið af dagskrá í samskiptum Íslands og ESB. Það ber einnig að taka það af dagskrá íslenskra stjórnmála. Í sex ár hefur ESB-umsókni spillt hinu pólitíska andrúmslofti á alþingi og innan stjórnmálaflokka. Aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og sambandið er og mun þróast í þágu sameiginlegrar myntar verður aldrei samþykkt af íslensku þjóðinni.